![]() |
Bakkablótið verður 27. janúar 2018 að Stað.
Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.
Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.
Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.
Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.
Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.
Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958.
Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.
Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Guðbjartur Jónsson. Ljósm.: BIB |
Meðan Guðbjartur vagnstjóri Jónsson rak Vagninn á Flateyri, seldi hann mat kostgöngurum jafnt sem gestum og gangandi.
Sumar eitt kom burtfluttur Flateyringur, Grétar Snær Hjartarson, inn á Vagninn laust eftir hádegið og var Guðbjartur þá að taka til eftir matinn. Grétar segir við Guðbjart að hann hafi heyrt að fólki líki mjög vel maturinn hjá honum.
Guðbjartur svarar: Já, ég hef heyrt þetta líka, enda spyrjum við fólk alltaf hvernig því líkar maturinn. Það er miklu betra að fá þetta í bakið strax. Grétar segir þá: Já, heldur en framan í sig eínhvern tíma seinna. Já, það er nefnilega einmitt það, sko!
![]() |
||||||
.
|
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Norðurbryggja í Kaupmannahöfn hvar Sendiráð Íslands er. |
Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun að veita 10 millj. kr. framlag af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar vegna framkvæmdar afmælisdagskrár á vegum sendiráðanna í Kaupmannahöfn og Berlín.
Megin áhersla verður lögð á að fagna tímamótunum með dagskrá í þessum tveimur mikilvægu samstarfslöndum Íslands; Danmörku og Þýskalandi.
Í fyrra tilvikinu, í ljósi tvíhliða eðlis málsins, munu dönsk stjórnvöld minnast tímamótanna með viðburðum á fræða- og menningarsviðinu, með þátttöku forseta Íslands, auk þess sem Margrét Danadrottning hefur þegið boð forseta Íslands um þátttöku í hátíðarhöldum á Íslandi þann 1. desember 2018.
Í síðara tilvikinu, Þýskalandi, er um að ræða leiðandi ríki í Evrópu, sem jafnframt er eitt allra mikilvægasta samstarfsríki og viðskiptaland Íslands í heiminum í dag.
Sendiráðin í báðum löndum hafa lagt drög að vandaðri og umfangsmikilli dagskrá sem skipulögð hefur verið í nánu samráði við fræða- og menningarstofnanir og kynningarmiðstöðvar heimafyrir og í hlutaðeigandi gistiríkjum.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Ljósm. © Mats Wibe Lund (1. mars 1989). |
Þegar árrisult fólk kveikti á útvarpi að morgni 16. janúar 1995 hljómaði þar sorgartónlist og mátti ljóst vera að eitthvað skelfilegt hefði gerst. Og síðan komu fréttir, fremur óljósar í fyrstu: Snjóflóð hefði fallið á Súðavík, lagt hluta þorpsins í rúst og margir væru látnir. Þegar björgunarstarfi við mjög erfiðar aðstæður lauk var niðurstaðan þessi: Fjórtán manns fórust, þar af átta börn, og tólf slösuðust. Flóðið lenti á tuttugu húsum, en allmargir björguðust ómeiddir.
Björgunaraðgerðir stóðu yfir dögum saman og barst liðsauki víða að. Þáttur leitarhunda reyndist ómetanlegur. Tíu ára drengur fannst á lífi eftir að hafa verið fastur í rústum undir flóðinu í sólarhring. Síðasta líkið fannst ekki fyrr en 37 klukkutímum eftir að flóðið féll. Þetta var mikil blóðtaka fyrir þorpið litla við Álftafjörð í Djúpi, þar sem á þessum tíma bjuggu um 230 manns.
Snjóflóðið féll úr Súðavíkurhlíð og niður í gegnum byggðina um stundarfjórðung yfir klukkan sex. Sextán einbýlishús urðu fyrir flóðinu, sum eyðilögðust gersamlega en önnur skemmdust meira eða minna. Auk þess lenti flóðið á leikskólanum, skrifstofum Súðavíkurhrepps og sambyggðum verkstæðum, húsi Pósts og síma og íbúðablokk, en ekki varð tjón á henni. Seinna þennan dag féll einnig snjóflóð úr Traðargili litlu innar og eyðilagði þrjú hús, sem búið var að rýma.
Í kjölfar snjóflóðsins mannskæða í Súðavík var byggðin flutt um set í land Eyrardals nokkru innar. Núna er „gamla Súðavík“ sumarbyggð.
36 manns fórust í fjórum snjóflóðum
Árin 1994 og 1995 varð manntjón í fjórum snjóflóðum á Vestfjörðum og fórust þar alls 36 manns. Í snjóflóði sem féll á sumarhúsasvæðið í Tungudal í Skutulsfirði að morgni 5. apríl 1994 fórst maður og eiginkona hans slasaðist. Hjón sem voru í öðrum bústað sluppu lítt meidd. Um 40 sumarbústaðir eyðilögðust í flóðinu, sem og flest mannvirki á skíðasvæði Ísfirðinga á Seljalandsdal.
Tveimur dögum eftir snjóflóðið í Súðavík eða að kvöldi 20. janúar 1995 féll snjóflóð við bæinn Grund í Reykhólasveit. Þar fórst einn maður en sonur hans fannst á lífi eftir tólf tíma leit. Íbúðarhúsið á Grund slapp við flóðið en útihús hurfu að mestu.
Síðasta lotan í þessari hrinu mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum var þó hörðust, í mannslífum talið. Tuttugu manns á ýmsum aldri létu lífið í snjóflóðinu á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995. Nokkrir voru grafnir á lífi upp úr flóðinu. Eignatjón var gríðarlegt.
|
||
Súðavík eftir flutning byggðarinnar lítið eitt innar með firðinum. Langeyri fremst á myndinni. Ljósm. © Mats Wibe Lund (10. september 1997). |
Skráð af Menningar-Staður
Listamennirnir koma alls staðar að úr heiminum og hafa eytt síðustu átta dögum
í að kynnast mannlífinu og náttúrunni á Eyrarbakka.
Saga, alþjóðlegt listavinnusetur sem tímabundið dvelur á Eyrarbakka, verður með opnar vinnustofur á morgun þriðjudaginn 16. janúar 2018 klukkan fimm.
Listamennirnir sem koma alls staðar að úr heiminum hafa eytt síðustu átta dögum í að kynnast mannlífinu og náttúrunni á Eyrarbakka. Sjálfbærni og samfélagsbreytingar hafa verið í brennidepli í ár og hafa listamennirnir verið að vinna með unglingum í grunnskólanum á Eyrarbakka, eldri borgurum á Sólvöllum og öðrum íbúum bæjarins.
Meðal verka sem verða afhjúpuð eru videoverk, tónlist, veggmynd, leynistaða gjörningur og performance sunnan við girðinguna á Litla-Hrauni sem byrjar klukkan hálf sjö.
Listamenn vinnustofunnar taka á móti gestum og gangandi hjá Bakka Hosteli klukkan fimm og má þar finna upplýsingar um staðsetningar verkanna. Sum verkanna eru utandyra og er því gott að koma vel klæddur fyrir stutta göngutúra á milli staða. Frekari upplýsingar má finna á facebook síðu listasetursins Saga movement.
Hlekkur: https://www.facebook.com/WeAreTheSagaMovement
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907 - 2002). |
Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.
Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.
Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm. f. 1942 - d. 2007.
Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.
Eiginkona Guðmundar Inga var Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson. Þuríður var fædd þann 6. júlí 1925 og hún lést þann 30. október 2016.
Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.
Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.
Ljóðabækur Guðmundar Inga eru:
Sólstafir 1938,
Sólbráð 1945,
Sóldögg 1958,
Sólborgir 1963
og Sólfar 1981.
Síðan heildarljóðasafn Sóldagar 1993 og 2007 með viðauka.
Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.
Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.
Morgunblaðið.
![]() |
||
Kirkjuból í Bjarnardal í Önundarfirði. Ljósm.: BIB
|
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Hrútavina-ræðupúltið
Hannað og smíðað á Litla-Hrauni árið 2010.
![]() |
||
.
|
![]() |
Sigvaldi Kaldalóns (1881 - 1946) |
Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu 13. janúar 1881, sonur Stefáns Egilssonar múrara og k.h., Sesselju Sigvaldadóttur, ljósmóður Reykjavíkur um árabil.
Stefán var hálfbróðir Jóns í Litlabæ, föður Guðmundar Kamban rithöfundar og Gísla Jónssonar alþingismanns. Í móðurætt var Sigvaldi þremenningur við séra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði. Bróðir Sigvalda var Eggert söngvari.
Sigvaldi lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1902, embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum í Reykjavík 1908 og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann danskri og evrópskri tónlist og einnig eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen hjúkrunarkonu.
Sigvaldi varð héraðslæknir í Nauteyrarhéraði 1910, sem náði yfir innri hluta Ísafjarðardjúps. Hann bjó í Ármúla, örskammt sunnan við hið ægifagra Kaldalón þar sem skriðjökull úr Drangajökli skríður niður í lónið. Svo hugfanginn varð hann af þessu svæði að hann tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns.
Sigvaldi veiktist alvarlega af taugaveiki 1917 og náði sér aldrei að fullu. Hann dvaldist á Vífilsstöðum og á heilsuhæli í Kaupmannahöfn, var síðan héraðslæknir í Flateyjarhéraði 1926-29 og í Keflavíkurhéraði með aðsetur í Grindavík 1929-41. Hann var læknir í Grindavík til 1945 en flutti þá til Reykjavíkur.
Sigvaldi var sannkallað söngvatónskáld og er eitt vinsælasta tónskáld þjóðarinnar, fyrr og síðar.
Hann lærði nótur og fékk aðra tónlistartilsögn hjá dómorganistunum Jónasi Helgasyni og Brynjólfi Þorlákssyni og varð fyrir áhrifum af vini sínum Sigfúsi Einarssyni tónskáldi frá Eyrarbakka.
Meðal þekktustu laga Sigvalda eru t.d. Ísland ögrum skorið; Á Sprengisandi; Suðurnesjamenn; Svanasöngur á heiði; Erla, góða Erla; Ave María; Draumur hjarðsveinsins og Ég lít í anda liðna tíð.
Sigvaldi lést 28. júlí 1946.
Morgunblaðið.
![]() |
Ármúli á Snæfjallaströnd í Nauteyrarhreppi þar sem
Sigvaldi Kaldalóns læknir sat árin 1910-1922.
Gustav Rasmussen apótekari tók myndina síðsumars 1916.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Fimmtíu ný störf á Eyrarbakka
Óskar Örn Vilbergsson og Þór Reynir Jóhannsson hafa kynnt fyrir bæjarráði Sveitarfélagsins Árborgar hugmyndir sínar um byggingu steinullarverksmiðju á landi vestan við Eyrarbakka. „Það eru allar kjöraðstæður á Eyrarbakka undir svona starfsemi, svarti sandurinn úti um allt, sem er uppistaðan í verksmiðju sem þessari, og svo er stutt í höfnina í Þorlákshöfn vegna útflutnings til Evrópu og Kanada,“ segir Óskar Örn sem býr á Eyrarbakka. Hann segir að ef allt gangi eftir verði byrjað á verksmiðjunni í haust og hún gæti orðið tilbúin í framleiðslu tveimur árum síðar.
„Við erum að sjá fyrir okkur að fimmtíu ný störf yrðu til á Eyrarbakka með verksmiðjunni sem yrði mikil vítamínsprauta fyrir þetta litla þorp,“ bætir Óskar Örn við. Bæjarráð Árborgar tók hugmyndinni vel.
„Okkur líst mjög vel á þessa framkvæmd og fögnum því að fá ný atvinnutækifæri í sveitarfélagið. Þetta verður líka umhverfisvæn verksmiðja sem okkur líst vel á, auk þess sem mörg tæknistörf verða í verksmiðjunni,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.
www.visir.is
Magnús Hlynur Hreiðarsson
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Hannibal Valdimarsson (1903 - 1991). |
Hannibal fæddist í Fremri-Arnardal í Skutulsfirði 13. janúar 1903. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson, bóndi þar, og k.h. Elín Hannibalsdóttir.
Bróðir Hannibals var Finnbogi Rútur, alþm. og bankastjóri.
Eiginkona Hannibals var Sólveig Ólafsdóttir og urðu synir þeirra landsþekktir, þeir Arnór heimspekiprófessor, Ólafur, rithöfundur og fyrrv. vþm., og Jón Baldvin, fyrrv. alþm. ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra.
Hannibal lauk prófi frá kennaraskólanum í Jonstrup 1927. Hann var skólastjóri í Súðavík 1929-31, stundaði skrifstofustörf hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga, kenndi 1931-38 og var skólastjóri Gagnfræðaskólans á Ísafirði 1938-54. Hann hóf afskipti af verkalýðsbaráttu um 1930, var formaður Verkalýðsfélags Álftfirðinga í tvö ár og Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði 1932-39, forseti Alþýðusambands Vestfjarða 1934-54 og forseti ASÍ 1954-71, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1933-49, alþm. 1946-73 og ráðherra í tveimur vinstristjórnum, Hermanns Jónassonar 1956-58 og Ólafs Jóhannessonar 1971-73.
Hannibal fór á þing fyrir Alþýðuflokkinn 1946, var formaður flokksins 1952-54, klauf flokkinn 1956 og gekk til kosningasamstarfs við Sósíalista sem forsvarsmaður Málfundafélags jafnaðarmanna undir nafni Alþýðubandalags og var formaður þess 1956-68, skildi þá við Alþýðubandalagið og stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstrimanna 1969 og var formaður þeirra er þau unnu stórsigur í þingkosningum 1971 og felldu Viðreisnarstjórnina. Samtök Hannibals tóku þá þátt í nýrri vinstristjórn sem Hannibal rakst illa í enda bendir ýmislegt til að hann hefði fremur kosið að framlengja Viðreisnarstjórn með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki en að mynda nýja vinstristjórn. Hann lauk síðan stjórnmálaferlinum í gamla góða Alþýðuflokknum sem hann hafði ungur gefið hjarta sitt.
Hannibal lést 1. september 1991.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is