![]() |
Hann var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní 1811. |
17. júní - Merkisatburðir
1397 Eiríkur af Pommern er krýndur konungur allra Norðurlanda.
1449 Danmörk og England gera með sér samning sem heimilar enskum sjómönnum siglingar til Íslands með sérstöku leyfi Danakonungs.
1596 Willem Barents finnur Svalbarða.
1900 Fyrsta póstferð með farþega, vörur og póst, er farin á fjórhjóla hestvagni frá Reykjavík austur fyrir fjall.
1907 Stúdentafélagið gengst fyrir því að víða um land er flaggað íslenskum fána, bláum með hvítum krossi. 65 fánar eru við hún í Reykjavík.
1911 Háskóli Íslands er stofnaður og settur í fyrsta sinn. Hann tekur yfir rekstur Prestaskólans, Læknaskólans og Lagaskólans sem um leið eru lagðir niður.
1915 Fyrsta bílprófið er tekið í Reykjavík. Handhafi skírteinis númer 1 er Hafliði Hjartarson trésmiður, 28 ára.
1917 Nokkur félagasamtök halda samsæti í Reykjavík til heiðurs Stephani G. Stephanssyni skáldi, sem staddur er á Íslandi í fyrsta sinn frá því að hann kvaddi landið tvítugur að aldri 1873.
1925 Á Ísafirði er tekið í notkun nýtt sjúkrahús sem talið er hið fullkomnasta á Íslandi.
1926 Björg Karítas Þorláksdóttir verður fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi er hún ver doktorsritgerð sína við Sorbonne-háskóla í París.
1926 Melavöllurinn í Reykjavík er vígður eftir flutning.
1940 Þrír bátar koma frá Noregi til Austfjarða með 59 norska flóttamenn um borð.
1941 Sveinn Björnsson er kjörinn ríkisstjóri Íslands af Alþingi, en hann hafði verið sendiherra landsins í Kaupmannahöfn í tvo áratugi.
1944
Íslenska lýðveldið er stofnað á Þingvöllum og jafnframt er fyrsta stjórnarskrá lýðveldisins staðfest. Einnig er Sveinn Björnsson ríkisstjóri kjörinn fyrsti forseti lýðveldisins. Síðan þá hefur dagurinn verið þjóðhátíðardagur Íslands.
1945 Minningarskjöldur er afhjúpaður á húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn.
1947 Fyrsta millilandaflugvél í íslenskri eigu kemur til landsins. Það er Skymaster-flugvélin Hekla í eigu Loftleiða.
1959 Íþróttavöllurinn í Laugardal er formlega vígður en hafði verið í notkun í tvö ár.
1959 Menn sleppa naumlega er varnargarður brestur á virkjunarsvæðinu við Sog.
1969 Aldarfjórðungsafmæli lýðveldisins er fagnað í mikilli rigningu.
1974 Á Kirkjubæjarklaustri er vígð kapella til minningar um Jón Steingrímsson eldklerk.
1975 Sumar á Sýrlandi, fyrsta plata Stuðmanna, kemur út.
1977 Höggmyndin Alda aldanna eftir Einar Jónsson myndhöggvara frá Galtafelli í Hrunamannahreppi er afhjúpuð á Flúðum.
1980 Ísbjarnarblús, fyrsta plata Bubba Morthens, kemur út.
1982 Þriðja skipið með nafnið Akraborg kemur til landsins til siglinga á milli Reykjavíkur og Akraness.
1985 Í Vestmannaeyjum er afhjúpuð höggmynd til minningar um Guðríði Símonardóttur, Tyrkja-Guddu.
1994 50 ára afmæli Lýðveldisins Íslands er fagnað á Þingvöllum af miklu fjölmenni.
1994 Jóhanna Sigurðardóttir leggur grunn að stjórnmálaflokknum Þjóðvaka með orðunum „Minn tími mun koma.“
2000 Jarðskjálfti, 6,5 stig á Richter, skekur Suðurland.
2004 Sundlaugin á Hólmavík er tekin í notkun.
2006 Íslenska landsliðið í handbolta vinnur sér þátttökurétt á HM í Þýskalandi 2007 með því að sigra Svía í Laugardalshöllinni með samanlagt þriggja marka mun.
2019 75 ára afmæli Lýðveldisins Íslands.
![]() |
||||||
. .
|
Fréttablaðið 17. júní 2019 - myndir af RUV.is og fleira.
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
17. júní 2019
á Eyrarbakka
Gleðilegan þjóðhátíðardag
|
||
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879) og Ingibjörg Einarsdóttir (1804 - 1879) |
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879).
Jón Sigurðsson forseti, sem var eftirminnilegasti tímamótamaður íslenskrar sögu, fæddist á Hrafnseyri í Arnarfirði þann 17. júní 1811 og ólst þar upp til 18 ára aldurs.
Foreldrar hans voru prestshjónin Þórdís Jónsdóttir frá Holti í Önundarfirði og séra Sigurður Jónsson á Hrafnseyri. Systkini Jóns voru Margrét, húsfreyja og bóndi á Steinanesi í Arnarfirði og Jens, kennari á Eyrarbakka og síðan kennari og rektor Lærða skólans í Reykjavík. Þau voru alin upp við iðjusemi, nákvæmni og hirðusemi í heimahúsum og kennt að bjarga sér sjálf.
Samtímamaður þeirra hjóna, séra Oddur Sveinsson, sem tók við Hrafnseyrarstað þegar þau fluttust að Steinanesi með Margréti dóttur sinni 1851, lýsir þeim svo:
"Þórdís var í meðallagi há, vel vaxin, andlitið frítt og gáfulegt, augun móleit og fjörmikil, kona var hún hæglát og geðgóð, en stjórnsöm á heimili. Góðhjörtuð var frú Þórdís talin og örlát við fátæka."
"Þú vilt gefa allt, Þórdís", er mælt að séra Sigurður hafi eitt sinn sagt við konu sína er hún var að gefa fátækum.
"Séra Sigurður var hár maður vexti, þrekinn vel og að öllu hinn karlmannlegasti, iðjumaður mikill. Hann var að vísu ekki sérlega fljótgáfaður eða bráðskarpur, sem menn kalla, en hafði einkar gott minni og greindargáfu og kunni yfir höfuð vel að nota gáfur sínar."
Lengi framan af starfsárum sínum stundaði séra Sigurður sjóróðra á vorin. Fór hann þá heim um helgar til embættisgjörða. Var hann talinn ágætur sjómaður og aflasæll.
Faðir Jóns kenndi honum allan skólalærdóm sem numinn skyldi í Bessastaðaskóla. Stúdentspróf tók hann svo í Reykjavík 1829 með afburðalofi. Verslunarstörf stundaði hann um skeið í höfuðstaðnum hjá Einari föðurbróður sínum. Þar kynntist hann frænku sinni, Ingibjörgu, dóttur Einars og felldu þau hugi saman.
Hann gerðist svo skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi í þrjú ár. Dvöl hans hjá honum hafði mikil áhrif á lífsstarf hans síðar. Jón sigldi svo til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar í málfræði, sögu, hagfræði og stjórnfræði, en lauk aldrei embættisprófi. Fljótlega eftir að hann kom til náms hlóðust á hann alls konar aukastörf, enda þurfti hann að sjá fyrir sér sjálfur fjárhagslega og íslensk þjóðmál tóku fljótlega hug hans allan.
Í tólf ár kom hann ekki til Íslands og hafði konuefnið setið í festum allan þennan tíma. 1845 fór Jón heim til að sitja á hinu fyrsta endurreista Alþingi og þá gengu þau Ingibjörg í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík 4. september. Þá var hún 41 árs en hann 34 ára.
Þau Ingibjörg bjuggu í Kaupmannahöfn allan sinn búskap og þaðan stjórnaði hann sjálfstæðisbaráttunni við Dani hátt í 40 ár. Á þeim tíma hafði enginn Íslendingur samband við jafn fjölmennan hóp landsmanna og má nefna að á söfnum landsins eru til yfir 6000 sendibréf til Jóns, sem hann varðveitti, frá um 870 bréfriturum.
Lifibrauð sitt hafði hann af ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Fræðistörf hans ein mega heita fullkomið ævistarf, enda kunni hann að skipuleggja störf sín.
Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. Forseti íslenska lýðveldisins var hann aldrei af skiljanlegum ástæðum.
Þá var hann potturinn og pannan í öllum störfum Alþingis allt frá endurreisn þess og til æviloka. Forseti Alþingis var hann alls á 10 þingum, eða lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Það voru skoðanir Jóns Sigurðssonar sem mest mótuðu störf þingsins fyrstu áratugina og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags.
Jón sigldi 29 sinnum yfir Íslandsála á misjöfnum farkostum, m. a. til að stjórna fundum Alþingis. Oftast var eiginkonan með í för.
Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu og bókmenntum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.
Ný félagsrit voru málgagn hans. Þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar.
Fullt löggjafarvald, aðskilinn fjárhagur, jafnrétti og innlend stjórn. Þetta var stefnuskrá Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni við Dani, sem hann birti í ritgerðinni Hugvekju til Íslendinga 1848.
Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að flestir fundarmenn risu úr sætum og sögðu: "Vér mótmælum allir."
Á þjóðfundinum urðu tímamót á stjórnmálaferli Jóns Sigurðssonar. Eftir fundinn var enginn vafi á því hver var óumdeildur fyrirliði þjóðarinnar.
Jón Sigurðsson taldi, að ætti líf og fjör að færast í Íslendinga, þyrftu þeir að vera fjár síns ráðandi og fá að versla við þá sem þeir vildu sjálfir. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.
Jón forseti var mjög vinsæll maður heima á Íslandi og má ætla að alls konar erindrekstur og endalaus fyrirgreiðsla fyrir landa hans í höfuðborginni, Kaupmannahöfn, hafi átt mikinn þátt í þeim vinsældum.
Jón Guðmundsson, ritstjóri, var nánasti fylgismaður Jón Sigurðssonar í þjóðmálabaráttunni og sá sem mest mæddi á hér heima. Hann var kallaður "skuggi" Jóns Sigurðssonar. En fjöldi manna um allt land voru óhvikulir stuðningsmenn hans, bæði leynt og ljóst. Þetta voru menn úr öllum stéttum þjóðfélagsins: Bændur, prestar, vinnumenn, vinnukonur, verkamenn, búðarþjónar, embættismenn, húsfreyjur og námsmenn.
Jón Sigurðsson taldi að frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.
Hann var höfðingi í sjón og reynd, glæsilegur gáfumaður sem varð oft að sætta sig við þá reynslu brautryðjandans að falla en halda þó velli.
Jón andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 og Ingibjörg níu dögum síðar. Þau eru jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Þau voru barnlaus, en Sigurður, sonur Margrétar á Steinanesi, ólst upp hjá þeim. Einn samtímamaður Jóns og Ingibjargar sagði um þau:
"Allir Íslendingar voru börn þeirra."
"Það getur enginn gert sér grein fyrir því, hvernig nú væri ástatt um hag þjóðar vorrar, ef hún hefði ekki eignast Jón Sigurðsson, þegar mest lá við. Það verður ekki stungið svo skóflu i jarðveg og sögu íslenskrar viðreisnar að ekki komi niður á æfistörf Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur."
(Ásgeir Ásgeirsson forseti á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 1961)
![]() |
Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Frá hátíðinni í fyrra. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, leggur blómsveig
að minnisvarða um Jón Sigurðsson.
Að venju verða hátíðahöld á Hrafnseri þann 17. júní.
Dagskráin er þannig:
13:00 – 13:45 Hátíðarguðþjónusta: sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir Þingeyrarprestakalli þjónar fyrir altari og sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti prédikar.
Undirspil: Jóngunnar Biering Margeirsson.
Kaffiveitingar á meðan hátíð stendur
14:15 Setning Þjóðhátíðar.
Tónlist: Jóngunnar Biering Margeirsson
Hátíðarræða: Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
Vefsíðan Sagnabrunnur Vestfjarða verður kynnt: Kjartan Ólafsson
15:00 Háskólahátíð í tilefni útskriftar vestfirskra háskólanemenda.
Kynnir á hátíðinni er prófessor Guðmundur Hálfdanarson.
Opnun myndlistarsýningar sumarsins eftir Harald Inga Haraldsson.
Börn geta farið á hestbak undir leiðsögn.
Rútuferð, Ísafjörður – Hrafnseyri, fólki að kostnaðarlausu.
Rútan fer frá Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði kl. 11:30
Rútan fer frá Hrafnseyri kl. 16:45
Vinsamlegast hafið samband við reception@uwestfjords.is eða í síma 450 3040 til að skrá ykkur í rútu.
Kaffi og afmælisterta í boði Hrafnseyrar verður á meðan á dagskrá stendur fram til kl. 17:00.
Einnig verður hægt að kaupa súpu með brauði.
![]() |
Hrafnseyri við Arnarfjörð.
![]() |
||||
.
|
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar, samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, hefur lokið störfum og úthlutað íbúð fræðimanns á 2. hæð hússins frá ágústlokum 2019 til ágústloka 2020.
Nefndinni bárust að þessu sinni umsóknir um dvöl til að sinna 43 verkefnum.
Úthlutað var dvalartíma til eftirtalinna fræðimanna:
Í úthlutunarnefndinni eiga sæti:
dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar,
dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri,
og Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður.
Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður skrifstofu forseta Alþingis.
|
||||
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Hún fékk hugmyndina þegar hún þurfti að slást við hann um síðustu rjómadropana í búðinni. Vigdís festi á filmu störf rófnabóndans Guðmundar á Sandi sem nú lætur af störfum eftir hálfa öld í rófnabúskap.
Ég vissi vel hver Guðmundur var áður en ég fór í þetta verkefni, því allir þekkjast í litla samfélaginu hér á Eyrarbakka. Guðmundur er gamall Eyrbekkingur og ég er fædd og uppalin hér, en ég kynntist honum óhjákvæmilega miklu betur við að fylgjast með störfum hans svona lengi. Það verður til ákveðinn vinskapur við svona mikinn samgang. Hann hringdi alltaf í mig þegar eitthvert verk lá fyrir og þá mætti ég á svæðið til að taka myndir. Ég reyndi að mæta sem oftast og líka aftur og aftur í sama verkið, því veður var misjafnt og birtan og annað í myndunum þá ólíkt,“ segir Vigdís Sigurðardóttir sem opnar ljósmyndasýninguna Rófubóndinn í dag í Húsinu á Eyrarbakka, en hún elti Guðmund Sæmundsson á Sandi í heilt ár og fylgdist með störfum hans í rófnarækt og tók myndir.
„Allt hófst þetta á því að mig langaði til að vinna að einhverju ljósmyndatengdu verkefni en ég hef haldið fjórar ljósmyndasýningar áður sem allar voru með landslagsljósmyndum. Mig bráðvantaði einhverja hugmynd svo ég heimsótti vinafólk mitt Magnús Karel og Ingu Láru sem búa hér á Eyrarbakka og spurði hvort þeim kæmi eitthvað í hug. Inga Lára dró mig upp á loft í Laugabúð og sýndi mér gamlar ljósmyndabækur og hún stakk upp á að ég inni að einhverju heimildarverkefni. Stuttu seinna átti ég erindi út í sjoppu til að kaupa rjóma fyrir kaffisamsæti sem kvenfélagið hér á Eyrarbakka stendur fyrir á frídegi verkamanna. Þá baka næstum allir á Eyrarbakka og ég þurfti nauðsynlega að fá rjóma, en það þurftu fleiri og ég lenti í því að slást um síðustu rjómadropana í búðinni við Guðmund rófubónda. Hann var mættur á traktornum og í vinnugallanum og var aðeins á undan mér, svo hann fékk það sem hann þurfti af rjóma en ég tók rest,“ segir Vigdís og hlær.
„Þarna laust niður hugmynd og ég spurði hann á staðnum hvort ég mætti taka af honum myndir við störf í rófnaræktinni. Honum fannst þetta svolítið skrýtin hugmynd og vildi fá að hugsa málið. Viku seinna samþykkti hann og ég gat hafist handa.“
Guðmundur er einyrki í rófnaræktinni sem hann hóf með föður sínum fyrir fimmtíu árum, en þeir feðgar ræktuðu einnig kartöflur. Guðmundur hætti kartöflurækt fyrir áratug og hefur einbeitt sér að rófnaræktinni síðan.
„Hann fær liðsstyrk á haustin, þá koma til hans ungir peyjar til að hjálpa honum að taka rófurnar upp, enda gríðarlegt magn sem þarf að taka upp. Uppskeran á hverju hausti er um 50 til 60 tonn af rófum, svo þetta er gríðarlegt magn og mikil vinna. Uppskeran hjá honum hefur farið upp í 130 tonn þegar mest var, en það fannst honum of mikið,“ segir Vigdís og bætir við að Guðmundur sé með einn til tvo hektara lands í einu undir rófnaræktina, en hann hvíli svæðin á milli ára.
„Öll hans ræktun er undir berum himni og handtökin eru mörg. Það þarf að plægja á vorin og sá, og gera garða. Á sumrin þarf að eitra fyrir kálfluguna nokkrum sinnum og Guðmundur fer nánast daglega til að kíkja á og fylgjast með sprettunni yfir sumarið.“
Vigdís segist hafa fræðst heilmikið við gerð verkefnisins, því hún vildi vita hvað verkið hverju sinni fæli í sér og til hvers það var.
„Núna veit ég ýmislegt um rófnarækt sem ég ekki vissi áður. Það kom mér á óvert hversu líkamlega erfið þessi vinna Guðmundar er. Hann þarf að bogra mjög mikið, en hann er kominn á áttræðisaldur og hefur starfað við rófnarækt í meira en fimm áratugi. Hann segist aldrei hafa fengið í bakið.“
Vigdís segir að rófurnar hans Guðmundar séu þær allra bestu sem hún hafi smakkað, enda fékk hún að bragða á þeim þegar þær voru nýkomnar upp úr moldinni. „Þær eru einstaklega sætar og ferskar svona beint upp úr garðinum. Guðmundur er mikill öðlingur og bauð mér ævinlega að taka með mér heim eins mikið af rófum og ég gat borið, í hvert sinn sem ég kom að mynda hann. Ég borðaði því miklu meira af rófum en ég er vön og ætli barnið sem ég ber undir belti verði ekki gult þegar það kemur í heiminn,“ segir Vigdís, sem er komin níu mánuði á leið.
Vigdís segist hafa notið samvistanna við Guðmund og að kynnin við hann hafi leitt í ljós hversu lundgóður hann er.
„Hann er mjög léttur og skemmtilegur maður, alltaf í góðu skapi og brosandi, reytandi af sér brandara og stutt í hláturinn. Ég lærði líka að koma helst aldrei til hans tíðindalaus, því hann spurði alltaf hvað væri að frétta. Ég lagði mig því fram um að vera alltaf með eitthvað nýtt til að segja honum af Bakkanum.“
Vigdís segir að nú hafi heimildarmyndataka hennar af störfum Guðmundar öðlast meira gildi en hún eða Guðmundur hefðu gert sér grein fyrir þegar þau lögðu af stað í ljósmyndaverkefnið, því nýlega kom í ljós að hann er hættur í rófnaræktinni, vegna veikinda.
„Þetta var því síðasta árið hans í ævistarfinu, svo það var eins gott að ég lét vaða og spurði hann þarna við mjólkurkælinn í fyrravor hvort ég mætti mynda hann.“
![]() |
||
|
Morgunblaðið - laugardagurinn 15. júní 2019
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Sigurður Jensson (1853 - 1924).
Sigurður Jensson fæddist í Reykjavík 15. júní 1853.
Foreldrar hans voru Jens Sigurðsson, f. 6.7. 1813, d. 2.11. 1872, alþingismaður og rektor Lærða skólans í Reykjavík en hann byrjaði sinn kennaraferil á Íslandi sem barnakennari á Eyrarbakka, og k. h. Ólöf Björnsdóttir, f. 22.2. 1830, d. 7.12. 1874 húsmóðir.
Jens var sonur Sigurðar Jónssonar prófasts á Hrafnseyri og Þórdísar Jónsdóttur konu hans sem var frá Holti í Önundarfirði og bróðir Jóns forseta. Ólöf var dóttir Björns Gunnlaugssonar stærðfræðings og yfirkennara við Lærða skólann.
Meðal systkina Sigurðar var Jón Jensson yfirdómari og alþingismaður.
Sigurður tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1873 og guðfræðipróf frá Prestaskólanum 1876. Hann fór síðan í framhaldsnám í guðfræði við Hafnarháskóla 1877-1878.
Sigurður var kennari við barnaskólann í Reykjavík 1873-1876 og 1878-1880. Hann var síðan prestur í Flatey á Breiðafirði 1880-1921 og prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi 1881-1902. Hann var póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Hann var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár, amtsráðsmaður 1901-1907 og yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1895-1902. Sigurður fékkst því við mörg opinber störf og var prýðilega vel látinn og vandaður maður, segir í andlátsfregn.
Sigurður var alþingismaður Barðstrendinga 1886-1908 fyrir Framfaraflokkinn, Landvarnarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eldri. Hann var varaforseti efri deildar 1899.
Sigurður fékk lausn frá prestsembætti vegna heilablóðfalls 1921 og fluttist þá til Reykjavíkur og var þar til æviloka.
Eiginkona Sigurðar var Guðrún Sigurðardóttir, f. 20.2. 1862, d. 19.3. 1941, húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson kaupmaður í Flatey og k.h. Sigríður Brynjólfsdóttir.
Börn Sigurðar og Guðrúnar sem upp komust voru Haraldur vélstjóri á Gullfossi, Jón raffræðingur og framkvæmdastjórii í Reykjavík, Jens gasstöðvarstjóri í Tönsberg í Noregi, Jón Sigurður bóndi og póstafgreiðslumaður í Flatey, Brynjólfur gasstöðvarstjóri í Rvík og Ólöf húsfreyja í Reykjavík.
Sigurður lést 5. janúar 1924.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Rófubóndinn
- sýningaropnun í Húsinu 15. júní 2019
Þér og þínum er boðið að vera við opnun ljósmyndasýningarinnar Rófubóndinn laugardaginn 15. júní 2019 kl. 17.00 í borðstofu Hússins á Eyrarbakka.
Vigdís Sigurðardóttir ljósmyndari á Eyrarbakka sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi sem hefur ræktað gulrófur á Eyrarbakka í yfir 50 ár.
Sýningin gefur fróðlega og litríka sýn á ræktun þessarar einstöku jurtar sem hefur fylgt þjóðinni í 200 ár.
Léttar veitingar í boði.
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
17. júní 2019
hátíðarhöld á Eyrarbakka
og Selfossi
Lýðveldisdagurinn 17. júni 2019 verður haldin hátíðlegur í Sveitarfélaginu Árborg nk. mánudag með hátíðardagskrá á Eyrarbakka og Selfossi.
Dagskrá dagsins má sjá hér að neðan en til viðbótar við hefðbundna dagskrá mun Forsætisráðuneytið í samvinnu við Landsamband bakarameistara bjóða upp á svokallaða „Lýðveldisköku“ í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins. Kakan verður í boði í hátíðartjaldinu á Selfossi frá kl. 13:30.
Íbúar er hvattir til að taka þátt í hátíðardagskrá og mæta með íslenska fánann á lofti.
Dagskrá á Selfossi 17. júní
Dagskrá á Eyrarbakka 17. júní fer fram í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka
kl. 14:00 Hátíðardagskrá
![]() |
|
||
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is