![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879)
Jón Sigurðsson forseti lést í Kaupmannahöfn, 68 ára.
Hann var jarðsettur í Reykjavík 4. maí 1880 ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur konu sinni, sem lést 16. desember 1879.
Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson fæddur 2. janúar 1777, látinn 31. október 1855, sóknarprestur á Hrafnseyri og kona hans Þórdís Jónsdóttir prestdóttir frá Holti í Önundarfirði fædd 1772, látin 28. ágúst 1862, húsmóðir.
Kona Jóns var Ingibjörg Einarsdóttir fædd 9. október 1804, látin 16. desember 1879 í Kaupmannahöfn, húsmóðir. Þau voru gefin saman 4. september 1845. Foreldrar Imbu eru Einar Jónsson, föðurbróðir Jóns, og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir.
Í bókinni Frá Bjargtöngum að Djúpi 5. hefti, sem kom út árið 2012, er ítarleg frásögn eftir Einar Sigurbjörnsson af útför Jóns Sigurðsson og Ingibjargar Einarsdóttir í Reykjavík 4. maí 1890.
![]() |
Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir. |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Kristján Eldjárn (1916 - 1982) |
Merkir Íslendingar - Kristján Eldjárn
Kristján Eldjárn fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916. Foreldrar hans voru Þórarinn Kristjánsson Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og k.h., Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja.
Eiginkona Kristjáns var Halldóra Eldjárn, f. 24.11. 1923, d. 21.12. 2008, húsfreyja og forsetafrú.
Börn þeirra eru:
Ólöf Eldjárn, ritstjóri og þýðandi,
Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur,
Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður,
og Ingólfur Árni Eldjárn, tannlæknir.
Kristján lauk stúdentsprófi frá MA 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-39, lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1944 og doktorspróf þaðan 1957 en doktorsritgerð hans fjallaði um kuml og haugfé í fornum sið á Íslandi.
Kristján var afkastamikill höfundur um fornleifar og fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal rita hans eru Gengið á reka, 1948; Stakir steinar, 1959; Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 1962, og Hagleiksverk Hjálmars í Bólu, 1975. Auk þess hafði hann umsjón með vinsælum sjónvarpsþáttum, Munir og minjar, á upphafsárum ríkissjónvarpsins.
Kristján var kennari við MA og Stýrimannaskólann um skeið, varð safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands 1945, var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi því embætti þar til hann var kjörinn þriðji forseti íslenska lýðveldisins 30.6. 1968. Hann var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976 en lét af embætti árið 1980.
Kristján var merkur fræðimaður, virtur og vinsæll forseti, alþýðlegur í fasi og einstakt prúðmenni. Hann sýndi festu og stillingu á erfiðum stjórnarkrepputímum sem mæddu mjög á embætti hans um skeið, var skemmtilegur í viðkynningu og prýðilega hagmæltur eins og sonur hans og þeir frændur ýmsir úr Svarfaðardalnum. Hann var heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Lundi, Odense, Bergen, Leningrad og Leeds.
Kristján lést 14. september 1982.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
|
Vestfirska forlagið gefur út fyrir jólin verkið Er það hafið eða fjöllin? Um Flateyri og fólkið þar eftir Sæbjörgu Freyju Gísladóttur. Þar leitast höfurndur við að svara spurningunni: Hvers vegna fólk býr á Flateyri.
„Þetta er að vísu ekki skýrsla um byggðamál. Og þó. Það er ekki á hverjum degi sem menn fá jafn skemmtilega frásögn um það sem fyrr féll undir hugtakið jafnvægi í byggð landsins. Hún er prýðileg. Hún er sönn og hún er gefandi lestur. Og vesfirskur húmor er allt um kring! Í ótal viðtölum lætur höfundur fólkið sjálft, núverandi íbúa og brottflutta, segja hispurslaust frá lífi sínu, amstri, áhyggjum, draumum og lífsgleði. Skjaldan, eins og sagt var upp á vestfirsku í gamla daga, hefur svo hispurslaus frásögn um lífið í krummaskuðunum sést á prenti.“
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Hannes Hafstein (1861 - 1922). |
4. desmber 2019 -
158 ár frá fæðingu Hannesar Hafstein
Fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. des. 1861, d. 13. des. 1922.
For.:
Pétur Havstein (f. 17. febr. 1812, d. 24. júní 1875) alþm. og amtmaður þar og 3. k. h. Kristjana Gunnarsdóttir Havstein (f. 20. sept. 1836, d. 24. febr. 1927) húsmóðir.
Kona.
(15. okt. 1889) Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein (f. 3. apríl 1871, d. 18. júlí 1913) húsmóðir. For.: Stefán Thordersen alþm. og k. h. Sigríður Ólafsdóttir Stephensen, sem áður var 2. kona Péturs föður Hannesar.
Börn:
Sigurður (1891), Kristjana (1892), Ástríður (1893), Þórunn (1895), Sigríður (1896), Sofía Lára (1899), Elín Jóhanna Guðrún (1900), Ragnheiður (1903), Kristjana (1911), Sigurður Tryggvi (1913).
Stúdentspróf Lsk. 1880. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1886.
Settur sýslumaður í Dalasýslu 1886, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887. Sinnti síðan lögfræðistörfum um hríð. Landshöfðingjaritari frá 1889 og jafnframt að nýju málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1890—1893. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896—1904. Skip. 31. jan. 1904 ráðherra Íslands frá 1. febr. að telja, lausn 31. mars 1909. Bankastjóri við Íslandsbanka 1909—1912. Skip. 24. júlí 1912 ráðherra Íslands að nýju frá 25. júlí, lausn 21. júlí 1914. Varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 og gegndi því starfi til 1917, er hann varð að láta af því vegna vanheilsu.
Endurskoðandi Landsbankans 1890—1896. Átti sæti í millilandanefndinni 1907, varaformaður hennar og formaður íslenska hlutans. Skip. 1911 í mþn. um rannsókn á fjármálum landsins og í aðra um skattamál, skip. 1914 í velferðarnefnd. Foringi Heimastjórnarflokksins 1901—1912.
Alþm. Ísf. 1900—1901, alþm. Eyf. 1903—1915, landsk. alþm. 1916—1922, sat síðast á þingi 1917 (Heimastjfl., Sambfl., Heimastjfl.).
Ráðherra Íslands 1904—1909 og 1912—1914.
Forseti Sþ. 1912.
Kvæði hans hafa birst í mörgum útgáfum.
Ritstjóri: Verðandi (1882).
![]() |
Hannes Hafstein við Stjórnarráðið í Reykjavik. Ljósm.: BIB |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Styrktarsjóður Listasafns Sigurjóns Ólafssonar hefur gefið út heimildaritið Listasafn Sigurjóns Ólafssonar – tilurð og saga, sem Birgitta Spur, ekkja listamannsins, sem var fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, ritstýrði. Af því tilefni býður styrktarsjóðurinn til fagnaðar í safninu á Laugarnesi í dag, 4. desember 2019 kl. 17.
Dagskráin endurspeglar breiddina í starfsemi safnsins, sem frá upphafi hefur fjallað um myndlist, tónlist, bókmenntir og náttúru- og menningarminjar á Laugarnesi.
Birgitta tileinkar ritið afkomendum sínum og velunnurum safnsins sem studdu hana þegar staðið var að uppbyggingu þess. „Mér er mikið í mun að til séu aðgengilegar heimildir um safnið og starfsemi þess,“ segir Birgitta um verkið.
Í bókinni rekur Birgitta 35 ára sögu safnsins og styðst við dagbækur, sendibréf, blaðaúrklippur, ljósmyndir og ársskýrslur safnsins. Margar blaðagreinar, einkum úr Morgunblaðinu, eru birtar sem myndir eins og þær komu fyrir í upphafi, og með skýringum Birgittu er um að ræða ítarlega samantekt um mikilvæga menningarstarfsemi.
Erfiður rekstur
Eftir lát Sigurjóns 20. desember 1982 var Birgittu mikill vandi á höndum og 1. desember 1984 stofnaði hún einkasafnið Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í þeim tilgangi að halda utan um hátt í tvö hundruð listaverk Sigurjóns og varðveita þau á þeim stað sem þau voru sköpuð. Hún segir að þegar Sigurjón féll frá hafi húsnæðið verið gamalt og úr sér gengið og miklar endurbætur nauðsynlegar. Stofnun einkasafns hafi verið byrjunin á uppbyggingunni en síðan hafi þurft að afla fjármagns til að gera við vinnustofuna, svo hún gæti þjónað til sýninga.
Haustið 1988 var safnið opnað almenningi og ári síðar gert að sjálfseignarstofnun og rekið með sjálfsaflatekjum og styrkjum frá ríki og borg fram til ársins 2012, þegar Listasafn Íslands tók við rekstrinum.
Birgitta segir að rekstrarfjármagn hafi ekki verið sjálfgefið. Framlag borgarinnar hafi alltaf verið minna en framlag frá ríkinu. „Á árunum eftir bankahrunið 2008 var staðan svo alvarleg að við blasti að hætta þyrfti rekstri safnsins,“ segir hún.
Birgitta segist vera ánægð með það sem tókst að gera: að breyta fátæku listamannaheimili í menningarstofnun þar sem menningararfurinn, verk Sigurjóns Ólafssonar, er þungamiðjan.
„Við höfum staðið vörð um arfleifð Sigurjóns með þeim árangri að fjallað hefur verið um list hans erlendis og verkin farið á sýningar þar, og til dæmis hefur hann aftur verið dreginn fram í sviðsljósið í Danmörku,“ segir Birgitta. „List hans er alþjóðleg.“
Morgunblaðið þriðjudagurinn 3. desember 2019.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
||||
Svanholm segir um yfirgripsmikla sýningu að ræða sem blási nýju lífi í list listamanns sem fallið hafi í gleymskunnar dá í Danmörku. Rifjar hann upp að Sigurjón hafi búið, lært og starfað í Danmörku í 17 ár eða þar til hann fluttist alfarinn heim til Íslands 1945. Á Danmerkurárunum hafi Sigurjón starfað náið með listamönnum Cobra-hreyfingarinnar og listhópnum Linien. „Meðan hann starfaði í Danmörku var oft horft framhjá íslenskum bakgrunni hans. Þegar hann eftir seinna stríð flutti heim til Íslands virðist hann hafa verið sniðgenginn í dönsku listasögunni sem kom dönskum kollegum hans til góða,“ skrifar Svanholm í dómi sínum.
Bendir hann á að Sigurjón hafi haft fjölbreytni að leiðarljósi jafnt í efnisvali sem og mótífum. Svanholm hrósar Listasafninu í Tønder fyrir að beina kastljósi sínu að list Sigurjóns og tekur fram að sýningin gagntaki auðveldlega áhorfendur. Hrósar hann einnig 210 blaðsíðna sýningarskránni sem gefin var út samhliða sýningunni, þar sem hún veiti mikilvægar upplýsingar um listamanninn og list hans.
Sýningin stendur til 1. mars 2020.
|
![]() |
BIBarinn grúskar í myndasafninu
Halldór Halldórsson og handtökin við þorskhausana í góðu lagi.
Í Fiskvinnslu Hólmarastar á Grandanum í Reykjavík fyrir um 30 árum.
![]() |
||
. .
|
![]() |
![]() |
----Ég trúi að fólk geti betrast----
|
Í aldarfjórðung hefur Páll Winkel unnið við löggæslu og kann hann því vel. Sem forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur hann látið til sín taka og breytt mörgu til batnaðar. Hann segir innilokun í lokuðu fangelsi ekki bæta nokkurn mann og þótt Páll telji vont fólk vera til segir hann flest fólk gott. Eitt stærsta verkefnið er glíman við eiturlyfin, en um 70- 90% fanga eru í neyslu.
Páll tekur á móti blaðamanni á skrifstofu sinni í Fangelsismálastofnun ríkisins einn fallegan vetrarmorgun. Út um gluggann blasir hafið við og Esjan sem lúrir enn í myrkri handan fjarðarins. Það er stafalogn og frost og sólin er að mjakast upp fyrir fjöllin í austri. Smátt og smátt lætur húmið í minni pokann fyrir deginum sem rís og þá stirnir á steina og strá handan götunnar.
Páll býður til sætis og nær í úrvalskaffi. Hann er reffilegur í eldrauðri skyrtu og brosir breitt þannig að skín í skemmtilegt frekjuskarðið. Eftir skraf um dásamlegt útsýnið og daginn og veginn vindum við okkur í spjall um fangelsismál, sem eru í stöðugri þróun. Vandamálin eru mörg hjá þeim hópi fólks sem sviptur er frelsinu um stund; fólks sem Páll segir flest í grunninn gott.
Páll er lögfræðingur að mennt en meðfram lögfræðináminu vann hann í lögreglunni. Eftir útskrift starfaði hann sem lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun og þaðan lá leiðin í Landssamband lögreglumanna. Þá tók hann við embætti aðstoðarríkislögreglustjóra en var svo ráðinn forstjóri Fangelsismálastofnunar í ársbyrjun 2008.
„Ég hef unnið í löggæslugeiranum í 25 ár; hér í tæp tólf ár. Ég hóf að vinna við afleysingar í lögreglunni um tvítugt og síðan hef ég ekki átt útleið. Ég kann vel við mig í þessu,“ segir Páll og brosir.
„Til að byrja með, sem ungur maður, fannst mér þetta spennandi heimur og ég fékk að sjá hluti sem maður hafði ekki séð eða upplifað áður. Það kom mér á óvart hvað þetta var harkalegur heimur. Mér fannst erfitt að horfa upp á erfiðar aðstæður og það kom mér á óvart hvað lífið er fjölbreytt í svona litlu samfélagi eins og á Íslandi. Hér er mikil stéttaskipting og misjafnt hvernig fólk hefur það.“
Páll segist hafa verið ákveðinn frá upphafi í að breyta ýmsu þegar hann tók við sem forstjóri Fangelsismálastofnunar.
„Ég áttaði mig á því mjög fljótlega að það þyrfti að breyta um stefnu. Innilokun í lokuðu fangelsi bætir ekki nokkurn mann. Að loka manneskju inni í lokuðu fangelsi allan afplánunartímann er slæm hugmynd og ekki líkleg til að betra einstaklinginn. Við fórum því markvisst í það að breyta fangelsiskerfinu þannig að nú er ákveðinn tröppugangur í kerfinu. Sá sem kemur inn til að afplána fer fyrst í lokað fangelsi og ef allt gengur vel fer hann þaðan í opið fangelsi. Ef allt gengur vel þar fer hann á áfangaheimili og lýkur afplánun heima hjá sér með ökklaband og er þá undir rafrænu eftirliti. Þetta hefur verið markviss vinna löggjafans, Fangelsismálastofnunar og Dómsmálaráðuneytisins síðustu árin. Það hafði sýnt sig að það var ekki góð aðferð að loka mann inni á Litla Hrauni og afhenda honum svo strætómiða í bæinn út í frelsið,“ segir Páll.
Fleiru vildi Páll breyta því illa fór um fangana í gömlum og lélegum húsakostum fangelsanna.
„Við vorum með ónýtan húsakost; bæði Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Kvennafangelsið á Kópavogsbraut. Það hafði staðið til í hálfa öld að byggja nýtt fangelsi í Reykjavík og það náðist á endanum að byggja sérhannað fangelsi á Hólmsheiði sem var svo tekið í notkun árið 2016. Skömmu áður lokuðum við á Skólavörðustíg, en þar hafði verið fangelsi síðan 1874,“ segir Páll og útskýrir að fangelsi landsins séu fimm; Litla-Hraun, Kvíabryggja, Hólmsheiði, Sogn og Akureyri.
Páll er hvergi nærri hættur að breyta og bæta kerfið því verkefnin er mörg.
„Við getum gert mun betur á margan hátt, sérstaklega hvað varðar fanga með fíknisjúkdóma og andlega sjúkdóma.“
Oft heyrast í þjóðfélaginu gagnrýnisraddir varðandi þá fanga sem fá að afplána utan fangelsa eða í opnum fangelsum. Páll hefur sterkar skoðanir á refsingum fanga.
„Þetta er sú aðferð sem reynst hefur best úti í hinum stóra heimi. Menn eru sviptir frelsi sínu í opnum fangelsum líka. En aðbúnaðurinn er ekki eins neikvæður og veldur ekki eins miklu tjóni á sálinni og lokuðu fangelsin gera. Við erum með þessu að búa einstaklinginn undir að fara aftur út í samfélagið. Meginmarkmið okkar hér er að draga úr líkum á því að þessir einstaklingar brjóti af sér aftur og þessi leið er æskileg til þess. En auðvitað byggir það allt á trausti; fanginn þarf að standa sig og sýna fram á að hann geti afplánað við frjálsar aðstæður,“ segir hann.
„Sumir fara aldrei í fangelsi heldur vinna bara í samfélagsþjónustu og geta áfram tekið þátt í lífinu,“ segir Páll og útskýrir að þeir fangar sem fái að taka út dóm sinn í samfélagsþjónustu þurfi að uppfylla ýmis skilyrði.
„Þetta er mjög góð þróun og kostar minna fyrir samfélagið.“
Ertu á móti hugmyndafræðinni sem ríkir í Bandaríkjunum þar sem fólk er oft dæmt harkalega, jafnvel í ævilangt fangelsi?
„Í vissum tilvikum þar sem menn eru mjög ofbeldishneigðir og veikir geta þeir talist hættulegir samfélaginu alltaf. En það er ákaflega sjaldgæft. Í sumum ríkjum Bandaríkjanna er dauðarefsing enn við lýði. Svo eru fangatölur þar svo ógnvekjandi að það tekur engu tali; þeir eru með fimmtán sinnum fleiri fanga á hverja hundrað þúsund íbúa en við. Þeir eru mjög refsiglaðir og ég held að við höfum ekkert þangað að sækja. Við getum horft til Norðurlanda og höfum gert það; og við erum með lága endurkomutíðni í samanburði við önnur lönd. Erlendir fjölmiðlar og fræðimenn hafa sýnt okkar kerfi áhuga á síðustu árum, meðal annars vegna tröppugangskerfisins og menningar opnu fangelsanna.“
Stundum heyrir maður fólk tala um að það sé lúxus að vera á Kvíabryggju; menn geti hangið í golfi og haft það gott. Hvað segir þú við því?
„Já, ég heyri svona tal og fæ stundum yfir mig hressilegar gusur þegar ég sit í heita pottinum. En það sem þetta snýst um er að svipta fólk frelsi sínu. Það er ekki okkar hlutverk að gera frelsissviptinguna verri en nauðsynlegt er og það er okkar verkefni að framkvæma hana þannig að einstaklingurinn geti átt von þegar hann kemur úr afplánun. Ég get sagt fyrir mína parta að ef ég væri lokaður inni í svítunni á Hótel Hilton í fimm ár, þá myndi mér ekki líða vel. Þeir sem eru á Kvíabryggju mega ekki fara þaðan og ef þeir gera það er litið á það sem strok úr afplánun, það er lýst eftir þeim og þeir svo sendir í einangrun á Litla-Hraun,“ segir Páll.
„Við myndum vilja fjölga opnu rýmunum á kostnað lokuðu rýmanna en til þess að það sé mögulegt þurfum við að bjóða upp á betri þjónustu vegna fíknisjúkdóma, sem eru mjög alvarlegt vandamál í fangelsum landsins.“
Talið víkur að einu stærsta vandamáli fangelsanna; eiturlyfjunum. „Ég áætla að um 70-90% fanga glími við eiturlyfjafíknina. Í opnu fangelsunum eru menn komnir lengra í bata, en í lokuðu fangelsunum eru 90% fanga í virkri fíkn. Við erum að glíma við harðari og harðari efni og það er alveg dagljóst að það þarf að skipta um aðferð í þeirri baráttu,“ segir Páll.
Nýtt eiturlyf, Spice, tröllríður nú fangelsunum, enda er afar erfitt að finna það á gestum eða í vörum sem koma inn í fangelsin.
„Við höfum oft verið gagnrýnd fyrir það að fíkniefni komist inn í fangelsi. Það er nú þannig að fangar eiga rétt á að fá heimsóknir frá ættingjum og vinum. Svo þarf að senda mat og vörur inn í fangelsin. Við erum með fíkniefnahund og mjög öflugt starfsfólk sem leitar á öllum og í þessu öllu saman, en þegar komið er efni sem er lyktarlaust, og þar sem eitt gramm verður að hundrað skömmtum, þá geturðu ímyndað þér hvað það er erfitt að koma í veg fyrir svona sendingar. Við vitum hvaða fangar eru að dreifa fíkniefnum innan fangelsanna en efnin koma hins vegar ekki inn með heimsóknargestum þeirra. Þvert á móti eru það heimsóknargestir lágtsettra fanga sem eru þvingaðir til að koma með efni inn í fangelsin.“
Ertu að segja að „háttsettir“ fangar láti gesti „lágtsettra“ fanga koma inn með efnin með hótunum?
„Já, þannig gengur þetta fyrir sig.“
Páll segir óhugnanlegt að horfa á fanga sem neytt hafi Spice. Þeir verði algjörlega út úr heiminum í um það bil fimmtán mínútur og að því loknu taki við skelfilegur niðurtúr. Svo slæmur að það eina sem komist að sé næsti skammtur. Að lokinni vímunni muni menn ekkert eftir henni né hvað þeir gerðu á meðan. Kemur fyrir að hópur fanga sé í vímu á sama tíma, sem gerir starf fangavarða afar erfitt og krefjandi.
Páll segir þau þurfa að gera betur með því að draga úr eftirspurninni.
„Við drögum úr framboðinu með því að leita og vera vakandi. En á meðan það er vilji, þá komast menn í fíkniefni. Því þurfum við að bjóða betri og meiri meðferð fyrir þá einstaklinga sem eru á þessari braut,“ segir hann og segir að í dag sé vissulega einhver meðferð í boði en betur má ef duga skal.
Vilja þeir meðferð?
„Sumir þeirra vilja það. Ef menn vinna í sínum málum og verða edrú komast þeir betur í gegnum afplánunina,“ segir Páll og segir þau þurfa stað til afeitrunar, auk fjölbreyttari meðferðarúrræða en til eru í dag.
„Það er ákveðin vakning í gangi núna og ég heyri að það er vilji til að gera eitthvað í þessum málum. Margt af þessu fólki er ágætis fólk þegar það er ekki í neyslu. Og sumir þeirra eru jafnvel aðallega dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir að fjármagna neyslu sína. Ef neyslan er sjúkdómur, þá veltir maður fyrir sér hvort við séum á réttri braut með þetta, að dæma þessa einstaklinga aftur og aftur í fangelsi fyrir að vera veikir. Það er umhugsunarefni.“
Páll segir Litla-Hraun afar óhentugt fangelsi að því leyti að þar sé enginn aðskilnaður á milli fanga. Því þyrfti að breyta því vissulega sé erfitt fyrir edrú fanga að halda sér edrú þegar allt flæði í efnum. Þannig gætu þeir sem væru að vinna í sínum málum verið á öðrum stað en þeir sem eru í bullandi neyslu.
„Þú heldur ekki AA-fund á pöbbnum.“
Fleiri fangar eru nú utan fangelsa í samfélagsþjónustu en þeir sem lokaðir eru inni. Um 150-200 manns eru í dag í fangelsum landsins, þar af eru 45 pláss í opnum fangelsum. Um tvö hundruð taka dóminn út í samfélagsþjónustu.
„Svo eru fimm hundruð manns á biðlista. Þetta er uppsafnaður vandi frá efnahagshruninu. Ef við værum ekki með biðlista myndum við vel anna dæmdum refsingum á Íslandi en við erum enn að vinna í listanum. Þegar verst lét var listinn 620 manns,“ segir Páll.
„Við forgangsröðum inn í fangelsin og því standa þeir oft eftir sem hafa framið minniháttar brot og eru þeir stærstur hluti þeirra sem bíða,“ segir hann.
Spurður hvort fangelsið á Hólmsheiði hafi ekki hjálpað til við að stytta biðlistanna svarar Páll: „Jú, það gerði það en það sem við sjáum ekki fyrir er hvernig refsingar eru hjá dómstólum. Refsingar milli þessa árs og síðasta hafa þyngst um 40%. Þegar það eru svona miklar sveiflur í refsingum er mjög erfitt að gera langtímaplön. Við erum líka að sjá nýjar tölur í fjölda þeirra sem eru í gæsluvarðhaldi en það hafa aldrei verið fleiri í gæsluvarðhaldi frá upphafi en núna, um þrjátíu manns. Þannig að fram undan eru álagstímar.“
Flestir fangar eru karlmenn en konur eru aðeins 7-10%. „Það er óskiljanlegt, en karlar virðast vera verri upp til hópa.“
Spurður um tölur fanga af erlendum uppruna segir Páll það vera breytilegt. „Þeir voru á tímabili einn af hverjum fjórum en eru nú 16-17% af föngum. Þeir eru oftast mjög þægilegir fangar þótt til séu undantekningar.“
Páll segist hafa allt aðra sýn á afbrotamönnum nú en í upphafi ferilsins.
„Þegar ég byrjaði sem ungur maður í lögreglunni hafði ég ekki upplifað margt. Ég var fljótur að átta mig á því að það voru tvö lið; við sem vorum að halda uppi lögum og reglu og svo þeir sem voru að fremja afbrotin. Mér fannst það algjörlega svart og hvítt. Með tíð og tíma og eftir því sem ég eldist og þroskast og læri meira um aðstæður og bakgrunn þessara einstaklinga sem lögreglan er að fást við hef ég áttað mig á því að þetta er ekki svart og hvítt. Margir þeirra sem við erum að dæma í fangelsi hafa átt hræðilega æsku; hafa búið við skelfilegar aðstæður sem ég og þú getum ekki ímyndað okkur. Þeir hafa skiljanlega farið snemma að finna sér hugbreytandi efni til að deyfa sig og lifa af raunveruleikann. Þessir einstaklingar hafa margir upplifað hræðilega framkomu í æsku; líkamlegar og andlegar refsingar. Maður byrjar að skilja betur af hverju þeir leiddust út á glæpabrautina. Það var aldrei neinn sem tók utan um þá þegar illa gekk í lífinu,“ segir Páll.
„Ég fór að finna til meiri samkenndar með þessum hópi og það er fullt af ágætum einstaklingum í fangelsi; vel gefnu og góðu fólki þegar það er ekki langt leitt af neyslu. Afstaða mín til þessa hóps hefur breyst töluvert mikið,“ segir hann.
„Svo bættist eftir efnahagshrunið við ný tegund afbrotamanna, sem áður höfðu ekki haft neina tengingu við fangelsiskerfið eða réttarkerfið yfir höfuð. Þessir einstaklingar voru ekki líkir þeim einstaklingum sem við vorum vön að þjónusta. Fangelsismál í dag hafa meiri tengingu út í allt samfélagið því það eru svo margir sem þekkja einhverja sem hafa verið í fangelsi. Allar stéttir samfélagsins eiga sína fulltrúa í fangelsunum.“
Páll hefur kynnst undirheimunum vel á þeim aldarfjórðungi sem hann hefur fengist við löggæslu. Ekki eru allir þar sáttir við forstjóra fangelsismála.
„Ég fer mjög varlega og fjölskylda mín einnig. Ég og aðrir starfsmenn hér verðum reglulega fyrir hótunum og áreitni úti í bæ en maður lagar sig að því og ég tek það ekki inn á mig. Það er kannski skondið þegar maður er farinn að flokka hótanirnar í frumlegar og ófrumlegar,“ segir Páll og brosir.
„Það var einn mjög frumlegur sem hringdi í mig um daginn. Hann náði óvart í gegn og kynnti sig og sagði svo: „Ef það er eitthvert réttlæti í heiminum færð þú krabbamein og deyrð“,“ segir Páll og bætir við að eitt sinn hafi maður verið kominn inn á gafl heima hjá honum.
„Á venjulegum degi er maður ekki að hugsa út í þetta en við förum varlega.“
Ertu hræddur við þessa menn?
„Nei. Ég er ekki hræddur við þessa menn en ég geri mér grein fyrir því að þeir geta verið óútreiknanlegir við vissar aðstæður og fer því varlega. Lögreglan er mjög öflug í þessu landi og sterk og hún sér um mig og mína þegar á þarf að halda,“ segir hann.
Að vonum eru teknar ákvarðanir hjá Fangelsismálastofnun sem ekki hugnast öllum; síst þeim sem dæmdir eru.
„Ég hef passað að umgangast það vald sem Fangelsismálastofnun hefur með auðmýkt. Ég passa upp á að reglur og verklag sem við vinnum eftir séu skýrar þannig að sem minnst svigrúm sé fyrir geðþóttaákvarðanir. Vissulega ber ég sem forstjóri ábyrgð á öllu sem gert er hérna en ég er búinn að ganga þannig um hnútana að enginn einn getur tekið veigamiklar ákvarðanir. Allar ákvarðanir eru teknar á fundum og færðar til bókar. Ég get ekki einn ákveðið neitt; það er teymisvinna í gangi. Ég er búinn að tempra völd einstaklinga hérna innan stofnunarinnar og hef þar með dregið úr líkum á spillingu og klíkuskap,“ segir hann.
„Það eru ekki mörg ár síðan ýmsir stjórnmálamenn og áberandi fólk í samfélaginu hringdi í mig og vildi fá greiða. En það er alveg búið.“
Nú hefur þú þroskast í starfi með árunum og séð ýmislegt. Er til vont fólk?
„Já. Það er til vont fólk. Það hefur fólk farið hér í gegnum kerfið sem ég hef trú á að verði brotamenn alla tíð. En það eru algjörar undantekningar. Ég hef trú á að flestir geti betrast, og fái þeir hlýju og væntumþykju og finni að öllum sé ekki sama um þá, þá geti þeir komist á fætur. Það er virkilega skemmtilegt að rekast á einstaklinga sem voru lengi inni í fangelsi og ítrekað, sem eru svo allt í einu bara í röðinni með þér á Serrano; eru að koma úr vinnunni og í fínum gír.“
Heilsa þeir þér?
„Já, já! Ég fæ líka bréf annað slagið frá gömlum skjólstæðingum sem segja mér að þeir séu á lífi og allt gangi vel og það er skemmtilegt.“
Hvernig er týpískur dagur fangelsismálastjóra?
„Það er allt í fínu lagi í fangelsiskerfinu þegar ég hef ekkert að gera,“ segir Páll og hlær.
„Ég fylgist auðvitað vel með öllu og fer yfir dagbækurnar og skoða hvað hefur gerst síðasta sólarhring í öllum fangelsunum. Síðan er mjög misjafnt hvað ég geri. Það fer talsverður tími í að svara fyrirspurnum fjölmiðla og svo er ég mikið á fundum í ráðuneytum vegna ýmissa stýrihópa eða nefndavinnu. Svo held ég starfsmannafundi mánaðarlega í stóru fangelsunum og þvælist á milli fangelsa og fylgist með,“ segir Páll og nefnir að í heildina vinni undir Fangelsismálastofnun 140 manns, þar af nítján á skrifstofunni.
Hvað er það erfiðasta við starfið þitt?
„Það er að setja skýr skil og taka ekki vinnuna með mér heim. Þessi heimur getur verið grimmur og oft verið að fjalla um ljót mál og ég á það stundum til að taka það með heim. Það vill svo vel til að ég á maka sem er brosmildur og glaður. Það getur verið mikið myrkur í þessari vinnu og oft erfitt að kúpla sig út. Ég hefði ekki þraukað svona lengi ef ég væri ekki með svona samheldið og öflugt samstarfsfólk.“
Páll er í sambúð með fréttastjóranum Mörtu Maríu Jónasdóttur og eiga þau samtals fjögur börn á aldrinum tíu til sautján.
„Við tókum stóra skrefið og fluttum saman í mars eftir að hafa verið saman í fjögur ár. Það gengur mjög vel og hún er búin að laga sig að því að búa með manni sem fer varlega. Og ég er búinn að laga mig að því að búa með konu sem hefur gaman af lífinu,“ segir hann og brosir breitt.
Eruð þið yin og yang?
„Alveg hreint! Það er ótrúlegt hvernig svona ólíkir aðilar geta laðast að hvor öðrum. Við erum eins ólík og mögulegt er en það gengur prýðilega. Ég segi henni frá ljótu málunum og hún segir mér frá samkvæmismálunum og þannig verður hið fullkomna samtal,“ segir Páll og hlær.
![]() |
||
„Ég segi henni frá ljótu málunum og hún segir mér frá samkvæmismálunum og þannig verður hið fullkomna samtal,“ segir Páll, sem sést hér með sambýliskonu sinni, fréttastjóranum Mörtu Maríu. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
|
![]() |
330.000 gestir á Menningar-Stað
Rétt í þessu gerðist það að gestur nr. 330.000 heimsótti vefinn Menningar-Staður.
Þökkum mikla tryggð og ræktarsemi.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Fólk safnaðist saman við Stjórnarráðið þann 1. desember 1918. |
101 ÁR FRÁ FULLVELDINU
Þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki.
Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.
Þrátt fyrir að áralangri baráttu hafi verið lokið með fullveldi landsins var lítið um hátíðahöld þegar haldið var upp á fullveldisdaginn í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spánska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is