Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2017 Mars

14.03.2017 21:52

Merkir Íslendingar - Ragnar T. Árnason

 


Ragnar T. Árnason (1917 - 1984).

 

Merkir Íslendingar - Ragnar T. Árnason

 

Ragnar Tómas Árnason fæddist í Reykjavík 13. mars 1917. Foreldrar hans voru Árni Benediktsson, stórkaupmaður í Reykjavík og síðar í New York, f. 1887, d. 1964, sonur Benedikts Kristjánssonar bónda í Selárdal í Arnarfirði, og k.h. Ragnhildar Þórðardóttur, og Kristrún Tómasdóttir Hallgrímsson, píanóleikari, f. 1878, d. 1959, dóttir Tómasar Hallgrímssonar læknis frá Hólmum í Reyðarfirði, og k.h. Ástu Hallgrímsson.

 

Ragnar byrjaði ungur að syngja við undirleik móður sinnar og hlaut hjá henni sína fyrstu söngmenntun. Hann lærði síðan söng hjá Pétri Jónssyni óperusöngvara og lék og söng í óperum og leiksýningum. Hann söng m.a. aðalbassahlutverkið í Systirin frá Prag árið 1937, sem var fyrsta óperusýningin á Íslandi.

 

Eftir að hafa tekið virkan þátt í listalífi Reykjavíkur ákvað Ragnar þó að gefa sig ekki alfarið á vald listagyðjunnar og fór að reka heildverslun.

 

Eftir seinna stríð hætti Ragnar að mestu í viðskiptalífinu og réðst sem starfsmaður hjá Ríkisútvarpinu, fyrst á tónlistardeild en síðar sem fréttaþulur og þingfréttamaður en að lokum vann hann sem dagskrárþulur til 1966 en fór þá aftur út í eigin rekstur.

 

Um Ragnar segir í minningargrein: „Fríður sýnum, höfðinglegur og glæsilegur í allri framgöngu, hress í bragði, ómyrkur í máli og lét vel að leggja orð í belg þá er hin margvíslegustu mál voru rædd. Hann var líkamlega hraustur vel og naut útivistar og ferðalaga á yngri árum en þó einkum hestamennsku, sem um langt skeið var hans helsta tómstundagaman.“

 

Eiginkona Ragnars var Jónína Vigdís Schram, f. 14.6. 1923, d. 28.3. 2007, dóttir Kristjáns Schram, skipstjóra og k.h., Láru Jónsdóttur. Börn Ragnars og Vigdísar: Kristján Tómas, Lára Margrét, Árni Tómas, Ásta Kristrún á Eyrarbakka og Hallgrímur Tómas.

 

Ragnar lést 3. mars 1984.Morgunblaðið 13. mars 2017.
 Skráð af Menningar-Staður

12.03.2017 08:59

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins í Skógakirkju

 

 

 

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins í Skógakirkju

 

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars var á ferð í gær, laugardaginn 11. mars 2017, um Suðurland.

Komið var í  Skógakirkju  sem er hluti af Byggðasafninu glæsilega að Skógum undir Eyjafjöllum.

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins hefur það hlutverk m.a. að skoða allar kirkjur á Suðurlandi og er þetta verkefni komið vel á veg en hefur tekið nokkur ár. Enda er það starfssiður Hrútavina að vanda vel til verka.

 


Í Skógakirkju á vegum Hrútavinafélagsins voru:

Þórarinn Theódór Ólafsson, Eyrarbakka,
Guðmundur Magnússon, Eyrarbakka,
Ingvar Magnússon, Eyrarbakka,

Sigurbjörn Tryggvi Gunnarsson, Ásamýri
og Björn Ingi Bjarnason, Eyrarbakka.

 


Menningar-Staður færði til myndar. 

 

.
Skógakirkja.
.

.
Í Skógakirkju.
F.v.: Þórarinn Theódór Ólafsson, Guðmundur Magnússon og Ingvar Magnússon.  

.

.
Í Skógakirkju, Sigurbjörn Tryggvi Gunnarsson.
.
Skráð af Menningar-Staður.

11.03.2017 07:53

Þuríður Pálsdóttir söngkona - 90 ára

 

 

Þuríður Pálsdóttir.

 

Þuríður Pálsdóttir söngkona – 90 ára

Í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt

 

Þuríður Pálsdóttir fæddist í Reykjavík að Bergstaðastræti 50, yngsta barn foreldra sinna Kristínar Norðmann og Páls Ísólfssonar. „Ég er alin upp fyrir austan læk, að undanskildum nokkrum misserum í Skerjafirði,“ segir Þuríður í ævisögu sinni, Líf mitt og gleði, sem Jónína Michaelsdóttir skráði og kom út 1986.

 

Þuríður var í sveit sem unglingur á Arnbjargarlæk. „Þessi tvö sumur eru einhver yndislegasti tími sem ég hef lifað,“ segir Þuríður. Eiginmaður hennar var Örn Guðmundsson viðskiptafræðingur. Móðir Þuríðar, sem var þekktur bridsspilari, sagði henni fyrst frá tilvist hans: „Ég tapaði af því að Árni Matt var með nýjan makker mjög efnilegan.“ Hún gat ekki vitað að einkadóttir hennar ætti eftir að fá þennan efnilega spilamann fyrir „makker í öðru spili og mikilvægara“, segir Þuríður. Hún missti móður sína sextán ára gömul. Mjög kært var með Níní, eins og Þuríður er jafnan kölluð af nákomnu fólki, og bræðrum hennar Nonna (Jóni) og Nenna (Einari) enda á líkum aldri.

 

Þuríður fékk snemma áhuga á söng. „Amma mín og nafna hafði snemma orð á því að ég hefði fallega rödd,“ segir hún. „„Alltaf vill þessi Níní vera að syngja,“ sagði æskuvinkona mín.“

 

Þuríður hefur verið einsöngvari frá 1948. Hún stundaði söng- og tónlistarnám á Ítalíu á sjötta áratugnum hjá Luigi Algergoni og Linu Pagliughi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði nám í píanóleik og óperuleik. Þuríður var í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt hér og söng fjölmörg óperuhlutverk, hélt fjölda einsöngstónleika, stjórnaði Árnesingakórnum í Reykjavík og var yfirkennari Söngskólans frá stofnun hans 1973 þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.

 

Þuríður var formaður Félags íslenskra einsöngvara um árabil og sat í Þjóðleikhúsráði frá 1978 og varð formaður þess 1983. Hún var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 til 1995. Þuríður var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1982, Cavalieri dell Ordine Al Merito della Repubblica Italiana 1987; Silfurmerki Félags íslenskra leikara og hlaut einnig viðurkenningu frá Íslensku óperunni fyrir þrjátíu ára starf á óperusviði 1983.

 

Fjölskylda

Þuríður giftist í janúarlok 1946 Erni Guðmundssyni, f. 1921, d. 1987 framkvæmdastjóra. Hann var sonur Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar, f. 1873, d. 1944 og k.h. Laufeyjar Vilhjálmsdóttur, kennara og húsmóður, f. 1879, d. 1960.

 

Börn Þuríðar og Arnar eru: 1) Kristín, f. 1946, fyrrverandi starfsmaður á Biskupsstofu, gift Hermanni Tönsberg, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Þau eiga börnin Einar tónlistarmann, Þuríði lögfræðing, Ingibjörgu, Ernu alþjóðastjórnmálafræðing og Örn myndlistarmann. 2) Guðmundur Páll Arnarson f. 1954, bridskennari. Hann er kvæntur Guðrúnu Guðlaugsdóttur blaðamanni. Hann á soninn Jónas, óperusöngvara í Þýskalandi, og stjúpbörnin Ragnheiði háskólakennara, Ásgerði óperusöngkonu, Móeiði kennara, Kristin og Guðlaug tónlistarmenn og Sigríði Elísabetu, nema í tölvunarfræði. 3) Laufey, f. 1962, kennari. Hún er gift Birni Kristinssyni efnafræðingi. Þau eiga börnin Kristin Örn, mastersnema í verkfræði, og Helgu Sóleyju framhaldsskólanema.

 

Systkini Þuríðar: Jón Norðmann, f. 1923, d. 1993, yfirskoðunarmaður hjá Flugleiðum; Einar, f. 1925, d. 1996, leikari, skólastjóri og fræðimaður; Anna Sigríður, prestur og ráðgjafi, f. 1946, dóttir Páls og síðari konu hans, Sigrúnar Eiríksdóttur, f. 1911, d. 1990. Dætur Sigrúnar og Heinrichs Durr og stjúpsystur Þuríðar: Hjördís, f. 1934, Erla, f. 1935 og Hildegard, f. 1938, d. 2012.

 

Foreldrar Þuríðar voru Páll Ísólfsson, tónskáld og organisti, f. 1893, d. 1974 og Kristín Norðmann píanókennari, f. 1898, d. 1944.

 

.

Söngkonan -  Á tónleikum 1979.Morgunblaðið 11. mars 2017.


Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

11.03.2017 07:14

Merkir Íslendingar- Ísólfur Pálsson

 


Ísólfur Pálsson (1871 - 1941).

 

Merkir Íslendingar-  Ísólfur Pálsson

 

Ísólfur Pálsson fæddist á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 11. mars 1871.

Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1832, drukknaði 1887, bóndi og hreppstjóri á Syðra-Seli, og k.h. Margrét Gísladóttir, f. 1830, d. 1914, húsfreyja, en þau voru bæði komin af Bergsætt.

 

Foreldrar Páls voru hjónin Ólöf Magnúsdóttir og Jón Sturlaugsson, bóndi á Syðsta-Kekki í Stokkseyrarhr..Faðir Jóns var Sturlaugur Jónsson bóndi og forsöngvari í Grjótlæk, sonur Jóns Bergssonar b. í Grjótlæk. Annar sonur Jóns Bergssonar var Grímur, langafi Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Jón var sonur Bergs Sturlaugssonar sem Bergsætt er komin af en Bergur var fyrsti nafnkenndi forsöngvari Stokkseyrarkirkju.

 

Foreldrar Margrétar voru hjónin Sesselja Grímsdóttir og Gísli Þorgilsson, bóndi og formaður á Kaðlastöðum í Stokkseyrarhr., einnig nefndir Kalastaðir. Gísli var lengi forsöngvari á Stokkseyri.

 

Meðal systkina Ísólfs var Bjarni, organisti í Götu, faðir Friðriks tónskálds.

 

Ísólfur kvæntist Þuríði Bjarnadóttur, f. 4.7. 1872, d. 22.3. 1957. Þau eignuðust tólf börn, þar á meðal Pál, tónskáld og organista, Sigurð úrsmið og organista, og Pálmar hljóðfærasmið.

 

Ísólfur og Þuríður bjuggu í 20 ár á Stokkseyri og síðan í Reykjavík. Stundaði Ísólfur fyrst formennsku og var hann organisti við Stokkseyrarkirkju og stjórnaði kór og söngkvartett. Var orgelleikur hans annálaður, en hann virðist hafa verið sjálfmenntaður að flestu leyti.

 

Ísólfur fékkst nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og svo fór að hann fór utan 1912 og lærði hljóðfærasmíði og -stillingar í Danmörku og Þýskalandi, og starfaði við það eftir að heim kom. Hann gerði m.a. upp orgelin í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni og smíðaði orgel fyrir kapellu Háskóla Íslands.

 

Ísólfur samdi fjölda sönglaga og er þekktast þeirra Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins).

 

Ísólfur Pálsson lést 17. febrúar 1941.


Morgunblaðið 11. mars 2017.

 


Skráð af Menningar-Staður

 

10.03.2017 21:32

Merkir Íslendingar - Árni Oddsson

 

 

Kópavogsfundurinn.

- Úr málverki eftir Halldór Pétursson.

 

Merkir Íslendingar - Árni Oddsson

 

Árni Oddsson lögmaður fæddist í Skálholti árið 1592. Foreldrar hans voru Oddur Einarsson biskup og fyrri kona hans, Margrét Helgadóttir. Oddur var sonur Einars Sigurðssonar í Heydölum, helsta sálmaskálds þjóðarinnar.
 

Árni fór til náms í Kaupmannahöfn 1609, kom aftur 1612 og var þegar gerður að skólameistara Skálholtsskóla og gegndi því embætti til 1615. Árið 1617 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að reka erindi fyrir föður sinn, sem átti í útistöðum við Herluf Daa höfuðsmann, og kom aftur til landsins árið eftir og unnu þeir feðgar svo málið.
 

Árni varð Skálholtsráðsmaður 1620 og árið 1632 varð hann svo lögmaður sunnan og vestan og hélt því embætti í 32 ár. Einnig var hann sýslumaður í Árnesþingi og umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða. Hann þótti sinna embættum sínum vel og af dugnaði og bera hag landsmanna fyrir brjósti, enda var hann vinsæll. Hann bjó lengst á Leirá í Leirársveit.
 

Árni undirritaði erfðahyllinguna við konung á Kópavogsfundinum 1662. Sögur segja að Íslendingar hafi verið tregir til, en Hinrik Bjelke, höfuðsmaður á Íslandi, hafi hótað að beita hervaldi og þá hafi Árni undirritað yfirlýsinguna og tárfellt um leið. Samtímaheimildir staðfesta ekki þessa frásögn en sögunni um tárvota vanga Árna var hins vegar mjög haldið á lofti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld.
 

Hins vegar greina annálar frá því að eftir undirskriftina hafi verið haldin mikil og vegleg veisla með flugeldasýningu og fallbyssuskotum. Mun það vera í fyrsta sinn sem getið er um flugelda á Íslandi.
 

Fyrri kona Árna var Helga, dóttir Jóns Vigfússonar sýslumanns á Galtalæk, en hún dó úr bólusótt eftir fárra ára hjónaband. Síðari kona hans, sem hann kvæntist 1617, var Þórdís Jónsdóttir, f. 1600, d. 1.9. 1670, frá Sjávarborg í Borgarsveit. Á meðal barna þeirra voru Sigurður Árnason, lögréttumaður í Leirárgörðum, og Helga, kona Þórðar Jónssonar prests og fræðimanns í Hítardal.
 

Árni drukknaði eða varð bráðkvaddur í laug á Leirá 10. mars 1665.

 

Morgunblaðið 10. mars 2017.


Skráð af Menningar-Staður

09.03.2017 06:44

Hátíðarstund með ÆFINGU og aðdáendum á Eyrarbakka

 

Hljómsveitin Æfing á 45 ára afmælinu í Samkomuhúsinu á Flateyri.

F.v.: Ásbjörn Björgvinsson, Siggi Björns,  Árni Benediktsson, Jón Ingiberg Guðmundsson

og Halldór Gunnar Pálsson.  
 

 

Hátíðarstund með ÆFINGU

og aðdáendum á Eyrarbakka

 

Mannlífs- og menningarstund var með Hljómsveitinni ÆFINGU frá Flateyri og aðdáendum á Eyrarbakka. Þessi hátíðarstund var að Ránargrund á Eyrarbakka fimmtudaginn 16. febrúar sl. á heimili Menningarfulltrúa ÆFINGAR hver er Björn Ingi Bjarnason og færði til myndar það sem gerðist.

 

Hátíðin hófst með þjóðlegri sviðaveislu þar sem þátttakendur voru Siggi Björns laga- og textahöfundur ÆFINGAR sem býr í Berlín og hefur starfað erlendis við tónlist í nær 30 ár, Guðmundur Ingi Einarsson, varðstjóri á Litla-Hrauni sem býr á Eyarrbakka  og Björn Ingi Bjarnason. Síðan var haldið áfram í Menningarsellunni að Ránargrund og þá bættist í hópinn Johnny King, tónlistarmaður á Eyrarbakka.

 

Sagðar voru sögur og veittar viðurkenningar eins og myndirnar sýna berlega; mynddiskur með Sigga Björns og nýjustu bækurnar frá Vestfirska forlaginu að Brekku á Þingeyri sem oft styrkir menningarsamband Vestfjarða og Suðurlands.

 

Guðmundur Ingi sagði frá fyrstu kynnum sínum af kraftmiklum Vestfirðingum þegar hann var á árunum 1980 og 81 á aflaskipinu Helgu Guðmundsdóttur BA 77 frá Patreksfirði. Hann hitti Finnboga Magnússon, skipstjóra á Helgu, í fyrsta sinni á Hótel Borg og fór vel á með þeim. Þar kom að Finnbogi bauð Guðmundi Inga í sjómann og lagði hann skipstjórann sem rak hann á stundinni. Guðmundur Ingi mætti til skips engu að síður og var vel fagnað af Finnboga.

 

Guðmundur Ingi er mikil aðdándi ÆFINGAR og skömmu eftir að hann fékk nýja diskinn með ÆFINGU fóru hann og eiginkonan í brúðkaupsferð á sólarströnd. Það eina sem hann setti í tösktuna var diskurinn með ÆFINGU. Fari Guðmundur Ingi í ferðalög er ÆFING alltaf með.

 

Siggi Björns og Johnny King rifjuðu upp sín fyrstu kynni sem voru í verbúðinni Bræðraborg á Flateyri rétt upp úr 1970 þegar Johnny King kom til starfa hjá Hjálmi hf. Við komuna á Flateyri hét hann reyndar Jón Víkingsson en Flateyringar gáfu honum listamannsnafnið Jonny King sem hann er mjög þakklátur Flateyringum fyrir.

 

Þá var rifjað upp að í fyrsta sinni sem Johnny King kom fram var einmitt á Flateyri. Það var í Samkomuhúsinu á Flateyri á hátíðarsamkomu Lionsmanna en þeir voru þá með umdæmisþing á Flateyri. Jón Gunnar Stefánsson, umdæmisstjóri og framkvæmdastjóri á Flateyri, kynnti Johnny King þarna á svið og svo tók Hljómsveitin ÆFING við og lék fyrir dansi fram undir morgun.

 

Johnny King hlustar mikið á diskinn með ÆFINGU en hann vann diskinn í lottói í velheppnuðu strafsmannateiti hjá Guðmundi Inga skömmu efir að diskurinn kom út.

 

Það sem hér hefur verið skrifað er smá brot af því sem rifjað var upp þessa mögnuðu kvöldstund.

 

Hljómsveitina ÆFINGU skipa; Árni Benediktsson, verslunarstjóri í Húsasmiðjunni á Selfossi - Siggi Björns, tónlistarmaður í Berlín - Jón Ingiberg Gudmundsson, býr í Noregi - Ásbjörn Björgvinsson, markaðs- og sölustjóri Eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðvarinnar LAVA á Hvolsvelli og Halldór Gunnar Pálsson, tónlistarmaður og kórstjóri  Fjallabræðra.

 

50 ára afmæli ÆFINGAR í Árborg

 Nú þegar er hafin stefnumótunarvinna vegna 50 ára afmælis Hljómsveitarinnar ÆFINGAR haustið 2018 og er stefnt á veglega afmælishátíð í Sveitarfélaginu Árborg vegna hinnar sterku stöðu ÆFINGAR á Suðurlandi.

 

Þegar ÆFING var 45 ára var vegleg afmælishátíð vestur á Flateyri á hvítasunnunni árið 2013 og gefinn út geisladiskur sem nýtur vinsælda víða.

 

Börn Ingi Bjarnason – Menningarfulltrúi Hljómsveitarinnar ÆFINGAR

 

Blaðið Vestfirðir fimmtudaginn 9. mars 2017.
 

.

F.v.:  Siggi Björns og Guðmundur Ingi Einarsson.
.

 

Frá hátíðarstundinni að Ránargrund á Eyrarbakka.

F.v.: Siggi Björns, Guðmundur Ingi Einarsson og Johnny King.

 

 

 

F.v.: Siggi Björns og Johnny King.


Skráð af Menningar-Staður.

 

08.03.2017 22:36

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

 

Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.


 

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

 

Alþingi Íslendinga var endurreist með tilskipun konungs Danmerkur og Íslands 8. mars 1843. 
Starfsemi þess hafði legið niðri í rúma fjóra áratugi. 
Þingið kom aftur saman 1. júlí 1845.

Alþingi Íslendinga er elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar. Það var stofnað á Þingvöllum árið 930 og markar það upphaf þjóðríkis á Íslandi. Alþingi var allsherjar­ þing landsmanna. Þar voru samin lög og kveðnir upp dómar. Samkomudagur Alþingis var um eða upp úr miðjum júní og þinghaldið stóð um tveggja vikna skeið. Þingið sóttu goðar sem voru ráðandi í samfélaginu. Öllum frjálsum mönnum og ósekum var heimilt að koma á þingið. Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. 

Á þingstaðnum áttu allir að njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór. Oft var fjölmennt á Alþingi til forna enda var þar miðstöð valda og samskipta. Lögrétta var miðstöð þinghaldsins. Hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Í lögréttu sátu goðar og síðar einnig biskupar ásamt aðstoðarmönnum sem ekki höfðu atkvæðisrétt og réð meiri hluti úrslitum mála. Eftir skiptingu landsins í fjórðunga um 965 voru settir fjórir fjórðungsdómar á Alþingi, einn fyrir hvern fjórðung, skipaðir 36 dómendum hver og þurfti 31 samhljóða atkvæði til að kveða upp gildan dóm. Síðar var stofnaður fimmtardómur á Alþingi í upphafi 11. aldar sem var nokkurs konar áfrýjunardómstóll. Hann var skipaður 48 dómendum, tilnefndum af goðum í Lögréttu, og réð einfaldur meiri hluti dómi. Lögsögumaður var æðsti maður þingsins en hlutverk hans var meðal annars að segja upp gildandi lög Íslendinga, áður en þau voru skráð. Hann sagði upp lögin um þinghaldið, þingsköpin og stjórnaði fundum Lögréttu og skar úr þrætumálum ef ekki náðist samkomulag með öðrum hætti. Talið er að lögsögumaðurinn hafi flutt mál sitt á Lögbergi og þar hafi verið kveðnir upp dómar, fluttar ræður í mikilvægum málum og þingsetning og þinglausnir farið fram. 

Ýmislegt er þó óljóst um þinghaldið og hlutverk lögsögumanns enda voru miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi á fyrstu öldum byggðar, og átök um trú og völd settu svip sinn á þjóðfélagið sem og störf Alþingis. Íslendingabók, sem rituð var á tímabilinu 1122–1133, er ein helsta heimildin um stofnun Alþingis á Þingvöllum.

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis var gefin út 8. mars 1843 og fóru fyrstu kosningar fram 1844, en þingið kom fyrst saman 1. júlí 1845. Alþingi var skipað 26 alþingismönnum, 20 þjóðkjörnum þingmönnum, einum kjörnum úr hverju kjördæmi (sýslu), en konungur skipaði auk þess sex þingmenn. Um kosningarrétt og kjörgengi giltu ákvæði um lágmarkseign að danskri fyrirmynd og munu tæp 5% landsmanna hafa notið kosningarréttar í upphafi.

Alþingi kom saman til fundar í Lærða skólanum í Reykjavík (nú Menntaskólanum í Reykjavík) 1. júlí annað hvert ár og var að störfum í um það bil fjórar vikur. Þingið var einungis konungi til ráðgjafar og hafði ekki formlegt löggjafarvald. Það ræddi stjórnarfrumvörp og voru tvær umræður, undirbúningsumræða og ályktunarumræða, og einstakir þingmenn báru fram mál til umræðu. Tillögur sem samþykktar voru á þinginu nefndust bænarskrár.

 

Á tímabilinu 1845–1874 kom Alþingi 14 sinnum saman og það var mikilvægur vettvangur þjóðmálaumræðu. Frá upphafi var Jón Sigurðsson, alþingismaður Ísfirðinga, forustumaður þingsins og lengstum forseti þess.


Úr sögu Alþingis Íslendinga.


Skráð af Menningar-Staður

08.03.2017 06:20

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyrarbakka 2. mars 2017

 

 

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyrarbakka 2. mars 2017

 

Viðstaddir:

Ingólfur, Hallgrímur, Gísli, Siggeir, Thelma, Brynjar, Vigdís Sig., Jón Gunnar, Vigdís Jóns., Júlíana María, Rúnar.

 

1. Skýrsla formanns - Ingólfur

Starf félagsins á síðasta ári hefur að stærstum hluta snúist um gróðursetningu, umpottun á plöntum, tiltekt, grisjun og slætti. Sett var upp göngubrú og smíðaðir tveir áningarbekkir. Bragginn var málaður að utan. Það var tætt beð og gróðursett um 2500 plöntur, ýmist í beð eða potta. Félagið fékk heimsókn þann 1. ágúst frá Garðyrkjufélagi Íslands og vígður var Ingunnarlundur. Félagið tók þátt í Jónsmessuhátíðinni og bauð upp á mogunmat. Félagið hélt fyrirlestur þann 24. Maí og var Gurrý frá Garðyrkjuskólanum í Hveragerði fyrirlesari. Hannes og Kristinn komu og greindu tegundir reynitrjáa. Unnið var að göngustígagerð samhliða tiltekt og fjarlægð var gömul girðing með aðstoð vinnuskólans. Dagana 27. Ágúst og 10. September var gróðursett og grillað. Haustfagnaður var haldinn 1. Oktober.

Félagið fékk nokkrar gjafi á árinu, til að mynda sláttuvél og skilti frá Friðsæld og sláttuorf frá Hauki Jónssyni. Félagið sótti um styrk til landgræðslusjóðs til uppbyggingar nestis og salernisaðstöðu og fékk styrk að upphæð 900.000 kr. og er nú þegar risið hús sem bíður lokafrágangs.

Félagsmenn eru í dag 85.

 

2. Gjaldkeri fór yfir fjármál Skógræktarfélagsins - Hallgrímur

            Tekjuafgangur í janúar 2017 voru 349.426 krónur.

 

3. Famkvæmdir ársins 2017

Ljúka á við brúargerð á veginum til til Hallskots og loforð er komið frá bæjarsjórn. Framkvæmdir eru hafnar.

Salernissmíð gengur vel og líklegt að nóg fjármagn sé til að klára bygginguna á árinu.

Skipuð hefur verið skemmtinefnd, Súsanna og Vigdís Sig., fyrir Hallskotshátíð og athugað verður að hafa hátíðina að sumri. Thelma býður sig fram í skemmtinefndina.

Fara á yfir allar girðingar og gera fjárheldar

 

4. Lagabreytingar

            Aðalfundur. Samþykkt að halda skuli aðalfund eigi síðar en 5. Maí. Þannig verður hægt að

halda fundinn í Hallskoti

 

5. Félagsgjöld.

Samþykkt var að rukkun félagsgjalda færi fram í gegnum heimabanka. Það verður þá valfrjáls greiðsla sem kemur á heimabanka félagsmanna. Borgi félagsmenn ekki í 2 ár þá detta detta þeir út af félagaskrá.

 

5. Kosning stjórnar.

Enginn býður sig fram gegn sitjandi stjórn. Núverandi stjórn samþykkt með lófaklappi.

 

6. Önnur mál.

            Rætt var um gróðursetningu næsta sumars.

            Rætt var um að fá hesta á beit. Maja ætlar að athuga með þetta.

            Rætt var um hvort skipa ætti nefndir til að sjá um ákveðna þætti í skipulagningu.

            Rætt var um baráttuna við brenninetlu.

            Rætt var um skógræktarskilti sem fer upp í sumar.

            Það verður flautað til vinnudags þegar kemur að því að setja járn o.fl. á salernishús.

            Rætt var um boðleiðir félagsins en það er erfitt að ná til allra þegar hafa á vinnudag.

            Rætt var um að Barnaskólinn hefði hug á að skipta við Skógræktarfélagið um plöntur, en

þeir fá gefins bakkaplöntur en gætu skipt þeim við skógræktarfélagið og fengið umpottaðar plöntur í staðinn.

 

 

           Ritari: Vigdís Sigurðardóttir

 

.

 

Skráð af Menningar-Staður

07.03.2017 20:57

Mykines kemur 31. mars 2017

 

 Mykines kemur 31. mars 2017

 

• Ferjusiglingar með vörur milli Þorlákshafnar og Rotterdam

• Undirbúningur gengur vel • 22 metra breiðar dyr

 

Mykines, 19 þúsund tonna flutningaferja Smyril Line Cargo, er væntanleg til Þorlákshafnar föstudaginn 31. mars næstkomandi. Það verður fyrsta áætlunarferð skipsins á milli Rotterdam og Þorlákshafnar. Skipið heldur svo héðan að kvöldi sama dags.

 

Eykur samkeppni í flutningum

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar,“ sagði Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi. „Við höfum verið úti að selja flutninga og það hefur gengið mjög vel. Það er augljóst að það er mikill spenningur fyrir þessu skipi. Þetta eykur samkeppnina í flutningum fyrir landsmenn.“ Linda sagði að búið væri að semja um flutninga vegna almenns vöruinnflutnings og einnig vegna bíla, véla og tækja. Einnig hafa fiskútflytjendur tekið þessum nýja flutnings möguleika vel.

„Skipið er sérhæft fyrir alls konar flutninga, meðal annars á bílum, vélum og tækjum. Farmurinn er allur inni og enginn sjór leikur um vörurnar. Svo er það mikill munur að geta keyrt tengivögnum beint inn og út úr skipinu. Í staðinn fyrir að nota gáma þá notum við tengivagna. Það er hægt að keyra öllu sem er ökufært inn og út úr skipinu. Það er ekki verið að hífa neitt,“ sagði Linda. Skipið getur tekið allt að 90 tengivagna og 500 bíla í ferð.

 

Stór rampur í smíðum

Framkvæmdum við aðstöðu fyrir skipið í Þorlákshöfn miðar mjög vel og sagði Linda gaman að vinna með þeim í Þorlákshöfn að undirbúningnum.

„Það er verið að gera ramp fyrir skipið við Skarfaskersbryggju. Það þarf töluvert stóran ramp því opið á skipinu er 22 metra breitt. Verkið hefur gengið vel og því verður lokið 31. mars,“ sagði Linda. Skarfaskersbryggja er næsta bryggja við Svartskersbryggju sem Herjólfur leggst að. Rampurinn sem Herjólfur notar er of mjór fyrir Mykines.

Flutningaferjan leggur af stað frá Rotterdam á mánudagskvöldi og kemur til Þorlákshafnar aðfaranótt föstudags, samkvæmt áætlun. Hún fer svo á föstudagskvöldi frá Þorlákshöfn. Brottfarartíminn verður sveigjanlegur með tilliti til ferskfiskútflutnings. Ferjan kemur til Rotterdam á mánudagseftirmiðdegi og verður því hægt að afhenda fiskinn til kaupenda í Evrópu á þriðjudagsmorgni, að sögn Lindu.


Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður

 

 

06.03.2017 07:04

Gerið reyfarakaup á Bókamarkaðnum á Laugardalsvelli

 

 

 

Gerið reyfarakaup á Bókamarkaðnum á Laugardalsvelli

 

Ekki aðeins má gera reyfarakaup á árlegum Bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda, sem nýlega var opnaður í stúkubyggingu KSÍ á Laugardalsvelli, heldur líka kaupa bækur af ýmsu öðru tagi; fræðibækur, barnabækur, matreiðslubækur, skáldsögur, ljóðabækur og ævisögur. 

Bækurnar eru frá ýmsum tímum, sumar gamlar, aðrar nýlegar og töluvert úrval er af verkum sem tilnefnd hafa verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ýmsum flokkum.

 

Markaðurinn er opinn alla daga frá kl. 10-21 til 12. mars og því upplagt að skreppa eftir vinnu eða skóla og gefa sér tíma til að grúska og velja sér góðar bækur á góðu verði. Og/eða koma með börnin eða unglingana á heimilinu um helgina og leyfa þeim að velja sér bækur við hæfi. 

Síðustu forvöð næsta sunnudag, 12. mars 2017 - !


 

 
Skráð af Menningar-Staður