![]() |
Rífandi gangur í Vestfjarðabókunum!
Hjá Vestfirska forlaginu er rífandi gangur þessa dagana. Bækurnar að vestan seljast nú eins og heitar lummur. Starfslið forlagsins hefur varla undan að afgreiða pantanir.
Söluhæsta bókin hjá forlaginu er Allt þetta fólk Þormóðsslysið 18. febrúar 1943. Enda hefur Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson unnið mjög þarft og gott verk með þessari bók um harmsögu Bíldudals.
100 Vestfirskar gamansögur og Vestfirðingar til sjó og lands, Rauða og Hvíta kverið, eru á fullri siglingu, enda Vestfirðingarnir þar óborganlegir.
Sama má segja um hjólabækurnar hans Ómars Smára, sem nú eru orðnar 5 talsins. Nýjasta bókin fjallar um Rangárvallasýslu. Nú eru margir farnir að hjóla svo til allan ársins hring, svo það veitir ekkert af að hafa hjólabækurnar við hendina.
Danska fragtskipið Fortuna strandaði í Eyvindarfirði á Ströndum í september 1787. Um þá sögu alla er fjallað i bókinni Fortunu slysið eftir þá félagana Guðlaug Gíslason frá Steinstúni og Jón Torfason. Þar kemur margt spanskt fyrir sjónir nútímamanna.
Bækurnar um Flateyri eftir Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur, standa fyrir sínu. Vestfirskar sagnir 4. hefti eru klassískar og bókin með langa nafninu Sólin er klukkan sjö á Hreiðarsstafjallinu eftir Jóhannes Sigvaldason leynir á sér. Þar svífur norðlenski húmorinn yfir vötnum.
![]() |
Vinningshafar á aðventuhátíð Hjallastefnunnar þann 6. desember 2017 í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka með bækurnar frá Vestfirska forlaginu. Þórður Gretar Árnason, Selfossi, og Ásmundur Friðriksson, Keflavík. |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Vetrarsólhvörf eru í dag 21. desember. Þá er skemmstur sólargangur og sól fer að hækka á himninum.
Vetrarskammdegið er nú í hámarki en stysti dagur ársins er á tímabilinu 20.-23. desember.
Á þessari öld ber vetrarsólhvörf oftast upp á þann 21.
Í dag er sólargangur stystur; sólris seint og sólarlag snemma. Um leið verður áberandi hve seint náttúrulegt hádegi er á ferðinni á Íslandi.
Klukkan 16:28 eftir hádegi nær sólin þeim stað á sólbaugnum sem markar syðstu og lægstu stöðu sólar á himninum, sólin stendur kyrr eins og stundum er sagt. Síðan fer sólin að hækka á lofti á ný. Það gerist afar hægt í byrjun. Á morgun nýtur sólar tveimur sekúndum lengur en í dag en sólarstundum fjölgar hraðar þegar á líður.
Ljóð Einars Benediktssonar,
Vetrarsólhvörf:
Stynur jörð við stormsins óð
og stráin kveða dauð,
hlíðin er hljóð,
heiðin er auð.
- Blómgröf, blundandi kraftur,
við bíðum, það vorar þó aftur.
Kemur skær í skýjunum sólin,
skín í draumum um jólin.
Leiðir fuglinn í för
og fleyið úr vör.
Arni sofa hugir hjá, -
þeir hvíldu dag og ár.
Stofan er lág,
ljórinn er smár.
- Fortíð, fram líða stundir,
senn fríkkar, því þróttur býr undir.
Hækka ris og birtir í búðum,
brosir dagur í rúðum.
Lítur dafnandi dug
og djarfari hug.
Vakna lindir, viknar ís
og verður meira ljós.
Einhuga rís
rekkur og drós.
- Æska, ellinnar samtíð,
við eigum öll samleið - og framtíð.
Aftni svipur sólar er yfir,
sumrið í hjörtunum lifir.
Blikar blóms yfir gröf,
slær brú yfir höf.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
||
. Siggeir Ingólfsson. .
|
Aðventustund Hjallastefnunnar 6. des. 2017
Hjallastefnan og Vinir alþýðunnar buðu til aðventustundar síðdegis miðvikudaginn 6. desember 2017, í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka hvar er í Félagsheimilinu Stað þar í bæ.
Veislustjóri var Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari á Stað.
Á borðum voru afurðir Hjallastefnurnar sem Vinir alþýðunnar hafa verkað á þjóðlegan máta úr hráefni sem veitt hefur verið af Eyrarbakkabátnum Mána ÁR. Þetta var; siginn fiskur sem verkaður hefur verið í útsýnispallinum við Alþýðuhúsið á síðustu vikum. Þúsundir erlendra ferðamanna hafa myndað verkunina á fiskinum og þannig vottað þessa þjóðlegu verkunaraðferð Hjallastefnunnar.
Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari á Stað allt frá árinu 2013, gerði grein fyrir stóra fánamálinu.
Það liggur í því að sett var nálgunarbann á hann við fánastöng Árborgar á Vesturbúðarhólnum á Eyrarbakka og matti hann alls ekki flagga þar.
Nú er öldin önnur og hefur Siggeir verið skipaður sérstakaur flaggar á fánastönginni á Vesturbúðarhólnum og var þessu sérlega fagnað. Hefur hann skipað aðstoðarmenn þá; Jón Gunnar Gíslason og Björn Inga Bjarnason.
Sérstakur gestur aðventustundarinnar var Ásmundur Friðriksson, alþingismaður í Suðurkjördæmi,
en hann á mjög sterkt bakland hjá Vinum alþýðunnar. Honum var þökkuð vaskleg framganga til stuðnings Keflavíkurkirkju til þess að ná samningum um smíði nýs orgels fyrir kirkjuna sem gert verður í Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar á Stokkseyri.
Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins, flutti blandaða þjóðlega hugvekju í menningarlegu samspili Vestfirðinga og Sunnlendinga fyrr og nú.
Þá var í lokin Bókalottó þar sem dregnar voru út bækur frá Vestfirska forlaginu.
Mennigar-Staður færði aðventustundina til myndar.
Myndaalbúm er komið á Menningar-Stað. http://menningarstadur.123.is/photoalbums/284709/
Nokkrar myndir hér:
![]() |
||||||||||||||||||||
.
|
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879) og Ingibjörg Einarsdóttir (1804 - 1879). |
Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára.
Ingibjörg Einarsdóttir var fædd 9. október 1804. Þau voru gefin saman 4. september 1845. Foreldrar Imbu voru Einar Jónsson, föðurbróðir Jóns, og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir. Foreldrar Jóns voru Sigurður Jónsson fæddur 2. janúar 1777, látinn 31. október 1855, sóknarprestur á Hrafnseyri og kona hans Þórdís Jónsdóttir prestdóttir frá Holti í Önundarfirði fædd 1772, látin 28. ágúst 1862, húsmóðir.
Ingibjörg var jarðsett í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Jóni Sigurðsinsi manni sinum, sem lést 7. desember 1879.
Í bókinni Frá Bjargtöngum að Djúpi 5. hefti, sem kom út árið 2012, er ítarleg frásögn eftir Einar Sigurbjörnsson af útför Jóns Sigurðsson og Ingibjargar Einarsdóttir frá Dómkirkjunni í Reykjavík 4. maí 1890.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Fréttaritari RÚV á Vestfjörðum, Halla Ólafsdóttir, var með skemmtilegt innslag í fréttum í gærkvöld af bókaupplestri í sundlaug Þingeyrar, svo sannarlega frumlegt uppátæki. Þar var meðal annars rætt við Hallgrím Sveinsson sem hefur um árabil verið afkastamikill bókaútgefandi og hans vestfirska forlag lagt áherslu á vestfirskar bókmenntir.
Nýverið kom út bókin Vestfirðingar til sjós og lands – gaman og alvara fyrir vestan en það eru sögur sem Hallgrímur hefur sjálfur tekið saman. Um bókin segir Hallgrímur:
„Bókin hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga.
Margir telja að Vestfirðingar séu að sumu leyti svolítið öðruvísi en aðrir landsmenn. Má vel merkja það í þessari bók. Nægir þar að nefna kraft þeirra, áræði og ósérhlífni að ógleymdri hjálpseminni. Manngildið frekar metið í dugnaði en peningum. Og gamansemin er þeirra lífselexír. Svo segja sumir gárungar að þegar Vestfirðingar eru hættir að geta rifið kjaft, séu þeir endanlega búnir að vera. En það er nú kannski ofsagt! „
Hallgrímur hefur marglýst því yfir að hann sé hættur í bókaútgáfu en engu að síður koma út fleiri og fleiri bækur og á árinu 2017 voru þær átta.
Hér má nálgast frétt RUV af syndum lestrarhestum á Þingeyri.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Ingibjörg H. Bjarnason (1867 - 1941). |
Ingibjörg H. Bjarnason fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867, fyrir hundrað og fimmtíu árum. Hún var dóttir Hákonar Bjarnasonar, útgerðarmanns og kaupmanns á Bíldudal og Þingeyri, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur.
Hákon var sonur Bjarna Gíslasonar, pr. á Söndum, og k.h., Helgu Árnadóttur, en Jóhanna Kristín var dóttir Þorleifs Jónssonar, prófasts í Hvammi í Hvammssveit, og k.h., Þorbjargar Hálfdánardóttur. Meðal bræðra Ingibjargar voru Lárus H. Bjarnason, sýslumaður, bæjarfógeti og hæstaréttardómari, og Ágúst H. Bjarnason, doktor í heimspeki, rektor HÍ og fyrsti forseti Vísindafélags Íslendinga, faðir Hákonar Bjarnason skógræktarstjóra.
Ingibjörg var í námi hjá Þóru, konu dr. Þorvaldar Thoroddsens náttúrufræðings og dóttur Péturs Péturssonar biskups. Þá stundaði hún nám í Kaupmannahöfn 1884-85 og 1886-93. Auk þess dvaldi hún erlendis 1901-1903 og kynnti sér þá m.a. skólahald í Þýskalandi og Sviss.
Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi. Hún sat á þingi 1922-30, fyrst fyrir Kvennalistann eldri, þá fyrir Íhaldsflokkinn og loks Sjálfstæðisflokkinn frá stofnun hans 1929. Hún var öflugur málsvari kvenna og kvennasamtaka á þingi, barðist ötullega fyrir velferðarmálum og réttindum kvenna, barna og ekki síst þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu.
Höggmynd af Ingibjörgu, eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara, var afhjúpuð við Skála Alþingis á kvennadaginn 19. júní árið 2015.
Ingibjörg kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík frá 1903 en þá var hann enn til húsa hjá Þóru Melsted í Thorvaldssenstræti, í húsi sem síðar var nefnt Sjálfstæðishús eða Sigtún og loks Nasa. Er skólinn flutti í nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og stýrði honum til æviloka.
Ingibjörg lést 30. október 1941.
Morgunblaðið 14. desember 2017.
![]() |
var fyrsta íslenska konan til að taka sæti á Alþingi. Þann 19. júní 2015 var afhjúpuð við Alþingishúsið höggmynd Ingibjörgu H. Bjarnason. |
![]() |
Aðventuhátíð Hjallastefnunnar á Eyrarbakka
Vinningshafar gærkvöldsins á aðventuhátíð Hjallastefnunnar í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka með bækurnar frá Vestfirska forlaginu.
F.v.: Vigdís Hjartardóttir, Selfossi, Jóhann Jóhannsson, Eyrarbakka, Ingvar Jónsson, Selfossi, Þórður Gretar Árnason, Selfossi, og Ásmundur Friðriksson, Keflavík.
Nánar síðar.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Kaupmaður af lífi og sál
Hundrað ár voru í gær liðin frá því að Guðlaugur Pálsson hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka. Guðlaugur lést í desember 1993, 98 ára að aldri, og hafði hann þá rekið verslun sína samfleytt í 76 ár, frá 4. desember 1917 til dauðadags.
Laugabúð, eins og verslun Guðlaugs var jafnan kölluð, er enn opin og nú í upprunalegri mynd. Magnús Karel Hannesson stendur þar á bak við búðarborðið en hann og kona hans, Inga Lára Baldvinsdóttir, keyptu húsið af börnum Guðlaugs árið 1998. Sonardóttir Guðlaugs hafði þá rekið verslunina til 1997.
„Við ákváðum að endurgera húsið eins og það var árið 1919 þegar Guðlaugur flutti verslun sína hingað úr húsi vestar í götunni. Það var heilmikið verkefni. Innréttingarnar voru farnar úr húsinu og komnar á Byggðasafn Árnesinga og við sömdum við safnið um að þær yrðu geymdar hér. Árið 2011 ákváðum við svo að leyfa fólki að koma inn í þessa gömlu þorpsverslun frá þeim tíma sem Eyrarbakki var höfuðstaður Suðurlands og verslunarmiðstöð. Síðan hef ég staðið hér vaktina um helgar yfir sumarmánuðina og svo hef ég núna undanfarnar helgar aðeins tekið þátt í jólakapphlaupinu eins og aðrir verslunarmenn,“ segir Magnús kankvís. Hann er kominn í hvíta kaupmannssloppinn, eins og Guðlaugur klæddist alltaf, og stendur á bak við búðarborðið í þessari fallegu verslun sem geymir mikla sögu.
„Þetta er safnbúð og flestir koma hingað sér til skemmtunar. Ég segi söguna og svo þakka menn fyrir og fara út,“ segir Magnús. Í Laugabúð er nú hægt að kaupa svolítið af sælgæti, gos í gleri, notaðar bækur og handverk ýmiskonar.
„Þegar Guðlaugur hefur sinn verslunarrekstur 1917 eru 11 eða 12 verslanir hér á Eyrarbakka. Hann stendur vaktina í eigin verslun í 76 ár og hafði unnið í annarri verslun í tvö ár þar áður. Það eru ekki margir sem ná svo langri starfsævi,“ segir Magnús. „Guðlaugur var kaupmaður af lífi og sál.“
Magnús hefur nú rekið Laugabúð í sex ár en segist ekki eiga von á að ná sama aldri og Guðlaugur á bak við búðarborðið. „Í kringum 90 ára afmælið var Guðlaugur oft spurður hvort hann ætlaði ekki að fara að hætta verslunarrekstrinum og þá svaraði hann alltaf: „Hver heldur þú að vilji 90 ára gamlan mann í vinnu?“
![]() |
Morgunblaðið 5. desember 2017. Skráð af Menningar-Staður |
|
||
Hannes Hafstein (1861 - 1922). |
For.:
Pétur Havstein (f. 17. febr. 1812, d. 24. júní 1875) alþm. og amtmaður þar og 3. k. h. Kristjana Gunnarsdóttir Havstein (f. 20. sept. 1836, d. 24. febr. 1927) húsmóðir.
Kona.
(15. okt. 1889) Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein (f. 3. apríl 1871, d. 18. júlí 1913) húsmóðir. For.: Stefán Thordersen alþm. og k. h. Sigríður Ólafsdóttir Stephensen, sem áður var 2. kona Péturs föður Hannesar.
Börn:
Sigurður (1891), Kristjana (1892), Ástríður (1893), Þórunn (1895), Sigríður (1896), Sofía Lára (1899), Elín Jóhanna Guðrún (1900), Ragnheiður (1903), Kristjana (1911), Sigurður Tryggvi (1913).
Stúdentspróf Lsk. 1880. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1886.
Settur sýslumaður í Dalasýslu 1886, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887. Sinnti síðan lögfræðistörfum um hríð. Landshöfðingjaritari frá 1889 og jafnframt að nýju málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1890—1893. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896—1904. Skip. 31. jan. 1904 ráðherra Íslands frá 1. febr. að telja, lausn 31. mars 1909. Bankastjóri við Íslandsbanka 1909—1912. Skip. 24. júlí 1912 ráðherra Íslands að nýju frá 25. júlí, lausn 21. júlí 1914. Varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 og gegndi því starfi til 1917, er hann varð að láta af því vegna vanheilsu.
Endurskoðandi Landsbankans 1890—1896. Átti sæti í millilandanefndinni 1907, varaformaður hennar og formaður íslenska hlutans. Skip. 1911 í mþn. um rannsókn á fjármálum landsins og í aðra um skattamál, skip. 1914 í velferðarnefnd. Foringi Heimastjórnarflokksins 1901—1912.
Alþm. Ísf. 1900—1901, alþm. Eyf. 1903—1915, landsk. alþm. 1916—1922, sat síðast á þingi 1917 (Heimastjfl., Sambfl., Heimastjfl.).
Ráðherra Íslands 1904—1909 og 1912—1914.
Forseti Sþ. 1912.
Kvæði hans hafa birst í mörgum útgáfum.
Ritstjóri: Verðandi (1882).
![]() |
Hannes Hafstein við Stjórnarráðið í Reykjavik. Ljósm.: BIB Skráð af Menningar-Staður. |
![]() |
||
.
|
4. des. 2017 - Öld frá opnun Laugabúðar
Á morgun, mánudaginn þann 4. desember verða 100 ár liðin frá því, að Guðlaugur Pálsson kaupmaður hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.
Guðlaugur rak verslun sína í 76 ár – frá desember 1917 og fram í desember 1993, þegar hann lést tæplega 98 ára að aldri. Fyrstu tvö árin var verslunin staðsett í Kirkjuhúsi, en árið 1919 keypti Guðlaugur íbúðarhúsið Sjónarhól og breytti því í verslun og þar stóð hann síðan vaktina á sama gólfinu til dauðadags eða í 74 ár.
Verslunarrekstur Guðlaugs var nær einstakur á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Í fyrsta lagi vegna þess hve langt tímabil hann spannaði og í öðru lagi vegna þess háa aldurs sem Guðlaugur náði.
Fyrsti viðskiptavinur Guðlaugs 4. desember 1917 var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, sóknarprestur Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Sr. Gísli keypti eina litla vasabók á 22 aura. Heildarsalan þennan fyrsta verslunardag Guðlaugs Pálssonar var 28 kr.
Húsið Sjónarhóll hefur verið gert upp í þeirri mynd sem það var árið 1919 og í dag er þar rekin lítil ferðamannaverslun yfir sumarmánuðina undir heitinu Laugabúð, en undir því heiti gekk verslun Guðlaugs dags daglega.
Í tilefni þessara tímamóta verður Laugabúð á Eyrarbakka opin á morgun, mánudaginn 4. desember 2017 frá kl. 15 til 21.
Klukkan 16, 18 og 20 verður saga Verslunar Guðlaugs Pálssonar rakin í máli og myndum í búðinni.
![]() |
||
.
|
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is