![]() |
Á morgun, hinn 17. apríl 2019, verður hátíðleg stund í Dýrafjarðargöngunum en þá verður síðasta færan sprengd sem jafnframt verður viðhafnarsprenging. Vel hefur gengið við gangnagröft bæði Arnarfjarðarmegin fyrir áramót og nú eftir áramót Dýrafjarðarmegin. Á föstudaginn 12. apríl var gegnumbrot þar sem mátti sjá í gegn milli gangnahluta.
Vegna viðhafnarsprengingarinnar miðvikudaginn 17. apríl býður verktakinn Suðurverk áhugasömum að taka þátt í hátíðarhöldum. Tvær rútur munu ferja fólk frá Ísafirði inn að göngum og aftur til baka eftir dagskrárlok.
Hátíðardagskrá:
12:45 Stór rúta ferjar fólk frá bílastæði við Kjaranstaði og inn á vinnusvæðið. Smárútur verktaka ferja fólk inn í útskot J sem er rúma 800 m inni í göngum. Þaðan mun fólk ganga inn í útskot I sem er um 500m innar.
14:00 Ávörp
14:15 Karlakórinn Ernir flytur 2-3 lög
14:30 Viðhafnarsprenging. Í kjölfarið gefst fólki kostur á að ganga inn að gegnumbroti.
15:00 Kaffiveitingar í útskoti I þar sem fólki gefst kostur á að næla sér í skrautsteina úr göngunum.
15:30 Smárútur ferja fólk út úr göngum og í stærri rútur
17:00 Síðasti útmokstur verktaka
Athugið að mikilvægt er að allir fari eftir merkingum og sýni mikla aðgát því enn er þetta hættulegt vinnusvæði en starfsmenn verktaka munu leiðbeina fólki á svæðinu. Þar sem um er að ræða gegnumbrot þá er æskilegt að minna á að tekið sé mið af aðstæðum við val á skóbúnaði og fatnaði. Einnig skal skýrt tekið fram að því miður er ekki stætt á því að hleypa undir 18 ára inn á vinnusvæðið eins og gefur að skilja.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
var á Hrafnseyri þann 3. ágúst 1980 |
15. apríl 2019 -
afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur
Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.
Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980, endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét af embætti 1996.
Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.
Hún hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við eftirfarandi háskóla: Háskólinn í Grenoble, Frakklandi (1985), Háskólinn í Bordeaux, Frakklandi (1987), Smith College, Bandaríkjunum (1988), Luther College, Bandaríkjunum (1989), Háskólinn í Manitoba, Kanada (1989), Háskólinn í Nottingham, Bretlandi (1990), Háskólinn í Tampere, Finnlandi (1990), Háskólinn í Gautaborg, Svíþjóð (1990), Gashuin háskólinn í Tokyo, Japan (1991), Háskólinn í Miami, Bandaríkjunum (1993), St. Mary´s háskólinn í Halifax, Kanada (1996), Háskólinn í Leeds, Bretlandi (1996), Memorial University, St John, Nýfundnalandi, Kanada (1997) Háskólinn í Guelph, Kanada (1998) og Háskóli Íslands, 2000.
Hún var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
F.v.: Margrét Erlingsdóttir, rafvirki, Björgvin Tómasson, orgelsmiður,
Jóhann Hallur Jónsson, húsgagnasmiður, Einar Jónatansson, sóknarnefndarformaður,
og Guðrún B. Magnúsdóttir, organisti. Mynd Helgi Hjálmtýsson.
Pípuorgel Björgvins í Bolungarvíkurkirkju
Björgvin Tómasson orgelsmiður vann á dögunum ásamt aðstoðarfólki sínu að uppsetningunni í Bolungarvík en orgelið sem Björgvin hefur smíðað fyrir kirkjuna er níu radda pípuorgel og er það fertugasta í röðinni sem hann smíðar.
Björgvin rekur Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og honum til aðstoðar eru Margrét Erlingsdóttir rafvirki og Jóhann Hallur Jónsson húsgagnasmiður.
Í tilefni af aldarafmæli kirkjunnar árið 2008 var stofnaður orgelsjóður með það að markmiði að safna fyrir nýju pípuorgeli. Kristný Pálmadóttir stofnaði orgelsjóðinn 5. desember 2008 en kirkjan var vígð 7. desember 1908. Kristný söng í kirkjukórnum í áratugi en hún lést árið 2012.
„Sjóðnum hafa borist ótal gjafir frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Bolvíkingafélagið í Reykjavík og brottfluttir Bolvíkingar hafa einnig sýnt söfnuninni mikinn velvilja og gefið háar fjárhæðir, það má því segja að Bolvíkingar hafi með samstilltu átaki fjármagnað að fullu og gefið Hólskirkju nýtt pípuorgel“, segir Einar Jónatansson sóknarnefndarformaður.
Árið 2017 var söfnuninni fyrir orgelinu lokið og í október var undirritaður smíðasamningur við Björgvin. Í samningnum var gert ráð fyrir að orgelið yrði vígt nú á aðventunni á 110 ára afmæli kirkjunnar en af óviðráðanlegum orsökum seinkaði afhendingu um nokkra mánuði.
Gamla orgelið í Hólskirkju í Bolungarvík sem var fyrir í kirkjunni gáfu Bolvíkingar í tilefni af 50 ára vígsluafmæli hennar en það var vígt við hátíðarmessu 17. júní árið 1960 og var því notað samfellt í 58 ár. Nokkur samskonar orgel frá Kemper & Sohn voru í kirkjum á Íslandi og var orgelið í Hólskirkju það síðasta af þeim sem var í notkun.
Sjá nánar í Landanum á RUV sunnudagskvöldið 14. apríl 2019
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
|
Eggjaverkstæði við Húsið
Eggjaverkstæði opið í gamla fjárhúsinu 13. - 22. apríl 2019.
Öllum frjálst að koma og skreyta hænuegg.
Opið 14 -17 alla dagana.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Jón Helgason (1931 - 2019). |
Jón Helgason
- Fæddur 4. okt. 1931- Dáinn 2. apríl 2019 - Minning
Jón Helgason fæddist í Seglbúðum 4. október 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri 2. apríl 2019.
Foreldrar hans voru Helgi Jónsson, f. 1894, d. 1949, og Gyðríður Pálsdóttir, f. 1897, d. 1994.
Systur Jóns voru:
Margrét, f. 1922, d. 2010, gift Erlendi Einarssyni, f. 1921, d. 2002, Ólöf, f. 1924, d. 1990, gift Birni Bergsteini Björnssyni, f. 1918, d. 1986, og Ásdís, f. 1929, d. 2015, gift Einari Hauki Ásgrímssyni, f. 1929, d. 1989. Hinn 25. nóvember 1961 kvæntist hann Guðrúnu Þorkelsdóttur, f. 21. apríl 1929. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorkell Sigurðsson, f. 1897, d. 1965, og Bjarney Bjarnadóttir, f. 1901, d. 1981, búsett í Reykjavík. Bróðir Guðrúnar var Sigurður, f. 1930, d. 2015.
Börn Jóns og Guðrúnar eru:
Helga, f. 1968, maki Þórarinn Bjarnason, f. 1953, dóttir þeirra er Bjarney, f. 1997, börn Helgu og stjúpbörn Þórarins eru: Jón Rúnar Helgason, f. 1986, maki hans er Sophia Nell Wassermann, f. 1991, Sigurbjörg Helgadóttir, f. 1988, en hún á soninn Róbert Jack Brynjarsson, f. 2015, og Guðmundur Helgason, f. 1990, maki hans er Yrsa Stelludóttir, f. 1990. Bjarni Þorkell, f. 1973, kvæntur Grétu Rún Árnadóttur, f. 1977, börn þeirra eru: Oddur Ingi, f. 2000, og Dúna Björg, f. 2010. Björn Sævar Einarsson, f. 1962, kvæntur Guðrúnu Mörtu Torfadóttur, f. 1949, börn hennar og stjúpbörn Björns eru: Ástríður Höskuldsdóttir, f. 1970, Torfi Höskuldsson, f. 1973, og Nína Höskuldsdóttir, f. 1978.
Jón ólst upp í Seglbúðum í Landbroti og stundaði síðan nám við Menntaskólann í Reykjavík, þaðan sem hann útskrifaðist sem stúdent 1950. Hann stóð fyrir búi móður sinnar í Seglbúðum að námi loknu og var bóndi þar frá 1959 til ársins 1980. Stundakennari við unglingaskólann á Kirkjubæjarklaustri 1966-1970. Í hreppsnefnd 1966-1986, þar af oddviti í 10 ár. Starfaði mikið að félags- og hagsmunamálum bænda og var m.a. formaður Búnaðarfélags Íslands 1991-1995. Var kosinn á þing 1974 fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurlandskjördæmi og sat á þingi óslitið til ársins 1995. Landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1983-1987 og landbúnaðarráðherra 1987-1988 og forseti sameinaðs Alþingis 1979-1983.
Sem þingmaður beitti Jón sér mest í landbúnaðarmálum og hagsmunamálum landsbyggðarinnar. Bindindismál voru honum mjög hugleikin og lét hann að sér kveða í þeim efnum bæði á Alþingi og utan þess. Hann sinnti líka nokkuð alþjóðastarfi á vegum þingsins. Var forseti kirkjuþings frá árinu 1997 til ársins 2006. Einnig var Jón formaður Landverndar frá 1997-2001.
Hér hefur verið stiklað á stóru af þeim fjölmörgum trúnaðarstörfum sem Jón tók að sér bæði fyrir heimahérað sitt og á landsvísu, hvort sem var á opinberum vettvangi, í stjórnum fyrirtækja sem og frjálsum félagasamtökum.
Útför Jóns verður gerð frá Prestsbakkakirkju á Síðu í dag, 13. apríl 2019, klukkan 13.
______________________________________________________________________________________
Minningarorð Guðna Ágústssonar
Jón Helgason var eftirminnilegur maður, hann var hógvær, vinnusamur og í rauninni laus við alla þá athyglissýki sem einkennir marga stjórnmálamenn um heim allan.
Jón var Skaftfellingur í húð og hár. Þessi ungi piltur þótti óvenjuskýr og var sendur menntaveginn í MR. Námið sóttist vel og hann varð stúdent 1950 en faðir hans lést um þær mundir á besta aldri lífsins þannig að Jón hvarf heim og stóð fyrir búinu í Seglbúðum með móður sinni næstu tíu árin og tók svo við búinu með Guðrúnu sinni. Enginn veit hvert forsjónin hefði leitt hinn gáfaða pilt frá Seglbúðum hefðu örlaganornirnar ekki gripið svo grimmilega inní líf fjölskyldunnar. En skyldan kallaði hann heim að hinu glæsilega búi og hann tók upp merki föður síns og yrkti jörðina og ræktaði fallegt sauðfé. Jón hefði átt gott með að sækja langskólanám, sterkust þótti mér stærðfræðin og glöggur skilningur að setja sig inn í flókin mál.
Skaftfellingar eru gömlu vatnamennirnir sem þekktu vaðið á fljótinu. Jón valdist til allra forystustarfa í sveit sinni og héraði. Nafn hans kom upp 1974 eftir að nokkrar deilur urðu um hver skyldi skipa annað þingsæti flokksins í kjördæminu. Jón tók þingmennskuna alvarlega og þótti strax glöggskyggn og þótt ræðan væri hvorki hávær eða lituð sterkum litum þá hlustuðu menn. Ef vanda bar að höndum í flokknum eða þinginu þótti strax gott að fela Jóni að leita lausna. Og þegar mesta uppnám í pólitík síðustu áratuga brast á, ríkisstjórnir sprungu og flokkar klofnuðu og Alþingi var nokkuð illa statt þess vegna, þá urðu þingmenn sammála um að skipa Jón forseta Sameinaðs þings. Þetta verkefni leysti hann með þeim hætti að allir vegir voru honum opnir til frama innan flokksins.
Jón varð landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra í beinu framhaldi. Þá steðjaði mikill vandi að bændum, gríðarleg offramleiðsla á bæði kjöti og mjólk. Jón leit á það sem sitt verkefni að finna vaðið yfir hið straumþunga fljót og ég er sannfærður um að fáir hefðu haft þor til að gera það sem Jón varð að gera, til að bjarga landbúnaðinum út úr miklum ógöngum og offramleiðslu. Segja má að Jón hafi fundið leiðina sem síðar reyndist bændum drjúg til sóknar og nýrra tíma. Enda virtu bændur Jón það mikils að þeir báðu hann um að taka að sér formennsku í Búnaðarfélagi Íslands.
Grunnskólinn og hjúkrunarheimilið vitna um forystu Jóns heima fyrir og hann tók svo við keflinu á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri og stækkun þess. En Gyðríður Páls-dóttir móðir hans var forystukonan sem stóð fyrir byggingu Minningarkapellu séra Jóns Steingrímssonar. Ég sat við hliðina á Jóni í grænaherbergi þingflokksins, ég tók strax eftir því að Jón réð stöðugt krossgátur og þeim mun hraðar sem ræðurnar urðu lengri og harðari. En stundum kallaði Steingrímur Hermannsson „Jón, reiknaðu nú,“ þá stóð ekki á svarinu eða innleggi Jóns í umræðuna.
Vert er að minnast á þátt Guðrúnar í lífi Jóns, þar stóð hún eins og klettur í umróti stjórnmálanna og þannig var líf þeirra samofið ást og friði svo að einstakt var.
Ég tel Jón Helgason til allra vönduðustu og merkustu manna sem ég hef starfað með. Blessuð sé minning hans. Við Margrét þökkum honum tryggð og vináttu.
Guðni Ágústsson.
Morgunblaðið laugardagurinn 13. apríl 2019.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879). |
Jón Sigurðsson var kosinn á þing í fyrsta sinn, á kjörfundi sem haldinn var í kirkjunni á Ísafirði.
Hann hlaut 50 atkvæði af 52 sem er 96.2%.
Alþingi kom saman 1. júlí 1845 og var Jón yngstur þingmanna, 34 ára. Hann sat á þingi til 1879 og var oft þingforseti.
Varaþingmaður Jón Sigurðssonar í kosningunum 1844 var kosinn Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði. Hann var helsti stuðningsmaður Jóns vestra og í raun fyrsti önfirski kosningasmalinn sem sögur fara af og sýndi með kjöri Jóns mikilvægi kosningasmalanna. Jón Sigurðsson hafði búið í Kaupmannahöfn í rúman áratug þegar hann bauð sig fram til Alþingis og hafði ekki tök á kosningavinnu á vettvangi í Vestur-Ísafjarðarsýslu.
Önfirðingar hafa margir fetað í fótspor Magnúsar Einarssonar sem dugmiklir kosningasmalar allt til þessa dags.
Foreldrar Jón Sigirðssonar voru Þórdís Jónsdóttir, prestsdóttir frá Holti í Önundarfirði og séra Sigurður Jónsson á Hrafnseyri. Jón var fæddur 17. júní árið 1811 og var 200 ára afmælis hans minnst með ýmsum hætti á Hrafnseyri árið 2011.
![]() |
||
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
|
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Vilhjálmur Vilhjálmsson (1945 -1978). |
Vilhjálmur fæddist í Merkinesi í Höfnum 11. apríl 1945, sonur Vilhjálms Hinriks Ívarssonar, harmonikkuleikara, söngmanns, bónda, og smiðs í Merkinesi, og Hólmfríðar Oddsdóttur húsfreyju. Meðal fjögurra systkina hans var Ellý Vilhjálms, ein dáðasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar fyrr og síðar.
Vilhjálmur var þríkvæntur, eignaðist soninn Jóhann, sem er söngvari, og dótturina Vilhelmínu, sem er flugstjóri, en auk þess tvo stjúpsyni.
Vilhjálmur var einn vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur þar sem hann kynntist tónlistarmönnunum Einari Júlíussyni og Baldri Þórissyni. Hann var í Héraðsskólanum á Laugarvatni, lauk landsprófi á Ísafirði, stúdentsprófi frá MA 1964, bankaði uppá hjá Ingimar Eydal sama daginn með stúdentshúfuna og var munstraður sem bassaleikari í hljómsveit hans, en áður hafði hann leikið með Bassabandinu í þrjú ár.
Haustið 1965 kom Vilhjálmur aftur suður, söng inn á tvær tveggja laga plötur, lék með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli 1966-68 og síðan með Haukum og Hljómsveit Ólafs Gauks um skeið.
Vilhjálmur las lögfræði og síðan læknisfræði við HÍ skamma hríð, en hóf síðan flugnám og lauk því í Lúxenborg 1970. Hann var síðan flugmaður hjá Arnarflugi og flugkennari hjá Flugskóla Helga Jónssonar.
Vilhjálmur söng inn á fjórar plötur með Ellý, systur sinni, m.a. lög eftir Sigfús Halldórsson og Tólfta september, sendi frá sér sólóplötur og söng þrjú lög inn á plötu með Mannakorni. Síðasta plata hans, Með sínu nefi, kom út 1976.
Vilhjálmur lést í umferðarslysi í Lúxemborg fyrir aldur fram 28. mars 1978. Hann var þá einn dáðasti söngvari þjóðarinnar. Minningartónleikar voru haldnir um hann 2008 og í kjölfarið stofnaður sjóður til styrktar efnilegum söngvurum.
Jón Ólafsson ritaði ævisögu Vilhjálms, Söknuður, sem kom út 2008.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Lilja í Vöfflukaffinu
21. „Vöfflukaffi“ þessa vetrar hjá Framsóknarfólki í Sveitarfélaginu Árborg var haldið föstudaginn 5. apríl sl. í Framsóknarsalnum við Eyravegi á Selfossi.
Sérlegur gestur þessa Vöfflukaffis var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Lilja hafði frá mörgu að segja í viðburðaríku starf ríkistjórnarinnar þessar vikurnar og þá tók hún sérstaklega fyrir sinn málaflokk í mennta- og menningarmálum.
Húsfyllir var á Vöfflukaffinu eins og oftast á þessum frábæru mannlífsaukandi samkomum sem aldrei verða ofþakkaðar.
Meðal gesta var Flateyringurinn Björn Ingi Bjarnason sem búið hefur á Eyrarbakka í tuttugu ár. Hann ávarpaði ráðherrann og þakkaði skilning og mikilvægan stuðning hennar og fjárveitingavaldsins við Lýðháskólann á Flateyri sem gjörbreytt hefur samfélaginu þar til hins betra. Orðum sínum fylgdi Björn Ingi efir með gjöfum til Lilju sem voru tveir önfirskir menningarmolar. Bókin „Nú brosir nóttin“ sem bókaútgáfn Sæmundur á Selfossi gaf út fyrir síðustu jól. Bókin er ævisaga Guðmundar Einarssonar bónda og refaskyttu að Brekku á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Einnig diskur með „Hljómsveitinni ÆFINGU“ frá Flateyri sem er nú að fagna 50 ára afmæli hljómsveitarinnar. Hann gat þess að hljómsveitarstjórinn, Árni Benediktsson, hefur búið á Selfossi í tuttugu ár og hljómsveitarstarfinu stýrt héðan úr Flóanum með góðum mannlífs- og menningarlegum árangri.
![]() |
||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
. .
|
![]() |
Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 9. apríl 2019
-Vinir alþýðunnar-
Kleinudagur
![]() |
||||
. .
|
![]() |
Guðni Ágústsson fæddist á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi 9. apríl 1949. Hann gekk í barnaskóla í Þingborg, fór í Héraðsskólann á Laugarvatni, lauk þaðan gagnfræðaprófi 1966 og varð búfræðingur frá Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri 1968.
Guðni var í sveit á Syðri-Bægisá í Öxnadal. Hann starfaði við tilraunabúið í Laugardælum,vann hjá Sigfúsi Kristinssyni Staðarsmið á Selfossi, var bústjóri á Hamri í Mosfellssveit og var mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna 1976-1987. Guðni var kjörinn alþingismaður Sunnlendinga 1987 og var landbúnaðarráðherra 1999-2007. Hann var formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands 1990-1993 og bankaráðsmaður til 1998, jafnframt formaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins og síðar formaður Lánasjóðs landbúnaðarins. Hann varð formaður Framsóknarflokksins 2007 en lét af þingmennsku haustið 2008. Guðni starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði til ársins 2015.
Guðni var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og hlaut enn fremur úr hendi Svíakonungs Kungliga Nordstjärneorden. Guðni er formaður orðunefndar hinnar íslensku fálkaorðu. Hann er enn fremur formaður ritnefndar um Flóamannabók. Guðni er rithöfundur og hefur gefið út tvær bækur auk ævisögu sinnar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson skráði.
„Ég var alinn upp við skráargat stjórnmálanna og var sjö ára þegar faðir minn var kosinn á Alþingi, þetta var í genunum að vilja taka þátt í félagsmálum. Formennska í ungmennafélagi sveitar minnar mótaði mig strax og leiksviðið bæði á Laugarvatni og Hvanneyri hreinsaði mig af feimninni og ég hafði gaman strax af því að beita rödd minni í lestri og leikritum. Ég lék m.a. þrjár hetjur af ólíkri gerð: Jón Hreggviðsson, snærisþjóf frá Rein, Lykla-Pétur í Gullna hliðinu og Svart þræl í Nýársnóttinni. Ég þótti nokkuð orðhvatur í framboðsræðum til að byrja með en faðir minn ávítaði mig: „Vertu aldrei persónulegur eða vondur við andstæðinga þína, þetta er gott fólk og þú getur þurft á vináttu þess að halda.“
Skemmtilegast þótti mér að verða landbúnaðarráðherra og geta látið verkin tala. Það er erfitt starf að vera þingmaður hvað þá ráðherra en gæfan féll mér í skaut, þjóðin var mér góð, ekki síst eftir að ég mildaðist. Ég lít á ræðumennsku sem listgrein, en í henni þarf að vera smá uppistand, efnisrík og skemmtileg þarf ræðan að vera. Enn er ég eftirsóttur ræðumaður og fundir mínir vel sóttir af fólki eins og á Kanarí og ég ávarpaði stærsta þorrablót heimsins í Kópavogi í vetur.
Sagt er að þessi afmælisdagur sé sá erfiðasti á lífsleiðinni, þarna liggi skilin á milli þess að vera maður eða gamalmenni, þvílíkt bull. Ég ætla að lifa samkvæmt því að fögur sál er ávallt ung undir silfurhærum. Flugstjórinn minn er auðvitað Guð almáttugur, nú segir hann: spennið beltin, en ég vona að það sé langt til lendingar.“
Eiginkona Guðna er Margrét Hauksdóttir, f. 3.4. 1955: Foreldrar hennar voru hjónin Haukur Gíslason, bóndi og hreppstjóri á Stóru-Reykjum í Flóa, f. 1920, d. 2002, og Sigurbjörg Geirsdóttir, f. 1932, d. 2018.
Börn Guðna og Margrétar eru:
1) Brynja, f. 7.3. 1973. Maki: Auðunn Sólberg Valsson, f. 1964. Börn: Guðni Valur, f. 2000; Salka Margrét, f. 2002; Oliver Tumi, f. 2005; sonur Auðuns: Jökull Sólberg, f. 1986; sonur hans: Rökkvi Sólberg, f. 2010. Unnusta Jökuls: Sunna Björk Gunnarsdóttir, f. 1992.
2) Agnes, f. 20.11. 1976. Börn: Freyja, f. 2003. Snorri, f. 2006. Barnsfaðir: Guðni Vilberg Björnsson, f. 1979.
3) Sigurbjörg, f. 15.4. 1984. Maki: Arnar Þór Úlfarsson, f. 1980. Börn: Eva, f. 2012, og Eik, f. 2015.
Systkini Guðna:
Ásdís, f. 1942; Þorvaldur, f. 1943; Ketill Guðlaugur, f. 1945; Gísli, f. 1946, d. 2006; Geir, f. 1947; Hjálmar, f. 1948; Auður, f. 1950; Valdimar, f. 1951; Bragi, f. 1952; Guðrún, f. 1954; Tryggvi, f. 1955; Þorsteinn, f. 1956; Hrafnhildur, f. 1957; Sverrir, f. 1959; Jóhann, f. 1963.
Foreldrar Guðna voru hjónin Ágúst Þorvaldsson, f. 1.8. 1907, d. 12.11. 1986, bóndi og alþingismaður á Brúnastöðum í Flóa, og Ingveldur Ástgeirsdóttir, f. 15.3. 1920, d. 6.8. 1989, húsfreyja.
![]() |
Morgunblaðið 9. apríl 2019.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is