Uppbyggingarsjóður Suðurlands
Skráð af Menningar-Bakki.
Aðalsafnaðarfundur
Selfosssóknar
2. mars 2020
Skráð af Menningar-Bakki
Samfylkingarfundur
á Hótel Selfossi
3. mars 2020
Skráð ag Menningar-Bakki
![]() |
Stóra-Núpskirkja þann 23. febrúar 2020. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Brynjúlfsmessa var sl. sunnudag, 23. febrúar 2020, í Stóra-Núpskirkju í Hrunaprestakalli. Þar var minnst skáldsins, heimspekingsins og fræðimannsins Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi sem fæddur var 26. september 1838 og dáinn 16. maí 1914 á Eyrarbakka og hvílir í kirkjugarðinum þar.
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur, minntist Brynjúlfs Jónssonar í stólræðu sinni að vönduðum og innihaldsríkum hætti.
Þorbjörg Jóhannsdóttir, organisti, stjórnaði sameinuðum kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkna.
Sóknarnefndin bauð gestum í veglegt messukaffi á eftir í Félagsheimilinu Árnesi. Þar söng kórinn nokkur lög sem hæfðu vel tilefninu.
Tveir meðlima í Kirkjuráði Hrútavinafélaginu Örvari á Suðurlandi, Hannes Sigurðsson að Hrauni í Ölfusi og Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, voru í Stóra-Núpskirkju og Árnesi. Kirkjuráðið hefur það hlutverk að heimsækja allar kirkjur á Suðurlandi og er það verk nær því hálfnað. Færðu þeir Stóra-Núps kirkjufólkinu kærar kveðjur og þakkir í ávarpi í lok samkomuhalds dagsins í Árnesi.
![]() |
||||||
. .
|
![]() |
Sveinn Björnsson (1881 - 1952). |
Sveinn fæddist í Kaupmannahöfn 27. febrúar 1881 en ólst upp í Ísafoldarhúsinu við Austurstræti sem nú er í Aðalstræti. Þar starfrækti faðir hans Ísafoldarprentsmiðju og ritstýrði Ísafold og þar var Morgunblaðið fyrst til húsa, en Ólafur, bróðir Sveins, var ásamt Vilhjálmi Finsen, stofnandi þess árið 1913.
Sveinn var sonur Björns Jónssonar, ritstjóra, alþm. og ráðherra, og k.h., Elísabetar G. Sveinsdóttur húsfreyju, systur Hallgríms biskups, og Sigríðar, móður Haraldar Níelssonar guðfræðiprófessors, afa Haraldar Sveinssonar, framkvæmdastjóra Árvakurs.
Eiginkona Sveins var af dönskum ættum, Georgia Björnsson, f. Hansen, og eignuðust þau sex börn.
Sveinn lauk stúdentsprófi aldamótaárið 1900 og hélt síðan til Kaupmannahafnar til að stunda laganám. Því lauk hann vorið 1907 og varð sama ár yfirréttarmálaflutningsmaður og 1920 varð hann hæstaréttarlögmaður. Á árunum 1907-20 rak Sveinn málflutningsskrifstofu í Reykjavík. Hann var settur málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1919. Þá var hann alþm. fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri 1914-15 og síðan fyrir Heimastjórnarflokkinn 1919-20, og gegndi starfi sendiherra Íslands í Danmörku 1920-24 og 1926-41.
Árið 1941 var Sveinn kjörinn af Alþingi ríkisstjóri Íslands og hinn 17. júní 1944 var hann kjörinn af Alþingi fyrsti forseti Íslands á Lögbergi á Þingvöllum. Hann var tvisvar endurkjörinn án atkvæðagreiðslu. Sveinn hafði m.a. umtalsverð áhrif sem forseti á mótun varnarmála og nýrrar utanríkisstefnu hér á landi með samskiptum sínum við Bandaríkjaforseta.
Sveinn er eini forsetinn sem skipað hefur utanþingsstjórn en það gerði hann sem ríkisstjóri, árið 1942, í óþökk ýmissa alþingismanna, ekki síst sjálfstæðismanna. Sveinn skráði endurminningar sem gefnar voru út 1957. Þá skrifaði Gylfi Gröndal bókina Sveinn Björnsson – ævisaga.
Sveinn Björnsson lést 25. janúar 1952.
![]() |
Bessastaðir. Ljósm.: Mats Wibe Lund.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Aðalsafnaðarfundur
Eyrarbakkasóknar
3. mars 2020
Skráð af Menningar-Bakki |
![]() |
Stóra-Núpskirkja. |
Brynjúlfsmessa í Stóra-Núpskirkju
Sunnudaginn 23. febrúar 2020 kl. 14 verður messa í Stóra-Núpskirkju, svokölluð Brynjúlfsmessa, en þar verður fræðimannsins og skáldsins Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi minnst í tali og tónum.
Kirkjukórinn leiðir sönginn undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.
Kaffisamsæti á eftir í Árnesi.
Allir hjartanlega velkomnir
Stóra-Núpskirkja
Stóra-Núpskirkja er í Hrunaprestakalli í Suðursprófastsdæmi. Um 1770 lét Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson reisa á Stóra-Núpi útbrotakirkju, sem var byggð úr grjóti, torfi og timbri, sem fékkst úr herskipinu Göthemborg eftir að það strandaði á Hafnarskeiði við Ölfusárósa árið 1718. Ámundi snikkari Jónsson var fenginn til verksins. Auk þess að byggja kirkjuna, skreytti hann hana með útskurði, t.d. gerði hann predikunarstól, sem nú er í vörzlu Þjóðminjasafns Íslands, ásamt líkani af þessari kirkju, sem var gert eftir lýsingum Brynjúlfs Jónssonar, fræðimanns frá Minna-Núpi. Útbrotakirkjan stóð til ársins 1876 eða í 106 ár, þegar hún var rifin og ný kirkja byggð, að hluta til úr timbri hinnar gömlu.
Í Suðurlandsskjálftanum 1896 stóð kirkjan eitt húsa á Stóra-Núpi, svo að presturinn varð að flytja með fjölskyldu sinni í kirkjuna. Þá bjó sera Valdimar Briem á Stóra-Núpi. Þessi kirkja stóð til 29. desember 1908 eða í 32 ár, þegar hún fauk og brotnaði í spón. Í þessa kirkju kom snemma hljóðfæri og hefur æ síðan verið í henni. Kirkjan, sem nú stendur, var reist 1909 eftir teikningum Dýrfirðingsins Rögnvaldar Ólafssonar. Gestur Einarsson á Hæli var umsjónarmaður með byggingu kirkjunnar og réði Bjarna Jónsson frá Galtafelli sem yfirsmið og Ásgrím Jónsson til að mála altaristöflu.
Ásgrímur valdi einnig liti í kirkjuna. Stefán Eiríksson skar út ýmsa gripi hennar. Tæpu ári eftir að kirkjan fauk, eða hinn 31. oktober 1909, var nýja kirkjan vígð. Altaristaflan kom ekki fyrr en 1912. Tvær eldri töflu eru geymdar í kirkjunni, önnur er úr Steinsholtskirkju, sem séra Daði Halldórsson þjónaði. Á henni er mynd af fiskimönnum á vatninu, en hin er af síðustu kvöldmáltíðinni. Sigríður Jónsdóttir, ekkja séra Jóns Vídalíns biskups, gaf hana.
Á henni má sjá ártalið 1728 og fangamörk þeirra hjóna. Hún var í kirkjunni, sem fauk og skemmdist mikið. Einar Jónsson, myndhöggvari var fenginn til að koma henni saman að nýju.
Predikunarstóll, sem var í þessari kirkju og brotnaði, þegar hún fauk, var endursmíðaður og er nú í Villingaholtskirkju. Einnig er hljóðfærið, sem var í kirkjunni til í einkaeign. Á árunum 1966-68 voru gerðar miklar endurbætur á kirkjunni, skipt um járn, glugga og hún einangruð.
Árið 1988 var reistur minnisvarði um sálmaskáldið, séra Valdimar Briem, á Stóra-Núpi eftir Helga Gíslason, myndhöggvara. Hann var afhjúpaður 4. september 1988. En sr. Valdimar Briem, f. 1. febrúar 1848. Var hann settur til að þjóna á Stóra-Núpi 29. júlí 1880. Þjónaði sr. Valdimar þar til 11. mars 1918 eða 38 ár. Af mörgum merkilegum mönnum sem hafa búið í Gnúpverjahreppi þá er sr. Valdimar án efa þeirra merkilegastur. Þekktastur er hann fyrir sálma sína. Án sálma sr. Valdimars væri sálmabókin okkar eins og hún er í dag ónothæf. En ef hún hefði aðeins sálma sr. Valdimars væri hún all góð til nota við helgihaldið.
Nýtt pípuorgel var tekið í notkun 11. nóvember 1990 í tilefni þess, að 80 ár voru liðin frá byggingu kirkjunnar. Orgelið smíðaði Björgvin Tómasson.
Það orgel var selt árið 2012 sökum þess að það var of stórt í kirkjuna og nýtt orgel var vígt þann 24.11. 2013. Björgvin Tómasson á Stokkseyri smíðaði það einnig.
Árið 2015 var sökkull kirkjunnar spengdur þar sem hann var mikið sprunginn ( á þrettán stöðum) að öllum líkindum eftir jarðskjálfta árið 2000 og árið 2017 var farið í miklar endurbætur á kirkjunni. Allt tréverk var lagfært þar sem það var njög sprungið ásamt því að skipt var um gólf og það eingangrað betur, kirkjan heilmáluð að innan og rafmagn lagt allt nýtt, hitaveitulögn endurnýjuð ásamt þvi að leggja nýtt bruna og þjófavarnarkerfi í kirkjuna.
Sameiginlegur kór kirknanna í sveitarfélaginu þ.e. Stóra-Núps og Ólfsvallasókna söng inn á hljómdisk í apríl 2015 helstu sálmaperlur sálmaskáldsins og prestsins Valdimars Briem sem þjónaði mestan hluta ævi sinnar á Stóra-Núpi og var hann gefinn út fyrir jólin það ár. "Syng þínum Drottni," heitir hann.
Sóknarprestur:
séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, Hruna,
Organisti: Þorbjörg Jóhannsdóttir, Stóra-Núpi,
Meðhjálpari: Margrét Steinsþórsdóttir, Háholti,
Sóknarnefnd Stóra-Núpskirkju:
Kristjana Heyden Gestsdóttir, Hraunteigi, formaður,
Ámundi Kristjánsson, Minna-Núpi, gjaldkeri,
Árdís Jónsdóttir Eystra-Geldingaholti, ritari,
Hringjari Stóra-Núpskirkju: Oddur Guðni Bjarnason
Skráð af Menningar-Bakki.
|
||||
23. febrúar 2020 -
“konudagur”- góa byrjar
Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.
Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.
Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.
Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.
Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.
Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.
Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.
Góa kemur með gæðin sín
gefst þá nógur hitinn.
Fáir sakna þorri þín
þú hefur verið skitinn.
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Núpur í Dýrafirði á þorra. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
22. febrúar 2020 -
“þorraþræll” - síðasti dagur þorra
Mánuðurinn þorri hófst föstudaginn 24. janúar s.l. og er sá dagur kallaður “bóndadagur” og þá var miður vetur.
Í Orkneyingasögu og Flateyjarbók segir af Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Fornjótur átti þrjá syni, Ægi, Loga og Kára. Kári var faðir Frosta (Jökull) er var faðir Snæs hins gamla. Hans sonur hét “Þorri” og dæturnar Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti tvo syni og hét annar Nór en hinn Gór og dóttir hans hét “Góa.”
Þorri var blótmaður mikill og hafði blót á miðjum vetri er kölluð voru “Þorrablót.” Síðasti dagur þorra er kallaður “þorraþræll” og er á sumun stöðum tileinkaður piparsveinum, mönnum í óvígðri sambúð, fráskildum mönnum, ellegar þeim sem átt höfðu barn í lausaleik eða tekið framhjá konu sinni.
Þorrablót eru haldin af miklum krafti um allt land og borðaður svokallaður “þorramatur” og frá slíkum samkomum er þessi bæn.
“Guð gefi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.”
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
![]() |
Frá þorrablóti á Stokkseyri fyrir rúum áratug. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
![]() |
.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
(1940 - 2020) |
Hallgrímur Sveinsson - Fæddur 28. júní 1940 -
Dáinn 16. febrúar 2020 - Minning
Hallgrímur Sveinsson fæddist í Reykjavík 28. júní 1940.
Hann lést á heimili sínu á Þingeyri 16. febrúar 2020.
Foreldrar hans voru Hanna Kristín Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 25. september 1911 á Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal Borgarfirði, d. 1997, og Sveinn Jónsson húsasmiður, f. 24. apríl 1885, frá Sauðtúni í Fljótshlíð, d. 1957. Hallgrímur átti fjögur systkini, Stellu Ragnheiði, f. 27. desember 1935, Jón, f. 20. febrúar 1937, Rósu Björgu, f. 3. apríl 1943, og Pálma, f. 19. ágúst 1947. Jón og Rósa Björg eru látin.
Hallgrímur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Guðrúnu Steinþórsdóttur 28. júní 1964. Guðrún fæddist á Brekku í Dýrafirði 1. mars 1938. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Stefánsdóttir, f. 27. október 1911 á Ísafirði, d. 1985, og Steinþór Árnason, f. 22. ágúst 1902 í Reykjavík, d. 1941. Guðrún var með fjárbúskap á Brekku í mörg ár. Hallgrímur og Guðrún voru barnlaus.
Hallgrímur lauk kennaraprófi vorið 1961 og kenndi fyrst við heimavistarskólann á Jaðri við Reykjavík. Hann var kennari í Auðkúluhreppi og síðan í barna- og unglingaskólanum á Þingeyri og skólastjóri þar um árabil. Hallgrímur og Guðrún voru bændur og staðarhaldarar á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, í rúm 40 ár frá 1964 til 2005, og sáu um vörslu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar.
Hallgrímur var virkur í félagsstörfum og sat hann meðal annars í hreppsnefnd Auðkúluhrepps og var oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður, sat í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga og sóknarnefnd.
Hallgrímur gaf út hundruð bóka í nafni Vestfirska forlagsins sem hann stofnaði árið 1994. Bækurnar voru langflestar helgaðar vestfirsku efni og stuðluðu að varðveislu mikilvægra heimilda. Hallgrímur var afkastamikill í ritstörfum og skrifaði fjöldann allan af greinum, ýmist einn eða með öðrum.
Útför Hallgríms verður gerð frá Þingeyrarkirkju í dag, laugardaginn 22. febrúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 14.
_______________________________________________________________________________
Minningarorð Guðrúnar Steinþórsdóttur
Okkar elskulegi Hallgrímur er fallinn frá, ekki hefði mig grunað að þetta hefði verið okkar síðasta samtal þegar þú hringdir í mig til Noregs síðastliðinn laugardag og sagðir jæja ertu nokkuð á skíðum núna, en laugardaginn áður hringdir þú og þá var ég að tala við þig í skíðabrekkunni.
Höggið er alltaf jafn mikið við óvæntan missi og aldrei er maður viðbúinn þegar ástvinir hverfa yfir móðuna miklu.
Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg. Minningarnar eru svo margar og eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð, öll góðu samtölin, bíltúrarnir, pistlarnir þínir, vorin í sauðburðinum, æðarvarpið, smalamennskurnar, Forlagið og svo margt, margt annað og svo hafðir þú ótrúlega skemmtilega frásagnargáfu og var oft glatt á hjalla í stofunni á Brekku.
Í 15 ár var ég með ykkur Gullu í sauðburðinum á Brekku, eða fram að búskaparlokum ykkar, og hugsa ég oft til þess tíma er við deildum bæði gleði og sorg.
Ég minnist þess eitt vorið þegar sauðburður var tekinn að róast er við vorum í varpinu, þú, Gulla, ég og Dagbjartur, spegilsléttur sjór og sól og borðuðum við kvöldverðinn í fjöruborðinu, „Þorpari og kók úr sjoppunni“, fuglasöngurinn allt í kring og við höfðum á orði: „Hvað er hægt að hafa það betra?“ Algjörlega ógleymanleg minning.
Við eigum í framtíðinni án efa eftir að sakna þess að sjá ekki andlit þitt í glugganum á skrifstofu Vestfirska forlagsins á Brekku þegar rennt verður í hlað. Eða að sjá kappakstursbílinn eins og Hemmi Gunn vinur þinn kallaði bílinn þinn renna í hlað á hólnum við skógarhúsið og sjá þig koma röltandi með ömmu stafinn.
Eins á ég eftir að sakna símtalanna að heiman sem hófust venjulega á „jæja, þá er það smá skýrsla“ og þá fengum við fréttir af ykkur, bæjarlífinu, sveitinni, sundlauginni og gangagerðinni og svo spurðir þú alltaf hvað hefði verið til borðsins hjá okkur og hvernig Bjarni okkar hefði það.
Við Dagbjartur eigum eftir að sakna góðs vinar sem alltaf var ráðagóður og góður að leita til ef þörf var á.
Ég kveð þig elsku Hallgrímur með trega, mér fannst við eiga svo mikið órætt, því þú varst alveg ótæmandi fróðleikur fyrir okkur hin og það var eiginlega alveg sama hvað maður spurði þig um, þú hafðir alltaf svör. Það var sama hvort það voru ártöl, örnefni, samferðamenn, sagan, þú hafðir alveg ótrúlegt minni. Reyndar sagðir þú stundum „það er bara að fletta þessu upp í Mannlífi og sögu Guðrún mín“, þetta er allt þar. Við Vestfirðingar og fleiri eigum þér mikið að þakka fyrir að hafa sett allan þennan fróðleik forfeðranna og samferðamanna í bókaform og átt þú miklar þakkir skilið.
Við Dagbjartur þökkum fyrir allar góðar samverustundir og megi minningin um góðan dreng lifa í hugum okkar.
Far í friði og guð veri með þér.
Elsku Gulla mín, ég bið góðan guð að styrkja þig og vaka yfir þér.
þegar húmar og hallar degi
heimur hverfur og eilífðin rís
sjáumst aftur á sólfögrum degi
þar sem sælan er ástvinum vís.
(GH)
Guðrún Steinþórsdóttir.
Morgunblaðið, laugardagurinn 22. febrúar 2020.
![]() |
Hér eru þau við húsið að Brekku í Dýrafirði. Myndin er tekin 17. júní 2014 á afmælisdegi Jóns Sigurðsson, forseta. Enginn hefur ræktað betur minningu Jóns Sigurðssonar en Hallgrímur Sveinsson.
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is