![]() |
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands árið 2020. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði nýsköpunar og menningar á Suðurlandi.
Styrkveitingar skiptast í tvo flokka, annars vegar atvinnu og nýsköpun og hins vegar menningu. Í flokki atvinnu og nýsköpunar eru það atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileyka atvinnulífs. Í flokki menningar er markmiðið að verkefni efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands byggir á Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024 sem tók gildi um síðustu áramót. Umsækjendum er því bent á að kynna sér markmið og nýjar áherslur sjóðsins sem má finna hér. Mikilvægt er að kynna sér þetta ásamt úthlutunarreglum og matsþáttum sjóðsins.
Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt. Umsækjandi þarf að skrá sig inn á umsóknarformið með íslykli eða með rafrænum skilríkjum. Ef sótt er um í nafni lögaðila s.s. fyrirtækis, stofnunnar eða félagasamtaka þarf viðkomandi lögaðili að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum þess lögaðila en ekki einkaaðgangi verkefnastjóra. Ef umsóknin uppfyllir ekki þessi skilyrði, má búast við að hún verði ekki tekin til yfirferðar. Bendum við á að allir lögaðilar geta með einföldum hætti sótt um íslykil og rafræn skilríki.
Umsækjendur eru hvattir til að hafa samband við ráðgjafa á vegum SASS og fá aðstoð og leiðbeiningar við gerð umsókna. Hægt er að fá upplýsingar um ráðgjöfina á vefsíðu SASS, einnig má hafa samband í síma 480 8200 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið styrkir@sudurland.is.
Umsóknir skulu berast fyrir kl. 16.00 þann 3.mars 2020
Skráð af Menningar-Bakki
|
||
Hallgrímur Sveinsson. |
Hallgrímur Sveinsson, bókaútgefandi og fv. skólastjóri á Þingeyri og staðarhaldari á Hrafnseyri, varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 16. febrúar 2020. Hann var á áttugasta aldursári.
Hallgrímur var fæddur í Reykjavík 28. júní 1940. Foreldrar hans voru Sveinn Jónsson húsasmiður og Hanna Kristín Guðlaugsdóttir húsfreyja.
Hallgrímur lauk kennaraprófi vorið 1961 og kenndi fyrst við heimavistarskólann á Jaðri við Reykjavík og var síðan forstöðumaður vistheimilisins í Breiðuvík í tvö ár. Hann var kennari í Auðkúluhreppi og síðan í barna- og unglingaskólanum á Þingeyri og skólastjóri þar um árabil. Þau hjónin voru bændur og staðarhaldarar á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, í rúm 40 ár og sáu um vörslu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar.
Hallgrímur gaf út fjölda bóka í nafni Vestfirska forlagsins, ekki síst með sögum og fróðleik af Vestfjörðum. Hans eigin höfundarverk voru þar á meðal. Bókatitlarnir voru orðnir a.m.k. 300 á rúmum 25 árum. Vann Hallgrímur að þessu verkefni og áhugamáli til dánardags. Hann ritaði einnig greinar í blöð, m.a. Morgunblaðið, og á Þingeyrarvefinn, síðustu árin gjarnan í samvinnu við félaga sína í „Þingeyrarakademíunni.“
Hallgrímur kenndi handknattleik í Reykjavík og var virkur í félagsmálum fyrir vestan. Sat meðal annars í hreppsnefnd Auðkúluhrepps og var oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður, sat í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga og sóknarnefnd.
Eftirlifandi eiginkona Hallgríms er Guðrún Steinþórsdóttir frá Brekku í Dýrafirði. Hún var með sauðfjárbúskap á Brekku í mörg ár og titlaði Hallgrímur sig þá „léttadreng“ á Brekku.
![]() |
Hallgrímur Sveinsson.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Þeir sem sjá sér fært að aðstoða Hlöðver og fjölskyldu geta lagt inn á reikning: 0123-15-100291 og kennitala: 131273-5419.
|
Hlöðver Þorsteinsson fékk blóðtappa í vinstra heilahvel á síðasta ári og fram undan var erfiður bati. Gyða, systir Hlöðvers, segir það kraftaverki líkast hversu fljótt hann náði sér en þá dundi annað áfall yfir fjölskylduna. Hlöðver datt niður úr stiga beint ofan á klaka og liggur nú illa haldinn á hjarta- og lungnadeild.
Hlöðver Þorsteinsson var staddur með fjölskyldunni á heimili sínu á Eyrarbakka þann 30. mars á síðasta ári. Eins og svo oft áður fór Hlöðver út í dúfnakofa sem er í eigu fjölskyldunnar. Á meðan Hlöðver sinnti þar verkefnum talaði hann í símann á meðan.
Eftir að hafa lokið verkum sínum í dúfnakofanum gekk Hlöðver aftur inn á heimilið, lagði frá sér símann og hrundi í gólfið fyrir framan sjö ára gamla dóttur sína, Heklu Ósk.
Hekla Ósk áttaði sig strax á að eitthvað verulega alvarlegt amaði að föður sínum. Hlöðver reyndi að rísa á fætur og tjá sig en hann gat ekki mælt orð af vörum. Hekla litla hrópaði þá á móður sína, Þóru Ósk Guðjónsdóttur, eiginkonu Hlöðvers, sem hringdi á sjúkrabíl.
„Hann var fluttur á ljósunum til Reykjavíkur og þá fáum við símtalið og ég fer strax í bæinn,“ segir Gyða Steina Þorsteinsdóttir, systir Hlöðvers í viðtali við Fréttablaðið um upphafið að miklum erfiðleikum sem fjölskyldan hefur gengið í gegnum undanfarið ár.
Þóra, eiginkona Hlöðvers, er með lömunarsjúkdóm. Á hún erfitt með að koma sér á milli staða. Hún þarf að nota göngugrind til að komast á milli staða og því var ljóst að verkefni fjölskyldunnar var í þann mund að verða nánast óyfirstíganlegt.
„Ég kom upp á bráðamóttöku og þar lá hann mjög órólegur og hræddur. Hann gat ekkert talað og ekki hreyft hægri hliðina. Þau settu hann á blóðþynningu, svæfðu hann og í allskonar myndatökur og rannsóknir. Í kjölfarið var hann svo sendur upp á gjörgæslu og var haldið sofandi í þrjá sólarhringa,“ segir Gyða.
Í ljós kom stór blóðtappi í vinstra heilahveli sem hafði áhrif á hægri hlið Hlöðvers og málstöðvar hans.
„Þegar hann rankaði við sér þá mundi hann voðalega lítið. Hann þekkti okkur nánustu en mundi ekki eftir því að hann væri giftur, ætti þrjú börn né hvar hann átti heima. Hann gat ekki sagt nein orð og gerði ekki greinarmun á „já“ og „nei“ til dæmis,“ segir hún.
Gyða segir framfarir Hlöðvers hafa verið kraftaverki líkastar en hann fékk fullan mátt í hægri fótinn og gat fljótlega hreyft hægri höndina.
„Hann gat samt ekki alveg stjórnað henni og hefur ekki neina tilfinningu í fingrunum enn þann dag í dag. Hann missti einnig allt ritað mál og í ljós kom gat á milli hjartagátta þar sem tappinn hefur líklega farið í gegnum en það er ekki vitað hvaðan hann kom,“ segir Gyða.
Eftir viku dvöl á sjúkrahúsi undir ströngu eftirliti fékk Hlöðver innlögn á Grensás þar sem hann var í stífri þjálfun í nokkra mánuði. Þaðan útskrifaðist hann í október á síðasta ári en hélt þó áfram í talþjálfun fram að áramótum.
Í byrjun þessa árs gáfu leiðslurnar í húsi fjölskyldunnar sig og fóru að leka. Fjölskyldan neyddist því til þess að skipta um allar lagnir og gólfefni. Hefur það tekið mikið á enda báðir foreldrarnir við slæma heilsu.
„Kom í ljós að hann var með brotið rifbein, marið lunga, kúlur og rispur á höfði og mikinn heilahristing“
Það var svo í byrjun febrúarmánaðar sem Hlöðver ákvað að fara út og taka niður jólaseríuna á húsi fjölskyldunnar. Hann fór upp í stiga sem lá við húsið en þegar upp var komið féll hann niður á jörðina, beint ofan á klaka. Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi Hlöðver lá meðvitundarlaus utandyra en talið er að það hafi verið í um tvær til þrjár klukkustundir. Þegar komið var að honum sat hann inni í forstofu heimilisins í kuldagallanum, illa áttaður, rennandi blautur og hríðskjálfandi.
„Það var hringt í sjúkrabíl sem fór með hann inn í Reykjavík og þegar við komum til hans var hann mjög þreyttur, illa áttaður, mikið verkjaður og dormaði. Hann var sendur í allskonar sneiðmyndatökur og röntgen af höfði og á líkama. Þá kom í ljós að hann var með brotið rifbein, marið lunga, kúlur og rispur á höfði og mikinn heilahristing. Þá komu einnig í ljós blettablæðingar í heila sem ekki er hægt að segja til um hvort hafi komið við fallið eða fyrir það. Hann var allur blár og marinn og var honum haldið á gjörgæslunni í rúman sólarhring en þá var hann fluttur á hjarta- og lungnadeild þar sem hann verður eitthvað áfram. Batinn hefur ekki gengið nógu vel og er hann nú kominn með þvagfærasýkingu og mikinn hita. Nú í vikunni koma sérfræðingar af Grensás til þess að meta hann og taka ákvörðun um framhaldið,“ segir Gyða og viðurkennir að þetta hafi verið gríðarlegt áfall fyrir alla fjölskylduna.
Fjölskyldan tók sameiginlega ákvörðun um að opna fyrir frjáls framlög inn á reikning Hlöðvers í þeirri von um að þeir sem sjái sér fært geti aðstoðað fjölskylduna svo þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjármunum ofan á allt annað.
„Þetta er alveg gríðarlegt áfall og allir eru boðnir og búnir til þess að aðstoða en maður veit ekki alveg hvað maður getur gert. Við tókum því ákvörðun um að opna fyrir frjáls framlög en einnig hafa foreldrar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri tekið sig saman og ætla að halda kökubasar á laugardaginn næst komandi 15. febrúar. Þar sem fjölskyldan býr á Eyrarbakka er mikill ferðakostnaður fram undan og hefur hann í rauninni verið mikill undanfarið ár. Þau eiga þrjú yndisleg börn sem eru átta ára, tíu ára og sautján ára á þessu ári, þau hafa staðið sig eins og hetjur í þessu öllu saman. Við erum virkilega þakklát öllum fyrir veittan stuðning, knús og kveðjur sem við höfum fengið og við vitum að það eru fullt af englum sem fylgjast vel með okkur,“ segir Gyða að lokum.
![]() |
Þeir sem sjá sér fært að aðstoða Hlöðver og fjölskyldu geta lagt inn á reikning:
0123-15-100291 og kennitala: 131273-5419.
Fréttablaðið.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
BIBarinn grúskar í myndasafninu
BIBarinn grúskar í myndasafnini sem telur í tugþúsundum.
Eyrarbakkafundur að Stað um skólamál þann 14. febrúar 2011.
![]() |
||
. .
|
![]() |
Torfi Halldórsson (1823 - 1906). |
Torfi Halldórsson sem oft er nefndur faðir Flateyrar fæddist í Arnarnesi við Dýrafjörð þann 14. febrúar 1823 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Halldór Torfason, bóndi í Arnarnesi, og k.h., Svanfríður Jónsdóttir húsfreyja. Torfi, afi Torfa var sonur Mála-Snæbjarnar.
Eiginkona Torfa var María Júlíana Össurardóttir úr Súgandafirði. Meðal barna þeirra voru Guðrún, húsfreyja í Hólmum, móðir Maríu Jóhannsdóttur, móður Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns. Sonur Torfa og Maríu var Ásgeir, faðir Haraldar sem var forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, Ragnars læknis og Önundar, fyrrv. forstjóra OLÍS, föður Ragnars, viðskiptafræðings og fyrrv. bankastjóra.
Torfi fór ungur til sjós og var orðinn skipstjóri á þilskipinu Boga og meðeigandi Magnúsar Einarssonar á Hvilft fyrir þrítugt. Hann sigldi til Danmerkur árið 1851 og nam skipstjórnarfræði í Flensborg. Vorið eftir sigldi hann heim á eigin skútu, Lovísu, og settist að á Ísafirði.
Ört vaxandi þilskipaútgerð upp úr miðri 19. öldinni, gat nú sótt mun dýpra en íslenskir sjómenn höfðu gert á opnum bátum um aldaraðir. Menntaðir skipstjórnarmenn urðu því bráðnauðsynlegir við þessar nýju aðstæður.
Að undirlagi annars ungs skipstjóra og athafnamanns, Ásgeirs Ásgeirssonar, og ýmissa þilskipaeigenda, var Torfi fenginn til að veita forstöðu sjómannaskóla haustið 1852. Skólinn var starfræktur á Ísafirði 1852-57 var fyrsti sjómannaskólinn á landinu og fyrsti starfsskóli landsins.
Torfi flutti til Flateyrar 1857, festi kaup á Flateyrareignum ári síðar, stundaði síðan útgerð, landbúskap og verslun á Flateyri um langt árabil, lengst af í samstarfi við Hjálmar Jónsson kaupmann. Eftir að Torfi flutti til Flateyrar tók hann til sín unga pilta á veturna og kenndi þeim skipstjórnarfræði.
Torfi Halldórsson lést 23. september 1906.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Frá Félagi eldri borgara á Eyrarbakka
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Glæsilegur öldungur
á rúntinum á Eyrarbakka
Um þessar mundir er Byggðasafn Árnesinga að tæma Mundakotsskemmu á Eyrarbakka af munum sem hafa verið þar í marga áratugi.
Þar á meðal hefur verið þar Ford vörubíll, árgerð 1942, sem fyrrum var í eigu Ólafs heitins Guðjónssonar í Mundakoti. Í dag lagði Fordinn af stað í ferð í gegnum þorpið í nýja og stærri aðstöðu að Búðarstíg 22 þar sem hann verður varðveittur í komandi framtíð.
Að sögn Lýðs Pálssonar, safnstjóra, hittist þetta skemmtilega á því í dag er nákvæmlega ár síðan Héraðsnefnd Árnesinga samþykkti að kaupa Búðarstíg 22 (Alpan-húsið) fyrir Byggðasafn Árnesinga.
Sennilega hefur bíllinn ekki verið hreyfður í 56 ár en árið 1964 eignaðist Ólafur í Mundakoti nýjan vörubíl og lagði þessum innst í skemmuna. Það eru þeir Guðlaugur E. Jónsson og Emil Guðjónsson sem sjá um að flytja munina fyrir söfnin.
Af sunnlenska.is
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
|
BIBarinn grúskar í myndasafnini
BIBarinn grúskar í myndasafnini sem telur í tugþúsundum.
Myndin er tekin í Bókakaffinu á Selfossi í nóvember 2010.
Næst til vinstri er Kristján Runólfsson og næst til hægri er Hafliði Magnússon.
Þeir eru báðir látnir.
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
BIBarinn grúskar í myndasafnini
BIBarinn grúskar í myndasafnini sem telur í tugþúsundum.
Í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og árið er 2006.
Elfar Guðni Þórðarson og Siggeir Ingólfsson.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Sjá má myndbandið hér: https://vimeo.com/388520984?fbclid=IwAR2RRsdQefS7W8hln39DIWapGfSMVY7zMiHoplWMBXzkIaR0ewpF99DqVpk |
Víðir Björnsson á Eyrarbakka og Rúnar Pétur Hjörleifsson hafa gefið út snjóbrettamyndina Volcano Lines sem hefur verið tekið vel í snjóbrettaheiminum. Í henni fer íslensk náttúra með aðalhlutverkið ásamt snjóbrettatilþrifum Rúnars Péturs.
Síðastliðinn sunnudag, 2. febrúar 2020, kom út snjóbrettamyndin Volcano Lines en hún er samstarfsverkefni ljósmyndarans Víðis Björnssonar og snjóbrettakappans Rúnars Péturs Hjörleifssonar. Myndin hefur nú þegar vakið nokkra athygli innan snjóbrettaheimsins.
„Viðtökurnar við þessari mynd hafa farið fram úr öllum vonum og nú þegar er búið að fjalla um hana nánast úti um allan heim. Stærstu snjóbrettasíðurnar hafa verið að deila þessu og við gætum ekki verið glaðari með það,“ segir Víðir.
Rúnar Pétur hafði samband við Víði í gegnum samskiptamiðilinn Instagram árið 2018.
„Ég var mikið að skjóta myndir af íslenskri náttúru og landslagi á þeim tíma. Rúnari líkaði stíllinn minn og hvernig mín sýn á náttúruna birtist á samskiptamiðlinum. Okkur langaði að reyna að blanda þessu tvennu saman, náttúrunni og snjóbrettaíþróttinni,“ segir Víðir.
Víðir hefur alltaf haft áhuga á ljósmyndun en pabbi hans er ljósmyndari.
„Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið myndaugað frá honum. Það var samt ekki fyrr en árið 2014 sem ég virkilega sökkti mér í þetta. Fyrir það upplifði ég eins ég væri að eyða lífi mínu í starf sem ég hafði engan áhuga á, svo var maður bara í Playstation á kvöldin. Loks fékk ég nóg af því að vera á nokkurs konar sjálfstýringu, að gera eitthvað sem gaf mér enga gleði. Þannig að ég sagði upp vinnunni og skipti út Playstation-tölvunni fyrir myndavél. Í kjölfarið eyddi ég öllum mínum tíma í að mynda og áttaði mig fljótt á að þetta væri það sem ég vildi gera í lífinu,“ segir Víðir.
Hann segir þá Rúnar eiga það sameiginlegt að vera ævintýragjarnir og miklir náttúruelskendur.
„Mig langaði að finna leið til að tengja þessa hluti saman í gegnum vinnu. Síðustu ár hef ég sogast mikið inn í heim jaðarsports á Íslandi og áttaði mig á því að þarna væri grundvöllur fyrir því að vera úti í íslenskri náttúru á meðan þú ert að vinna.“
Fyrstu tökurnar gengu svo vel að þeir ákváðu um leið að þeir myndu fara í frekara samstarf.
„Ég verð að viðurkenna að ég var smá efins með að hoppa í flugvél til Egilsstaða til þess að hitta einhvern snjóbrettastrák sem ég hafði aldrei hitt áður, en áður en ég vissi af var ég kominn upp í vélina. Þegar ég lendi þar kemur Rúnar og við förum beint í Neskaupstað í mat til mömmu hans. Eftir klukkutíma með Rúnari og fjölskyldu hans áttaði ég mig á hvað hann er yndisleg manneskja. Þarna var ég mættur heim til fjölskyldu hans og mér leið strax eins og ég væri partur af henni. Við mynduðum saman í nokkra daga og það gekk eins og í sögu. Þetta var hreinlega of gaman. Þegar við fórum að renna yfir efnið áttuðum við okkur á því hvað það var gott. Þetta var svo óendanlega mikið af flottu efni að við urðum að gera eitthvað úr þessu, slíkt efni hefur líka ekkert að gera í einhverri möppu í tölvunni þinni þar sem þú einn sérð það,“ segir Víðir.
Víðir segir Rúnar Pétur hafa komið með nafnið á myndinni.
„Hann á nafnið alveg skuldlaust. Volcano Lines hljómaði vel og nafnið er viðeigandi. Snjólínurnar niður fjöllin minntu oft á eldgos, það var eins og snjórinn væri að leka niður fjallið eins og brennandi hraun. Svo líta líka fjöllin mörg út eins og eldfjöll og ég er ekki frá því að eitthvað af þeim sé það. Hugmyndin á bak við myndina var að fanga fallega íslenska náttúru og landslag í bland við þennan gullfallega snjóbrettastíl sem Rúnar er með. Það er oft eins og Rúnar sé að mála í snjóinn með pensli á leiðinni niður.“
Víðir segir tökurnar hafa gengið vel þótt tæknin hafi stundum verið að stríða þeim.
„Bíllinn bilaði áður en við náðum að skjóta nokkurn skapaðan hlut. Það var mikið um hrakföll.
Hitarinn í húsbílnum hans Rúnars tók oft upp á því að bila, þess vegna skírðum við hann Júdas.“
Sjálfur var Víðir mikið á snjóbretti sem unglingur, en lét sportið vera í mörg ár eftir það.
„Ég var aðeins farinn að dusta rykið af brettinu áður en Rúnar hafði samband við mig. Ég verð að viðurkenna, sem gamall sjóbrettastrákur að það kitlaði mikið að stökkva í þetta verkefni með Rúnari. Það er Rúnari að þakka að í dag er ég orðinn bara nokkuð seigur á snjóbrettinu aftur,“ segir Víðir og brosir.
Undanfarin þrjú ár hefur brimbrettaíþróttin átt hug Víðis allan.
„Þetta sport gjörsamlega eyðilagði líf mitt á sama tíma og það bjargaði því. Þetta er skemmtilegasta og erfiðasta sport sem er þarna úti að mínu mati. Ég var farinn að hafna mjög skemmtilegum verkefnum þegar það var góð ölduspá. Ég hef alltaf verið háður sjónum, hann er svo magnað fyrirbæri. Ég er alinn upp á Eyrarbakka og á Flateyri á sumrin þannig að sjórinn hefur alltaf fylgt mér. Vinur minn sagði við mig: „Af hverju ertu að synda í öldunum? Af hverju prófarðu ekki bara að fara á brimbretti?“ og þar með varð ekki aftur snúið,“ segir hann
Víðir og Rúnar eru komnir langt á leið með næstu mynd.
„Ég var að koma úr ferð í Ölpunum hjá Rúnari, þar sem hann býr í húsbílnum sínum. Þar tókum við nokkur skot og plönuðum næstu verkefni. Okkur langar að gera eina mynd á hverju ári sem er alltaf skotin hérlendis. Við erum einnig með nokkur önnur verkefni í pípunum sem koma betur í ljós síðar.“
Fréttablaðið
Steingerður Sonja Þórisdóttir
Miðvikudagur 5. febrúar 2020
Sjá má myndbandið hér:
https://www.facebook.com/vidirb/videos/10162846464205363/
UzpfSTUyMzE3NTM2MjozMDYwNjExMjk0OTk0MTQ6MTA6MDoxNT
gzMDQ5NTk5OjMxNDcwMTg3ODQ3MjUxODcz/
|
||
Skráð af Menningar-Bakki. |
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is