Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2016 Desember

03.12.2016 18:06

Sauðir slá í gegn

 

 

 

Sauðir slá í gegn

 

Bókin  Forystufé  eftir Ásgeir í Gottorp selst svo vel að hún er nú uppseld hjá útgefanda.

 

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út og gleðst mjög og segja má að hann sé komin í sparifötin. Von er á nýrri á prentun sem ekki er stór.

Áhugasömum er bent á að tryggja sér eintak í tíma því margt bendir til að bókin verði uppseld fyrir jólin.

Enn er hægt að ná í eintök í Bókakaffinu á Selfossi sem og öllum helstu bókabúðum og allmörgum stórmörkuðum.


Bókaútgáfan Sæmundur. 

 

 Skráð af Menningar-Staður

 

03.12.2016 11:46

Húsið á Eyrarbakka 3. des. 2016

 

.

.

 

 

Húsið á Eyrarbakka opið


laugardaginn 3. des. 2016


 

Safnið verður einnig opið þrjá næstu sunnudaga.

Verið velkomin og aðgangur ókeypis

 

Jólin á Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka hefjast í dag 3. desember með opnun jólasýningar, skáldastund og músastigagerð.

Í Húsinu verður heitt á könnunni allan laugardaginn frá kl. 13.00  og enginn aðgangseyrir.

Rithöfundar verða í stássstofu Hússins kl. 16.00–18.00 og lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið verða það Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Vigdís Grímsdóttir og Þórarinn Eldjárn sem heimsækja okkur.


Jólasýning safnsins í borðstofunni opnar sama dag og á sýningunni þetta árið má sjá  skauta og sleða í eigu safnsins í sambland við jólatré gömul og ný. Skautaiðkun var hluti af vetramenningunni hér áður fyrr þegar næstan hvert einasta barn á Eyrarbakka og nágrenni renndi sér á skautum. Ungir sem gamlir fóru yfir frosin vötn, dælur og skurðir og hægt var skauta æði langt.

 

Þennan sama dag verður Kirkjubær einnig opinn og upplagt tækifæri til að sjá sýninguna sem opnaði þar í sumar. Milli kl. 13.00 og 15.00 geta gestir spreytt sig við músastigagerð í Kirkjubæ. Þetta fallega alþýðuhús verður síðan fyllt með músastigum.

Ávallt er hægt að panta séropnun fyrir hópa á safnið.

En sú nýjung verður þetta árið að aukaopnun verður á jólasýninguna þrjá sunnudaga í desember 4., 11., og 18. kl. 13.00–17.00.

Kirkjubæ verður opinn á sama tíma.

Verið velkomin.Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka.

 Skráð af Menningar-Staður

03.12.2016 08:29

Sigmundur Andrésson - Fæddur 20. ágúst 1922 - Dáinn 16. nóvember 2016 - Minning

 

 

Sigmundur Andrésson.

 

Sigmundur Andrésson

- Fæddur 20. ágúst 1922 - Dáinn 16. nóvember 2016 - Minning

 

Sigmundur Andrésson bakarameistari fæddist á Eyrarbakka 20. ágúst 1922. Sigmundur lést á Dvalarheimilinu Hraunbúðum, Vestmannaeyjum, 16. nóvember 2016.

Foreldrar hans voru Kristrún Ólöf Jónsdóttir, f. 22.5. 1881, d. 22.9. 1934, og Andrés Jónsson, f. 18.10. 1896, d. 21.11. 1978.

Systkin Sigmundar voru Jón Pétur Andrésson, f. 1919, d. 2007, og Þuríður Andrésdóttir, f. 1924, d. 2002. Hálfbræður Sigmundar og samfeðra eru Kristján Óli Andrésson, f. 1935, og Hilmar Hrafn Andrésson, f. 1937.

 

Sigmundur giftist 2.10. 1947 Dóru Hönnu Magnúsdóttur, f. 27.6. 1925, d. 30.6. 2013.

Foreldrar hennar voru Halldóra Valdimarsdóttir, f. 9.7. 1903, d. 11.6. 1942, og Magnús Bergsson, f. 2.10. 1898, d. 9.12. 1961.

Börn Sigmundar og Dóru Hönnu eru:

1) Dóra Bergs, gift Sigmari Magnússyni, börn þeirra eru Hlynur, kvæntur Soukaina Nigrou, börn hans eru Kateryna, Richard Óskar og barn þeirra er Sigdór Zacharie. Dóra Hanna, gift Sighvati Jónssyni, börn þeirra eru Gabríel, Elmar Elí og Embla Dís. Heiðrún Björk, unnusti hennar er Vilberg Eiríksson, börn þeirra eru Aron Ingi og Arnar Gauti. Andrés Bergs.

2) Bergur Magnús, börn hans eru, Magnús, kvæntur Unu Sigríði Gunnarsdóttur, dóttir þeirra er Maren Júlía. Sturla, börn hans eru Sóley María og Kristján Rúnar. Ívar Örn, í sambúð með Amy Ósk Ómarsdóttur, synir hans eru Bergur Andri og Hávarður Arnar og sonur Amy Mikael Örn. Ingibjörg Reynisdóttir, börn hennar eru Kristjana Lind og Ísak Kári.

3) Andrés, börn hans eru Sigmundur, kvæntur Azadeh Andresson, dóttir þeirra er Asal. Sigurjón, kvæntur M. Söru Guðjónsdóttur, dætur þeirra eru Hrafnhildur Svala og Hekla Sif. Agnes Sif, dóttir hennar er Saga Sif. Guðrún Heba, f. 1989, d. 2009, og Ágúst Örn Gíslason.

4) Óskar, kvæntur Oddnýju Huginsdóttur, börn þeirra eru Huginn, Ástrós, og Ósk.

 

Simmi ólst upp í Smiðshúsum á Eyrarbakka, næstelstur af systkinum sínum. Um 10 ára aldur fannst skemmd í mjaðmarlið hans og lá hann í þrjú og hálft ár á Landspítalanum í gifsi frá ökkla upp að brjósti. Meðan Simmi lá á spítalanum lést móðir hans en þegar heim kom eftir sjúkraleguna hafði faðir hans tekið saman við Úlfhildi Sigurbjörgu Hannesdóttur, f. 1897, d. 1982, og gekk hún honum í móðurstað.

Árið 1946 hélt Simmi til Vestmannaeyja til að ljúka námi í bakaraiðn hjá Magnúsi Bergssyni, bakameistara í Magnúsarbakaríi. Þar kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni, dóttur Magnúsar, Dóru Hönnu (Bíbí).

Simmi og Bíbí keyptu Magnúsarbakarí árið 1957 og ráku með miklum myndarbrag til ársins 1979 þegar synir þeirra, Bergur og Andrés, tóku við rekstrinum. Eftir að hann hætti að baka stofnaði hann fornbókaverslun og bókband. Simmi var safnvörður á Byggðasafni Vestmannaeyja frá 1986 til 1992 við góðan orðstír.

Simmi var virkur í ýmiss konar félagsstarfi. Hann var í Akóges og gegndi þar trúnaðarstörfum, var m.a. formaður þrisvar sinnum. Simmi og Bíbí tóku einnig virkan þátt í starfi Oddfellow (IOGT). Simmi var einn af stofnendum Sögufélags Vestmannaeyja og heiðursfélagi í Taflfélaginu. Hann var í stjórn Landssambands bakarameistara og einn af stofnendum Esperantofélagsins í Eyjum.

Simmi og Bíbí voru samrýnd hjón og gift í 66 ár, en Bíbí lést árið 2013.

 

Útför Sigmundar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, laugardaginn 3. desember 2016, kl. 13.

_____________________________________________________________________________________________________


Minningarorð Helga Bernódussonar

 

Sigmundur Andrésson bakari var höfðingi í lund, og höfðinglegur að vallarsýn þegar hann stóð beinn í hægra fótinn. Laglegur maður og svipmikill. Hann eltist vel, hélt viti sínu og lífsgleði fram á hinstu daga. Eyrbekkingur var hann, með listamannsæð, efldi og tók þátt í margvíslegu menningarlífi á ævi sinni.

Ég var í æsku eins og heimilisköttur í Magnúsarbakaríi, Hótel Berg eða Tungu eins og húsið hét, og man enn alla króka og kima þar þótt langt sé um liðið og húsið horfið undir storkið hraun. Yfir því rausnarmikla heimili var góður svipur og Magnús gamli Bergsson, tengdafaðirinn, bakari og útgerðarmaður, var eins og lávarður þessa seturs.

Í þetta hreiður íhaldsins kom svo gauksungi, rúmlega tvítugur sósíalisti. En sambúð þeirra Sigmundar og hins ljúfa Magnúsar, eins af forustumönnum sjálfstæðismanna, var í vinsemd og alla tíð með virðingu á báða bóga, friður í húsi.

Þótt Sigmundur yrði fyrir því lífsóláni í æsku að fá meinsemd í vinstra fót eftir slys, og gengi skakkur upp frá því, lét hann þau örlög aldrei beygja sig, stóð jafnfætis öllum sem hann átti skipti við. Spítalavistin var að sönnu erfið ungum dreng en gaf færi á að næra andann með lestri og listnautn sem mótaði hann alla ævi.

Bakaraneminn frá Eyrarbakka sótti til Magnúsar Bergssonar í Vestmannaeyjum. Bíbí, dóttir Magnúsar, og síðar eiginkona Sigmundar, lýsti eitt sinn fyrir mér stundinni þegar knúið var dyra austan megin í Tungu; hún fór fram, leist ekki sérlega vel á komumann en rétti honum þó höndina. Þá gnast í örlagaþráðum. Hvorugu gat á því augnabliki komið í hug að á stéttinni stæði síðar höfðingi þessa húss, né var þá fyrir sjónum þeirra mynd sem var tekin 60 árum síðar af þeim aldursprýddum og umsetnum afkomendum og tengdabörnum.

Sigmundur Andrésson tók daginn mjög snemma, sýndi einstæðan dugnað í starfi, rak Magnúsarbakarí með góðum afgangi, gætinn og hafði einn manna lykil að peningaskápnum. Um sextugt söðlaði hann um, keypti gamalt hús sem hann nefndi Spörvaskjól og tók að binda inn bækur, selja eldri skræður og hafði bókauppboð. Þar varð brátt athvarf helstu kvista bæjarins. Starfsævi sinni lauk hann á Byggðasafni Vestmannaeyja.

Sigmundur skrifaði mikið, æskuminningar frá Eyrarbakka, króníku um mannlíf í Eyjum og fleira, flest í handritum. Hann ritaði kynstur af bréfum og færði dagbók lengi ævinnar. Þess utan teiknaði hann og málaði. Eins og margir sósíalistar var hann esperantisti, en trúði ekki á anda, svo ég viti, eins og flokksfélagar hans margir.

Sigmundur var félagshneigður og hvarvetna hrókur alls fagnaðar, hafði gleði og gaman af lífsvatninu og tók stundum rispur, en Bíbí fyrirgaf honum þær, kannski ekki daginn eftir en innan fárra dægra, sagði hann sjálfur.

Það er ljúft að minnast samtala við þennan fróða og lífsreynda mann. Og aldrei gleymast toddý-partíin hjá Ingólfi á Oddsstöðum þar sem Sigmundur varð ungur á ný og framdi dans undir írsku hljómfalli. Nú er þessi góði vinur kvaddur sem lífgaði svo marga stund.

Guð veiti honum fagra hvíld.

 

Helgi Bernódusson.

_________________________________________________________


Minningarorð Sigurjóns Andréssonar
 

10. janúar 1946 siglir farþegaskipið Laxfoss sína fyrstu ferð til Vestmannaeyja. Um borð er ungur maður, Sigmundur Andrésson frá Smiðshúsum á Eyrarbakka. Þetta er fallegur dagur, blankalogn og Eyjarnar standa í vatni. Það er smá snjóföl yfir bænum er skipið leggst að Básaskerbryggju sem öll iðar af lífi. Ungi maðurinn spyr til vegar, hvar hann finni Hótel Berg? Það er ekki laust við að hann stingi dálítið í stúf þar sem hann gengur, nokkuð áberandi haltur, austur Strandveginn.

Afi minn, Simmi bakari, er 23 ára þegar hér er komið sögu. Hann ólst upp á Eyrarbakka við mikla fátækt og aðeins 10 ára gamall var hann lagður inn á spítala í kjölfar óhapps er hann féll af hestbaki. Mjaðmarliður skemmdist og lá hann á Landspítalanum í þrjú og hálft ár í gipsi frá ökkla upp að brjósti. Þegar Simmi hafði legið rúm tvö ár á spítalanum lést móðir hans og tók hann fráfall hennar afar nærri sér. Þessi erfiða lífreynsla mótaði afa og kenndi honum að treysta umfram allt á sjálfan sig.

Eftir spítalavistina vann hann ýmsa verkamannavinnu á Bakkanum og stundaði líka sjóinn frá Þorlákshöfn og Sandgerði. Tvítugur hóf Simmi nám í bakaraiðn hjá Lárusi Andersen, bakara á Eyrarbakka. Lárus og Simmi sömdu síðan um að hann fengi að ljúka námi í nýtískulegra bakaríi hjá Magnúsi Bergssyni, bakarameistara í Magnúsarbakaríi í Vestmannaeyjum, en Lárus hafði unnið hjá Magnúsi.

Þegar Simmi bankaði á dyrnar á Hótel Berg kom ung og falleg kona til dyra. Simmi spurði eftir Magnúsi bakarameistara en stúlkan svaraði: „Ert þú maðurinn sem á að byggja ofninn?“ „Nei, ég kem utan af Eyrarbakka og á að klára að læra hérna í bakaríinu,“ sagði Simmi. Unga daman lét sér fátt um finnast og kallaði á föður sinn.

Teningunum er kastað og örlögin ráðin. Ástin tók stuttu síðar völdin hjá Simma og Bíbí og varði hjónaband þeirra í 66 ár en amma lést árið 2013. Afi sagði síðar um ömmu: „Hún er konan sem opnaði mér dyr og átti eftir að verða mér mikill áhrifavaldur og hamingja gegnum lífið.“

Afi og amma ráku Magnúsarbakarí með miklum myndarskap. Ég man hvað það gladdi þau þegar ég hóf störf hjá föður mínum í bakaríinu og fór að læra fjölskylduiðnina. Þau bjuggu þá á efri hæð bakarísins og það gaf mér mikið að geta átt í daglegum samskiptum við þau.

Afi Simmi var einhver fróðasti maður sem ég hef hitt og maður kom nánast aldrei að tómum kofunum hjá honum. Hann sagði skemmtilega frá og var sjálfur sérstaklega skemmtilegur. Afi var alla tíð róttækur í hugsun og vildi að allir hefðu jöfn tækifæri.

Lífreynsla afa á hans yngri árum herti skrápinn og var hann lítið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg. Eftir því sem árin færðust yfir upplifði maður þó meira mýkri hliðar hans og þá gafst tækifæri til að kynnast honum betur og skilja hann.

Það voru forréttindi fyrir okkur krakkana að eiga Simma og Bíbí fyrir afa og ömmu. Það var alltaf gott að vera hjá þeim og betri ömmu og afa er varla hægt að hugsa sér. Við Sara erum líka þakklát fyrir að dætur okkar skyldu fá að njóta samvista og visku langafa og langömmu langt fram á táningsárin.

Takk fyrir allt, kæri afi minn.

 

Sigurjón Andrésson.Morgunblaðið 3. desember 2016.


Skráð af Menningar-Staður

02.12.2016 18:40

Vöfflukaffi Framsóknar 2. des. 2016

 

.
Vilhjálmur Sörli Pétursson.
.

 

 

Vöfflukaffi Framsóknar 2. des. 2016

 

Framsóknarmenn í Árborg voru með sitt níunda vöfflukaffi á þessu hausti/vetri í Framsóknarsalnum við Eyraveg  á Selfossi í dag, 2. desember 2016.

Sérstakur gestur var 1. þingmaður Suðurkjördæmis, Páll Magnússon frá Sjálfstæðisflokknum.

Góð mæting var og líflegar umræður og fyrispurnir eftir framsögu Páls.

Vöfflumeistari og stjórnandi samkomunnar var Vilhjálmur Sörli Pétursson.

Menningar-Staður var á fundinum og færði til myndar.
Myndalabúm komið á Menningar-Stað.

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/281202/


Nokkrar myndir hér.

 

.

.

.

.

.

.

.

 Skráð af Menningar-Staður

02.12.2016 12:01

2. desember 1950 - Öldin okkar kom út

 

 

.

 

 

 

2. desember 1950 - Öldin okkar kom út

 

Öldin okkar kom út hjá Iðunni.

Hún flutti „minnisverð tíðindi 1901-1930“ og var „samin eins og dagblað,“ eins og sagði í auglýsingu.

Ritstjóri var Gils Guðmundsson frá Hjarðardal í Önundarfirði.

Síðar komu út fleiri bækur um árin eftir 1930 í sama dúr sem og fyrri aldir.


Morgunblaðið 2. desember 2016.


 

 

Gils Guðmundsson 

 Fæddur í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914,

dáinn 29. apríl 2005.Skráð af Menningar-Staður 

02.12.2016 10:49

Aðventuhátíð í Eyrarbakkakirkju 4. des. 2016

 

 

 

Aðventuhátíð í Eyrarbakkakirkju

sunnudaginn 4. desember 2016 kl.17:00

 

 

Image result for eyrarbakkakirkja

 

 

Skráð af Menningar-Staður

02.12.2016 02:46

Jólatré og músastigar, skáld og skautar

 

jolatre-og-musastigar

 

Jólatré og músastigar, skáld og skautar

 

Jólin á Byggðasafninu hefjast laugardaginn, 3. desember 2016, með opnun jólasýningar, skáldastund og músastigagerð.

Á sýningunni þetta árið má sjá  skauta og sleða í eigu safnsins í sambland við jólatré gömul og ný. Sýningin er tileinkuð skautum og sleðum en sú var tíðin að hvert einasta barn á Eyrarbakka og nágrenni renndi sér á skautum. Ungir sem gamlir fóru yfir frosin vötn, dælur og skurðir og hægt var skauta æði langt.

Á opnunardaginn 3. desember geta gestir komið í Kirkjubæ frá 13.00 til 15.00 og gert músastiga sem við munum hengja upp í þessu fallega alþýðuhúsi. Skáldstund hefst svo í stássstofunni kl. 16.00 og eru það Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Guðrún Eva Minervudóttir, Vigdís Grímsdóttir og Þórarinn Eldjárn sem heimsækja okkur. Í eldhúsinu verður heitt á könnunni og jólasveinabrúður gleðja augað.

Ávallt er hægt að panta séropnun fyrir hópa en sú nýjung verður þetta árið að almenn opnun verður á jólasýninguna þrjá sunnudaga í desember 4., 11., og 18. kl. 13.00 – 17.00 og enginn aðgangseyrir. Kirkjubæ verður opinn á sama tíma.Af: www.husid.com

 

 
Skráð af Menningar-Staður

 

01.12.2016 20:54

Fullveldisdagurinn í dag

 

 

Frá fullveldishátíð.

 

Fullveldisdagurinn í dag

 

Í dag 1. desember er fullveldisdagur Íslendinga. En þá fagna Íslendingar því að hafa hlotið fullveldi frá Dönum þann 1. desember 1918.

Í orðinu fullveldi felst að hafa einkarétt til þess að fara með æðstu stjórn, það er dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald, yfir landsvæði eða hópi fólks. Að vera fullvaldur er ekki það sama og að vera sjálfstæður en í stjórnmálum er oft litið svo á að heimastjórn sé stærsta og mikilvægasta skref í átt að sjálfstæði landa. Íslendingar voru fullvalda 1918, en danski konungurinn var áfram þjóðhöfðingi okkar og utanríkisstefna landsins var áfram í höndum Dana þar til Íslendingar fengu sjálfstæði sitt 1944. 

Dæmi um lönd sem í dag eru fullvalda væri til dæmis Skotland. Landið hefur verið með eigið þing og heimastjórn frá því 1999, en skoska þingið hefur ekki völd í utanríkismálum, rétt eins og Íslendingar eftir að þeir urðu fullvalda frá Dönum. Skotland er undir Bretlandi og bresku krúnunni, en undanfarin ár hafa flokkar eins og Skoski þjóðarflokkurinn barist fyrir sjálfstæðu Skotlandi. 


Af: www.bb.is


Skráð af Menningar-Staður

01.12.2016 07:12

Merkir Íslendingar - Eggert Ólafsson

 

 

 

Merkir Íslendingar - Eggert Ólafsson

 

Eggert Ólafsson fæddist í Svefneyjum á Breiðafirði 1. desember 1726, sonur Ólafs Gunnlaugssonar bónda og Ragnhildar Sigurðardóttur.
 

Eggert lærði hjá móðurbróður sínum, Sigurði presti í Flatey, og var í fóstri hjá öðrum móðurbróður, Guðmundi, sýslumanni á Ingjaldshóli. Hann lauk stúdentsprófi í Skálholti, stundaði nám í heimspeki og náttúrufræði við Hafnarháskóla, þótti frábær námsmaður, las m.a. forn, þjóðleg fræði, málfræði, lögfræði og búfræði, var lærður í latínu og grísku og talaði dönsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku.
 

Á árunum 1752-57 fóru Eggert og Bjarni Pálsson, síðar landlæknir, rannsóknarferð um Ísland. Afraksturinn er Ferðabók Eggerts og Bjarna Pálssonar sem Eggert samdi á dönsku og að mestu leyti einn. Ritið er viðamikil lýsing á náttúru landsins og gæðum, og greinargerð um íslenskt þjóðlíf og landshagi.
 

Eggert var skipaður varalögmaður sunnan og austan 1767. Hann lét þá byggja upp jörð sína, Hofsstaði í Eyjahreppi, og ákvað að setjast þar að. Sama haust kvæntist hann Ingibjörgu, dóttur Guðmundar, móðurbróður síns. Þau héldu veglega brúðkaupsveislu að fornum sið í Reykholti, dvöldu um veturinn í Sauðlauksdal, héldu um vorið áleiðis að Hofsstöðum en fórust í aftakaveðri á Breiðafirði 1768.
 

Þjóðin öll syrgði Eggert enda mikils af honum vænst. Hann var framfarasinni og upplýsingarmaður en jafnframt þjóðernissinnaður. Eggert trúði á land, þjóð og framtíð og var mikilvægur fyrirrennari Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna sem höfðu hann í ýmsu að fyrirmynd. Af skáldskap Eggerts er hins vegar Búnaðarbálkur hans þekktastur sem ber fyrst og fremst að skoða sem boðskap í bundnu máli. En önnur skáld hafa ort um hann fögur ljóð, s.s. Matthías Jochumsson, Matthías Johannessen og Jónas Hallgrímsson.

Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður