Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2018 Ágúst

31.08.2018 06:36

Þér hrútar

 

 

 

 

 

  Þér hrútar

 

 

Hér skal skeytt kvæðinu  -Þér hrútar-  sem Guðmundur Ingi Kristjánsson bóndi og skáld á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði orti fyrir um nítíu árum.

Varla hefur nokkur maður kveðið betur eða meira um íslenskan landbúnað og lífið og starfið í sveitum.

Athygli einhverra kann að vekja, að skáldið þérar hrútana sína.

 

 

   Þér hrútar

 

Þér hrútar, ég kveð yður kvæði.

Ég kannast við andlitin glöð,

er gangið þér allir á garðann

að gjöfinni, fimmtán í röð.

Í heyinu tennurnar hljóma

við hornanna leikandi spil.

Það bylur í jötunnar bandi

og brakar við stein eða þil.

 

 

Í hóp yðar stöðvast ég stundum

og stend yður dálítið hjá.

Ég hallast við bálkinn og horfi

í hrútsaugun skynug og blá.

Ég bökin og bringurnar spanna

og blíðlega strýk yfir kinn.

Þér heilsið með hornum og vörum.

Hver hrútur er félagi minn.

 

 

Ég veit yðar látbragð og leiki,

er losuð er fjárhúsavist.

Þá gangið þér greiðir í túnið

og gleðjist við atlögur fyrst.

og margur er merktur og særður,

en minnstur sá hrútur, er veik.

Og hugfanginn horfði ég löngum

á hornanna blóðuga leik.

 

 

Svo fylgi ég ferlinum lengra.

Þá fagnið þér vorlífsins hag,

er fetið þér snöggir til fjalla

einn farsælan góðviðrisdag.

Í háfjalla hlíðum og drögum

er hrútanna kjarnmikla beit.

Og sælt er að standa uppi á stalli

og stara yfir kyrrláta sveit.

 

 

Er sólríku sumrinu hallar,

þá sést yðar útigangsbragð.

Þér komið af öræfum allir

með aurugan, blaktandi lagð.

Þótt gott væri hnjúkinn að gista

við gróður og útsýni hans,

þá lutuð þér herskáum hundum

og hrópyrðum smölunarmanns.

 

 

Þar komið þér kátir og feitir.

Ég kannast við andlitin glöð,

er haldið þér allir sem hópur

að húsunum, fimmtán í röð.

Á veggjunum villist þér ekki,

en vitið um hurðir og þil.

Svo heilsið þér herbergjum yðar

með hornanna leikandi spil.


 

 


Skráð af Menningar-Staður.

30.08.2018 06:24

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907 - 2002).

 

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

 

Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907.

Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.

 

Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.


 

Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm. f. 1942 - d. 2007.


 

Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.


 

Eiginkona Guðmundar Inga var Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson. Þuríður var fædd þann 6. júlí 1925 og hún lést síðast liðið haust þann 30. október 2016.

 


Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.


 

Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.


 

Ljóðabækur Guðmundar Inga eru:

Sólstafir 1938, 
Sólbráð 1945, 
Sóldögg 1958, 
Sólborgir 1963 
og Sólfar 1981. 

Síðan heildarljóðasafn Sóldagar 1993 og 2007 með viðauka.Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.


 

Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.

 

 

Hjónin Þuríður Gísladóttir (1925 - 2016) og Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907 - 2002).

Ljósm.: Björn Pálsson.

 

 
Kirkjuból í Bjarnardal í Önundarfirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 

 

 

 


Skráð af Menningar-Staður

29.08.2018 17:17

Höfuðdagurinn - 29. ágúst 2018

 


Kvöldsólarstund við Önundarfjörð.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Höfuðdagurinn - 29. ágúst 2018

 

 

Í dag er höfuðdagur og samkvæmt gamalli veðurtrú segir að veðurfar muni batna með Höfuðdegi og haldast þannig í þrjár vikur.

 

Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn.

 

Á Vísindavefnum kemur fram að árið 1700 hafi tímatali verið breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt. 

 

Vísindavefurinn upplýsir ennfremur að íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, það er ákveðinn verknaður fór fram „á höfuðdaginn Johannis baptiste“. Þessi siður hélst lengi.

 

Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar.


Skráð af Menningar-Staður.

28.08.2018 06:32

LANDSBÓKASAFN 200 ÁRA

 

 

Ef eftirsótt rit er ekki til á heimabókasafninu þá lánar

Landsbókasafn út á land.

Nýtt sameinað bókasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn,

var opnað við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni

fimmtudaginn 1. desember 1994.

 

LANDSBÓKASAFN ÍSLANDS 200 ÁRA

 

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er 200 ára um þessar mundir, en opinber afmælisdagur er talinn 28. ágúst.

Safnið er því ein af elstu stofnunum landsins. Haldið er upp á afmælið allt árið og stendur safnið fyrir margvíslegum viðburðum, auk þess að taka þátt í viðburðum vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

 

Á afmælisdaginn er almenningi sérstaklega boðið að koma og skoða safnið og húsakynni þess og einnig að heimsækja hina fjölmörgu vefi safnsins sem má sjá á https://landsbokasafn.is/

 

Saga Landsbókasafnsins er þannig að 28. ágúst 1818 barst Árna Helgasyni dómkirkjupresti og forseta Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags bréf frá Geir Vídalín biskup þar sem hann segist munu biðja danska kansellíið um fjárstyrk fyrir húsnæði fyrir bókasafn á dómkirkjuloftinu. Þessi dagur, 28. ágúst 1818, er talinn stofndagur Stiftsbókasafnsins, eins og Landsbókasafnið hét fyrstu áratugina. Safnið er því 200 ára þennan dag.

 

Upphaf safnsins má rekja til þess að þann 30. mars 1818 var kynnt í stjórn Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags, sem stofnað hafði verið tveimur árum fyrr, bréf frá danska fornfræðingnum og liðsforingjanum Carli Christiani Rafn sem fól í sér tillögu um að stofnuð skyldi nefnd til að „yfirvega, hvörnig alment bókasafn verði bezt stiftað á Íslandi“ ásamt boði um bókagjöf. Bjarni Thorsteinsson forseti deildarinnar þakkaði Rafni frumkvæðið, skrifaði Reykjavíkurdeild félagsins og fól henni að ræða við stiftsyfirvöld. Rafn kom aldrei til Íslands og heimsótti því aldrei safnið sem hann fóstraði af alúð í áratugi. Metnaður Rafns takmarkaðist ekki við Ísland, hann átti einnig stóran þátt í stofnun bókasafna í Óðinsvéum, Kaupmannahöfn, Grænlandi, Færeyjum, Aþenu, Odessa í Úkraínu og í Ástralíu.

 

Jón Árnason, sem þekktastur er fyrir þjóðsagnasöfnun sína, var ráðinn sem fyrsti bókavörður við Landsbókasafnið árið 1848 og gegndi því starfi þar til hann fór á eftirlaun árið 1887.


Safnið var á dómkirkjuloftinu til 1881 þegar það var flutt í hið nýreista Alþingishús og hlaut þá nafnið Landsbókasafn Íslands. Landsbókasafnið fluttist svo í nýbyggt Safnahús við Hverfisgötu 1909 og var þar í sambýli við önnur söfn lengst af, til 1994 þegar flutt var í Þjóðarbókhlöðuna ásamt Háskólabókasafninu.

 

Háskólabókasafnið var formlega stofnað árið 1940, en forsaga þess teygir sig nær öld lengra aftur í tímann, eða allt til þess er stofnaður var Prestaskóli árið 1847. Bæði hann og Læknaskólinn (stofnaður 1876) og Lagaskólinn (stofnaður 1908) komu sér upp bókasöfnum sem urðu eign viðkomandi háskóladeilda eftir að Háskóli Íslands var stofnaður 1911.


Nýtt sameinað bókasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, var opnað við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni fimmtudaginn 1. desember 1994. Þar með varð til stórt og öflugt bókasafn með góðri vinnuaðstöðu fyrir almenning og nemendur við Háskóla Íslands.


Þann 18. apríl 2018 var opnuð sýningin Tímanna safn sem fjallar um sögu safnsins í 200 ár. Á sýningunni er stiklað á stóru í helstu áföngum í sögu safnsins, allt frá hugmynd til þróunar safnsins á hinum ýmsu stöðum eins og Dómkirkjuloftinu, í Alþingishúsinu, Lærða skólanum og Safnahúsinu til Þjóðarbókhlöðunnar og sameiningar við Háskólabókasafnið.


Skráð af Menningar-Staður.

27.08.2018 21:17

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 


Finnur Magnússon (1781 - 1847).

 

 

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

 

Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti.

Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.
 

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn. 

Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.

Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.

 

Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
 

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
 

Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
 

Finnur lést á aðfangadag 1847.

 

Morgunblaðið.

 


Skálholt, vatnslitamynd John Cleveley yngri frá 1772.

Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland.
Skráð af Menningar-Staður.

26.08.2018 17:20

15 ár frá tónleikum Foo Fighters og NilFisk

 

 

Hljómsveitin NilFisk í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri sumarið 2003.

Gimli er við hliðina á veitingahúsinu -Fjöruborðið- þar sem Foo Fighters

voru í mat og heyrðu tóna frá æfingu NilFisk í Gimli. Þeir fóru yfir til þeirra

og tóku lagið með þeim þar.
F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Jóhann Vignir Vilbergsson,

Sveinn Ásgeir Jónsson og Víðir Björnsson.

 

 

15 ár frá tónleikum Foo Fighters og NilFisk

 

Fimmtán ár voru nákvæmlega í gær, 25. ágúst 2018, síðan hin heimsþekkta bandaríska rokkhljómsveit Foo Fighters, með Dave Grohl í fararbroddi, hitti hljómsveitina NilFisk í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri og bauð þeim að spila með sér á tónleikum.

 

Félagar í Foo Fighters heilluðust af tónlist hinna ungu pilta í NilFisk, sem voru á grunnskólaaldri á þessum tíma, og buðu þeim að spila með sér á tónleikum daginn eftir. Þeir þáðu boðið og léku fyrir rúmlega sex þúsund manns í Laugardalshöll þann 26. ágúst árið 2003. 

 

Hljómsveitina NilFisk skipuðu fimm drengir úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri:

Jóhann Vignir Vilbergsson, Víðir Björnsson, Sveinn Ásgeir Jónsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson og Karl Magnús Bjarnarson.

NilFisk starfaði nákæmlega í fimm ár; frá 10. mars 2003 til 10. mars 2008. 
 

 

Hljómsveitin NilFisk fyrir framan Laugardalshöllina þann 26. ágúst 2003.

F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Víðir Björnsson,
Jóhann Vignir Vilbergsson og Sveinn Ásgeir Jónsson
Skráð af Menningar-Staður.

 

26.08.2018 08:24

Merkir Íslendingar - Þorsteinn Thorarensen

 

Þorsteinn Thorarensen(1927 - 2006).

 

Merkir Íslendingar - Þorsteinn Thorarensen

 

Þorsteinn Ó. Thorarensen fæddist á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi 26. ágúst 1927. 
Foreldrar hans voru hjónin Óskar Þorsteinsson Thorarensen hreppstjóri á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, síðar forstjóri BSR, og Ingunn Eggertsdóttir Thorarensen húsfreyja. Foreldrar Óskars voru Þorsteinn Thorarensen, hreppstjóri á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi og Solveig Guðmundsdóttir húsfreyja, en foreldrar Ingunnar voru Eggert Pálsson, prófastur og alþingismaður á Breiðabólsstað og Guðrún Hermannsdóttir húsfreyja. Systkini Þorsteins eru:
Eggert, framkvæmdastjóri BSR; Guðrún aðalgjaldkeri; Oddur, sóknarprestur og síðar safnvörður; Skúli, lögfræðingur og fulltrúi; Solveig menntaskólakennari og Ásta Guðrún deildarstjóri.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, fyrrv. menntaskólakennari, borgarfulltrúi og alþingismaður. Börn þeirra eru:
Ingunn, framhaldsskólakennari og síðar framkvæmdastjóri; 
Björn, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður;
Björg, prófessor við lagadeild HÍ. Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá MR 1946 og embættisprófi í lögum frá 1952.

 


Þorsteinn var blaðamaður við Morgunblaðið 1947-61, fréttastjóri við dagblaðið Vísi 1961-66 og fréttaritari Reuters-fréttastofunnar 1951- 86. 
Hann stofnaði bókaútgáfuna Fjölva árið 1966 og starfaði þar við umfangsmikla útgáfu og ritstörf allt þar til hann veiktist árið 2000. 
Eftir það minnkaði starfsgeta hans þótt hann ynni við skriftir nánast til dauðadags. Þorstein var eljumaður. Eftir hann liggur fjöldi rita af margbreytilegum toga, m.a. bráðskemmtileg umfjöllun í nokkrum ritum um líf og viðhorf stjórnmálamanna um og eftir aldamótin 1900. Auk þess var hann afkastamikill þýðandi. 

 


Þorsteinn lést 26.október 2006.

 

Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður

26.08.2018 08:18

Merkir Íslendingar - Jóhann S. Hlíðar

 


Jóhann S. Hlíðar (1918 - 1997).
 

 

Merkir Íslendingar - Jóhann S. Hlíðar

 

Jó­hann Sig­urðsson Hlíðar fædd­ist á Ak­ur­eyri 25. ágúst 1918.

Hann var son­ur Sig­urðar Ein­ars­son­ar Hlíðar, dýra­lækn­is og alþing­is­manns á Ak­ur­eyri, síðar yf­ir­dýra­lækn­is í Reykja­vík, og k.h., Guðrún­ar Louisu Guðbrands­dótt­ur hús­freyju.

 

Sig­urður var son­ur Ein­ars Ein­ars­son­ar, smiðs í Hafnar­f­irði, af Laxár­dalsætt, og Urriðafossætt, og Sig­ríðar Jóns­dótt­ur, af Hörgs­holtsætt og lista­manna­ætt­inni Jötuætt, en móðir Sig­ríðar var Guðrún, syst­ir Guðlaug­ar, ömmu Ásgríms Jóns­son­ar list­mál­ara.

 

Guðrún Louisa var dótt­ir Guðbrands, versl­un­ar­stjóra í Reykja­vík Teits­son­ar, dýra­lækn­is þar Finn­boga­son­ar, bróður Jak­obs, langafa Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, en móðir Guðrún­ar Louisu var Louise Zimsen, syst­ir Christians, föður Knuds Zimsen borg­ar­stjóra. Föður­syst­ir Jó­hanns var Guðfinna, móðir Jó­hanns Páls­son­ar garðyrkju­stjóra.

 

Systkini Jó­hanns:

Brynja Hlíðar, for­stjóri Lyfja­búðar KEA, en hún lést í flug­slys­inu í Héðins­firði 1947; Skjöld­ur, er lést í Kaup­manna­höfn 1983; Gunn­ar, póst- og sím­stjóri í Borg­ar­nesi en lést af slys­för­um 1957, og Guðbrand­ur, dýra­lækn­ir í Reykja­vík, er lést árið 2000.

 

Jó­hann lauk stúd­ents­próf­um frá MA 1941, embætt­is­prófi í guðfræði frá HÍ 1946, stundaði fram­halds­nám í kenni­mann­legri guðfræði og sagn­fræðilegri guðfræði við Menig­heds­fa­k­ultetet í Osló 1946-47 og kynnti sér starf MRA-hreyf­ing­ar­inn­ar í Stokk­hólmi 1953-54.

 

Jó­hann vígðist prest­ur 1948, vann á veg­um Sam­bands ís­lenskra kristni­boðsfé­laga 1947-53, var kenn­ari við MA 1949-52 og við Gagn­fræðaskól­ann í Vest­manna­eyj­um 1954-72. Hann var prest­ur í Vest­manna­eyj­um 1954-72, í Nessókn í Reykja­vík 1972-75 og sendi­ráðsprest­ur í Kaup­manna­höfn 1975-83.

 

Jó­hann var varaþingmaður fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn á Suður­landi 1967-71 og sat á þingi 1970.

 

Jó­hann lést 1. maí 1997.


Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður.

25.08.2018 08:20

Gio Ju dansar við safnið

 

 

 

Gio Ju dansar við safnið á Eyrarbakka

 

Gio Ju frá Suður Kóreu er nútímadansari og gjörningalistamaður sem sérhæfir sig í butohdansi.

Hún mun fremja dansgjörning við Húsið á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 25. ágúst 2018 kl. 16:00 á sama tíma og listasýningin Stakkaskipti opnar.

 

Hún  heimsækir nú Ísland í fyrsta sinn en hún hefur tekið þátt í fjöldann allan af listaviðburðum víða um heim. Frá árinu 2011 hefur hún búið í Indlandi og setti á fót dansskóla þar sem hreyfilist og tjáning í dansi er kennd sem lífsstíll.  Gio Ju hefur dansað með danshópum, stórum og smáum, en einnig unnið með listamönnum sem koma úr ólíkum listgreinum og dansar þá oft á tíðum ein.

 

Á Eyrarbakka vinnur hún með Ástu Guðmundsdóttur listakonu og hönnuði sumarsýningar safnsins. Dansverk Gio Ju eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við andrúm byggðasafnsins.

 

Samhliða dansviðburðinum er opnun listasýningarinnar Stakkaskipti þar sem fjórar ólíkar listakonur sýna verk sín í fjárhúsi Hússins.

 

Þetta eru þær; 

Halla Ásgeirsdóttir keramiker,

Halla Bogadóttir gullsmiður,

Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður

og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður.

 

Allir eru velkomnir.Skráð af Menningar-Staður.

25.08.2018 08:10

Stakkaskipti og Marþræðir - Listasýning og dansgjörningur

 

 

 

Stakkaskipti og Marþræðir

 

– Listasýning og dansgjörningur

 

 

Listasýningin Stakkaskipti opnar með viðhöfn kl. 16.00 í dag, laugardaginn 25. ágúst 2018, í gamla fjárhúsinu norðan við Húsið. 

 

Danslistakonan Gio Ju frá Suður Kóreu mun fremja gjörning við opnun og listamenn taka vel á móti gestum.

 

Fjórar ólíkar listakonur sýna saman á Stakkaskiptum.

Þetta eru þær;

Halla Ásgeirsdóttir keramiker,

Halla Bogadóttir gullsmiður,

Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður

og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður.

 

Þær eiga það sameiginlegt að sækja innblástur úr náttúru eða vinna verk sín úr náttúrulegum efnum líkt og rekaviði eða steinum. Allar hafa þær sýnt margoft en sýna nú saman í fyrsta sinn. Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega mun fjárhúsið umbreytast.

 

Gio Ju er víðförul hreyfilistakona og butoh dansari sem heimsækir Ísland í fyrsta sinn. Dansverk hennar eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við sýninguna.

 

Stakkaskipti er hluti af sumardagskrá safnsins í tengslum við sýningu Ástu Guðmundsdóttur  Marþræðir sem hverfis um fullveldið og fjörunytjar. Sú sýning teygir sig yfir í eitt útihúsa safnsins og þannig verða nú listasýningar í tveimur útihúsum.

 

Sýningarnar í útihúsunum verða opnar kl. 11-18 fram í septemberlok eins og aðrar sýningar safnsins.

 

Við opnun verður frítt á Stakkaskipti og safnið allt og léttar veitingar í boði.

 

Verið velkomin.

 

Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.Skráð af Menningar-Staður
.