Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2018 Júlí

03.07.2018 08:55

Bryggjuhátíð Stokkseyrar 2018

 

 
 
 

Bryggjuhátíð Stokkseyrar 2018

        

             6.  7. og 8. júlí

 Skráð af Menningar-Staður.

 

03.07.2018 07:41

Marþræðir í Húsinu á Eyrarbakka fram í september 2018

 

 

 

Marþræðir

 

í Húsinu á Eyrarbakka fram í september 2018

 

Marþræðir, sumarsýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka, er tileinkuð fullveldisárinu 1918 með nýstárlegu móti. Sýningin er fullveldisárið með augum listamannsins Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur þar sem sjávargróður og önnur náttúra fyllir rýmið. Marþræðir er samspil textílverka listamanns við safneign og veitir frumlega sýn á söguna. Þótt árið 1918 hafi talist slæmt ár bæði vegna kulda og pestar þá voru landsmenn ekki óvanir slíkum aðstæðum og kunnu að nýta sér gjafir náttúrunnar. Fjörunytjar eru mikilvægasti þráður sýningarinnar og hráefni eins og sjávargróður ásamt ullinni vísa í bjargræði fólks þegar illa áraði.

 

Ásta Vilhelmína hefur unnið með ólík efni í verkum sínum og oft nýtt sér hráefni úr fjörunni og hafinu. Hún hefur frá árinu 1998 tekið þátt í fjölda tísku- og hönnunarsýninga hérlendis sem erlendis og er ein af þeim sem nú reka verslunina Kirsuberjatréð. Á síðari árum hefur hún fært list sína mun frekar yfir á svið innsetninga og listasýninga. Hún hefur tekið þátt í ólíkum samstarfsverkefnum m.a. í Suður-Kóreu og Japan. Hennar einstaka þekking á náttúrulegum hráefnum skilar sér í mjög áhugaverðri sumarsýningu.

 

Sýningin er opin daglega, eins og safnið allt, kl. 11–18 fram til 30. september 2018.

 

 

Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir.


 
Skráð af Menningar-Staður.

 

 

03.07.2018 07:20

Mikill áhugi á Strandmenningarhátíðinni 2018

 

 

 

 

Mikill áhugi á Strandmenningarhátíðinni 2018

 

Nor­ræna strand­menn­ing­ar­hátíðin verður nú hald­in í sjö­unda sinn á Siglufirði dagana 4. - 8. júlí 2018, en það eru Vita­fé­lagið-Íslensk strand­menn­ing, Síld­ar­minja­safn Íslands og Fjalla­byggð sem standa að hátíðinni í sam­vinnu við Þjóðlaga­hátíð.

 

Á hátíðinni verður sungið, smíðað og þæft, unnið með roð, rekavið, ull og net, mynd­ir sýnd­ar og járnið hamrað. Einnig verður dansað, leikið og málþing hald­in.

 

Mik­ill áhugi er á hátíðinni bæði hér­lend­is og er­lend­is en þátt­tak­end­ur koma frá öll­um Norður­lönd­un­um. Nú hef­ur fólk frá Króa­tíu óskað eft­ir að fá að upp­lifa hátíðina og sýna jafn­framt brot af eig­in strand­menn­ingu.

 

Norðmenn, sem þykja þjóða fremst­ir í varðveislu, nýt­ingu og ný­sköp­un á menn­ing­ar­arf­in­um, sigla skip­inu M/?S Gamle Oksøy til Siglu­fjarðar hlöðnu minni bát­um og sýn­ing­ar­grip­um. Dan­ir miðla sögu freigát­urnn­ar Jyl­l­and sem færði okk­ur Íslend­ing­um stjórn­ar­skrána á sín­um tíma, og í sam­starfi við Bohuslän Muse­um í Uddevalla í Svíþjóð verður sögu­sýn­ing á Síld­ar­minja­safn­inu um síld­veiðar Svía við Íslands­strend­ur. Einnig á að kynna ólík­ar skandi­nav­ísk­ar út­færsl­ur á síld­ar­rétt­um og bjóða hátíðargest­um að bragða á. Græn­lend­ing­ar senda bæði söng- og leik­listar­fólk.

 

Sigl­firsk­ar síld­ar­stúlk­ur ætla að standa vörð um gömlu verkþekk­ing­una og salta síld á plan­inu við Róalds­brakka og boðið verður upp á báta­smíðanám­skeið í gamla Slippn­um og málþing fer fram um varðveislu og viðhald báta.

 

Þátt­taka Íslend­inga verður fjöl­breytt og má nefna sigl­inga­klúbba lands­ins, eldsmiði og hand­verks­fólk sem vinn­ur með ull, roð, æðard­ún o.fl. Báta­smiðir verða við vinnu, ljós­mynda­klúbb­ur Fjarðabyggðar verður með sýn­ingu í Sauðanes­vita og börn­in fá stefnu­mót við hafið.

 

 

.

 

 

Vitar Íslands í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.

 

Skráð af Menningar-Staður.

 

 

02.07.2018 09:10

Merkir Íslendingar - Gísli Oddsson

 

 
Skálholtsdómkirkja Brynjólfs Sveinssonar.
 

 

Merkir Íslendingar - Gísli Oddsson

 

Gísli Odds­son bisk­up fædd­ist árið 1593. Ekki er getið í heim­ild­um hvar, en faðir hans, Odd­ur Ein­ars­son, f. 1559, d. 1630, var þá orðinn bisk­up í Skál­holti. Móðir Gísla og eig­in­kona Odds var Helga Jóns­dótt­ir, f. 1567, d. 1662.

 

Gísli lærði í Skál­holts­skóla og inn­ritaðist í Kaup­mann­ar­hafn­ar­há­skóla 8.10. 1613 og var þar í tvö ár.

 

Gísli var kirkjuprest­ur í Skál­holti 1616-1618 og rektor í Skál­holti 1620-21. Hann var prest­ur í Staf­holti í Borg­ar­f­irði 1622 og Holti und­ir Eyja­fjöll­um 1623. Hann varð aðstoðarmaður föður síns 1629 og kjör­inn bisk­up í Skál­holti á Alþingi 29.6. 1631. Hann fór síðan til Kaup­manna­hafn­ar og fékk staðfest­ingu kon­ungs 10.1. 1632, vígðist þá um vet­ur­inn og kom aft­ur heim um vorið.

 

Gísli var vel liðinn og lít­il­lát­ur, kraftamaður hinn mesti, tal­inn drykk­felld­ur en fór vel með áfengi. Hann beitti sér fyr­ir versl­un­ar­mál­um lands síns þegar hann fór út 1631, og fékk góða áheyrn, og einnig í öðrum efn­um síðar var hann á verði fyr­ir hönd lands­manna. Hann var vel að sér í ís­lensk­um fræðum og kirkju­lög­um og orti kvæði bæði á ís­lensku og lat­ínu.

 

Rómuð var þekk­ing Gísla á nátt­úru­vís­ind­um og skrifaði hann tvær rit­gerðir um þau efni, „De mira­bili­bus Islandiæ“ og „Anna­li­um farrago“. Í fyrr­nefndu rit­gerðinni er að finna mik­inn fróðleik um ýmis fyr­ir­brigði á himn­um og þjóðtrú Íslend­inga á 17. öld. Hún ber þess merki að vera rituð und­ir áhrif­um raun­hyggju, en er jafn­framt gegn­sýrð eldri heims­mynd.

 

Gísli kvænt­ist 1622 Guðrúnu Björns­dótt­ur, d. 1633. For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Björn Bene­dikts­son, sýslumaður á Munkaþverá í Eyjaf­irði, og Elín Páls­dótt­ir, dótt­ir Staðar­hóls-Páls. Gísli og Guðrún áttu ekki börn, sem lifðu. Áður hafði Gísli átt laun­barn með Gróu Eyj­ólfs­dótt­ur, prests í Görðum á Akra­nesi, Arnþórs­son­ar, en það dó ungt.

 

Eft­ir­maður Gísla á bisk­ups­stóli var Brynj­ólf­ur Sveins­son sem fæddur var að Holti í Önundarfirði.

 

Gísli lést á Þing­völl­um 2. júlí 1638.
 

 

Brynjólfsdómkirkja í Skálholti.        Morgunblaðið mánudagurinn 2. júlí 2018.


 


Skráð af Menningar-Staður

 

02.07.2018 07:13

Bryggjuhátíð á Stokkseyri um næstu helgi

 

 

 

Bryggjuhátíð á Stokkseyri um næstu helgi

 

 

Bryggjuhátíð á Stokkseyri verður haldin dagana 6.–8. júlí 2018.

 

Hátíðin verður öll hin glæsilegasta þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Dagskráin hefst formlega á föstudagskvöldinu 6. júlí með brennu, söng og skemmtiatriðum á Bryggjunni. Laddi mætir með skemmtiatriði og Magnús Kjartan spilar undir bryggjusöng.

 

Á laugardeginum 7. júlí mun leikhópurinn Lotta sýna Gosa á sjopputúninu, andlitsmálning verður í boði, sem og leiktæki frá Hopp og Skopp. Von er á Krúserklúbbnum með glæsilega fornbíla og markaðsstemning verður í grunnskólanum.

 

Dagskrá lýkur á sunnudeginum 8. júlí að lokinni lopapeysumessu á bryggjunni.

 

Alla helgina verða vinnustofur listamanna, söfn og veitingastaðir opnir gestum. Lögð er áhersla á að skemmtiatriði og leiktæki séu án endurgjalds og því tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og eyða stund í fallegu þorpi, taka þátt í dagskránni, upplifa fjöruna, náttúruna og mannlíf á Stokkseyri.

 

Allar frekari upplýsingar og dagskrárliði má finna á facebooksíðu hátíðarinnar.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

01.07.2018 09:10

1. júlí 1875 - Alþingi tók til starfa sem lög­gjaf­arþing

 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879)

frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

 

1. júlí 1875 -

 

Alþingi tók til starfa sem lög­gjaf­arþing

 

 

Þann 1. júlí 1875 tók Alþingi til starfa sem lög­gjaf­arþing, í sam­ræmi við nýja stjórn­ar­skrá frá 1874. Jón Sig­urðsson var for­seti neðri deild­ar og sam­einaðs þings en Pét­ur Pét­urs­son bisk­up for­seti efri deild­ar. Deilda­skipt­ing var af­num­in í lok maí 1991.

 Skráð af Menningar-Staður.

01.07.2018 09:02

Merkir Íslendingar - Theódóra Thoroddsen

 


Theódóra Thoroddsen (1863 - 1954).
 

 

Merkir Íslendingar - Theódóra Thoroddsen

 

 

Theó­dóra Thorodd­sen skáld­kona fædd­ist að Kvenna­brekku í Döl­um 1. júlí 1863.For­eldr­ar henn­ar voru Katrín Ólafs­dótt­ir og Guðmund­ur Ein­ars­son, prest­ur og alþing­ismaður, en hann var móður­bróðir Matth­ías­ar Jochumsson­ar skálds.


 

Theó­dóra stundaði nám í Kvenna­skól­an­um í Reykja­vík og út­skrifaðist 1879. Hún gift­ist Skúla Thorodd­sen; lög­fræðingi, sýslumanni, ritsjóra og alþingismanni og eignuðust þau þrett­án börn. Þau bjuggu um skeið á Ísaf­irði og ráku þar versl­un, flutt­ust að Bessa­stöðum og síðar að Von­ar­stræti 8, sem nú hef­ur verið flutt í Kirkju­stræti.
 

Þulur Theó­dóru komu fyrst út 1916. Syst­ur­son­ur henn­ar, Guðmund­ur Thor­steins­son, Mugg­ur, myndskreytti. Þær hafa reglu­lega verið end­urút­gefn­ar síðan enda fag­ur­lega myndskreytt­ar. Rit­safn Theó­dóru kom út 1960 og sá Sig­urður Nor­dal um út­gáf­una. Smá­sög­ur henn­ar, Eins og geng­ur, litu dags­ins ljós 1920. Kvæði, stök­ur og sagn­ir birt­ust víða, meðal ann­ars í Mánaðarriti Lestr­ar­fé­lags kvenna í Reykja­vík. Hún þýddi tölu­vert úr öðrum mál­um og safnaði einnig þjóðsög­um. Hún leitaði fanga víða í saga­nefni sín­um.


 

Theó­dóra var list­feng og mik­il hannyrðakona. Þó nokkr­ar sýn­ing­ar hafa verið haldn­ar á verk­um henn­ar.


 

Af­kom­andi Theó­dóru, Ármann Jak­obs­son, skrifaði sögu­legu skáld­sög­una Von­ar­stræti 8, sem byggð er á ævi þeirra hjóna.

Sag­an ger­ist að mestu leyti í Kaup­manna­höfn árið 1908, þegar þau sigldu til Hafn­ar og Skúli átti sæti í milli­landa­nefnd og gegndi því hlut­verki að semja frum­varp um stöðu Íslands í danska rík­inu, en Theó­dóra fór með manni sín­um og studdi við bakið á hon­um. Skúli var sá eini sem ekki samþykkti Upp­kastið fræga sem samið var af þessu til­efni. Ágrein­ing­ur­inn varð síðan helsta deilu­efnið í Upp­kasts­kosn­ing­un­um 1908, er and­stæðing­ar Upp­kasts­ins unnu af­ger­andi sig­ur.


 

Theó­dóra lést 23. febrúar 1954.
 Skráð af Menningar-Staður

01.07.2018 07:28

"Menning bætir mannlífið"

 


Á Laug­ar­nesi í Reykjavík.

Hlíf við heim­ili móður sinn­ar og safnið sem helgað er

verk­um föður henn­ar, Sig­ur­jóns Ólafs­son­ar frá Eyrarbakka. 

 

 

„Menning bætir mannlífið“

 

 

• Sumartónleikaröð í safni Sigurjóns Ólafssonar

frá Eyrarbakka haldin þrítugasta árið í röð 

• Gítarleikur áberandi að þessu sinni

 

Lista­safn Sig­ur­jóns Ólafs­son­ar stend­ur fyr­ir röð sum­ar­tón­leika í sum­ar líkt og fyrri ár. Safnið fagn­ar 30 ára starfsaf­mæli í ár og eru sum­ar­tón­leik­arn­ir jafn­aldra safn­inu. Má segja að þema tón­leik­anna í ár sé gít­ar­leik­ur, þótt það hafi raðast þannig fyr­ir ein­skæra til­vilj­un, að sögn Hlíf­ar Sig­ur­jóns­dótt­ur, dótt­ur Sig­ur­jóns og eins aðstand­enda tón­leik­anna. Hún seg­ir sal­inn henta afar vel fyr­ir gít­ar­leik.

 

Tón­elsk fjöl­skylda

Rík tón­list­ar­hefð er í hús­inu á Laug­ar­nestang­an­um sem hýs­ir í dag safn mynd­höggv­ar­ans Sig­ur­jóns Ólafs­son­ar frá Eyrarbakka. Húsið var áður heim­ili Sig­ur­jóns auk þess sem það hýsti vinnu­stofu hans að hluta til. Börn­in hans fjög­ur ólust þar upp og spiluðu öll á hljóðfæri, að sögn Hlíf­ar: „Þetta var mikið tón­list­ar­heim­ili og var tón­list­in órjúf­an­leg­ur part­ur af þessu húsi,“ seg­ir hún.

 

Sig­ur­jón dó árið 1982 og stofnaði ekkja hans, Birgitta Spur, safn utan um verk hans í hús­inu nokkr­um árum síðar. Öll börn Sig­ur­jóns og Birgittu stunduðu tón­list­ar­nám og þrjú þeirra lögðu tón­list­ina fyr­ir sig. Hlíf er fiðluleik­ari og Freyr bróðir henn­ar flautu­leik­ari á Spáni. Ólaf­ur, elsti bróðir þeirra, var selló­leik­ari í sin­fón­íu­hljóm­sveit­inni í Mal­mö en hef­ur nú snúið sér að öðru.

 

Færa Ísland nær um­heim­in­um

Að sögn Hlíf­ar var ákveðið að blása til sum­ar­tón­leika á fyrsta opn­un­ar­ári safns­ins. „Það var bara ekk­ert um að vera í Reykja­vík á sumr­in á þeim tíma. Við sáum þarna mögu­leika á að kynna safnið og miðla bæði mynd­list og tónlist á sama tíma,“ seg­ir hún.

 

Í gegn­um tíðina hafa þau systkin nýtt tengsl sín inn­an tón­list­ar­heims­ins til að fá kunn­ingja og koll­ega að utan til að koma að spila á tón­leik­un­um. „Það hef­ur verið okk­ar mark­mið að færa landið nær um­heim­in­um og öf­ugt. Við vilj­um sjá til þess að tón­list­arunennd­ur heyri ekki aðeins í þeim fræg­ustu held­ur kynn­ist einnig öðrum minna þekkt­um.“

 

Mik­il aðsókn frá tón­listar­fólki

Að sögn Hlíf­ar hef­ur áhugi tón­list­ar­manna á að halda tón­leika í safn­inu alla tíð verið mik­ill. „Við höf­um opið um­sókn­ar­ferli og fáum iðulega um og yfir 40 um­sókn­ir,“ seg­ir Hlíf. „Þá gæt­um við þess að hafa fjöl­breytni í vali á flytj­end­um og efn­is­skrám. Það er þessi fjöl­breytta flóra sem er svo nauðsyn­leg fyr­ir hvern gró­anda. Ásamt því að gefa ung­um og óþekkt­um tæki­færi í bland við áhuga­verða og svo þá þekkt­ari.“ Meðal þekktra nafna á dag­skránni í sum­ar má nefna gít­artríóið Guit­ar Isl­ancio og danska verðlaunagít­ar­leik­ar­ann Søren Bød­ker Madsen.

 

 

Lif­andi staðsetn­ing

Staðsetn­ing húss­ins þykir henta vel fyr­ir tón­leika, þar sem lif­andi flutn­ing­ur­inn fær að njóta sín í námunda við öldu­rótið. Hlíf tel­ur að tón­leika­hald standi á kross­göt­um því mjög auðvelt aðgengi er að alls kon­ar tónlist á sta­f­rænu formi. Hún seg­ir þó ekk­ert koma í stað lif­andi flutn­ings. „Hug­sjón okk­ar er að gefa fólki tæki­færi til að hlýða á lif­andi tón­listar­flutn­ing í þessu fal­lega um­hverfi. Ná­lægðin og upp­lif­un­in, það er al­veg sér­stakt og ekk­ert kem­ur í stað þess.“

 

Aðstand­end­ur safns­ins hlakka til sum­ars­ins og vona að það birti til með sumr­inu. „Við treyst­um því að veðurguðirn­irn­ir verði okk­ur hliðholl­ir og við fáum dá­sam­legt út­sýni og sól­ar­lag. Menn­ing bæt­ir mann­lífið, við meg­um ekki gleyma því,“ seg­ir Hlíf.

 

Fyrstu tón­leik­arn­ir verða þriðju­dag­inn 3. júlí kl. 20.30, en þar mun gít­ar­leik­ar­inn Reyn­ir Hauks­son flytja suðræna tóna frá Andal­ús­íu.


Sjá allt sumarið:


http://www.lso.is/tonl/Baekl_HR18.pdfSigurjón Ólafsson 

 

fæddist á Eyrarbakka árið 1908. Fyrstu tilsögn í myndlist hlaut hann hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara. Samhliða listnáminu lauk Sigurjón sveinsprófi í húsamálun frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 1927 og ári síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann hóf nám í Konunglegu Akademíunni hjá prófessor Utzon-Frank. Námið sóttist honum vel og haustið 1930 hlaut hann gullverðlaun Akademíunnar fyrir styttu af Verkamanni, (LSÓ 1017) sem nú er í eigu Listasafns Íslands. Sigurjón hlaut skjótan frama erlendis, og eftir námsdvöl í Rómaborg 1931−32 og lokapróf frá Akademíunni árið 1935 var hann talinn meðal efnilegustu myndhöggvara yngri kynslóðarinnar í Danmörku.Verk Sigurjóns frá Danmerkurtímanum vekja enn forvitni og áhuga manna. Má þar nefna Saltfiskstöflun, styttur af Fótboltamönnum (1936−37), (LSÓ 247LSÓ 004 , LSÓ 005) auk abstraktverka eins og Maður og kona (1939) sem olli deilum á sínum tíma í Danmörku. Fyrir portrettið Móðir mín (1938) hlaut Sigurjón hin eftirsóttu Eckersberg-verðlaun. Afsteypa af því verki er til í ríkislistasöfnunum í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi og í Listasafni Íslands. Á árunum 1941−44 vann Sigurjón að stærsta verki sínu í Danmörku, tveimur granítstyttum fyrir ráðhústorg Vejleborgar, (LSÓ 1062LSÓ 1063) sem í upphafi ollu miklum deilum, en í dag eru álitin snjöll og áhrifarík.

 

Þegar Sigurjón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi. Auk þess var hann talinn einn helsti portrettlistamaður sinnar samtíðar. Á langri starfsævi var Sigurjóni falið að gera fjölda opinberra verka og í Reykjavík eru eftir hann á annan tug útilistaverka og veggskreytinga. Stærst verka hans er án efa lágmyndirnar ástöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar sem hann vann á árunum 1966−69, en þekktari eru ef til vill Öndvegissúlurnar við Höfða, styttan af séra Friðrik við Lækjargötu, og Íslandsmerki á Hagatorgi.Auk hinna hefðbundnu verkefna vann Sigurjón alltaf frjáls verk þar sem hugmyndaflug og tilraunir með efni og form fengu að ráða. Þannig eru allar steinmyndir hans frá 1946−56 frjáls verk og ekki gerð eftir pöntunum. Mörg þeirra eru nú í eigu safna og opinberra aðila.Sigurjón vann í afar fjölbreyttan efnivið; leir, gifs, tré, málma, stein og steinsteypu. Síðustu ár ævinnar notaði listamaðurinn oft tré eða rekavið í verk sín.

Sigurjón lést í Reykjavík í desember 1982 og hvílir í Eyrarbakkakirkjugarði.


 Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson

(1908 - 1982)Skráð af Menningar-Staður

 
 

01.07.2018 07:02

Tónlistarhátíðin -Englar og menn- í Strandarkirkju

 


Strandarkirkja í Selvogi.

 

 

Tónlistarhátíðin -Englar og menn-  í Strandarkirkju

 

 

Hin árlega tónlistarhátíð  -Englar og menn-  hefst í Strandarkirkju í dag, sunnudaginn 1. júlí 2018,  með opnunartónleikum kl. 14.

Þar munu koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Elmar Gilbertsson tenór, Elísabet Waage hörpuleikari, Guðni Franzson klarinettuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Þau munu flytja sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Pétur Sigurðsson, Guðna Franzson, F. Schubert, G. Faure, L.V. Beethoven, Chopin, Donizetti o.fl.

 

Hátíðin verður lengri í ár en undanfarin ár og stendur nú yfir frá 1. júlí til 12. ágúst. Hátíðin verður glæsileg sönghátíð líkt og á undanfarin ár, þar sem fram koma margir fremstu söngvara og hljóðfæraleikara landsins ásamt ungum og upprennandi söngvurum.

 

Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og er í takt við anda og sögu staðarins.

 

Sunnudaginn 8. júlí 

kemur Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari og tónlistarstjóri Íslensku óperunnar fram ásamt ungum og upprennandi tónlistarstjörnum, en með honum verða Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Anna Guðmundsdóttir sópran og Pétur Björnsson fiðluleikari.

 

Sunnudaginn 15. júlí 

koma fram okkar ástsæla sópransöngkona, Sólrún Bragadóttir og Ágúst Ólafsson baritón og með þeim leikur Jón Sigurðsson á orgel og píanó.

 

Sunnudaginn 22. júlí 

koma söngkonurnar Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran fram og með þeim leikur Ástvaldur Traustason á orgel og harmonikku.

 

Sunnudaginn 29. júlí 

koma svo feðginin Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir fram og gleðja áheyrendur.

 

Sunnudaginn 5. ágúst 

verða söngvararnir Hildigunnur Einarsdóttir alt og Jón Svavar Jósefsson baritón með dagskrá tileinkaðri Halldóri K. Laxness svo eitthvað sé nefnt.

 

Hátíðinni lýkur svo með Maríumessu og lokatónleikum 12. ágúst kl. 14. Þar fram koma Björg Þórhallsdóttir sópran, Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Sr. Baldur Kristjánsson sóknarprestur annast guðsþjónustuna.

 

Þema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem þjóðlög, einsöngslög og dúettar, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum hljóma.


 

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona 

er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd.

 

Strandarkirkja er ein þekktasta áheitakirkja landsins og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.

 

Mikil fegurð er í Selvognum og þangað er um klukkustundar akstur frá Reykjavík um Þrengslin. Tilvalið er að taka með sér nesti eða gera vel við sig hjá heimamönnum í Pylsuvagninum eða á kaffihlaðborði í T-bæ. Í Selvognum eru einnig næg tjaldstæði og góð aðstaða fyrir ferðamenn.

 

Á heimasíðu hátíðarinnar

www.englarogmenn.is

er ítarleg dagskrá sem og á Facebook-síðu hátíðarinnar.

 

 

Björg Þórhallsdóttir, sópransöngkona,

er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Skráð af Menningar-Staður