![]() |
Fáni Rúmeníu við Fánasetur Suðurlands
Fánasetur Suðurlands gjörir kunnugt:
Í morgun kl. 08:00, sunnudaginn 17. mars 2019, var flaggað fána Rúmeníu í fyrsta sinn að Ránargrund á Eyrarbakka.
Fresta varð myndatöku fánans um fjórar klukkustundir vegna vindleysis á Eyrarbakka í morgun.
Fánavottur var Kristján Gíslason á Eyrarbakka og einnig kom Sigurður Steindórsson á Eyrarbakka að máli fánans.
![]() |
||
Fánavottur var Kristján Gíslason á Eyrarbakka.
|
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Hlíðarendakirkja í Fljótshlíð. Ljósm.: SJ.
|
Bændamessa í Hlíðarendakirkju 17. mars 2019
Séra Önundur Björnsson, sóknarprestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð hefur boðað til sérstakrar bændamessu í Hlíðarendakirkju í dag, sunndaginn 17. mars 2019 kl. 13:00.
Í samtali við Dagskrána segist hann helga bændum og starfi þeirra við matvælaframleiðslu þessa messu. Einnig sögu staðarins.
„Bændurnir vinna gríðarlega mikilvægt starf fyrir þjóðina og íslenskar matvörur eru einstakar á veraldarvísu,“ segir Önundur. Hann segir einnig að mikilvægt sé að þakka þá Guðsgjöf að eiga fullt búr matar þegar milljarður manna svelti og enn deyi börn úr hungri eins og hér áður. „Þetta er gert til að minna á mikilvægt starf bænda og tilveru sveitanna. Svo er Hlíðarendakirkja á sögufrægum stað, lítið og sérlega fallegt guðshús.
Allir Íslendingar sem hafa lesið Njálu vita að hetjan Gunnar Hámundarson er enn þekktasti bóndinn á Hlíðarenda. Einnig að engri konu var jafn illa tekið í Rangárþingi og Hallgerði langbrók,“ Önundur segir að fólk geti gert þetta að skemmtilegum sunnudagsbíltúr. Ræðumaður verður Elvar Eyvindsson bóndi á Skíðbakka í Austur-Landeyjum.
Allir eru velkomnir í bændamessuna.
Dagskráin.
Skráð af Menningar-Staður
-Gullmoli mannlífs á mynd-
Á morgunfundi í Shell-Skálanum á Stokkseyri þann 18. júní árið 2006.
Talið frá vinstri:
Hinrik Ólafsson, Tómas Karlsson, Þorvaldur Ágústsson, Borgar Þorsteinsson og Sveinbjörn Guðmundsson.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Menningar-Staður.
Stytta Guðmundar Arasonar á Hólum í Hjaltadal.
Gvendardagur er 16. mars
Gvendardagur er 16. mars. Þá lést Guðmundur góði Arason Hólabiskup árið 1237. Guðmundar- eða Gvendardagur varð messudagur í Hólabiskupsdæmi ári 1315 þegar bein hans voru tekin upp.
Mikil helgi var á Guðmundi meðan katólska entist þótt hann væri aldrei lýstur helgur maður opinberlega, og eimdi lengi eftir af dýrkun hans, einkum á norðanverðum Vestfjörðum þar sem heimildir eru um nokkurt tilhald á messudegi Guðmundar allt fram á 20. öld.
Sunnanlands var gert ráð fyrir veðrabrigðum til hins verra þennan dag eða Geirþrúðardag daginn eftir, og jafnvel talið ills viti ef það brást.
Prestur. Tók prestvígslu um 1184. Gegndi prestskap á ýmsum stöðum nyrðra, fékk Hofsþing (Hof á Höfðaströnd og Miklibær) 1185, Ríp 1189, Velli í Svarfaðardal 1190, Upsir 1196, Reynistaðaklaustur 1197,Glaumbæ 1198-1201. Virðist hafa verið í Hofdölum a.m.k. hluta árs 1186.
Kjörinn biskup 1201 og vígður í Niðarósi 13. apríl 1203. Lést 1237. Varð kunnur af trúrækni, meinlætalifnaði og góðgerðarsemi við fátæka. Var heilagur maður í hugum margra þó ekki væri hann tekinn í dýrlingatölu.
Skráð af Menningar-Staður
Byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri
Árleg byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri, sem í ár verður í samvinnu við verslunina Hlað, verður haldin laugardaginn 16. og sunnudaginn 17. mars 2019 frá kl. 11–18 í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49 Stokkseyri.
Hjálmar í Hlað og félagar sýna úrval skotvopna og búnað til skotveiða ásamt sjónaukum og aukabúnaði.
Fjölbreytt úrval skotvopna verður til sýnis, haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum m.a úr einkasöfnum.
Hartmut Liedtke verður á staðnum með sérstaka kynningu á sjónaukum frá Blaser í Þyskalandi sem er nýjung hérlendis.
Kynntir verða rifflar frá Blaser, Sauer, haglabyssur frá Marocchi og Blaser, einnig sjónaukar frá Zeiss og Meopta ásamt hljóðdeyfum frá Hausken, Devik og Freyr, endurhleðsluvörum frá Hornady, Redding, Lyman, Berger Bullets og fl.
Skotvís verður með kynningu á sinni starfsemi og Bogveiðifélag Íslands verður einnig með kynningu á sinni starfsemi og sýnir búnað tengdum bogveiðum ofl.
Gestur byssusýningar í ár er Óskar Elías Sigurðsson uppstoppari frá Vestmannaeyjum. Hann verður með kynningu á sínum verkum og verðu þar margt fallegt að sjá af uppstoppuðum dýrum.
Einnig verða til sýnis skotvopn og munir frá Sverri Scheving Thorsteinssyni, Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá, Sveini Einarssyni frv.veiðistjóra, Sigmari B. Haukssyni og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík svo eitthvað sé nefnt.
Byssusýning Veiðisafnsins er landsþekkt og er aldrei eins á milli ára og sýningin í ár er þar engin undantekning.
Allt áhugafólk um skotvopn og veiðar er velkomið,
Aðgangseyrir er;
kr.1500.- fullorðnir
og 750.- kr. börn 6-12 ára.
Skráð af Menningar-Staður.
Litla-Hraun – sögusýning
Í tilefni 90 ára afmælis Fangelsisins á Litla-Hrauni efna fangelsið og Byggðasafn Árnesinga til sögusýningar í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin opnaði á afmælisdeginum föstudaginn 8. mars 2019 kl. 17.
Á sýningunni er sögð saga fangelsisins. Þróun á starfsemi Litla Hrauns sem stofnunnar er þar í forgrunni en auk þess er litið inní veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Sýningin er byggð á ýmsum munum frá fangelsinu, ljósmyndum sem til eru og gagnorðum sýningartextum.
Vinnuhælið á Litla-Hrauni tók til starfa 8. mars 1929 í byggingu í útjaðri Eyrarbakka sem reist var sem sjúkrahús en hóf svo ekki starfsemi sökum fjárskorts. Á þessum tíma voru refsifangamálefni í miklum ólestri og sáu yfirvöld þarna tækifæri til að leysa úr þeim vanda með því að fá sjúkrahúsbyggingunni það hlutverk að hýsa refsifanga. Starfsemin hét Vinnuhælið á Litla-Hrauni og voru jarðirnar Stóraog Litla-Hraun lagðar undir starfsemina og rekinn búskapur á vinnuhælinu til 1970. Síðar var starfseminni breytt úr vinnuhæli í afplánunarfangelsi og starfsemin fékk heitið Fangelsið Litla-Hraun. Stofnunin er stærsta fangelsi landsins og eru þar allt að 87 fangar og 57 stöðugildi. Tíu byggingar eru við fangelsið.
Sýningin verður opin allar helgar í mars og apríl kl. 14-17. Auk þess verður séropnun í kringum páska og opið á sama tíma alla virka daga frá 15. apríl. Sumaropnun safnsins hefst 1. maí og þá eru söfnin opin uppá gátt alla daga kl. 11-18. Ávallt heitt á könnunni og verið velkominn.
Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.
Byggðasafn Árnesinga og Fangelsið Litla-Hraun.
Suðri fimmtudaginn 14. mars 2019.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Erlingur Gíslason (1933 - 2016). |
Merkir Íslendingar - Erlingur Gíslason
Erlingur Gísli Gíslason fæddist 13. mars 1933 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru hjónin Gísli Ólafsson, f. 1898, d. 1981, bakarameistari, og Kristín Einarsdóttir, f. 1899, d. 1992, húsmóðir.
Erlingur lauk stúdentsprófi frá MR 1953, prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1956, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1953-54, nam leikhúsfræði við Háskólann í Vínarborg og leiklist við Leiklistarskóla Helmuts Kraus í Vín 1956-57, sótti leiklistarnámskeið í London og Berlín 1965-66 og námskeið í gerð kvikmyndahandrita hjá Dramatiska Institutet í Svíþjóð.
Erlingur var leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu, leikhópnum Grímu og Leikfélagi Reykjavíkur og fór með fjölda hlutverka í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum. Erlingur var einn af stofnendum Leikklúbbsins Grímu 1961, var formaður Leikarafélags Þjóðleikhússins 1967-69 og Félags íslenskra leikstjóra 1975-77 og 1979-81.
Hann var fulltrúi Alþýðubandalagsins í Reykjavík á landsfundum flokksins og sat í framkvæmdastjórn Leiklistarráðs fyrir Félag leikstjóra á Íslandi 1990-91.
Erlingur samdi ásamt Brynju Benediktsdóttur leikritið Flensað í Malakoff og leikritið Flugleik ásamt fleirum. Erlingur skrifaði handrit að stuttmyndinni Símon Pétur fullu nafni 1988 og hlaut verðlaun Listahátíðar í Reykjavík fyrir það.
Árið 2008 sæmdi forseti Íslands Erling riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrarh leiklistar.
Fyrri eiginkona Erlings var Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, d. 2.3. 1996, ballett- og gítarkennari. Þau skildu. Synir þeirra eru Guðjón, f. 1955, verkfræðingur, og Friðrik, f. 1962, rithöfundur og skáld. Seinni eiginkona Erlings var Brynja Benediktsdóttir, f. 20.2. 1938, d. 21.6. 2008, leikstjóri, leikskáld og leikari, Sonur þeirra er Benedikt, f. 1969, leikari og leikstjóri.
Erlingur lést 8. mars 2016.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
-Gullmoli mannlífs á mynd-
Í morgunfundi í Shell-Skálanum á Stokkseyri um miðjan september árið 2005.
Talið frá vinstri:
Þorvaldur Hafberg, Hinrik Ólafsson, Grétar Zóphoníasson, Gísli Rúnar Guðmundsson, Tómas Karlsson, Sveinbjörn Guðmundsson og Steingrímur Jónsson.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
103 ár
frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins
12. mars 1916 komu tuttugu fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum í Reykjavík og Hafnarfirði saman í Bárubúð í Reykjavík til að stofna samband félaganna sem um leið var stjórnmálaflokkur jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn. Félögin sem stóðu að stofnun sambandsins voru Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkakvennafélagið Framsókn, Hásetafélag Reykjavíkur, Hið íslenska prentarafélag, Bókbindarafélag Íslands, Verkamannafélagð Hlíf og Hásetafélag Hafnarfjarðar. Meðlimir félaganna voru um 1500 á þessum tíma. Árið 1917 gekk Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði í sambandið.
Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og Alþýðuflokkurinn skilinn frá sambandinu til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ, sem eftir það varð eingöngu verkalýðssamband. Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru um hundrað þúsund í 5 landssamböndum og 51 aðildarfélögum um land allt. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi.
Fyrstu stjórn Alþýðusambandsins skipuðu Ottó N. Þorláksson forseti, Ólafur Friðriksson varaforseti og Jón Baldvinsson ritari. Haustið 1916 var Jón Baldvinsson prentari kosinn forseti ASÍ og um leið formaður Alþýðuflokksins. Gegndi hann því embætti allt til dauðadags árið 1938. Jón Baldvinsson var Vestirðingur, fæddur og uppalinn á Strandseljum í Ögurhreppi í Ísafjarðardjúpi. Hann komst ungur í prentnám við prentsmiðju Þjóðviljans unga sem Skúli Thoroddsen alþingismaður gaf út á Ísafirði. Þegar Skúli flutti búferlum til Bessastaða og síðar Reykjavíkur með fjölskyldu, blað og prentsmiðju fylgdi Jón Baldvinsson með. Jón var kosinn á Alþingi árið 1920 og var eini þingmaður Alþýðuflokksins á þeim tíma. Hann var framkvæmdastjóri Alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík frá árinu 1918.
Fjórir forsetar Alþýðusambands Íslands hafa verið Vestfirðingar. Auk Jóns Baldvinssonar eru það Helgi Hannesson frá Dynjanda í Jökulfjörðum, síðar kennari á Ísafirði og formaður Verkamannafélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann var forseti ASÍ 1948-1954. Þá tók við Hannibal Valdimarsson kennari, formaður Baldurs og forseti Alþýðusambands Vestfjarða. Hann var forseti ASÍ lengst allra fyrir utan Jón Baldvinsson, frá 1954-1971. Loks má nefna að Benedikt Davíðsson trésmiður varð forseti ASÍ árið 1988, en hann var fæddur og uppalinn á Patreksfirði.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri. |
Þýskur kafbátur ræðst á varnarlausa fiskimenn.
Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri var byggður árið 1922. Skipið kom hingað til lands 1924 og var þá í eigu Þorsteins Eyfirðings. Í byrjun árs 1941 kom skipið úr klössun og hafði þá verið lengt töluvert.(123 smálestir brúttó en var áður 95 lestir) Línuveiðarinn Fróði var afar fengsæll og happadrjúgt skip á sinni tíð.
Fróði var staddur um 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum kl. 6 að morgni þann 11.mars 1941 á leið til Fleetwood á Englandi með fiskfarm þegar kafbáturinn U-74 réðst á skipið. Kafbáturinn skaut þremur skotum að skipinu og ákvað þá skipstjórinn á Fróða að láta stöðva vélarnar og skipaði áhöfninni að fara í bátanna þegar í stað. Á meðan áhöfnin var að bjástra við að sjósetja skipsbátinn hóf kafbáturinn nýja skothrinu og í millitíðinni hafði sprengikúla hæft brúna á Fróða sem sundraðist að mestu leiti og féllu þeir menn sem þar voru staddir. Björgunarbáturinn varð fljótt sundurskotinn og einn af þeim mönnum sem staddur var á bátadekkinu fékk í sig skot og féll örendur og skömmu síðar særðist skipstjórinn á Fróða lífshættulega.
Stýrimaðurinn fallinn.
Sverrir Torfason matsveinn var vakinn skömmu fyrir kl.6 um morguninn og sagt að verið sé að gera árás á skipið og að áhöfnin væri að fara í bátana. Á meðan hann var að klæða sig kom sprengikúlan í brúna fyrir ofan hann með miklum hvelli og splundraði yfirbyggingunni. Stjórnborðsmeginn í brúnni féllu tveir hásetar, (Gísli Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson) en í dyrunum bakborðsmeginn féll stýrimaðurinn. (Sigurður Jörundsson) Allt umturnaðist í Stýrishúsinu og ljósin slokknuðu og brúin fylltist af gufusvækju þegar ofnpípa fór í sundur. Tveir aðrir menn voru í brúnni þegar sprengikúlan sprakk, skipstjórinn og einn háseti sem komst lífs af en vankaður eftir að hafa fengið kompásinn í höfuðið.
Vélstjórinn særður.
Þegar skipstjórinn kemur út á bátadekkið kemur önnur skothrina frá kafbátnum og tætir skipsbátinn í tvennt, rétt eins og hann hefði verið sagaður sundur. Sveinbjörn 1.vélstjóri brá sér þá inn í herbergi sitt til að sækja sér jakka en fær þá skot í báða handleggi sem komu í gegnum þilfarið stjórnborðsmeginn. Skömmu síðar særðist skipstjórinn þar sem hann stóð á bátadekkinu og kallar hann á Sveinbjörn að hann sé særður. Þrátt fyrir að Sveinbjörn væri illa leikinn skrönglaðist hann upp í brú til að sækja sjúkrakassann og ber hann niður á bátadekkið svo hægt sé að huga að sárum skipstjórans.
Stefnan tekin heim.
Sverrir skýst nú upp þegar skothríðinni linnti ásamt Guðmundi háseta. Þeir bera nú helsærðan skipstjórann niður í káetu og reyna að hjúkra honum þar. Þá er kallað til þeirra að það liggi særður maður á dekkinu. það var Steinþór Árnason og var hann illa sár. Sverrir og Guðmundur báru hann einnig niður í káetuna og reyndu að gera sitt besta til að hjúkra þessum mönnum. Eftir að hafa bundið um sár mannanna hófu þeir félaga að gera ráðstafanir til að sigla skipinu heim eftir leiðbeiningum skipstjórans og var stefnan tekin Norðvestur.
Það var orðið albjart þegar hér var komið og kafbáturinn horfinn af yfirborðinu. Kyndararnir tóku til höndunum við að koma vélinni á hreyfingu. Þeir sem voru uppistandandi könnuðu skemmdirnar á skipinu hágt og lágt. Það kom í ljós að kafbáturinn hafði skotið á skipið allt um hring. Um þetta leiti er verulega dregið af Steinþóri og andast hann skömmu síðar.
Skaftfellingur kemur til hjálpar.
Daginn eftir er Fróði staddur 90 sjómílur suður af Vestmannaeyjum og verða þeir þá varir við skip og gera vart við sig með því að skjóta upp flugeldum, (Talstöð þeirra hafði eyðilagst í skotárásinni). Þetta skip var Skaftfellingur og sendi skipstjórinn á honum skeyti til lands og bað um að skip yrði sent til aðstoðar Fróða.
Aðstoðarskipið fór á mis við þá um nóttina og kl 9 næsta morgun deyr skipstjórinn af sárum sínum. þá er Fróði kominn nærri landi og klukkan 16 þennan dag leggst fróði að Bryggju í Vestmannaeyjum. Af 11 manna áhöfn lifðu 6 skipverjar.
Þeir sem létust í árásinni voru: Gunnar Árnason skipstjóri, Sigurður V Jörundssonstýrimaður, Steinþór Árnason háseti (bróðir skipstjórans) Gísli Guðmundssonháseti og Guðmundur Stefánsson háseti.
Af vefsíðunni - Sagnabrunnur.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is