Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2019 Ágúst

14.08.2019 08:27

SUNNLENDINGURINN ÓMAR SMÁRI KRISTINSSON BÆJARLISTAMAÐUR ÍSAFJARÐARBÆJAR 2019

 

 

F.v.: Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Ómar Smári Kristinsson

við útnefninguna.  Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson.

 

 

-SUNNLENDINGURINN- 

 

ÓMAR SMÁRI KRISTINSSON

 

BÆJARLISTAMAÐUR ÍSAFJARÐARBÆJAR 2019

 

 

Myndlistarmaðurinn Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019 og var útnefningin tilkynnt á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri laugardaginn 10. ágúst 2019. Ómar Smári er Sunnlendingur frá Gíslholti í Holtum, Rangárvallasýslu og hefur búið á Ísafirði um árabil.

 

Í rökstuðningi Atvinnu- og menningarmálanefndar segir m.a. :

 

„Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019. Hann er myndlistamaður, undanfarin ár hefur list hans aðallega komið okkur fyrir sjónir í teikningum og bókaútgáfu. Ómar Smári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum og myndlistarnám í Hannover í Þýskalandi.

 

Árið 2012 teiknaði hann bæjarmynd af Ísafirði, í samstarfi við Eyþór Jóvinsson, þar sem hann tók bæði myndir úr lofti og nærmynd af hverju húsi. Hann setti saman kortið úr 24 teikningum, sem pössuðu síðan saman í eina heild. Kortið varð fljótlega úrelt eftir útgáfu en árlega uppfærir hann kortið m.t.t. nýs litar á húsi, viðbygginga eða annarra breytinga. Ætla má að kortið verði að nokkurs konar sagnfræðilegri myndasögu í gegnum tíðina. Kortunum hefur jafnframt fjölgað og Suðureyri, Þingeyri og Flateyri hafa jafnframt verið teiknuð upp ásamt fjölda annarra þéttbýlisstaða víðar um landið.

 

Ómar Smári kom að heimildarmynd um Bolungarvík, Bolungarvík á 20 mínútum, í samstarfi við Kvikmyndafélagið Glámu og Bolungarvíkurkaupstað. Eftir því sem best er vitað er þar eina teiknimyndin í heiminum sem sýnir þróun eins þéttbýlisstaðar.

 

Hann hefur haldið ýmsar sýningar, tók m.a. þátt í tveimur jólasýningum í Safnahúsinu þar sem hann málaði jólasveina og aðrar kynjaverur jólanna á veggi Listasafns Ísafjarðar. Enn fremur er Ómar Smári að vinna að útgáfu teiknimyndasögu sem unnin er upp úr Gísla sögu Súrssonar ásamt Elfari Loga [Hannessyni] og var sýning á þeirri vinnu á vormánuðum í Listasafni Ísafjarðar.

 

Það sem einkennir list Ómars Smára er nákvæmni og hversu auðvelt er að átta sig á landslagi og afstöðu hluta í verkum hans.  Hann er teiknari með sitt eigið handbragð, sinn eigin stíl. Hann er með húmor og er jafnan glaðbeittur.“

 

 

www.bb.is.
 Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

14.08.2019 07:36

Umhverfisverðlaun Árborgar 2019

 


F.v.: Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri,

Jóhann Valgeir Helgason formaður Björgunarfélags Árborgar, Örn Óskarsson,

Ásrún Ásgeirsdóttir og Viktor Tómasson. Mynd: ÖG.

 

 

Umhverfisverðlaun Árborgar 2019 

 

 

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, afhenti umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Árborgar í Sigtúnsgarði á Selfossi sl. laugardag, 10. ágúst 2019.. Leitað var eftir tilnefningum frá íbúum og bárust margar tilnefningar.

 

Fallegasti garðurinn


Fallegasti garðurinn var valinn Eyjasel 11 á Stokkseyri, en þar búa Viktor Tómas­son og Ásrún Ásgeirsdóttir. Garðurinn er snyrtilegur og fallegur og kemur dálítið á óvart því hann sést ekki mikið frá götunni og er því smá falinn.

 

Fallegasta fyrirtækið


Fallegasta fyrirtækið var valið Björgunar­mið­stöðin á Selfossi. Hjá þeim er alltaf snyrtilegt og fínt á planinu við húsið. Eins ræður snyrtimennskan ríkjum innanhúss.

 

Umhverfisverðlaun Árborgar


Örn Óskarsson, líffræðingur og fram­halds­skólakennari, fékk afhent umhverfis­verð­laun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir ómet­an­legt framlag til umhverfismála til fjölda ára. Örn hefur unnið að umhverfismálum á fjölmörgum sviðum í gegnum tíðina. Þetta var í fyrsta skipti sem einstaklingi eru veitt þessi verðlaun.

 

Fallegasta gatan


Fallegasta gatan var valin Starmói á Sel­fossi. Elsti íbúinn er Ásmundur Daníelsson fæddur 23. ágúst 1939 en hann býr í Star­móa 7 og sá yngsti er Snorri Kristinsson, fæddur 13. desember 2017. Hann býr í Star­móa 12 með foreldrum sínum Ásrúnu Magnúsdóttur og Kristni Högnasyni. Starmói var valinn því hann þótti heilt yfir snyrtileg og falleg gata og hefur yfirleitt alltaf verið það.
Dagskráin 14. ágúst 2019.
 Skráð af Menningar-Bakki.

13.08.2019 21:50

Merkir Íslendingar - Valdimar Ólafsson

 

 

Valdimar Ólafsson (1926 - 2008).

 

 

Merkir Íslendingar - Valdimar Ólafsson

 

 

Valdimar Ólafson, fyrrv. yfirflugumferðarstjóri, fæddist á Mosvöllum I í Önundarfirði 13. ágúst 1926.

Foreldrar hans voru Ólafur B. Hjálmarsson, sjómaður, bóndi á Mosvöllum I, verkstjóri, efnisvörður BP í Rvk., f. 26.8. 1903, d. 30.8. 1986, og Ragnheiður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 25.10. 1902, d. 7.4. 1991.

 

 

Valdimar kvæntist 22.12. 1948 Erlu Þórdísi Jónsdóttur síðar kennara, f. 9.2. 1929, d. 28.2. 1987, dóttur Þórunnar Jónsdóttur kennara og Jóns Alexanderssonar, forstjóra hlustendaþjónustu ríkisútvarpsins. Þau skildu 1965. 

Börn Valdimars og Erlu eru sjö: 


1) Alexander Einar Valdimarsson, f. 22.12. 1947, 
2) Ragnheiður Valdimarsdóttir, f. 18.6. 1949, 
3) Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir, f. 25.8. 1954, 
4) Lilja Valdimarsdóttir, f. 12.11. 1956, 
5) Trausti Valdimarsson, f. 1.11. 1957,  
6) Vala Sigurlaug Valdimarsdóttir, f. 21.1. 1960,
7) Ásdís Valdimarsdóttir, f. 18.7. 1962, 

 

Seinni kona Valdimars er Helga Árnadóttir hjúkrunarkona, f. 16.9. 1937, dóttir Árna Björns Árnasonar, héraðslæknis í Grenivík, og Kristínar Þórdísar Loftsdóttur húsmóður. 

Börn Valdimars og Helgu eru fimm: 


8) Árni Björn Valdimarsson, f. 8.11. 1965, 
9) Ólafur Kristján Valdimarsson, f. 12.8. 1967,  
11) Sindri Valdimarsson, f. 19.4. 1971, 
12) Kristín Þórdís Valdimarsdóttir, f. 19.10. 1975.

 

 

Valdimar hóf störf í Flugmálastjórn sem loftskeytamaður 1946 og sem flugumferðarstjóri 1947-51, var vaktstjóri til 1962, aðstoðarflugumferðarstjóri til 1971 og yfirflugumferðarstjóri til 1991. Kenndi lengi flugnemum bókleg fræði á kvöldnámskeiðum og í Flugskóla Íslands í dagskóla 1991-99. Hann var ritari Flugráðs í sjö ár og leiðsögumaður á sumrin í 15 ár. Hann var meðhjálpari í Fella- og Hólakirkju í 11 ár og yfir 20 ár í sóknarnefnd Fella- og Hólakirkju. Hann hafði ánægju af að syngja og var í Gerðubergskórnum og karlakórnum Kátum körlum. Var áður fáein ár með Pólýfónkórnum og eitt ár með kirkjukór. Félags- og trúnaðarstörf voru honum hugleikin. Var fyrsti formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) 1955-66 og í stjórn BSRB í 10 ár. Formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins í fjögur ár. Hann ferðaðist mikið og tók þátt í alþjóðlegu samstarfi, sat meðal annars undirbúnings-, stofnfund og ársþing alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra IFATCA. Starfaði í áratugi í Oddfellow og Rotary Breiðholt og gegndi þar ritara- og forsetastörfum. Starfaði í fimm ár við gerð Flugorðasafnsins sem kom úr 1993. Samdi kennslubók í flugreglum 1992.Hann ritaði margar greinar í tímarit, dagblöð og sérrit. Einnig tók Valdimar þátt í störfum Almannavarna ríkisins í um 25 ár og í hjálparstarfi kirkjunnar. Var kjörinn heiðursfélagi FÍF 1985 á 30 ára afmæli þess og hlaut gullmerki sem einn af formönnum þess og Paul Harris-orðu Rotary-félagsskaparins.

 

Valdimar Ólafsson lést 2. apríl 2008.
 Skráð af Menningar-Bakki.

12.08.2019 20:32

Gamla og góða fréttin - 15. júlí 2006

 

 

Eftir heiðrunina á Stokkseyrarbryggju þann 14. júlí 2006.
F.v.:

Stefán Muggur Jónsson, Páll Sigurgeirsson, Valdimar Jónsson og Einar Helgason.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Gamla og góða fréttin

 

 - 15. júlí 2006 -Af: www.stokkseyri.is
Skráð af Menningar-Bakki.

12.08.2019 10:15

Hruna­laug stend­ur tóm

 

 

Við eðli­leg­ar aðstæður renn­ur yf­ir­borðsvatn yfir heit­ar klapp­irn­ar á þess­um stað.

Nú eru læk­ir þornaðir upp og baðgest­ir grípa í tómt. Ljósm.: mbl.is/?Sig­urður Bogi

 

 

Hruna­laug stend­ur tóm

 

 

Mik­illa þurrka á Suður­landi að und­an­förnu sér stað með ýmsu móti og í Hruna­manna­hreppi vek­ur at­hygli að svo­nefnd Hruna­laug, skammt frá Flúðum, er horf­in.

 

Þannig ber til að í laug­ina fell­ur yf­ir­borðsvatn sem renn­ur yfir heita klöpp þar sem baðstaður­inn er. Þar sem lítið sem ekk­ert hef­ur rignt í upp­sveit­um Árnes­sýslu í tals­verðan tíma er þar vatns­skort­ur og læk­ur­inn við Hruna­laug, sem er í landi jarðar­inn­ar Áss, er horf­inn. Fólk sem kem­ur á staðinn til þess að baða sig gríp­ur því í tómt þegar gengið er frá bíla­stæði yfir lág­an ás að nátt­úru­laug­inni, sem er vin­sæl.

 

Aðstæður eru víða lík­ar því sem nú ger­ist í Hruna­laug. Sveit­ar­fé­lög á Suður­landi hafa meðal ann­ars gefið út þau til­mæli til bænda að fara spar­lega með neyslu­vatn. Hef­ur það skapað nokk­urn vanda, til dæm­is hjá bænd­um og í garðyrkj­unni, að því er fram kem­ur í Morg­un­blaðinu í dag.

 

Morgunblaðið 12. ágúst 2019.
Skráð af Menningar-Bakki

12.08.2019 07:48

Örn fékk Umhverfis- verðlaun Árborgar

 

 

Örn Óskars­son líf­fræðing­ur og fram­halds­skóla­kenn­ari á Sel­fossi.

 

 

Örn fékk Umhverfis- verðlaun Árborgar

 

 

Örn Óskars­son líf­fræðing­ur og fram­halds­skóla­kenn­ari á Sel­fossi fékk um­hverf­is­verðlaun Sveit­ar­fé­lags­ins Árborg­ar, sem voru í fyrsta sinn veitt á bæj­ar­hátíðinni  -Sum­ar á Sel­fossi-  um helg­ina.

 

Margt var til­tekið í rök­stuðningi bæj­ar­stjórn­ar fyr­ir af­hend­ingu verðlaun­anna. Þar má nefna kennslu­störf hans, vinnu við skóg­rækt­ar­svæði bæj­ar­ins í Hell­is­skógi og marg­vís­leg­ar fram­kvæmd­ir þegar hann sá um vinnu­skól­ann á Sel­fossi. Einnig hef­ur Örn verið öt­ull sem nátt­úru­ljós­mynd­ari - og held­ur meðal ann­ars úti síðu með mynd­um af fugl­um. Einnig er hann um­sjón­ar­maður heimasíðu um Veiðivötn; nátt­úruf­ar þar, afla­brögð og fleira slíkt.

 

sbs@mbl.is

Morgunblaðið 12. ágúst 2019.


 


Skráð af Menningar-Bakki.

11.08.2019 13:07

Merkir Íslendingar - Halla Eyjólfsdóttir

 

 

Halla Eyjólfsdóttir (1866 - 1937).

Halla bjó nær öll sín fullorðinsár á Laugabóli í Ísafirði í Ísafjarðardjúpi.

 

 

Merkir Íslendingar - Halla Eyjólfsdóttir

 

 

Í dag, 11. ágúst 2019, eru 153 ár frá fæðingu Hallfríðar Eyjólfsdóttur, eða Höllu á Laugabóli eins og hún er betur þekkt. Halla var á sínum tíma þekkt ljóðskáld, gaf út tvær ljóðabækur; Ljóðmæli sem komu út árið 1919, og Kvæði sem komu út árið 1940, þremur árum eftir andlát hennar. Halla fæddist 11. ágúst 1866 í Múla við Gilsfjörð, Austur-Barðastrandarsýslu. Vorið 1886 kvaddi Halla æskustöðvarnar við Gilsfjörðinn tæplega tvítug og hélt norður yfir heiði þar sem hún réðst sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð innst í Ísafjarðardjúpi. Fáum árum síðar giftist hún Þórði Jónssyni, f. 5.4. 1858, d. 18.10. 1914, syni hjónanna þar Jóns Halldórssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Halla og Þórður eignuðust fjórtán börn en þrjú þeirra misstu þau úr barnaveiki sumarið 1904. 
Þórður og Halla reistu sér fyrst bú á Kirkjubóli í Laugardal 1892 en fimm árum seinna tóku þau við búi foreldra hans á Laugabóli. Sumarið 1910 var ungur læknir, Sigvaldi Stefánsson, skipaður héraðslæknir í Nauteyrarhéraði. Kom hann vestur þá um sumarið með fjölskyldu sína og settist að á Ármúla, innst í Ísafjarðardjúpi, rétt við Kaldalón. Sigvaldi tók sér síðar nafnið Kaldalóns og varð þjóðþekktur sem tónskáld. Kynni tókust með fjölskyldu Sigvalda og fjölskyldunni á Laugabóli og varð mikil og hlý vinátta þar á milli.Í erindi Hlyns Þór Magnússonar sagnfræðings um Höllu segir: „Óhætt er að segja að samband þeirra Höllu og Sigvalda hafi verið einstakt enda leiddi það til sköpunar sönglaga sem teljast verða perlur í íslenskri tónlist. Bæði voru þau óþekktir listamenn þegar leiðir þeirra lágu saman en bæði voru þjóðþekkt er leiðir skildu. Verk þeirra hafa lifað fram á þennan dag, hjartkær íslensku þjóðinni í tímalausri fegurð sinni. Það hlýtur að hafa verið töfrastund þegar örlögin leiddu saman þessar tvær manneskjur í afskekktri sveit norður á hjara veraldar.“ Af sönglögum Sigvalda við ljóð Höllu má nefna -Ég lít anda liðna tíð- og -Svanurinn minn syngur-. Þórður lést árið 1914 eftir erfið veikindi og Halla sá um búið en árið 1921 giftist hún Gunnari Steini Gunnarssyni frá Hvítanesi í Skötufirði. Þau héldu áfram búskap á Laugabóli til 1935 þegar Sigurður, sonur hennar, tók við. Halla lést í Reykjavík árið 1937, liðlega sjötug að aldri. Árið 2008 kom út úrval ljóða Höllu í bók sem nefnist Svanurinn minn syngur. Guðfinna Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði gaf út bókina og í henni er einnig æviágrip um þessa merku konu. Nánar um lífshlaup Höllu 
Image result for svanurinn minn syngur

Höfundur og útgefandi er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði
Skráð af Menningar-Bakki.

10.08.2019 20:45

Útiguðsþjónusta í Arnarbæli 11. ágúst 2019

 

 

Útiguðsþjónusta

 

í  Arnarbæli 11. ágúst 2019Skráð af Menningar-Bakki

10.08.2019 14:08

10. ágúst 1907 - Friðrik VIII kemur til Flateyrar við Önundarfjörð

 

Konungsskipið Birma á Flateyrarhöfn þann 10. ágúst 1907.

 

 

 

 10. ágúst 1907


 

– Friðrik VIII kemur til Flateyrar við Önundarfjörð

 

 

Friðrik VIII. konungur Danmerkur og Íslands kom siglandi hingað til lands frá Færeyjum á konungsskipinu Birma ásamt fríðu föruneyti. Þar á meðal var forsætisráðherra Dana, embættismenn og foringjar úr danska hernum. Auk þess var gufuskipið Atlanta með í för, en innanborðs voru 40 ríkis- þingmenn á danska þinginu, blaðamenn og fleiri gestir. Auk þess fylgdu skipunum tvö beitiskip danska hersins, Geysir og Hekla.

 

Eftir nokkurra daga dvöl í Reykjavík og ferðalag austur á Þingvöll, að Geysi og Gullfossi, var siglt út Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og til Vestfjarða.

 

Það var laugardaginn 10. ágúst 1907. Að kvöldi þess dags kasta skipin akkerum inni við Flateyri á Önundarfirði og höfðust þar við um nóttina.

 

Tveir danskir ritstjórar gáfu út bók um Íslandsferð konungs 1907 og þar segir: „Auðn og fásinni réðu ríkjum á þessum stað. Gróðurlaus fjöll og þungbúin risu á allar hliðar, svo að ekki sást í neinar áttir nema út á Íshaf, úfið og grátt. Undiraldan drundi í síðasta ljósgliti sólar, og timburhúsin á grýttum tanganum sýndust óhugnanleg og veðurbitin. Enginn trjágróður eða graslendi fjörgaði hjóstrugt umhverfi. Þarna ólu menn aldur frá vöggu til grafar, við fjöll og sæ, sanda og grjót ...“.

 

Og lifðu á þorskinum sem þeir drógu á seglskútum og árabátum og verkuðu í saltfisk. Auk þess höfðu Norðmenn (Hans Ellefsen) reist hvalveiðistöð á Sólbakka, en nú var hún farin og fátt að sjá nema stór hvalbein sem minntu á þau miklu umsvif sem hvalstöðinni fylgdu.

 

Friðrik konungur og Hannes Hafstein ráðherra Íslands, sem slóst í för með konungi frá Reykjavík, gengu á land á Flateyri. Var það eini viðkomustaður konungs hér á landi sem ekki ver beinlínis á dagskrá. Gengu þeir saman um þorpið og heilsuðu heimafólki, enda Hannes kunnugur á Flateyri, þar sem hann hafði verið sýslumaður Ísfirðinga nokkru áður.

 

Flateyringar stóðu fyrir utan hús sín, karlmenn, konur og börn og heilsuðu aðkomufólki blátt áfram og hjartanlega. Það var ekki á hverjum degi sem konungurinn og ráðherrann spásseruðu um fiskiþorp á Vestfjörðum.

 

Síðar í kvöldkyrrðinni á Önundarfirði gerðist nokkuð óvænt: „Þegar gengið var út á þilfar að máltíð lokinni, sáust allt í einu oss til mikillar undrunar stórir logar blossa við himin, uppi á háum fjallstindi. Þótti það stórfengleg sjón.“ Héldu menn í fyrstu að um eldgos væri að ræða, en slíkt gerist nú ekki á Vestfjörðum.

 

Hér voru á ferðinni ungir Flateyringar sem tóku sig til um kvöldið og drógu saman eldiviðarköst uppi á Klofningsheiði og kveiktu bál til heiðurs konungi og fylgdarliði hans. Vakti þetta óskipta athygli.

 

 

Héraðsblaðið Skutull á Ísafirði í janúar 2008.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

10.08.2019 07:39

Listasafn Árnesinga - Sýningarstjóraspjall og leiðsögn með Kristínu G. Guðnadóttur

 

 

Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

 

 

Listasafn Árnesinga -

 

Sýningarstjóraspjall og leiðsögn með Kristínu G. Guðnadóttur

 

 

Sunnudaginn 11. ágúst 2019 kl. 15:00 mun Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar ganga með gestum um hana og ræða um þau verk sem þar eru og gjöf Eyrbekkingsins Ragnars Jónssonar í Smára sem lagði grunninn að Listasafni ASÍ.

 

Á sýningunni má sjá mörg öndvegisverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri listamenn sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.

 

Sýningin er samstarfsverkefni safnanna, Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga og til sýnis eru 52 málverk af alls 147 verkum sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ. Samtímis sýningunni gaf Listasafns ASÍ út veglega bók með sama nafni um stofngjöf Ragnars.

 

Kristín G. Guðnadóttir er mikilsvirtur fræðimaður um íslenska myndlist og hefur verið sýningarstjóri fjölmargra listsýninga og var safnstjóri Listasafns ASÍ á árunum 1997 - 2016. Hún er höfundur viðamikilla bóka um Kjarval annars vegar og Svavar Gunason hinsvegar auk fleiri bóka og greina um íslenska myndlist. í bókinni Gjöfin til Íslenzkrar alþýðu ritar Kristín um velgjörðarmanninn Ragnar í Smára og listaverkasafnið hans. Ritstjóri bókarinnar er Elísabet Gunnarsdóttir núverandi safnstjóri Listasafns ASÍ.

 

Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og aðgangur að safninu er ókeypis, líka á spjall og leiðsögn Kristínar. Sýningin mun standa til 15. september.

 

Kristin G Gudnadottir

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur.

 


Skráð af Menningar-Bakki