Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2018 September

25.09.2018 07:01

Paul McCartney og villiöndin

 

 

 

 

Paul McCartney og villiöndin

 

 

Eitt fyrsta lagið, sem ég man eftir að hafa heyrt í útvarpinu var Söngur villiandarinnar, sem Jakob Hafstein söng. Þetta lag er ákaflega sorglegt en textinn fjallar um andahjón sem verða fyrir kúlum veiðimanns. Það var spilað í tíma og ótíma í óskalagaþáttum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og sjálfsagt hafa einhverjir verið orðnir dauðleiðir á því, þótt platan hafi ekki verið brotin í beinni útsendingu eins og urðu örlög lagsins, Ég vild’ég væri hænuhanagrey.

 

Ég hef ekki leitt hugann að Söng villiandarinnar í mörg ár, en um helgina var ég í mesta sakleysi að hlusta á nýju plötuna hans Pauls McCartneys, Egypt Station, á tónlistarveitunni Spotify, fín plata. Síðasta lagið, Hunt you Down/Naked/C-link, er kaflaskipt, og í miðkaflanum sperrti ég skyndilega eyrun, því þar hljómaði laglínan úr villiöndinni! Ég segi ekki sannara orð, það lá við að ég heyrði Paul syngja: Í vor kom ég sunnan með sólskin í hjarta.

 

Getur hugsast, að Paul hafi einhverntímann heyrt villiöndina, sem mun víst vera sænsk að uppruna og „samp-lað“ hana á nýju plötunni sinni? Eða voru þetta bara viðbrögð undirmeðvitundar manns sem hlustaði yfir sig á lagið á sínum tíma?


Morgunblaðið þriðjudagurinn 25. september 2018.

Ljósvaki
Guðm. Sv. Hermannsson

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

24.09.2018 17:12

Merkir Íslendingar - Bergur Jónsson

 

 

Bergur Jónsson af forsetaættum frá Hrafnseyri.

 

 

Merkir Íslendingar - Bergur Jónsson

 

 

Bergur fæddist í Reykjavík 24. september 1898. Foreldrar hans voru Jón Jensson háyfirdómari, og k.h., Sigríður Hjaltadóttir húsfreyja.
 

 

Jón var sonur Jens Sigurðssonar, rektors Lærða skólans í Reykjavík og fyrsta kennara við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri, elsta barnaskóla landsins, bróður Jóns Sigurðssonar forseta frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Móðir Jóns var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stærðfræðings, stjörnufræðings og yfirkennara. Sigríður var dóttir Hjalta Ólafssonar Thorberg, bónda á Gunnsteinsstöðum í Langadal, bróður Bergs Thorberg landshöfðinga. Móðir Sigríðar var Guðrún Jóhannesdóttir húsfreyja.
 

 

Systir Bergs lögfræðings var Ólöf, móðir Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra, föður Ólafar Nordal f.v. innanríkisráðherra.
 

 

Fyrri kona Bergs var Guðbjörg Lilja Jónsdóttir og eignuðust þau þrjú börn, Sigríði Þórdísi húsfreyju, móður Bergs S. Oliverssonar lögmanns, Jón deildarstjóra og Þóri tryggingastærðfræðing.
 

 

Seinni kona Bergs var Ólafía Valdimarsdóttir.
 

 

Bergur lauk stúdentsprófi 1919, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1923, öðlaðist hdl.-réttindi 1947 og hrl.-réttindi 1953. Hann var fulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 1923-27, sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1927-28, var skipaður bæjarstjóri í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1935-45, var sakadómari í Reykjavík 1945-47 og starfrækti lögfræðiskrifstofu í Hafnarfirði og Reykjavík frá 1947 og til æviloka.
 

 

Bergur var alþingismaður Barðastrandarsýslu 1931-42, sat í milliþinganefnd í kjördæmaskipunarmálinu fræga 1931, var formaður lögfræðinganefndar um réttarfarslöggjöf 1934, átti sæti í milliþinganefnd til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðar 1938, var formaður og gjaldkeri Eyrarsparisjóðs á Patreksfirði, sat í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1934, sat í landskjörstjórn frá 1943 og til æviloka og í stjórn Dómarafélags Íslands 1941-47.
 

 

Bergur lést 18. október 1953.

 

Morgunblaðið - Merkir Íslendingar - Jónas Ragnarsson.

 

 
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 

Skráð af Menningar-Staður.

23.09.2018 07:56

23. september 2018 - Haustjafndægur

 


Við Iðubrú að haustjafndægri ársins 2018.

 

 

23. september 2018 - Haustjafndægur

 

 

Jafndægur eru tvisvar á ári, um 20.-21. mars og 22.-23. september. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Jafndægur miðast við að þá er sólin beint yfir miðbaug jarðar. Þessi atburður er á tilteknu augnabliki innan dagsins. Um haustjafndægur eru dagur og nótt álíka löng og styttist dagurinn um 6-7 mínútur á hverjum degi.


 

Stundum er sagt að á jafndægrum séu dagur og nótt jafnlöng, sem er nærri lagi, en þetta er ekki alveg svo einfalt. Í fyrsta lagi er bjart nokkru fyrir sólarupprás og eftir sólarlag, en jafnvel tíminn milli sólarupprásar og sólarlags er ekki nákvæmlega 12 klst. á jafndægrum.


 

Ástæða þessa fráviks er af tvennum toga. Í fyrsta lagi miðast sólarupprás og sólarlag ekki við augnablikið þegar sólmiðjuna ber við sjónbaug (láréttan sjóndeildarhring), heldur er miðað við fyrstu og síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólkringlunnar. Í öðru lagi veldur ljósbrot í lofthjúpi jarðar því að við getum séð í sólina þar til sólmiðjan er komin um 1,1° niður fyrir sjónbaug.

 

.

.

 

Yfir Litla-Hrauni -höfuðsetri fangelsa á Íslandi-
kl. 14:25 þann 23. september 2010.Skráð af Menningar-Staður.

22.09.2018 08:37

"Ekki misskilja mig vitlaust!" - Mismæli og ambögur.

 

 


„Ekki misskilja mig vitlaust!“

 

– Mismæli og ambögur-

 

 

Í þessari bráðsmellnu bók fara fjölmargir á kostum og „tala tæpitungulaust“.

 

Guðbjartur Jónsson, lengi Vagnstjóri á Flateyri, fullyrðir að „margt smátt geri eitt lítið“.  Lási kokkur hefur „vaðið fyrir ofan sig“. Heimir Már Pétursson segir grafalvarlegur á skjánum að „heilbrigðisráðherra hafi tekið ákvörðunina að höfðu samræði við lækna“. Hörður Magnússon staðhæfir það í knattspyrnulýsingu að það sé „heldur betur að færast kraftur í aukana“ og kollegi hans, Guðjón Guðmundsson, segir okkur frá kókópuffs-kynslóðinni sem „hefur ekki stigið hendi í kalt vatn“.

 

Athafnamaðurinn Eyþór í Lindu fullyrðir að „ekki séu allir peningar til fjár“. Jóhann Hlíðar Harðarson segir alþjóð það í gegnum Ríkisútvarpið að „ölvun og áfengi fari ekki saman“ og Ingófur Bjarni Sigfússon flytur frétt sem á „einkum við um vanfærar konur á barneignaraldri“.

 

Sigmundur Ernir Rúnarsson minnir á „ellefu fréttirnar sem hefjast stundvíslega klukkan 22:30“.  Gugga Reynis gistir á „Inniday Hall“. Sveinn Snorri Sighvatsson gefur hlustendum Bylgjunnar það heilræði að „hafa ljósin spennt og kveikt á beltunum“. Pétur Blöndal segir konurnar á aðalfundi Seðlabankans „fara minnkandi“ og Lalli Johns telur að það sé „víða slæmur sauður í misjöfnu fé“.

 

Ína af Ströndum vill vera „dauð fluga á vegg“. Markús Þórhallsson biður sjálfstæðisfólk að kjósa Röggu Gísla og Inga á Eyri segir hraðbát sonar síns vera með „utanlandsmótor“.

 

Svo er það drottning mismælanna, Vigdís Hauksdóttir, sem vill leiðrétta „rangsannindi“ Steingríms Joð og ætlar ekki að „stinga höfðinu í steininn“.

 

Leiðbeinandi verð: 3.280-.


Bókaútgáfan Hólar

 


Skráð af Menningar-Staður.

20.09.2018 20:02

Siggeir Ingólfsson er "tengdasonur Flateyrar"

 


Sólrún Júlíusdóttir og Siggeir Ingólfsson.
 
 

 

Siggeir Ingólfsson er "tengdasonur Flateyrar"

 

 

Önfirðingurinn, Flateyringurinn, Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, f.v. formaður Önfirðingafélagsins, hefur um langt árabil haft það sem gaman í leik og starfi að tengja allt og alla vestur og sér í lagi í Önundarfjörð. 

Nýtt dæmi þessa er að Siggeir Ingólfsson á Eyrarbakka er „tengdasonur Flateyrar“ en kona hans er Flateyringurinn Sólrún Júlíusdóttir í Stykkishólmi.Skráð af Menningar-Staður 

20.09.2018 07:12

Haustverkin unnin í Hafnarfjarðarhöfn

 

 

 

Haustverkin unnin í Hafnarfjarðarhöfn

 

Langt er liðið á september og því nauðsynlegt að fara að huga að haustverkunum, jafnt til sjávar og sveita, áður en veturinn gengur í garð með öllum sínum kostum og göllum.

 

Þessi skipverji, Ragnar Emilsson, skipstjóri á Mána II ÁR 7 stóð í ströngu með háþrýstidæluna þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði í Hafnarfjarðarhöfn í gær og þreif þar dekkið hátt og lágt.

 

Ekki fylgdi sögunni hvort haldið yrði út til veiða fljótlega eftir þrifin, en eflaust eru einhverjir sem þurfa að fylgja fordæmi þessa þrifna skipverja. Morgunblaðið fimmtudagurinn 20. september 2018.


Skráð af Menningar-Staður.

18.09.2018 13:10

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 18. sept. 2018

 

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 18. sept. 2018

 

 

Vinir alþýðunnar.
 

 

Myndaalbúm á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/287323/Nokkrar myndir:

 

 

.

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður


 

17.09.2018 20:29

Bjargvættir Fánaseturs Suðurlands

 


F.v.: Guðmundur Magnússon, Björn Ingi Bjarnason og Ingvar Magnússon.

 

 

Bjargvættir Fánaseturs Suðurlands

 

 

Fánasetur Suðurlands hefur  starfað alla þessa öld að Ránargrund á Eyrarbakka og er þar ein virkasta fánastöng landsins.

 

 Svo óheppilega vildi til við flöggun í morgun að fánalínan festist í annan endann við hún.

 

Strax eftir vinnu í dag á Litla-Hrauni komu bræðurnir; Ingvar Magnússon og Guðmundur Magnússon á Fánasetrið; felldu stöngina, lagfærðu snúruna og reistu stöngina að nýju.

 

Skálað var í „límonaði“ og þakkarljóð lak í loftið:


Forsetinn við fána - vá
fljótt þarf slíkt að laga.
Bræður Magg þar strax á stjá
snöggir alla daga.


 

.

F.v.: Guðmundur magnússon, Björn Ingi Bjarnason og Ingvar Magnússon.

.
 

.
F.v.: Guðmundur Magnússon og Ingvar Magnússon.
.
.
F.v.: Guðmundur Magnússon og Ingvar Magnússon.Skráð af Menningar-Staður.

 

16.09.2018 08:59

Umhverfið allt ein kennslustofa

 


Helena hefur farið víða um heiminn en henni finnst það alger

forréttindi að fá skólastjórastarf á Flateyri.

LJÓSM.: FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

 

Umhverfið allt ein kennslustofa
 

 

Ef skólabjalla er í Lýðháskólanum á Flateyri mun hún glymja

næsta laugardag, jafnvel bergmála í fjöllunum við Önundarfjörð.

 

Þá verður skólinn settur í fyrsta skipti.

 

 

Þið finnið mig í kaupfélagshúsinu,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún leiðsegir okkur Sigtryggi Ara ljósmyndara símleiðis. Við erum komin til Flateyrar til að heilsa upp á hana og forvitnast um væntanlegt lýðháskólahald, þar sem hún hefur valist til forystu. Og mikið rétt, við finnum hús sem ber öll merki kaupfélags, utan frá séð, þar er meira að segja útstandandi búðargluggi. Á efri hæðinni eru skrifstofur skólans og þar eru þær Helena og Anna Sigríður Sigurðardóttir, einu fastráðnu starfsmennirnir.

 

„Anna er kennslustjórinn okkar,“ segir Helena um leið og hún kynnir hana. „Síðan koma um það bil 30 kennarar í viku til tvær, flestir tvær, og ausa úr sínum viskubrunnum. Anna er ábyrg fyrir þeim hluta, að þeir standi sig og geri það sem þeim er ætlað.“

 

Verður þú með svipuna á lofti? spyr ég Önnu í gríni. „Já, algerlega,“ svarar hún af sama alvöruleysi.

 

Nemendur á öllum aldri

 

Anna er kennari til margra ára úr framhalds- og grunnskólum. Flutti meðal annars í Árneshrepp fyrir nokkrum árum með fjölskylduna og var þar að kenna. „Þegar fólk hér segir við mig: „Þú veist að hér getur snjóað og það er dálítið dimmt hérna í skammdeginu,“ þá get ég svarað: Já, ég hef búið norður á Ströndum svo ég veit hvernig vestfirskir vetur eru og þar var vegurinn oft lokaður,“ segir hún brosandi.

 

Þær Helena og Anna eiga von á um 30 nemendum. „Við erum með tvær brautir og gerðum okkur vonir um tólf nemendur á hvora, þannig að allt milli 25 og 30 er bara bónus og plús. En allt yfir 30 er orðið erfitt í skipulagningu. Þannig að þetta er eins fullkomið og hægt er,“ segir Helena brosandi.

 

Á tímabili segir hún 40 hafa verið á skrá. „Mér finnst alveg ótrúlegt að 40 manns hafi sótt um vist í skóla sem var bara til í höfðinu á okkur, í tölvu og Excel-skjali. Ef fólk ætlaði að koma í heimsókn vorum við bara vandræðalegar. Ég var ekki einu sinni komin með skrifstofu, var bara að vinna heima, á náttfötunum hálfan daginn! En svo er náttúran og umhverfið svo heillandi hér á Flateyri að fólkið sem kom að skoða spurði varla „hvar er skólinn?“ enda er umhverfið allt ein kennslustofa. Það er það sem gerir þennan skóla einstakan.“

 

Umsækjendur eru á aldrinum 18 til 62 ára og koma frá hinum ýmsu stöðum, jafnvel alla leið frá Singapúr, að sögn Helenu. Hér verður fólk með mastersgráður, grunnskólapróf og allt þar á milli og kemur á ólíkum forsendum. Nokkrir hafa átt erfitt með að taka próf, eru með lesblindu eða líður almennt ekki vel í skólakerfinu. Aðrir eru á milli menntaskóla og háskóla og langar í eitthvert óhefðbundnara nám við nýjar aðstæður. Svo er fólk sem er komið ágætlega á veg í lífinu en vill kannski bara aðeins brjóta það upp og finna annan takt.“

 

Helena segir fyrsta nemandann mættan á svæðið þótt skólastarf sé ekki hafið. „Ung kona að sunnan kom hingað tímanlega svo börn hennar tvö gætu hafið sitt nám í grunnskólanum. Hún er algerlega mögnuð. Ekki nóg með að hún kæmi keyrandi hingað í litlum bíl með börnin heldur var hún búin að vera mánuð í tjaldferðalagi með þau um Ísland, stundum í brjáluðu veðri. Ég sá hana á fésbókinni. Þá var hún norður á Ströndum í 20 metrum á sekúndu, þrír tjaldhælar eftir og börnin steinsváfu í látunum!“ 

 

Á loftinu er huggulegt kaffihorn. „Hér borðum við skólafólkið einfaldan morgunmat, hafragraut, brauð, jógúrt og slíkt. Svo er farið í skólann, sem er bæði hér á hæðinni og úti í félagsheimili, en hádegismatur er borðaður á neðri hæð þessa húss, í mötuneyti sem Ísafjarðarbær rekur. Heimavistin er svo í litlu húsunum sem notuð eru fyrir ferðamenn á sumrin, þar er allt til alls til að halda heimili. Nemendur leigja þar, sumir deila herbergi, aðrir eru með sérherbergi og enn aðrir taka heil hús á leigu því þeir koma með fjölskyldur.“

 

Helena er klínískur sálfræðingur að mennt og hefur undanfarin þrjú ár verið í hjálparstörfum úti um allan heim. Hún kveðst líta á þetta nýja skólastjórastarf sem einstök forréttindi. Átti hún kannski hugmyndina að skólanum?

"Nei, alls ekki. Þetta er gömul hugmynd hér á Flateyri sem ekkert varð úr á þeim tíma sem hún kom upp fyrst. En góð hugmynd, ekki síst vegna þess að lýðháskólar eru mjög tengdir þeim samfélögum sem þeir eru í og hugmyndin er sú að þeir bæði gefi og taki frá þeim.“

 

Kennarar úr öllum áttum

 

Eins og sést á heimasíðu skólans eru kennararnir með ólíkan bakgrunn, einn veit allt um veiðar og vinnslu, annar er gagntekinn af útivistaráhuga, þriðji hefur ástríðu fyrir mat og umhverfisvernd og sjálfbærni brennur á þeim fjórða. Þar eru frumkvöðull, rithöfundur, leikstjóri, ljósmyndari, hönnuðir, leiðsögumenn, bændur og kvikmyndagerðarfólk, já titlarnir eru margir og fjölbreyttir.

 

„Við erum ekki að sökkva okkur ofan í lestur fræðibóka og kenninga heldur er námið meira verklegt og byggt upp þannig að nemendur öðlist þekkingu á ákveðnum viðfangsefnum gegnum reynslu. Við leggjum áherslu á að bjóða upp á ólík námskeið þannig að nemendur fái fjölbreytta möguleika til að spreyta sig við mismunandi aðstæður með nýju fólki sem þeir kynnast. Við segjum gjarnan … svo miklu meira en bara skóli … því lýðháskóli er 24 stunda samvera. Við búum saman, borðum saman, vinnum saman og erum saman nánast öllum stundum. Námskeiðin eru eitt en samfélagið sem við búum til verður lærdómur líka og lýðræðislegar ákvarðanir teknar um vissa hluti.“

 

Helena segir kennsluskrár geta riðlast af ýmsum ástæðum, vont veður sett strik í reikninginn – eða gott veður sem gaman sé að nýta til útivistar. „Við viljum vinna að því að kennararnir séu alltaf með plan B þannig að við getum hoppað út í eitthvað nýtt og skemmtilegt,“ segir hún. „Það getur verið að sitja bara inni og horfa á bíómynd saman, skreppa út á sjó ef þannig aðstæður skapast, fara á tónleika hjá einhverjum sem alla langar að hlusta á eða kíkja á snjóflóð inni í firði sem vert er að skoða.

 

Hver veit nema við viljum sleppa skóla einn dag til að skipuleggja ball sem við bjóðum öllum Vestfirðingum á,“ segir hún glaðlega. „Það er skóli í því.“ 
 

 

Fréttablaðið helgina 15. og 16. september 2018.
 

Gunnþóra Gunnarsdóttir gun@frettabladid.is

 


Kennsluaðstaðan verður í félagsheimilinu og

líka á efri hæð kaupfélagshússins.

.

 


Anna Sigríður og Helena eru einu föstu starfsmennirnir við Lýðháskólann.
.

 

 

 
 
 Skráð af Menningar-Staður

 

 

15.09.2018 07:25

Eitraða barnið - Nýrri bók Guðmundar fagnað í Húsinu

 

 

 

 

 

Eitraða barnið

 

- Nýrri bók Guðmundar fagnað í Húsinu

 

 

-Eitraða barnið-  heitir sakamálasaga eftir Guðmund S. Brynjólfsson á Eyrarbakka. Bókaútgáfan Sæmundur gefur út. 


Af þessu tilefni verður útgáfuhóf í Húsinu á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 15. september 2018, klukkan 16. Kaffi og konfekt, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. 


Sumarið 1899 er framinn skelfilegur glæpur á Eyrarbakka – eða eru þeir tveir? Eða jafnvel fleiri? Á sama tíma drabbar Eyjólfur Jónsson stud. juris úti í Kaupmannahöfn. Hann er í þann veginn að ljúka lagaprófi – og kominn tími til, að meðtöldum vikum og mánuðum við dufl og dans hefur það tekið hann heil tíu ár.


Á vormánuðum árið 1900 losnar Árnessýsla nokkuð óvænt og aðeins nokkrum dögum síðar er búið að skipa Eyjólf í embættið. Þá upphefst æsileg atburðarrás þar sem nafntogað fólk þessara tíma kemur við sögu. Eyjólfur hringsnýst með í þessu ati, meira af vilja en mætti, og megnar alls ekki að vinna þau störf með sóma sem vænst er af ungum og glæsilegum sýslumanni. Hann finnur sig vankunnandi, er óöruggur og breyskur, fátandi um í rannsókn á óhugnanlegu nauðgunarmáli sem tekur á sig ólíklegustu myndir. 


Ofan á glæpina og eigið líf þarf sýslumaðurinn að kljást við siðspillta sýsluskrifarann, Kár Ketilsson, og myndi sjálfsagt ekki sjá útúr öllum sínum flóknu verkum ef ekki kæmi til mannkostakonan Anna Bjarnadóttir, sýslumannsfrúin sem Eyrbekkingar elska og dá. Ef Önnu hefði ekki notið við væru málin sem þarna er fjallað um sjálfsagt óupplýst enn þann dag í dag.


Fjölskylda Nielsens faktors á Eyrarbakka þvælist inn í málið og við fylgjumst með skáldinu og lögmanninum Einari Benediktssyni verja unglingsstúlku sem sökuð er um hræðilegan verknað. Síra Eggert Sigfússon í Vogsósum kemur og við þessa sögu og sömuleiðis Jóhann Sigurjónsson skáld. Í skáldsögunni Eitraða barnið fléttast þannig saman raunverulegar og tilbúnar persónur en sagan markar upphaf þríleiks um sýslumannshjónin Eyjólf og Önnu.


Eitraða barnið er sjötta bók höfundar sem skrifað hefur fyrir bæði börn og fullorðna, samið leikrit og er pistlahöfundur á baksíðu Fréttablaðsins. 


Eitraða barnið. 200 síður, harðspjalda. ISBN 978-9935-493-29-3. Leiðbeinandi verð er 5.990 kr.

 

Útgáfuhóf í Húsinu á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 15. september 2018, klukkan 16.

 

Kaffi og konfekt, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

 
Húsið á Eyrarbakka. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Menningar-Staður.