![]() |
||
. Biskupshjónin í Skálholti .
|
F.v. sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli
- nú biskup í Skálholti - skrifar
Kæru sóknarbörn og vinir á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Gaulverjabæ!
Eftir biskupsvígsluna mína í Skálholti sl. sunnudag, 22. júlí, varð ég að segja embættinu mínu lausu sem sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli.
Í staðinn fyrir mig var sr. Arnaldur Bárðarson settur sóknarprestur í fullu starfi frá sama tíma. Hann er settur tímabundið þangað til búið verður að kjósa nýjan prest og fá hann til starfa. Sími Arnaldar er 766 8344 og netfangið er hnykar@gmail.com
Hann er þegar tekinn við og var á Bryggjuhátíðinni á Stokkseyri. Hann verður með fermingarbörnin á námskeiðinu í Selfosskirkju í ágúst og svo byrja messurnar og sunnudagaskóli.
Ég þakka fyrir frábær ár í þjónustunni á Ströndinni bæði í gleði og sorg en umfram allt hef ég eignast góða vini í ykkur.
Mig langar að halda kveðjumessu 19. ágúst 2018 og læt ykkur vita þegar nær dregur.
Kær kveðja,
Kristján Björnsson.
![]() |
Séra Arnaldur Bárðarson. Skráð af Menningar-Staður |
|
||||
|
Áfram Árborg, Framsókn og óháðir, Miðflokkurinn og Samfylkingin stofnuðu til meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Sveitarfélagins Árborgar að afloknum sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí sl. Meginstef málefnasamnings framboðanna er lýðræðisleg og gagnsæ stjórnsýsla.
Seinagangur og ósk um baksamninga
Í mars 2015 samþykkti Bæjarráð Árborgar vilyrði til sex mánaða fyrir úthlutun 16.000 m2 svæðis í miðbæ Selfoss til handa Sigtúns þróunarfélags ehf., sem skuldbatt sig til þess að sjá um og kosta gerð deiliskipulags fyrir svæðið í heild sinni og leggja fyrir sveitarfélagið til umfjöllunar og afgreiðslu. Eftir nær þriggja ára undirbúning, vinnslu og umfjöllun var deiliskipulag miðbæjar á Selfossi síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 21. febrúar 2018. Fjöldi athugasemda bárust vegna deiliskipulagsins og þeirrar aðalskipulagsbreytingar sem nauðsynleg var til að deiliskipulagið gæti öðlast gildi. Í framhaldinu óskaði svo þriðjungur íbúa sveitarfélagsins, eftir því að fá að kjósa um hvort skipulag miðbæjarins á Selfossi byggðri á hugmyndum Sigtúns þróunarfélags ehf., öðlaðist lögformlegt gildi. D-listi Sjálfstæðisflokksins lagði þá nauðbeygður fram þá tillögu fyrir 46. fund bæjarstjórnar þann 14. maí sl. að fá Þjóðskrá Íslands til að undirbúa rafræna íbúakosningu fyrir sveitarfélagið.
Á bæjarráðsfundi þann 5. júlí sl. óskar svo minnihluti D-lista Sjálfstæðisflokksins óvænt eftir því að gerður yrði baksamningur við Sigtún þróunarfélag ehf., sem yrði auglýstur í B-deild stjórnartíðinda með deiliskipulagstillögunni og þar með skuldbinda sveitarfélagið fyrirfram áður en íbúar fengju að segja sitt álit á skipulaginu. Því var að sjálfsögðu hafnað þar sem að gildistaka samnings sveitarfélagsins og Sigtúns þróunarfélags, sem samþykktur var af fimm fulltrúum D-listans þann 13. júlí 2017, öðlast ekki gildi fyrr en skipulagsferlinu er lokið og skipulagið hefur endanlega öðlast gildi.
Meirihluti bæjarstjórnar vill flýta því að fá niðurstöðu
Nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna fyrir sveitarfélagið gögn nægjanlega fljótt svo unnt sé að láta kosninguna fara fram með rafrænum hætti eins og áður hafði verið ákveðið í bæjarstjórn.
Á grundvelli málefnasamnings meirihluta bæjarstjórnar, X. kafla sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 um samráð við íbúa og til þess að tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái að segja sína skoðun á miðbæjarskipulagi Sigtúns þróunarfélags ehf., hefur meirihluti Á-, B-, M- og S-lista því ákveðið að kosningin verði með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum þann 18. ágúst nk. til að fá lýðræðislega niðurstöðu í málið sem allra fyrst. Með því að kjósa þennan dag, gefst rúmur tími til að auglýsa og kynna íbúakosninguna eins og lög gera ráð fyrir. Þá næst einnig að uppfylla tímaramma um auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda verði skipulagið samþykkt í íbúakosningunni.
Í höndum íbúa að velja
Nú er það í höndum íbúa sveitarfélagsins að ákveða hvort að unnið verði áfram með hugmyndir Sigtúns þróunarfélags ehf. eða að uppbygging svæðisins verði með öðrum hætti. Hvort þetta tiltekna deiliskipulag verður samþykkt í íbúakosninguni eða ekki, mun núverandi meirihluti leggja sig fram um að uppbygging á miðbæjarreit Selfoss fari í gang sem allra fyrst.
Málið hefur að okkar dómi verið allt of lengi í undirbúningi og á vinnslustigi. Einnig virðist það hafa klofið íbúa sveitarfélagsins í tvær fylkingar með eða á móti skipulaginu. Það er því von okkar að með því að fá lýðræðislega niðurstöðu með íbúakosningu þann 18. ágúst nk. náist sátt um framhald eða lok málsins.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi Sigurðurður Haraldsson, B-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista
![]() |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Matthías Ólafsson (1857 - 1942).
|
Matthías Ólafsson alþingismaður fæddist í Haukadal í Dýrafirði 25. júlí 1857.
Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, f. 11.6. 1819, d. 31.12. 1899, bóndi þar og k.h. Ingibjörg Jónsdóttir, f. 16.5. 1823, d. 24.6. 1911, húsfreyja.
Langfeðgar Ólafs höfðu búið tvær aldir eða lengur í Haukadal mann fram af manni, en Ingibjörg var afkomandi Jóns Arnórssonar, sýslumanns í Arnardal við Ísafjarðardjúp, af svonefndri Arnardalsætt. Meðal systkina Matthíasar var Jóhannes Ólafsson alþingismaður.
Eiginkona Matthíasar var Marsibil Ólafsdóttir, f. 4.9. 1869, d. 24.7. 1964 húsmóðir. Foreldrar hennar voru Ólafur Pétursson, skipstjóri á Þingeyri, og k.h. Þórdís Ólafsdóttir. Matthías og Marsibil eignuðust 15 börn.
Matthías tók gagnfræðapróf frá Möðruvöllum 1882, var við verslunarstörf í Haukadal 1882-1889 og á Flateyri 1889-1890.
Hann stofnaði með öðrum í Haukadal fyrsta barnaskóla í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1885 og kenndi sjálfur við hann til 1889 þegar skólinn var lagður niður og skólahald fluttist á Þingeyri. Þá keypti hann skólahúsið og rak þar verslun til 1897 þegar hann seldi hana, gerðist verslunarstjóri þar 1897-1908 og keypti svo verslunina á ný. Matthías seldi hana síðan aftur þegar hann fluttist til Reykjavíkur 1914 og gerðist erindreki Fiskifélags Íslands. Hann ferðaðist í markaðsleit á vegum Fiskifélags og ríkisstjórnar um Bandaríkin, Ítalíu og Spán 1917-1920. Þegar það starf var lagt niður varð Matthías gjaldkeri Landsverslunar 1920-1928 og forstöðumaður vöruskömmtunarskrifstofu ríkisstjórnarinnar 1920-1921. Síðan var hann starfsmaður hjá Olíuverslun Íslands 1928-1935.
Matthías var alþingismaður V-Ísfirðinga 1911-1919.
Þegar Matthías hætti störfum flutti hann ásamt konu sinni í Borgarnes til Hlífar, dóttur þeirra.
Matthías lést 8. febrúar 1942 á Landspítalanum.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Fánasetur Suðurlands flaggar norskum
Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggar norskum þjóðfána í dag,
þriðjudaginn 24. júlí 2018.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Birgir Sveinsson (1940 - 2018). |
Birgir Sveinsson - Fæddur 5. apríl 1940
- Dáinn 10. júlí 2018 - Minning
Birgir Sveinsson var fæddur 5. apríl 1940 á Eyrarbakka. Hann lést á Ljósheimum, Selfossi 10. júlí 2018.
Foreldrar hans voru Sveinn Árnason, fæddur 1913, og Sveinbjörg Kristinsdóttir, fædd 1922. Hann var uppalin á Eyrarbakka, elstur systkina sinna, alsystkini hans sammæðra eru Guðleif og Sigríður, fæddar 1944, Sigurbjörg, fædd 1945, og Júlía, fædd 1949, hálfsystkini hans eru Guðlaugur Grétar, fæddur 1956, Halldóra, fædd 1957, og Gísli, fæddur 1958.
Birgir var kvæntur Guðnýju Hallgrímsdóttur frá Vestra Íragerði á Stokkseyri.
Börn Birgis og Guðnýjar eru:
1) Brynjar, fæddur 1965, eiginkona hans er Ólafía Helga Þórðardóttir, synir þeirra eru Daníel Orri og Arnór Daði.
2) Jón Guðmundur, fæddur 1968, eiginkona hans er Oddný Sigríður Gísladóttir, börn þeirra eru Andrea Ýr, Rakel Eir, Patrekur Máni og Arnar Breki.
3) Auðunn, fæddur 1972, eiginkona hans er Daðey Ingibjörg Hannesdóttir, dætur þeirra eru Arna, Ásdís, Þóra og Auður.
4) Guðni, fæddur 1973, eiginkona hans er Ingigerður Tómasdóttir, börn þeirra eru Bergsveinn Hugi, Björgvin Már og Ingunn.
5) Júlía, fædd 1976, eiginmaður hennar Guðmundur Halldór Magnússon, dóttir þeirra er Sólborg Vanda, uppeldissonur hennar er Óskar Halldór, sambýliskona hans er Halldóra Magnúsdóttir, sonur þeirra er Guðmundur Atli.
Birgir og Guðný skildu í kringum 1986.
Birgir bjó á Eyrarbakka þar til hann veiktist fyrir ári síðan. Síðustu mánuði ævi sinnar dvaldi hann á Ljósheimum, Selfossi.
Birgir vann á ýmsum stöðum um ævina. Hann vann í Plastiðjunni á Eyrarbakka, stundaði sjómennsku í mörg ár og byrjaði sem háseti og varð síðar vélstjóri. Hann var lengi á Birninum, einnnig á Jóhanni Þorkelssyni. Um tíma átti hann sjálfur hraðfiskibát sem bar nafnið Snarfari. Hann var vörubílstjóri til margra ára og vann hann þá m.a. við sjóvarnargarðinn á Eyrarbakka. Meðfram bílstjórastarfinu rak hann um tíma sjoppu á Eyrarbakka ásamt þáverandi eiginkonu sinni.
Útför Birgis fór fram í kyrrþey frá Eyrarbakkakirkju að ósk hins látna laugardaginn 14. júlí 2018.
__________________________________________________________________________________________________
Minningarorð
Síðastliðinn laugardag kvöddum við pabba, tengdapabba og afa frá Eyrarbakkakirkju.
Þegar kemur að kveðjustund þá ósjálfrátt lætur maður hugann reika til liðinna daga og hugsar um allar stundirnar sem við áttum með Birgi. Þá koma fyrst upp í hugann allar veiðiferðirnar sem voru farnar m.a. í Brynjudalsá, Sogið og ferðirnar út á engjar á Eyrarbakka. Birgir var vanafastur og vildi alltaf fara á sömu veiðistaðina og átti það til að standa sem fastast þó svo það væri ekki einu sinni nartað í. Birgir var mikill sælkeri og frábær bakari og átti hann alltaf tertur og kleinur í frysti. Ef við komum í heimsókn þá voru þessar kræsingar bornar fram og alltaf lagað súkkulaði og það varð að vera þeyttur rjómi með.
Sólþurrkaði saltfiskurinn hans var líka algjört sælgæti og nostraði hann við fiskinn meðan hann var að þurrka hann. Tók þetta allt vorið og var fiskurinn settur út um leið og það kom sólarglæta en þetta þurfti að gera áður en flugan kom og það mátti ekki heldur vera of mikil sól því þá gat fiskurinn brunnið.
Það er ekki hægt að segja að Birgir hafi verið duglegur að fara í boð en þó var það eitt boð sem hann missti aldrei af, það var skötuveislan hjá okkur í hádeginu á Þorláksmessu. Hann mætti alltaf fyrstur og kom hann þá með sólþurrkaða saltfiskinn sinn sem hann var búinn að útvatna fyrir þá sem borðuðu ekki skötuna. Þarna hitti hann öll börnin sín, tengdabörn og barnabörn. Á aðfangadag vildi hann alltaf vera einn og það var alveg sama hvað við reyndum til að fá hann í mat til okkar, hann vildi hann vera heima hjá sér. Birgir var mjög heimakær og vildi frekar fá fólk í heimsókn til sín. Í hádeginu á jóladag bauð hann börnum, tengdabörnum og barnabörnum í mat þar sem borinn var fram hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi, margar tegundir af ís í eftirrétt og á borðum voru allar mögulegar tegundir af konfekti. Við vorum varla búin að renna niður eftirréttinum, þegar bornar voru fram tertur og brauðréttir. Með þessu hitaði hann súkkulaði og þeytti rjóma með. Þetta varð alltaf að vera eins og mátti helst ekki breyta þeim tegundum sem voru bornar fram.
Þegar ég heyrði í pabba þá spurði hann alltaf frétta af aflabrögðum og finnst mér erfitt að hugsa til þess að geta ekki hringt í hann og spjallað um daginn og veginn. Hann spurði alltaf um alla þegar við heyrðumst og vildi vita hvort allir væru ekki við góða heilsu.
Birgir var yndislegur pabbi, tengdapabbi og afi og minnist ég þess að hann skammaði okkur systkinin aldrei heldur ræddi málin og sagði sína skoðun á hlutunum.
Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Þín verður sárt saknað.
Brynjar, Lóa, Daníel Orri og Arnór Daði.
Morgunblaðið 23. júlí 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
![]() |
Nýr vígslubiskup kom víða við í predikun sinni.
|
Séra Kristján Björnsson var vígður til embættis vígslubiskups í Skálholti í dag af Agnesi Sigurðardóttir biskupi Íslands. Séra Kristján var kjörinn vígslubiskup á vordögum. Hann er fráfarandi prestur á Eyrarbakka.
Biskupar frá hinum Norðurlöndunum tóku þátt í athöfninni í dag og með biskupi þjónuðu fyrir altari séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup Hólaumdæmis, séra Kristján Valur Ingólfsson, fráfarandi vígslubiskup, og séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti.
Séra Pálmi Matthíasson lýsti vígslu og Skálholtskórinn söng undir stjórn Jóns Bjarnasonar organista.
Nýr vígslubiskup kom víða við í predikun sinni og ræddi loftslagsmál sem eitt brýnasta viðfangsefni samtímans, stöðu kvenna og minnihlutahópa í samfélaginu.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
|
Fánasetur Suðurlands flaggar íslenskum
Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggar íslenskum fána í dag, sunnudaginn 22. júlí 2018.
Tilefnið er að í dag verður Eyrarbakkapresturinn séra Kristján Björnsson vígður vígslubiskup í Skálholti.
Hamingjuóskir.
![]() |
. Séra Kristján Björnsson í Eyrarbakkakirkju. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Skálholtsdómkirkja. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
|
Í dag á Skálholtsshátíð 22. júlí 2018 vígir frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Eyrarbakkaprestinn sr. Kristján Björnsson, nýkjörinn vígslubiskup í Skálholti og setur hann í embætti við messu í Skálholtsdómkirkju.
Messan hefst kl. 13.30 og er fólk hvatt til að koma tímanlega á staðinn. Prestar og biskupar ganga hempuklæddir og skrýddir úr skóla til kirkju með öðrum vígsluvottum og gestum og pílagrímar ljúka göngu sinni úr Strandarkirkju og ofan úr Borgarfirði með þessari kirkjugöngu.
Eftir vígslumessuna, sem er opin öllum, býður biskup Íslands til kaffiveitinga í Skálholtsskóla.
Vonast biskuparnir eftir góðri þáttöku kirkjunnar fólks á Íslandi og vonandi verður hátíðin það vel sótt að sjónvarpað verði yfir í skóla fyrir þau sem ekki komast inn í kirkjuna í sæti eða stæði.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður. |
![]() |
Eiríkur J. Eiríksson (1911 - 1987). |
Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, skólastjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist 22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.
Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur.
Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.
Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.
Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.
Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.
Kona Eiríks var Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.
Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.
![]() |
||||||||
.
|
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is