![]() |
Guðni Jónsson (1901 - 1974).
|
Guðni fæddist 22. júlí 1901 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar, f. 17.9. 1856, d. 8.9. 1941 í Vestmannaeyjum, bónda og formanns þar, og seinni konu hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Sandvíkurhr., Árn., f. 1.9. 1867, d. 2.4. 1937 í Vestmannaeyjum.
Faðir hans veiktist og fór Guðni tveggja vikna gamall með móður sinni að Leirubakka í Landsveit. Foreldrum hans tókst að setja saman bú að nýju, en Guðni dvaldi áfram á Leirubakka og ólst þar upp.
Guðni varð stúdent frá MR 1924 og mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1930. Hann var um tíma við nám í Kaupmannahöfn 1928 og aftur 1937.
Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 og skólastjóri við sama skóla 1945-1957. Prófessor í sögu Íslands við Háskóla Íslands var hann 1958-1967, þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var forseti heimspekideildar HÍ 1959-1961. Hann varð doktor frá Háskóla Íslands 1953, en doktorsritgerð hans, Bólstaðir og bændur í Stokkseyrarhreppi, varð brautryðjandaverk í íslenskri staðháttasögu.
Guðni tók mikinn þátt í félagsstörfum, var forseti Sögufélagsins 1960-65, formaður Ættfræðifélagsins 1946-67 og sat í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943-56. Hann var höfundur fjölmargra sagnfræðirita og stofnaði til stórútgáfu íslenskra fornrita 1946 og sá hann sjálfur um útgáfu 32 binda af þeim. Meðal ættfræðirita hans er Bergsætt.
Fyrri kona Guðna var Jónína Pálsdóttir, f. 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja í Reykjavík.
Börn þeirra:
Gerður, Jón, Bjarni, Þóra og Margrét.
Seinni kona hans var Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsfreyja í Reykjavík.
Börn þeirra:
Einar, Bergur, Jónína Margrét og Elín.
Tveir sona Guðna, Jón og Bjarni, urðu einnig prófessorar við Háskóla Íslands.
Guðni Jónsson lést 4. mars 1974.
Skráð af Menningar-Staður.
|
||
21. júlí 1963 - Skálholtskirkja vígð
Skálholtskirkja var vígð þann 21. júlí 1963 við hátíðlega athöfn að viðstöddum áttatíu prestum, próföstum og biskupum.
„Skálholt er meira en minningin, hærra en sagan,“ sagði Sigurbjörn Einarsson biskup í vígsluræðunni. „Heill og blessun búi hér og breiðist héðan út.“
Kirkjuna teiknaði Hörður Bjarnason, altaristafla er eftir Nínu Tryggvadóttur og steindir gluggar eftir Gerði Helgadóttur.
|
||
![]() |
Í dag, laugardaginn 21. júlí 2018, verður þess minnst að fimm ár eru liðin frá því að Fischersetrið á Selfossi var stofnað.
Afmælishátíðin hefst í Laugardælakirkju kl. 15:30. Þar mun séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, fyrrverandi sóknarprestur Selfossprestakalls, sjá um minningarathöfn og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, flytja ræðu. Að athöfn lokinni verður boðið upp á kaffi í Fischersetri þar sem Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, mun flytja ávarp.
Davíð Oddsson
var utanríkisráðherra þegar Fischer var gerður að íslenskum ríkisborgara. Fróðlegt verður að heyra Davíð segja söguna um aðdraganda þessarar ákvörðunar og átökin í kringum meistarann, en málið var afgreitt á Alþingi á 12 mínútum.
Guðmundur G. Þórarinsson
var í þeirri öflugu sendinefnd sem sótti meistarann til Japans þar sem hann var í fangelsi. Ennfremur var Guðmundur G. forseti Skáksambandssins þegar einvígi aldarinnar var háð í Reykjavík árið 1972.
Fischer var jarðaður í Laugardælakirkjugarði síðla nætur án vitundar séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar sem þá var prestur í Laugardælakirkju. Það varð svo hlutskipti séra Kristins að jarðsyngja meistarann nokkrum sinnum og annast lokajarðaförina eftir að Fischer var grafinn upp til að ná lífsýni úr honum.
Allir eru velkomnir á afmælishátíðina.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993).
|
Sveinbjörn Finnsson fæddist 21. júlí 1911 á Hvilft í Önundarfirði.
Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveinsdóttir, húsfreyja. Foreldrar Finns voru Finnur Magnússon, bóndi á Hvilft, og k.h. Sigríður Þórarinsdóttir, og foreldrar Guðlaugar voru Sveinn Rósinkranzson, útvegsbóndi og skipstjóri á Hvilft, og k.h. Sigríður Sveinbjörnsdóttir, húsfreyja.
Sveinbjörn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1933 og hagfræðiprófí frá London School of Economics 1939.
Hann var verksmiðjustjóri Síldarverksmiðju ríkisins á Sólbakka í Önundarfirði 1935-1937, fulltrúi í Verðlagsnefnd og Tveggjamannanefnd 1939-1941, skrifstofustjóri Viðskiptanefndar utanríkisviðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlagsstjóri á Íslandi 1943-1946.
Hann var frumkvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954.
Hann var hvatamaður að stofnun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 1952 og var framkvæmdastjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkjabandalagsins.
Sveinbjörn kenndi við Vogaskóla í Reykjavík 1963-1979 og var yfirkennari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfsfræðslu í skólum landsins.
Sveinbjörn var staðarráðsmaður við Skálholt 1964-1990, en hann var einn af stofnendum Skálholtsfélagsins sem hefur unnið að því að endurreisa Skálholtsstað.
Sveinbjörn var sæmdur Skálholtsorðunni, til minningar um vígslu Skálholtskirkju árið 1963, og gullþjónustupeningi með kórónu af Danadrottningu árið 1973.
Eiginkona Sveinbjörns var Thyra Finnsson, fædd Friis Olsen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slagelse í Danmörku. Hún var húsfreyja og ritari.
Börn þeirra:
Gunnar, f. 1940, d. 2014, Arndís, f. 1943, Hilmar, f. 1949, og Ólafur William, f. 1951.
Sveinbjörn Finnsson lést 1. apríl 1993.
___________________________________
Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:
Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.
Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:
Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri
senda skal þér kveðju hlýja.
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja.
Enn þú heldur austurleiðir,
— ekki bregður vana þínum.
Fagurt Skálholt faðminn breiðir,
— fagnar einkavini sínum.
Auðunn Bragi Sveinsson.
![]() |
Hvilft í Önundarfirði. |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Ísfirðingurinn Gísli Halldór Halldórsson. |
-Ísfirðingurinn-
Gísli Halldór Halldórsson
ráðinn bæjarstjóri í Árborg
Nýr meirihluti í bæjarstjórn Árborgar hefur gengið frá ráðningarsamningi við Ísfirðinginn Gísla Halldór Halldórsson um starf bæjarstjóra í Árborg.
Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í morgun. Formlega verður gengið frá ráðningu Gísla á næsta fundi bæjarráðs þann 2. ágúst og mun hann hefja störf síðar í ágústmánuði. Eggert segir nýja meirihlutann vænta mikils af störfum Gísla í framtíðinni.
Gísli Halldór er 51 árs gamall og hefur undanfarin fjögur ár starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Áður var hann forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 2006 til 2014, auk þess að gegna formennsku í ýmsum ráðum og nefndum á vegum bæjarins.
Gísli Halldór lauk Cand. Oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og námi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2010.
Fimmtán umsækjendur voru um starf bæjarstjóra en ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs. Sjö umsækjendur voru boðaðir í viðtal.
Gísli er kvæntur Gerði Eðvarsdóttur, fjármálastjóra Snerpu, og eiga þau þrjú uppkomin börn. Þau hjónin munu flytja í sveitarfélagið á næstu vikum.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Þorláksbúð og Skálholtsdómkirkja sem Hörður Bjarnason teiknaði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi.
Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí.
Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans.
Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.
Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Sigurður Helgason (1921 - 2009). |
Merkir Íslendingar - Sigurður Helgason
Sigurður Helgason fæddist 20. júlí 1921 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Helgi Hallgrímsson, f. 1891, d. 1979, fulltrúi og k.h. Ólöf Sigurjónsdóttir, f. 1890, d. 1970, kennari.
Sigurður lauk námi í viðskiptafræðum frá Columbia-háskóla í New York árið 1947. Hann var framkvæmdastjóri Orku hf. og Steypustöðvarinnar 1948-61, varaformaður stjórnar Loftleiða hf. 1953-74, framkvæmdastjóri Loftleiða í New York 1961-74, framkvæmdastjóri Flugleiða hf. 1974-79 og forstjóri Flugleiða hf. 1979-84. Hann var síðan stjórnarformaður Flugleiða til ársins 1991. Hann sat í stjórn Cargolux í Lúxemborg 1977-86, þar af sem varaformaður árin 1980-86.
Sigurður sat í stjórn International House í New York frá 1986, var meðlimur Wings Club í New York frá 1962 og sat í stjórn 1972-75. Hann var formaður Íslensk-ameríska félagsins 1975-87, í Rotaryklúbbi Reykjavíkur frá 1978, í fulltrúaráði Landakotsspítala 1979-90, í stjórn American Scandinavian Foundation í New York 1970-75 og frá 1982, stjórnarformaður Álafoss hf. 1986-91, stjórnarmaður í Verslunarráði Íslands 1982-91, í framkvæmdastjórn VSÍ 1978-87, í landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins 1984-91, í stjórnarnefnd Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA) 1988-90 og Samtaka Evrópuflugfélaga 1979-90 og sat í stjórn The Mustique Company og formaður fjárhagsnefndar þess félags 1994-98. Hann sat einnig í stjórn Stangveiðifélagsins Hofsár ehf. frá árinu 1999.
Sigurður varð heiðursborgari Winnipeg 1965, hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1972, Grand Officier af Chène-orðuna í Lúxemborg 1986, gullmerki Flugmálafélags Íslands 1986 og Harry Edmonds-viðurkenningu International House 2007.
Eiginkona Sigurðar var Unnur Hafdís Einarsdóttir, f. 20.2. 1930, d. 1.10. 2005, húsmóðir. Börn þeirra eru Ólöf, Edda Lína, Helgi og Sigurður Einar.
Sigurður lést 8. febrúar 2009
Morgunblaðið föstudagurinn 20. júlí 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
|
Fánasetur Suðurlands flaggaði sænskum
Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggaði sænska þjóðfánanum í dag, fimmtudaginn 19. júlí 2018.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Guðmundur Guðmundarson (1920 - 2009).
|
Merkir Íslendingar - Guðmundur Guðmundarson
Guðmundur Guðmundarson fæddist 18. júlí 1920 á Eyrarbakka.
Foreldrar hans voru Ragnheiður Lárusdóttir Blöndal, f. 1875, d. 1957, húsfreyja, og Guðmundur Guðmundsson, f. 1876, d. 1967, kaupfélagsstjóri á Eyrarbakka. Guðmundur var yngstur níu systkina og sá síðasti sem fæddist í Húsinu á Eyrarbakka þar sem fjölskyldan bjó.
Guðmundur brautskráðist frá Verzlunarskóla Íslands 1938 og hlaut þá sérstök ritgerðarverðlaun. Hann hóf skrifstofustörf hjá Héðni hf. og vann þar síðar sem aðalgjaldkeri til ársins 1956. Hann var meðeigandi í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur 1947-1964 og framkvæmdastjóri þar 1956-58, framkvæmdastjóri og meðeigandi Linduumboðsins frá 1958 og síðar eigandi og framkvæmdastjóri heildverslunarinnar ABC hf.
Guðmundur var gjaldkeri í stjórn Heimdallar 1937-45, í stjórn styrktar- og sjúkrasjóðs VR frá 1964 í mörg ár, gjaldkeri í umdæmisstjórn Lions 1963-64, formaður Lionsklúbbs Ægis 1969, var í fyrstu stjórn Félags aldraðra, í stjórn SÍBS frá 1962 og ritari þar frá 1974 í mörg ár. Hann sat í stjórn Múlalundar frá 1963 og var stjórnarformaður þar frá 1972 í mörg ár.
Guðmundur var hagyrðingur og samdi m.a. gamanvísur fyrir Bláu stjörnuna, texta við spænsk barnalög sem dótturdóttir hans, Katla María, söng inn á hljómplötur og texta við lagið Bella símamær.
Um þrjátíu ára skeið skrifaði Guðmundur greinar í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi órímaðan kveðskap, atómljóðin svokölluðu, en honum fannst slíkur kveðskapur ekki verðskulda að kallast ljóð.
Guðmundur var kvæntur Gróu Helgadóttur, f. 17.4. 1917, d. 13.1. 1988, píanókennara.
Börn þeirra eru:
Helga Sesselja, f. 1945, Guðmundur Steinn, f. 1948, og Sigurður Ingi, f. 1949.
Guðmundur lést 16. desember 2009.
Morgunblaðið fimmtudagurinn 19. júlí 2018.
|
||
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Íbúakosning um miðbæjarskipulagið verður 18. ágúst 2018
Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum á dögunum að íbúakosning um miðbæjarskipulag á Selfossi fari fram laugardaginn 18. ágúst næstkomandi.
Stefnt er að því að kosningin verði með hefðbundnum hætti í kjördeildum og kjörstaðir verði opnir frá kl. 9:00 – 18:00.
Á fundi bæjarstjórnar þann 14. maí voru samþykktar þær spurningar sem lagðar verða fyrir í íbúakosningunni. Þær eru eftirfarandi:
Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)
Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)
Verði kosningaþátttaka meiri en 29% verður niðurstaða kosninganna bindandi fyrir bæjarstjórn en ef færri en 29% taka þátt verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar um skipulagið.
Ákveðið hafði verið að kosningin færi fram með rafrænum hætti en nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna gögn fyrir sveitarfélagið nægjanlega fljótt svo það sé unnt. Því verður kosningin með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður. |
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is