Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2018 September

08.09.2018 10:41

Merkir Íslendingar - Halldór Ásgrímsson

 

 

Halldór Ásgrímsson (1947 - 2015)

 

Merkir Íslendingar - Halldór Ásgrímsson

 

 

Hall­dór Ásgríms­son fædd­ist á Vopnafirði 8. september 1947.

For­eldr­ar hans voru Ásgrím­ur Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri á Höfn í Hornafirði, og Guðrún Ing­ólfs­dótt­ir hús­freyja.


 

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Hall­dórs er Sig­ur­jóna Sig­urðardótt­ir lækna­rit­ara og eignuðust þau þrjár dæt­ur, Helgu, Guðrúnu Lind og Írisi Huld.


 

Hall­dór lauk prófi við Sam­vinnu­skól­ann 1965, varð lög­gilt­ur end­ur­skoðandi 1970 og sótti fram­halds­nám í versl­un­ar­há­skól­ana í Björg­vin og Kaup­manna­höfn 1971-73.


 

Hall­dór var lektor við viðskipta­deild HÍ 1973-75, sat á Alþingi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn 1974-78 og 1979-2006, var vara­formaður flokks­ins 1980-94, formaður 1994-2006 og gegndi ráðherra­embætti í 19 ár. Hann var sjáv­ar­út­vegs­ráðherra 1983-91 og gegndi auk þess störf­um sam­starfs­ráðherra Norður­landa og dóms- og kirkju­málaráðherra. Hann var ut­an­rík­is­ráðherra og sam­starfs­ráðherra Norður­land­anna frá 1995, var ut­an­rík­is­ráðherra til 2004, en gegndi síðar­nefnda embætt­inu til 1999. Hann var einnig land­búnaðar- og um­hverf­is­ráðherra vorið 1999 og fór með heil­brigðis- og trygg­inga­málaráðuneyti í for­föll­um í árs­byrj­un 2001.


 

Hall­dór var skipaður for­sæt­is­ráðherra haustið 2004 og gegndi því embætti fram á mitt sum­ar 2006 er hann ákvað að hætta í stjórn­mál­um.


 

Hall­dór var um skeið formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og sat í fjölda nefnda á veg­um Alþing­is. Hann tók við stöðu fram­kvæmda­stjóra Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar í árs­byrj­un 2007 og gegndi því starfi fram í mars 2013.


 

Hall­dór var far­sæll flokks­for­ingi og áhrifa­mik­ill stjórn­mála­maður. Eitt af fyrstu verk­um hans sem sjáv­ar­út­vegs­ráðherra var að inn­leiða kvóta­kerfið 1984. Hann og Davíð Odds­son mynduðu rík­is­stjórn sinna flokka 1995 og viðhéldu sam­felldu stjórn­ar­sam­starfi sinna flokka leng­ur en nokkr­ir aðrir flokks­for­ingj­ar fyrr og síðar. Hall­dór lést 18. maí 2015.

 

Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður.

08.09.2018 08:00

-Nú brosir nóttin- í Grensáskirkju

 

 

 

 

-Nú brosir nóttin- í Grensáskirkju

 

 

Í dag, laugardaginn 8. september 2018 klukkan 14:00 í Grensáskirkju í Reykjavík, fögnum við endurútgáfu bókarinnar -Nú brosir nóttin- þar sem rakin er saga Guðmundar Einarssonar á Brekku á Ingjaldssandi, Önundarfirði.

 

Höfundur er Theódór Gunnlaugsson. Í nýju útgáfunni er að finna margskonar ítarefni um náttúrubarnið og garpinn Guðmund refaskyttu.Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur segir frá afa sínum, Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur les úr bókinni, söngur og orðið laust. Léttar veitingar - rautt, hvítt, kaffi og kleinur - djús fyrir börnin. Mætum öll.BÓKIN VERÐUR Á TILBOÐSVERÐI - 5000 KR. EN FULLT VERÐ ER 6490,- POSI Á STAÐNUM.Skráð af Menningar-Staður

06.09.2018 20:02

Góðar viðtökur við nýju hóteli á sögufrægum stað

 

 

 

 

Leigja gamla barnaskólann í Holti í Önundarfirði:

 

 

   Góðar viðtökur við nýju

 

 hóteli á sögufrægum stað

 

 

– Miklar endurbætur á húsnæði og gestir eru ánægðir

 

„Við erum ánægð með viðtökurnar og þetta er ótrúlega gaman,“ segir Hólmfríður Bóasdóttir, sem ásamt eiginmanni, Kristjáni Óskari Ásvaldssyni, og foreldrum hans, þeim Ásvaldi Magnússyni og Helgu Dóru Kristjánsdóttur, hafa opnað nýtt hótel í Holti í Önundarfirði, það heitir Holt Inn. 

 

Þau gjörbreyttu gamla barnaskólanum í Holti og reka þar nú hótel.

 

Tókst að opna á réttum tíma

 

„Við hófumst handa við þetta verkefni þegar leið að páskum en af fullum krafti í byrjun maí. Við gerðum heilmiklar endurbætur á húsnæðinu og lagfæringar, m.a. voru sett baðherbergi inn á öll 11 herbergin sem til reiðu eru,“ segir Hólmfríður. Hún segir að menn hafi heldur betur látið hendur standa fram úr ermum, því von var á fyrsta hópnum í gistingu 18. júní. „Það voru nú ekki allir jafn bjartsýnir á að þetta tækist og sumir höfðu á orði að við yrðum heppin ef okkur tækist að opna fyrir verslunarmannahelgi. En þetta tókst fyrir tilsettan tíma og allt hefur gengið samkvæmt áætlun fram til þessa,“ segir hún.

 

Hólmfríður segir að reksturinn hafi gengið að óskum, einkum í ljósi þess að um er að ræða nýjan gistimöguleika í fjórðungnum. „Við erum bara að stíga fyrstu skrefin og höfum ekki enn farið á fullt í markaðssetningu, það er í nógu öðru að snúast svona fyrsta kastið,“ segir hún. Viðtökur gesta hafi verið framar vonum, meðaleinkunn á bókunarvefnum booking.com sé góð og það sé ánægjulegt. Gestir á Holt Inn eru í bland Íslendingar og erlendir ferðamenn.

 

Samgöngur setja strik í vetrarferðamennskuna

 

„Fólk hér um slóðir talar um að lausaumferðin sé heldur minni en undanfarin ár, en við erum nýgræðingar í ferðaþjónustunni og höfum ekki viðmið við fyrri ár,“ segir Hólmfríður. Ferðaþjónusta á Vestfjörðum sé þó enn með þeim hætti að hún er mest yfir sumarmánuðina og detti alveg niður þegar vetur gengur í garð. Dynjandisheiði loki við fyrstu snjóa og sé ekki opnuð fyrr en vori á ný, en hótelhaldarar að Holti binda vonir við ný Dýrafjarðargöng sem nú er unnið að og opni eftir eitt til tvö ár. Það muni bæta samgöngur til mikilla muna. „En við hér í Holti erum vel í sveit sett, miðsvæðis í Vestfjarðarhringnum og þannig í alfaraleið.“

 

Margt forvitnilegt að sjá og skoða

 

Skólahaldi var hætt í Holti árið 1999, en sjálfseignarstofnunin Holt-Friðarsetur keypti skólahúsið og hefur rekið í því gisti- og félagsheimili auk kirkjumiðstöðvar.

 

„Það er ýmislegt áhugavert að sjá og skoða hér í næsta nágrenni,“ segir Hólmfríður og nefnir m.a. mikið og áhugavert fuglalíf, falleg fjara dragi ferðalanga að og þá eru margar og fjölbreyttar gönguleiðir í nágrenninu. Kirkja hefur verið í Holti frá því um 1200 og var talið gott prestakall á árum áður. Margir sögufrægir prestar hafa sett svip sinn á mannlífið um tíðina, en nefna má að Brynjólfur Sveinsson biskup fæddist í Holti og þar er minnismerki um hann.
 

.

 


Bændablaðið fimmtudagurinn 6. september 2018.

 

Margrét Þóra Þórsdóttir

mth@bondi.is 
 Skráð af Menningar-Staður

 

 

05.09.2018 20:07

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

 

KK - Kristján Kristjánsson (1925 - 2008)

 

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

Kristján Kristjánsson fæddist 5. september 1925 í Syðstakoti í Miðneshreppi, Gull.

Foreldrar hans voru Sigrún Elínborg Guðjónsdóttir saumakona, f. 7.10. 1904, d. 10.2. 1971, og Kristján Karl Kristjánsson prentari, f. 14.11. 1902, d. 25.5. 1977. Vegna veikinda móður sinnar ólst Kristján upp til fermingaraldurs hjá móðurforeldrum sínum, Guðjóni Þorkelssyni og Þorbjörgu Benónýsdóttur í Syðstakoti.
 

 

Kristján lauk eins árs námi frá Verzlunarskóla Íslands en eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna. Hann stundaði nám í saxófón- og klarínettleik árin 1946-47 við Juilliard School of Music í New York. Þegar heim kom stofnaði hann KK-sextettinn sem hann stjórnaði af mikilli röggsemi allt til ársloka 1961 en þá lagði hann saxófóninn á hilluna.
 

 

Þrátt fyrir að hljómsveitin leystist upp í kjölfarið hafði Kristjáni tekist að setja mark sitt á íslenska tónlistarsögu, m.a. með því að bera hingað til lands nýja strauma frá Bandaríkjunum. Kristján lagði mikinn metnað í allt sem viðkom hljómsveitinni. Á þeim tíma tíðkaðist það ekki að hljómsveitir æfðu áður en spilað var opinberlega en Kristján krafðist þess að vel væri æft, meðlimir væru í hljómsveitarbúningum og lögin væru vel útsett. Kristján átti einnig stóran þátt í því að fólk fór að taka starf hljómlistarmanna alvarlega.
 

 

Árið 1965 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni Verðlistann við Laugalæk. Árið 1980 stofnaði hann svo Litlu fluguna sem var sérverslun með fluguhnýtingarefni þar sem hann gat samtvinnað tvö af sínum helstu áhugamálum, laxveiðar og fluguhnýtingar.
 

 

Kristján kvæntist 1949 Erlu Wigelund, f. 31.12. 1928. Foreldrar hennar: Peter Wigelund skipasmiður, f. í Þórshöfn, og k.h. Vilborg Dagbjartsdóttir húsfreyja. Börn Kristjáns og Erlu: Þorbjörg, Pétur söngvari (d. 2004), Sigrún Júlía og Elísabet.


 

Kristján lést 2. júní 2008.

 


KK sextettinn árið 1948.

Frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Gunnar Ormslev, Savar Gests,

Guðmundur Vilbergsson trompetleikari frá Flateyri, Steinþór Steingrímsson

og Hallur Símonarson.

 

 

Morgunblaðið Skráð af Menningar-Staður

05.09.2018 20:01

5. sept­em­ber 1972 - beitti tog­vír­aklipp­um í fyrsta sinn

 

 

Varðskipið Ægir við bryggju á Flateyri skömmu eftir þorskastríðin. Ljósm.: BIB

 

 

5. sept­em­ber 1972

- beitti tog­vír­aklipp­um í fyrsta sinn

 

Varðskipið Ægir beitti tog­vír­aklipp­um á bresk­an land­helg­is­brjót í fyrsta sinn. Þetta gerðist inn­an 50 sjó­mílna mark­anna norður af Horni, nokkr­um dög­um eft­ir út­færslu land­helg­inn­ar. Á rúmu ári tókst í 82 skipti að klippa á víra tog­ara.Morgunblaðið.


 

Skráð af Menningar-Staður.

05.09.2018 07:22

Yrkja fyrir veikan vin

 

 

Kristján Runólfsson.

 

 

Yrkja fyrir veikan vin

 

• Allur ágóði rennur til Kristjáns Runólfssonar og fjölskyldu hans

 

Ljóðaset­ur Hvera­gerðis og vin­ir Kristjáns Run­ólfs­son­ar minja­safn­ara ætla að halda hagyrðinga­mót í Hvera­gerði í kvöld, miðvikudaginn 5. september 2018, til styrkt­ar Kristjáni og fjöl­skyldu hans.

 

Hagyrðinga­mótið verður það þriðja sem ljóðasetrið held­ur og fer fram í Skyr­gerðinni í Hvera­gerði.

 

Kristján hef­ur átt í harðri bar­áttu við krabba­mein og dvel­ur nú á spít­ala. Eig­in­kona hans, Ragn­hild­ur Guðmunds­dótt­ir, er með MS-sjúk­dóm­inn.

 

Góður hagyrðing­ur

Kristján, sem er ættaður úr Skagaf­irði, stofnaði minja­safn Kristjáns Run­ólfs­son­ar á Sauðár­króki fyr­ir um 18 árum en flutti safnið til Hvera­gerðis nokkr­um árum síðar þegar fjöl­skyld­an flutti þangað.

 

Kristján er góður og mik­ill hagyrðing­ur að sögn þeirra sem þekkja til hans þó hann hafi aldrei gefið út ljóðabók. Hann hef­ur tekið þátt í báðum hagyrðinga­mót­um ljóðaset­urs­ins hingað til en mun ekki koma fram annað kvöld vegna veik­ind­anna.

 

„Það er dýrt að reka svona veik­indi,“ seg­ir Sig­urður Blön­dal vin­ur Kristjáns og einn þeirra sem koma að mót­inu. Hann býst við miklu fjöri og ger­ir ráð fyr­ir að um eitt hundrað fer­skeytl­ur verði samd­ar annað kvöld.

 

Hagyrðinga­mótið hefst klukk­an 20 í Skyr­gerðinni í Hvera­gerði.

 

Aðgangs­eyr­ir er 2.000 kr. og renn­ur hann óskipt­ur til fjöl­skyldu Kristjáns.

 

 

Hjartamál og hugardraumar

 

Vorið mun koma og verma að nýju,

vaknar þá lífið um dali og grund,

aknandi bíðum við sólgeislahlýju,

sumars við fögnum með gleði í lund,

því skal ei vera með trega né tár,

tíminn hann líður, það vissa er klár.


Ljóð Kristjáns Runólfssonar.Skráð af Menningar-Staður

 

 

05.09.2018 06:51

Heldur uppá vefinn Menningar-Stað

 

 

 

Heldur uppá vefinn Menningar-Stað

 

 

Uppáhaldsvefur Guðmundar Magnússonar, yfir-verkstjóra á Litla-Hrauni, er vefur Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi og Alþýðuhússins á Eyrarbakka: www.menningarstadur.123.is

 

Ort var:


Guðmundur á góðan skjá
gleður oft hans anda.
Saga - menning sagt er frá
sveitir og til stranda.


 
Skráð af Menningar-Staður.

04.09.2018 19:15

Fánasetur Suðurlands flaggar fyrir forsetahjónum

 


Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka

að kveldi 4. september 2018.

 

 

Fánasetur Suðurlands flaggar fyrir forsetahjónum

 

 

Fánasetur Suðurlands að Ránrgrund á Eyrarbakka flaggaði íslenskum fána í dag, þriðjudaginn 4. september 2018.


Það var gjört í minningu forsetahjónanna Jóns Sigurðssonar (1811 – 1879) og Ingibjargar Einarsdóttur (1805 – 1879) en þau gengu í hjónband á þessum degi árið 1845 eða fyrir 173 árum.


Þau stofnuðu heimili í Kaupmannahöfn. Forsetahjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu.


Ekki er vitað um aðra staði á landinu sem heiðra minningu Jóns og Ingaibjargar með sama hætti og Fánasetur Suðurlands að Ránargund á Eyrarbakka gerir í dag 4. september.

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

 

04.09.2018 06:49

4. september 1845 - Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson (1811  - 1879)

og Ingibjörg Einarsdóttir (1805 - 1879).

 

4. september 1845

- Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, 34 ára skjalavörður (síðar nefndur forseti), og Ingibjörg Einarsdóttir, 40 ára, voru gefin saman í hjónaband þann 4. september 1845, en þau höfðu verið í festum í tólf ár. 

 

Þau stofnuðu  heimili í Kaupmannahöfn. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu. Haustið 1859 tóku þau til sín fósturson, Sigurð Jónsson 8 ára, systurson Jóns vestan af fjörðum, og ólu hann upp sem sinn eigin son en sjálf voru þau barnlaus.Jón og Ingibjörg létust bæði í desember 1879.

 

 


Øster Voldgade (Jónshús) í Kaupmannahöfn.

 

 

Morgunblaðið - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.


Skráð af Menningar-Staður.

04.09.2018 06:40

Merkir Íslendingar - Kjartan Sveinsson

 


Kjartan Sveinsson (1926 - 2014).

 

 

Merkir Íslendingar - Kjartan Sveinsson

 

 

Kjart­an Sveins­son fædd­ist á Búðareyri við Reyðarfjörð 4. sept­em­ber 1926.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Guðný Páls­dótt­ir hús­freyja, f. á Kleif í Fljóts­dal, S- Múl. 1906, d. 1997, og Sveinn Jóns­son versl­un­ar­maður, f. í Prest­bakka­koti á Síðu,. V-Skaft., 1896, d. 1989.

 

Fjöl­skyld­an flutti til Ak­ur­eyr­ar þegar Kjart­an var fjög­urra ára,. til Ólafs­fjarðar þegar Kjart­an var sjö ára og tólf ára þegar fjöl­skyld­an flutti til Reykja­vík­ur.

 

Kjart­an lauk gagn­fræðaprófi 1945 og tók próf upp í 3. bekk Mennta­skól­ans í Reykja­vík og náði því. Vegna bágr­ar fjár­hags­stöðu fjöl­skyld­unn­ar varð ekk­ert úr því námi. Á ár­un­um 1946-1950 lærði hann húsa­smíði hjá Tóm­asi Vig­fús­syni, 1950 fór hann á lýðhá­skóla í Svíþjóð í boði Nor­ræna fé­lags­ins og 1952-1955 var hann í námi í bygg­ing­ar­tækni­fræði við Katr­in­eholms tekn­iske skole í Svíþjóð.

 

Að loknu námi hóf hann störf á teikni­stofu Húsa­meist­ara Reykja­vík­ur og starfaði þar í sex ár. Hann hóf síðan rekst­ur eig­in teikni­stofu 1961 og rak hana í 43 ár. Eft­ir hann liggja teikn­ing­ar af u.þ.b. 5.000 ein­býl­is­hús­um og raðhús­um og 10.000 íbúðum í fjöl­býl­is­hús­um. Þá teiknaði hann einnig Hót­el Örk í Hvera­gerði ásamt fjölda af bygg­ing­um fyr­ir skrif­stof­ur, iðnað, skóla og versl­an­ir.

 

Hann rak bílaþvotta­stöð í Sól­túni 3 um 37 ára skeið ásamt Hrefnu eig­in­konu sinni og stjórnaði hún rekstri stöðvar­inn­ar alla tíð. Árið 2006 seldu þau fyr­ir­tækið.

 

Hinn 22.12. 1961 kvænt­ist Kjart­an eft­ir­lif­andi eig­in­konu sinni, Hrefnu Kristjáns­dótt­ur, f. 10. desember 1928.

Dæt­ur Hrefnu og Kjart­ans eru;

Álf­heiður, f. 1963, og Arn­dís, f. 1965.

Syn­ir Kjart­ans frá fyrri hjóna­bönd­um:

Þór­ar­inn, f. 1956, móðir Vil­borg Ásgeirs­dótt­ir, f. 1926, og Sveinn, f. 1957, d. 2000, móðir Krist­ín Árna­dótt­ir, f. 1939. Fóst­ur­dótt­ir Kjart­ans, dótt­ir Hrefnu og Þóris Jóns­son­ar, er Sig­fríð Þóris­dótt­ir, f. 1953.

 

Kjart­an lést 27. sept­em­ber 2014.

 


Hótel Örk í Hveragerði.

 


Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður.