Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2019 Apríl

03.04.2019 08:45

6.000 tonn af sæeyrum

 

 

 

 

 

6.000 tonn af sæeyrum

 

 

Hyggjast byggja 25 lóðréttar eldisstöðvar um land allt

 

 

Sæbýli ehf., sem ræktar japönsk sæeyru á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn stefnir að um 5-6 þúsund tonna eldi á sæeyrum í 25 eldisstöðvum um land allt á næstu árum.

 

Að sögn Kolbeins Björnssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins, er stefnt að því að hver og ein eldisstöð verði um fjögur þúsund fermetrar að stærð. Hann segir það mikilvægt að vera með margar litlar og umhverfisvænar eldisstöðvar sem hafi ekkert kolefnisspor, þurfi 20-30 starfsmenn hver, og starfsemin passi þannig fyrir lítil samfélög víða um landið. „Ég hef starfað með frumkvöðli verkefnisins, Ásgeiri Guðnasyni, síðan 2009 að hönnun lóðrétta eldiskerfisins og er þetta eitt flottasta tæknifyrirtæki landsins og algjör bylting í landeldi á verðmætum botnlægum sjávartegundum.

 

Þetta er mjög verðmæt afurð og gerir eldistæknin okkur kleift að lækka framleiðslukostnað í eldinu um faktor 2-3 miðað við venjulegt kvíaeldi erlendis,“ segir Kolbeinn Björnsson við ViðskiptaMoggann í dag.


Morgunblaðið 3. apríl 2019Skráð af Menningar-Staður

03.04.2019 08:21

Litla-Hraun

 

 

 

 

             

           Litla-Hraun 
                                                                að morgni 3. apríl 2019


                                                   Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson.

 Skráð af Menningar-Staður

02.04.2019 07:53

Merkir Íslendingar -Þór Vigfússon

 

 

Þór Vigfússon (1936 - 2013).

 

 

Merkir Íslendingar  -Þór Vigfússon

 

 

Þór fædd­ist 2. apríl 1936 á Þórs­hamri í Sand­vík­ur­hreppi, Árn.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Vig­fús Guðmunds­son, f. 1903, d. 1990, bif­reiðastjóri við Ölfusár­brú, á Sel­fossi, síðar sjó­maður á Seltjarn­ar­nesi, og Guðrún Jóns­dótt­ir, f. 1904, d. 1950, hús­freyja.

 

Þór lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Laug­ar­vatni 1955, nam hag­fræði við Hochschule für Ökonomie og lauk Diplom Wirtschaftler 1961, með sér­grein í milli­ríkjaviðskipt­um. Hann lauk prófi í upp­eld­is- og kennslu­fræðum frá Há­skóla Íslands 1967, námi í húsa­smíði við iðnbraut Fjöl­brauta­skól­ans á Sel­fossi 1982 og sveins­prófi 1989. Hann lauk einnig prófi í svæðis­leiðsögn frá Far­skóla Suður­lands 1993.

 

Við heim­komu frá Berlín vann Þór sem skrif­stofu­stjóri hjá Sam­ein­ing­ar­flokki alþýðu – Sósí­al­ista­flokkn­um og sem starfsmaður versl­un­ar­sendi­nefnd­ar Þýska alþýðulýðveld­is­ins. Hann hóf kennslu við Héraðsskól­ann á Laug­ar­vatni 1963 og kenndi við Mennta­skól­ann á Laug­ar­vatni 1964-70, við Mennta­skól­ann við Tjörn­ina, síðar Sund, 1970-83 og var kon­rektor skól­ans 1975-78. Hann var skóla­meist­ari Fjöl­brauta­skóla Suður­lands á Sel­fossi 1983-1994 og kenn­ari til árs­ins 1998.

 

Þór átti sæti í miðstjórn Alþýðubanda­lags­ins 1970-80, sat á Alþingi sem varaþingmaður 1974, var borg­ar­full­trúi í Reykja­vík 1978-80 og formaður um­ferðar­nefnd­ar. Hann átti þátt í stofn­un Drauga­set­urs­ins á Stokks­eyri. Þór var aðal­höf­und­ur Árbók­ar Ferðafé­lags Íslands, Í Árnesþingi vest­an­verðu, 2003.

 

Fyrri eig­in­kona Þórs var Helga María Novak rit­höf­und­ur frá Þýskalandi, f. 1935, d. 2013. Þau skildu 1968. Börn þeirra eru Ragn­ar Al­ex­and­er, f. 1958 (kjör­barn), og Nína, f. 1962. Seinni eig­in­kona Þórs er Hild­ur Há­kon­ar­dótt­ir, f. 28. apríl 1938, lista­kona. Börn henn­ar og stjúp­börn Þórs eru Kol­brún Þóra, f. 1956, og Há­kon Már, f. 1958.

 

Þór Vig­fús­son lést 5. maí 2013.Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður

02.04.2019 06:46

Lóan aðeins á eftir áætlun

 

 

Tjaldurinn í Eyrarbakkafjöru á dögunum. Ljósm.: Elín Birna.

 

 

Lóan aðeins á eftir áætlun

 

 

 Farfuglarnir farnir að sjást einn af öðrum 

 

 

Fyrstu lóurnar sáust í Stokkseyrarfjöru hinn 28. mars, en jafnan er koma lóunnar talinn einn helsti vorboði hér á landi. Um 20 heiðlóur sáust svo í Fljótshlíð daginn eftir.

 

Það má segja að lóan sé aðeins á eftir áætlun í ár ef miðað er við meðalkomutíma fyrstu lóunnar á árunum 1996-2016, en það var 23. mars. Hún er þó á svipuðum tíma og í fyrra, en þá sást til fyrstu lóunnar í kringum 27. mars.

 

Farið er að sjást til fleiri farfugla ef miðað er við umfjöllun frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Fyrstu skógarþrestirnir sáust á Höfn hinn 28. mars. Þar hafa einnig fyrstu jaðrakanar ársins sést og eins í fjörunni á Eyrarbakka. Tveir fuglar á hvorum stað. Einnig hafa nokkrir hópar af álftum og grágæsum sést á flugi yfir Höfn. Um 100 blesgæsir og tugur heiðagæsa sáust í Flóanum, við Þjórsá. Tjaldar voru komnir á grasflatir á Stokkseyri fyrir helgi.

 

Einnig berast ábendingar að norðan, meðal annars um að svanirnir séu farnir að láta sjá sig í Fjallabyggð.

 Skráð af Menningar-Staður

01.04.2019 18:23

Níu sækja um starf sviðsstjóra í Ölfusi

 

 

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

 

 

Níu sækja um starf sviðsstjóra í Ölfusi

 

 

Níu umsækjendur eru um starf sviðsstjóra fjármála-, stjórnsýslu- og menningarsviðs Ölfuss.

Alls sóttu þrettán aðilar um stöðuna en fjórir þeirra drógu umsókn sína til baka áður en til birtingar kom.

Hagvangur annast ráðningarferlið og eru viðtöl fyrirhuguð í þessari viku. Vonir standa til þess að hægt verði að ganga frá ráðningu seinni hluta vikunnar.

 

Umsækjendurnir eru:


Gísli Sigurgeirsson, verktaki
Hörður Orri Grettisson, forstöðurmaður hagdeildar
Hrannar Örn Hrannarsson, deildarstjóri
Jóhann Ásgrímur Pálsson, sérfræðingur
Jón Ólafur Gestsson, hagfræðingur
Magnús B. Baldursson, viðskiptastjóri
Sandra Dís Hafþórsdóttir, fjármálastjóri
Sigurður Steinar Ásgeirsson, deildarstjóri innheimtudeildar
Þórólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóriSkráð af Menningar-Staður