![]() |
Guðmundur Ármann Pétursson fæddist 9. maí 1969 í Reykjavík og bjó í Vogahverfinu, Sólheimum og Álfheimum nánar tiltekið. „Foreldrar mínir kaupa Húsið á Eyrarbakka árið 1979 og hefjast handa við lagfæringar á því og endurbætur. Ég flyt síðan á Eyrarbakka árið 1982 ásamt móður minni og bróður og þangað er ég fluttur á ný ásamt konu minni og börnum.“
Guðmundur gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands og frá árinu 1982 í Barnaskólann á Eyrarbakka. Hann var skiptinemi í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum 1985-1986. Hann lauk námi í frumgreinadeild Háskólans á Bifröst 1989 og varð rekstrarfræðingur frá sama skóla 1991. Hann fór síðan í nám við Emerson College í lífefldri ræktun 2003 og lauk MSc-námi í arkitektúr, orku- og umhverfismálum við University of East London 2004.
Guðmundur byrjaði ungur að vinna, s.s. í fiskvinnslu, við brúarsmíði, sem verkamaður, á Litla Hrauni og á réttargeðdeildinni á Sogni. „Á Sólheimum starfaði ég með hléum frá árinu 1988 til ársins 2017, hafði á þeim tíma unnið í lengri eða skemmri tíma nánast öll störf í fjölbreyttum rekstri þess samfélags, þar af framkvæmdastjóri í rétt tæp 15 ár.“
Guðmundur var kjörinn í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps árið 2010 og á ný árið 2014 og sat til ársins 2018. Hann byrjaði ungur í skátahreyfingunni í skátafélaginu Skjöldungum og var þar virkur um árabil. Fór á tvö alheimsmót skáta í Kanada og Ástralíu, lauk Gilwell-þjálfun, hlaut forsetamerki, var formaður Skátasambands Suðurlands og sat um tíma í stjórn Bandalags íslenskra skáta.
„Ég kom að því að endurvekja skátastarf á Selfossi með skátafélaginu Fossbúum ásamt góðu fólki og starfaði í félaginu um nokkurt skeið. Sonur minn er með Downs heilkenni og læt ég mig hagsmuni einstaklinga með Downs mjög varða, sat um tíma í stjórn Félags áhugafólks um Downs heilkennið og sit í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi.“
Síðustu misseri hefur Guðmundur ásamt konu sinni verið að vinna að og þróa tvö nýsköpunarverkefni. „Það er heilsutengd ferðaþjónusta þar sem hafið er nýtt til ánægju og heilsueflingar og hitt er að vinna hágæðaafurð úr broddmjólk kúa.“ Við fjölskyldan höfum keypt okkur fallegt hús á Eyrarbakka sem við erum að lagfæra og breyta og hlökkum mikið til að flytja inn og að koma okkur vel fyrir. Eyrarbakki á stóran sess í hjarta mínu og ég hef einlægan áhuga á að leggja gott til samfélagsins. Hafið og fjaran heillar mig ávallt og togar í með spennandi verkefni sem mig langar einnig að vinna að í náinni framtíð.
Ég hef ákveðið að hrinda í framkvæmd hugmynd sem lætur mig ekki í friði en það er setja af stað kvikmyndahátíð. Sé fyrir mér að hátíðin verði árlegur viðburður og mun hún heita BRIM kvikmyndahátíð. Markmiðið er að sýna myndir sem tengjast sjávarbyggðum og/?eða hafinu. Á þessari fyrstu hátíð verða myndirnar um plast í hafinu. Ég hef náð samstarfi við erlend samtök sem vinna með markvissum og upplýsandi hætti gegn plastnotkun og hreinsun á plasti úr hafinu.
Ég mun kynna þetta verkefni fyrir Eyrbekkingum á næstunni og á ekki von á öðru en það verði vel tekið í hugmyndina.“
Sambýliskona Guðmundar er Birna Guðrún Ásbjörnsdóttir, f. 28. apríl 1971, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum. Foreldrar hennar eru hjónin Ásbjörn Kristófersson, f. 9. ágúst 1933, fv. kaupmaður, og Sigríður Guðmannsdóttir, f. 18. október 1932, vann á Landakoti. Þau eru bús. í Reykjavík.
Börn:
1) Auðbjörg Helga, f. 23. mars 1996, nemi;
2) Embla Líf, f. 24. ágúst 2004, og
3) Nói Sær, f. 22. febrúar 2010.
Bróðir Guðmundar er Eggert Pétursson, f. 18. júlí 1973, lagerstjóri í Norrköping í Svíþjóð.
Foreldrar Guðmundar eru Auðbjörg Guðmundsdóttir, f. 27. janúar 1944, leikskólakennari, bús. á Eyrarbakka, og Pétur Sveinbjarnarson, f. 23. ágúst 1945, fv. framkvæmdastjóri, bús. í Reykjavík.
![]() |
Morgunblaðið 9. maí 2019. Skráð af Menningar-Staður. |
![]() |
Jón Ingi Sigurmundsson fæddist 8. maí 1934 á Eyrarbakka og ólst þar upp. „Ég á góðar æskuminningar við leik og störf. Almennt höfðu menn ekki eitt starf en voru með skepnur, ræktuðu kartöflur, voru í fiskvinnslu eða á sjó. Við krakkarnir lékum okkur saman úti í ýmsum leikjum. Ég var átta sumur í símavinnuflokki Ólafs Magnússonar, móðurbróður míns, og var sofið í tjöldum og unnið á ýmsum stöðum sunnanlands og á Norðurlandi.“
Jón Ingi tók landspróf á Selfossi 1951, var næstu þrjú ár í Kennaraskólanum og lauk almennu kennaraprófi og söngkennaraprófi 1954. „Ég á góðar minningar úr náminu og var fyrsta utanlandsferðin farin í útskriftarferð um Evrópu.“ Jón Ingi hafði einnig frá unga aldri lært á orgel og síðar píanó, bæði í einkatímum, Tónskóla kirkjunnar, og Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Jón Ingi flutti á Selfoss 1954 og starfaði við almenna kennslu við Barnaskólann og tónmenntakennslu fyrstu árin. „Við Edda giftum við okkur 1958 og fórum til Kaupmannahafnar. Sigldum með Heklu með viðkomu í Færeyjum og Bergen. Ég fór í tónlistardeild Kennaraháskólans í Kaupmannahöfn og lærði píanóleik, hljómfræði o.fl. en Edda lauk tveggja ára námi í handavinnu í Haandarbejdes Fremme skole. Þá tók aftur við kennsla á Selfossi. Ég fór svo eitt sumar í enskunám í London.“ Hann fékk orlof 1971-72 og fór til Kaupmannahafnar með fjölskylduna og var við nám í framhaldsdeild Kennaraháskólans í tónlist og í enskunámi og Edda var í dönskunámi í Kennaraháskólanum.
Jón Ingi stofnaði Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi 1960 og Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands 1983 og kenndi jafnframt á píanó og tónfræðigreinar við Tónlistarskóla Árnesinga og var skólastjóri 1968-1971. „Ég á margar skemmtilegar minningar frá starfinu hjá Kór Fjölbrautaskólans t.d. velheppnaðar kórferðir til Norðurlanda og Þýskalands. Nokkrir af píanónemendum mínum hafa haldið áfram námi og gæti ég þá t.d. nefnt Vigni Þór Stefánsson djasspíanóleikara. Kórnemendur hafa margir haldið áfram að syngja í kórum, nokkrir syngja í Dómkórnum og sem einsögvara get ég nefnt Kristjönu Stefánsdóttur djasssöngkonu.“
Jón Ingi færði sig yfir í Gagnfræðaskólann og kenndi þar ensku, dönsku og tónmennt og stundum myndmennt. Hann var aðstoðarskólastjóri við Gagnfræðaskólann 1976-1996 fyrir utan þegar hann var skólastjóri 1979-80 og 1987-1991.
Jafnframt fékkst Jón Ingi við að mála, einkum vatnslitamyndir og í olíu. Hann sýndi oft í samsýningum Myndlistarfélags Árnesinga og hélt sína fyrstu einkasýningu 1985 en þær eru nú orðnar yfir 50. Nú stendur yfir sýning hans í Gallerý LAK, ( Læknastofur Akureyrar) og stendur út júní. Jón Ingi hlaut listamannalaun 1981, viðurkenningu menningarnefndar Selfoss 1997, Menningarverðlaun Árborgar 2011 og var Heiðurslistamaður Myndlistarfélags Árnessýslu 2017.
Jón Ingi var einn af stofnfélögum Lionsklúbbs Selfoss og hefur unnið ýmis störf í þágu klúbbsins og verið formaður, ritari og fleira og starfar hann enn með klúbbnum. „Ég fór á eftirlaun 1996 og hætti kórstjórn árið 2000 og kennslu í Tónlistarskólanum 1998. Ég hef nú nægan tíma til að mála og sinna fjölskyldunni, garði og sumarbústaðnum í Vaðnesi í Grímsnesi.“
Eiginkona Jóns Inga er Edda Björg Jónsdóttir kennari, f. 4. maí 1938. Foreldrar Eddu voru hjónin Jón Pálsson, bókbandsmeistari og tómstundaráðunautur Reykjavíkurborgar, f. 23. apríl 1908, d. 22.ágúst 1979 og Vilborg Sigurrós Þórðardóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 19. maí 1909, d. 19. apríl 1997.
Börn Jóns Inga og Eddu eru;
1) Vilborg, kennari og bókari, f. 25. febrúar 1960.Eiginmaður: Ólafur Kristinn Guðmundsson, iðnrekstrarfræðingur, f. 8. júní 1961. Börn : Sindri Snær, viðskiptafræðingur, f. 22. ágúst 1994; Jón Ingi, nemi í tölvunarfræði í HR, f. 24. október 1998,
2) Ágústa María, leikskólakennari, f. 13. október 1961. Eiginmaður: Birgir Guðmundsson, rekstrarhagfræðingur, f. 4. maí 1962. Börn: Guðjón Árni, kvikmyndafræðingur, f. 4. desember 1990. Eiginkona: Elízabeth Lopez Arriaga, mannauðsstjóri, f. 6. apríl 1984. Barn: Björn Santiago f. 27. júní 2018; Edda Karen, nemi í HÍ, f. 23. febrúar 1995; Janus Bjarki, nemi í HÍ, f. 12 janúar 1998;
3) Selma Björk, leikskólakennari, f. 15. janúar 1964. Eiginmaður: Jóhann Böðvar Sigþórsson, bakari, f. 4. desember 1963. Börn: Sigþór Constantin, nemi f. 5. júní 1998; Sólrún María, nemi, f. 5. október 2003; Rúnar Ingi, nemi, f. 26. maí 2006;
4) Sigurmundur Páll, þjónustustjóri UT TRS, f. 10. maí 1975. Sambýliskona: Sigrún Bjarnadóttir, dýralæknir, f. 6. janúar 1985. Börn : Freydís Erna, f. 25. júlí 2012, og Sölvi f. 8. nóv. 2014.
Systir Jóns Inga er Guðrún Sigurmundardóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 19. ágúst 1928. Eiginmaður hennar var Ólafur Örn Árnason, kennari og síðar gjaldkeri, f. 11. janúar 1921, d. 24. apríl 2012.
Foreldrar Jóns Inga voru hjónin Sigurmundur Guðjónsson sandgræðslueftirlitsmaður, f. 4. febrúar 1903, d. 18. maí 1985 og Ágústa Guðrún Magnúsdóttir húsmóðir, f. 28. ágúst 1905, d. 3. júlí 1996. Þau voru búsett á Eyrarbakka.
![]() |
||
|
![]() |
FÉLAG UM FANGELSISMINJASAFN - Stofnfundur
Miðvikudaginn 8. maí 2019 kl. 20.00 verður haldinn stofnfundur í
Húsinu á Eyrarbakka um Fangelsisminjasafn Íslands.
Allt áhugafólk um málefnið velkomið.
Undirbúningsnefndin
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Hljómsveitin Æfing. F.v.: Jón Ingiberg Guðmundsson, Siggi Björns, Árni Benediktsson, Ásbjörn Björgvinsson og Halldór Gunnar Pálsson.
|
Æfing 50 ára -
Lokadagstónleikar í Bæjarbíói
Hljómsveitin Æfing frá Flateyri fagnar 50 ára afmæli með lokadagstónleikum í Bæjarbíói Hafnarfirði laugardaginn 11. maí n.k. kl. 20:30.
Það bar til þann 27. desember 1968 að hljómsveitin Æfing á Flateyri kom fram í fyrsta sinn á fundi Verkalýðsfélagsins Skjaldar í Samkomuhúsinu á Flateyri. Í hljómsveitinni voru: Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson.
Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.
Seinna tímabilið er frá 1990 og þá bæði á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík kom að með einum eða öðrum hætti og við önnur sérstök tækifæri, s.s. afmæli, brúðkaup og útgáfutónleika.
Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið; Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigurður Björnsson, Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson, Önundur Hafsteinn Pálsson auk Óskars Þormarssonar og Magnúsar Magnússonar.
Árið 2013 ákváðu félagarnir í Æfingu að taka upp disk sem fékk nafnið: Æfing - fyrstu 45 árin. Meðal laga á þessum diski Æfingar eru: "Fínn kall kellingin hans", "Kem eftir rétt strax", "Allabúð", "Púki að Vestan" og "Heima er best"
Meðlimir Æfingar á þessum tímamótatónleikum eru:
Árni Benediktsson - gítar – söngur,
Sigurður Björnsson (Siggi Björns) - gítar – söngur,
Ásbjörn Björgvinsson - bassi – söngur,
Jón Ingiberg Guðmundsson - gítar – söngur,
Halldór Gunnar Pálsson - gítar – söngur
og Óskar Þormarsson – trommur.
Þess má geta sérstaklega að hljómsveitarstjóri Æfingar, Árni Benediktsson, hefur búið á Selfossi í tuttugu og fimm ár og hefur hljómsveitarstarfinu þann tíma verið stýrt héðan úr Flóanum með góðum mannlífs- og menningarlegum árangri.
Miðasala á www.midi.is
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879) og Ingibjörg Einarsdóttir (1804 - 1879).
Þann 4. maí 1880 for fram útför Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans fór fram í Reykjavík með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni.
Þau létust í Kaupmannahöfn í desember 1879.
Á silfurskildi á kistu Jóns stóð: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“
Morgunblaðið - dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.
|
||
Frá útför Jón og Ingibjargar í Reykjavík þann 4. maí 1880.
|
![]() |
Vibeke Nørgaard Nielsen tekur við Verðlaunum Jóns Sigurðssonar úr hendi Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. |
Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn, 25. apríl 2019, á sumardaginn fyrsta. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta.
Aðalræðumaður að þessu sinni var Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Ræðu Helga má lesa hér.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2019 féllu í hlut Vibeke Nørgaard Nielsen, rithöfundar og fyrrverandi kennara. Framlag Vibeke við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku með sýningum, kynningum og fyrirlestrum um Ísland um langt árabil er ómetanlegt. Einnig hefur hún skipulagt fjölmargar Íslandsferðir fyrir Dani. Þá er bók hennar um Íslandsferðir danska listmálarans Johannesar Larsens, Listamaður á söguslóðum, sem út kom í Danmörku 2004, og í íslenskri þýðingu 2015, mikilvægt framlag til menningartengsla landanna.
Eftirfarandi hafa áður hlotið verðlaun Jóns Sigurðssonar:
![]() |
Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jón Sigurðssonar (1811 - 1879). Ljósm.: BIB
.
![]() |
||
. .
|
Skráð af Menningar-Staður
|
||
Tímamót á Menningar-Stað
Merkileg tímamót voru rétt í þessu, 2. maí 2019, á vefnum "Menningar-Staður" þegar flettingar á vefnum náðu fjöldanum 3.000.000, þrjár milljónir.
Einnig gerðist það nú rétt fyrir mánaðamótin að gestafjöldi sem skoðað hefur vefinn "Menningar-Staður" náði 300.000, þrjúhundruð þúsund gestir.
Þökkum þessa frábæru tryggð við vefinn Menningar-Staður.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður |
|
||
Arna Ír, Gunnar, Marteinn og Guðbjörg við afhendingu viðurkenningarinnar.
Ljósmynd/Árborg
Bræðurnir Marteinn og Gunnar Sigurgeirssynir hlutu menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar árið 2019 en viðurkenningin var afhent á opnunarhátíð Vors í Árborg á sumardaginn fyrsta.
Marteinn og Gunnar hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að taka þátt í skipulagningu menningarviðurða, taka upp hreyfimyndefni af fjölbreyttum viðburðum í samfélaginu og viðtöl við einstaklinga á svæðinu sem varðveita stóran hluta af sögu svæðisins. Viðurkenninguna fá þeir fyrir framlag sitt til menningar og varðveislu söguminja á svæðinu.
Báðir hafa þeir um langt skeið komið að kvikmyndagerð og ljósmyndun og liggur m.a. eftir þá fjöldi heimildarmynda sem tengist bernsku- og uppvaxtarslóðum þeirra á Selfossi.
Marteinn er kennari að mennt og hefur stærstan hluta ævi sinnar unnið við einhverskonar kennslu og miðlun ásamt gerð heimildarmynda.
Gunnar rak Ljósmyndastofu Suðurlands/Filmverk í 20 ár eða fram til ársins 2009. Hann myndað m.a. mannlíf og ýmsa viðburði er tengjast sögu Selfoss. Einnig safnaði hann þúsundum ljósmynda fyrir Héraðsskjalasafn Árnesinga
Það voru þær Guðbjörg Jónsdóttir, formaður Íþrótta- og menningarnefndar Árborgar og Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, sem afhentu Marteini og Gunnari viðurkenninguna.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is