![]() |
-Vitaleið –
ný gönguleið frá Selvogsvita að Knarrarósvita
Markaðsstofa Suðurlands í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg undirbýr nýja afþreyingu fyrir ferðamenn en verkefnið kallast „Vitaleið“. Það er ný ferðamannaleið í mótun sem beinir athygli ferðafólks að nýju svæði í umhverfi Sveitarfélagsins Ölfuss, Eyrarbakka og Stokkseyri.
Þessi leið dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru.
Vitaleiðin er 45 km leið sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita rétt við Stokkseyri í Árborg. Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana eða nýtt sér strandlengjuna og þá göngustíga, sem búið er að gera, meðfram sjónum til að ganga leiðina eða jafnvel hjólað. Á leiðinni eru þrír þéttbýliskjarnar heimsóttir, sem hver hefur sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri.
MHH/Bændablaðið
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
||
|
25 ár að baki
Það er dálítið sérstakt að mitt í heimsfaraldri alvarlegs sjúkdóms skuli Bændablaðið standa á þeim tímamótum að eiga 25 ára afmæli. Eðli máls samkvæmt hafa hátíðahöld og lúðrablástur því orðið að víkja, líkt og fleiri merkisviðburðir sem slegið hefur verið á frest í þjóðfélaginu vegna COVID-19 faraldursins.
Bændablaðið kom fyrst út undir merkjum nýstofnaðra Bændasamtaka Íslands hinn 14. mars árið 1995. Síðan eru komin út 559 tölublöð og auk þess hafa verið gefin út 7 tölublöð af Tímariti Bændablaðsins sem gefið er út í tengslum við Búnaðarþing ár hvert.
Nafn Bændablaðsins á sér samt lengri forsögu. Það var snemmsumars 1987 að nokkrir bændasynir á mölinni með Bjarna Harðarson í fararbroddi komu sér saman um að stofna til blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Blaðið var nefnt Bændablaðið en á bak við það stóð félagið Bændasynir hf. Blað þetta kom út í tæplega 8 ár og skapaði þegar best var 2–3 störf á ritstjórn sem fyrst var til húsa á Skúlagötu í Reykjavík. Það flutti síðar austur að bænum Einarshöfn á Eyrarbakka. Síðasta árið var blaðið gefið út af Jóni Daníelssyni á Tannstöðum í Hrútafirði sem seldi Bændasamtökum Íslands nafnið í árslok 1994.
Árið 2007 var vef Bændablaðsins, bbl. is, hleypt af stokkunum. Árið 2014 var enn bætt um betur og ný endurhönnuð vefsíða tekin í gagnið sem er í stöðugri þróun.
Tímarits Bændablaðsins kom út í fyrsta skiptið við setningu Búnaðarþings þann 1. mars 2015 þegar Bændablaðið var nýbúið að eiga 20 ára afmæli. Síðan hefur það komið út á hverju ári í tengslum við Búnaðarþing eða ársfundi Bændasamtaka Íslands. Á árinu 2018 kom ritið reyndar út tvisvar og var seinna tölublaðið þess árs tileinkað landbúnaðarsýningu sem haldin var í Laugardalshöll í október 2018.
Í byrjun árs 2020 urðu þau tímamót að hleypt var af stokkunum hlaðvarpi Bændablaðsins sem nefnt hefur verið Hlaðan. Þar láta þáttastjórnendur úr ólíkum áttum ljós sitt skína og hægt er að hlusta á þá þætti þegar fólki hentar í gegnum tengil á vefsíðu Bændablaðsins bbl.is.
Markmið Bændasamtakanna með Bændablaðinu var í upphafi að gefa út blað sem skyldi sent út til allra bænda og vera upplýsandi um málefni stéttarinnar. Því var líka ætlað að kynna fyrir öðrum stefnu Bændasamtakanna og veita gagnlegar upplýsingar um stöðu landbúnaðarins. Eða eins og Jón Helgason, þáverandi formaður Búnaðarfélags Íslands, sagði í fyrsta leiðaranum þann 14. mars árið 1995.
„Með slíku kynningarstarfi sköpuðust auknir möguleikar á að hafa áhrif á umræðu um landbúnað og gera hana jákvæðari.“
Til að tryggja þetta markmið hafa efnistök blaðsins verið með þeim hætti að ólíkir þjóðfélagshópar finni þar eitthvað við sitt hæfi. Til að staðreyna áhrifamátt blaðsins var á árinu 2012 ákveðið að blaðið tæki þátt í lestrarkönnun Capacent Gallup með stærstu prentmiðlum landsins. Þær kannanir hafa síðan ár eftir ár sýnt það svart á hvítu að markmið útgáfunnar hafa náðst býsna vel. Blaðið hefur náð til breiðs hóps lesenda bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og um allt land. Samkvæmt könnunum Gallup hefur Bændablaðið verið öflugasti prentmiðillinn á landsbyggðinni árum saman og er í öðru sæti í heild á landsvísu. Auglýsendur hafa greinilega kunnað að meta þetta. Með liðstyrk þeirra hefur síðan tekist að skapa öflugan tekjugrunn sem tryggt hefur rekstur útgáfunnar. Fyrir þetta og mikla tryggð lesenda við blaðið, erum við öll sem vinnum að útgáfu Bændablaðsins, afar þakklát.
Hörður Kristjánsson
ritstjóri Bændablaðsins.
![]() |
Bændablaðið fimmtudaginn 19. mars 2020.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Jón Ingi Sigurjónsson (1936 - 2020) |
Jón Ingi Sigurjónsson
- Fæddur 23. feb. 1936 - Dáinn 7. mars 2020 - Minning
Jón Ingi Sigurjónsson, Jonni, fæddist í Norðurkoti á Eyrarbakka 23. febrúar 1936. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 7. mars 2020.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Lilja Böðvarsdóttir frá Skálmholtshrauni í Flóa, f. 9.4. 1914, d. 9.9. 2006, og Sigurjón Valdimarsson frá Norðurkoti, f. 22.10. 1910, d. 25.8. 1952. Systkini Jóns Inga eru Guðný Erna, f. 14.1. 1937, búsett í Kópavogi, Böðvar, f. 6.12. 1938, d. 30.9. 2018, Valdimar, f. 18.10. 1951, búsettur á Selfossi. Uppeldisbróðir Jóns Inga er Erlendur Ómar, f. 14.1. 1950, búsettur í Þorlákshöfn.
Þann 26. nóvember 1966 giftist Jón Ingi Margréti Ólafsdóttur f. 4.2.1943, d. 10.5. 1995, frá Götuhúsum á Eyrarbakka. Foreldrar Margrétar voru Guðbjörg Magnea Þórarinsdóttir, f. 25.8. 1917, d. 8.2. 1951, og Ólafur Ólafsson húsasmiður, frá Þorvaldseyri á Eyrarbakka, f. 26.2. 1922, d. 16.4. 2001. Þau skildu.
Jón Ingi var búsettur á Túngötu 63 á Eyrarbakka alla tíð. Hann fór snemma til sjós, vann hjá Rafmagnsveitum ríkisins og síðar við fiskvinnslu og í pönnuverksmiðjunni Alpan á Eyrarbakka. Jonni söng í kirkjukór Eyrarbakkakirkju í 54 ár og með Karlakór Selfoss.
Útför Jóns Inga fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 21. mars 2020, klukkan 13. Vegna aðstæðna í samfélaginu fer athöfnin fram í kyrrþey.
_________________________________________________________________________________________
Minningarorð Svanhildar Guðmundsdóttur
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Það varð brátt um hann Jonna, hann veiktist alvarlega og var dáinn eftir nokkra daga. Það er mér ljúft og skylt að minnast hans með nokkrum orðum.
Ég man eftir honum frá æskuárum mínum á Eyrarbakka, það voru sjö ár á milli okkar, hann var eldri.
Þegar hann og Magga frænka mín urðu par þá kynntist ég manninum Jonna frá Norðurkoti. Hann var mikið prúðmenni og reglumaður að öllu leyti. Hann var vel að sér í ættfræði og grúskaði mikið í þeim fræðum og ekki kom maður að tómum kofunum þegar maður spurði um menn og málefni sem tengdust Eyrarbakka.
Jonni átti mikið bókasafn, hann var vel lesinn og gaman var að ræða við hann um það áhugamál okkar beggja.
Konan hans Jonna var Margrét Ólafsdóttir frænka mín og jafnaldra. Hún ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Þorvaldseyri en ég hjá ömmu okkar og móðurbróður í Götuhúsum.
Magga og Jonni bjuggu alltaf á Eyrarbakka í húsinu sem þeir bræður Böðvar og hann byggðu saman. Í mörg ár komu þau alltaf til okkar hjóna á Strandir þar sem við vorum á hverju sumri í gamla húsinu á Eyri í Ingólfsfirði. Það var mikið gleðiefni að fá þau þangað í fásinnið. Þar var margt brallað, bátsferðir á Norður-Strandir, rekaviðarferðir, berjaferðir voru vinsælar og eftirminnilegar. Ekki má gleyma að minnast á veiðiferðirnar á bátnum okkar „Þyt St-14“. Jonni vakti þá almenna athygli á bryggjunni í Norðurfirði þegar hann dró á sig klofstígvélin sín, en sá útbúnaður hafði þá ekki sést á Ströndum í mörg ár.
Við rifjuðum upp ánægjustundir við eldhúsborðið á Eyri. Matarveislurnar og söngstundirnar, þar var Jonni liðtækur, hann var góður söngmaður og söng lengi í kirkjukór Eyrarbakkakirkju og um tíma með Karlakór Selfoss.
Jonni missti konuna sína hana Möggu fyrir 25 árum, hún var honum allt í öllu og söknuður hans mikill og okkar allra. Nú eru þau vonandi sameinuð í Sumarlandinu.
Það eru erfiðir tímar í heimsbyggðinni, ekki sér fyrir endann á þessum hræðilega faraldri. Maður vonar og biður að brátt sjái til sólar, að sumarið komi og sólin skíni á okkur á ný. Með þessum orðum þakka ég Jonna vini mínum samfylgdina og sendi öllum ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.
Svanhildur Guðmundsdóttir.
_____________________________________________________________
Minningarorð Írisar Böðvarsdóttur
Það er í meira lagi einkennilegt þegar einhver sem hefur fylgt manni alla tíð hverfur burt svo skyndilega eins og nú hefur gerst. Jón Ingi, eða Jonni eins og hann var alltaf kallaður, var föðurbróðir minn og bjó ásamt konu sinni Margréti Ólafsdóttur eða Möggu á efri hæðinni á æskuheimili mínu, Túngötu 63 á Eyrarbakka.
Alla mína æsku fór ég reglulega upp á efri hæðina þar sem ég tefldi við Jonna eða horfði á sjónvarpið með þeim Möggu. Svo var drukkið kaffi og spjallað. Þegar ég fluttust svo aftur á bakkann árið 2003 tók við nýr kafli í lífinu hjá okkur Jonna. Hann hafði þá verið ekkill í átta ár og árið áður hafði móðir mín látist og bræðurnir, pabbi og Jonni orðnir einir á Túngötunni. Ein þeir voru aldeilis ekki einir.
Í á annan áratug voru þeir heimagangar á heimili mínu og fylgdu okkur í ferðalög, á ýmsa viðburði og samkomur. Jonni var mjög hæglátur og reglufastur maður. Hann hafði yndi af því að hittast og ekki var verra ef góður matur og gott rauðvín var í boði.
Hann var söngelskur og söng lengi með Karlakór Selfoss og yfir 50 ár með kór Eyrarbakkakirkju. Bókhneigður var hann með eindæmum og byrjaði barnungur að liggja með nefið í bókum og las þá allt sem hann komst yfir. Í seinni tíð má segja að nánasta fjölskylda hafi verið honum allt. Hann fylgdist einstaklega vel með ættingjum sínum, hann var svo stoltur þegar þeim gekk vel og fylgdist vel með börnum mínum og fór á tónleika, leikrit og flesta viðburði sem tengdust þeim.
Í tuttugu ár hefur þú haldið jól með okkur og við verið saman flest áramót. En nú er bleik brugðið, kallið kom óvænt því þrátt fyrir háan aldur varstu einstaklega hress og hugsaðir um þig sjálfur á allan hátt. Þú varst eini maðurinn sem opnaðir dyrnar hjá mér án þess að banka. Það þykir mér vænt um og lýsir hversu vel kom á með okkur. Í síðustu Vestmanneyjaferð okkar í sumar sem var einstaklega vel heppnuð í frábæru veðri varstu svo glaður þegar þú kvaddir okkur að kvöldi að þú sagðir „mikið er gott að eiga góða vini og þekkja gott fólk“. Þrátt fyrir að mér finnist að þú hljótir að vera á leiðinni og dyrnar opnist þá er það ekki svo.
Nú hafa aðrar dyr opnast. Þú varst mjög trúaður maður og ég óska þess að dyrnar hafi opnast til Möggu þinnar sem þú misstir allt of snemma. Ég mun setja Ilmskúfinn á leiði ykkar og í beðið fyrir framan eldhúsgluggann og kartöflurnar munu fara niður.
Elsku kæri frændi minn, blessuð sé minning þín góði drengur.
Sástu suð´r í Flóa
sumarskrúðið glóa,
þegar grænust gróa
grös um Ísafold?
Sástu vítt um vengi
vagga stör á engi?
Sástu djarfa drengi
dökka rækta mold?
(Freysteinn Gunnarsson)
Þín frænka og vinur,
Íris.
Morgunblaðið laugardagurinn 21. mars 2020
Skráð af Meningar-Bakki
![]() |
||
|
Vorjafndægur 2020
Forsíða Morgunblaðsins 20. mars 2020
Skráð af Menningar-Bakki.
|
![]() |
Jafndægur að vori 20. mars 2020
Jafndægur að vori eru á morgun, 20. mars 2020.
Þá er sólin beint yfir miðbaug jarðar og um það leyti er dagurinn um það bil jafn langur nóttunni hvar sem er á jörðinni.
Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri að vori til fardaga, en þá taki við sumar til jafndægris á hausti.
Vorið nær því samkvæmt því frá 19. til 21 mars og fram að fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
F.v.: Anna Guðrún Bjarnardóttir (1933 - 2019), Holti við Stokkseyri, Hafliði Magnússon (1935 - 2011), frá Bíldudal en bjó á Selfossi nokkur ár, og Hörður Sigurgrímsson (1924 - 2011), Holti við Stokkseyri |
BIBarinn grúskar í myndasafninu
BIBarinn grúskar í myndasafninu sem telur í tugþúsundum.
Ein af mínum uppáhaldsmyndum. Manngæskuþrenna framan við Sunnlenska bókakaffið á Selfossi þann 4. september 2008.
F.v.: Anna Guðrún Bjarnardóttir (1933 - 2019), Holti við Stokkseyri, Hafliði Magnússon (1935 - 2011), frá Bíldudal en bjó á Selfossi nokkur ár, og Hörður Sigurgrímsson (1924 - 2011), Holti við Stokkseyri. Blessuð sé minnig þeirra.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Draga línuna á Dritvíkurgrunni
Páll Jónsson GK, nýi Vísisbáturinn, reynist vel og veiðin er ágæt. Með 40.000 króka á sjó sagði Gísli Jónsson sína sögu en hann hefur verið til sjós í alls 54 ár. Starfið segir hann hafa breyst mikið.
„Þorskurinn bítur ekki á agnið eins og við vildum, því nú er loðna um allan sjó,“ segir Gísli Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni GK 7. Landað var úr bátnum í Grindavík í gærmorgun og var aflinn um 70 tonn; þorskur sem fékkst á Skerjadýpi suður af Reykjanesi, á Eldeyjarbanka en að stærstum hluta á Dritvíkurgrunni úti af Snæfellsnesi.
„Þó að loðnan finnist ekki í veiðanlegum mæli er nóg af henni samt, og hún þá mikilvægt æti fyrir þann gula og annan fisk sem er ofar í fæðukeðjunni. Sama var uppi á teningnum í fyrra en þegar loðnan hvarf var líka fínt fiskirí. Sama býst ég við að gerist á næstunni.“
Alltaf á þriðjudögum
Hinn nýi Vísisbátur, Páll Jónsson GK, er 45 metra langur, 10,5 metra breiður og fyrsta nýsmíðin af þessari stærð sem Vísir hf. fær í rúmlega 50 ára sögu fyrirtækisins. Báturinn kom til landsins 21. janúar. Róðrarnir síðan þá eru orðnir fjórir. Aflinn sem fékkst á línuna í þremur fyrstu túrunum var um 100 tonn, en hver bátur í útgerð Vísis hefur sinn fasta löndunardag. Er þriðjudagurinn jafnan merktur Páli Jónssyni, sem kemur inn í bítið og fer út aftur um kvöldið. Miðað er við að á bátnum séu fiskuð um 4.000 tonn á ári, en sú tala þarf að haldast og hráefni að berast í réttum skömmtum svo að jafnvægi haldist í vinnslu og sölu afurða.
„Báturinn hefur nú í upphafinu reynst vel í alla staði og reynslan er góð. Reyndar er eftir að fínstilla nokkur smáatriði og koma einstaka tækjum og búnaði fyrir á sínum rétta stað; nokkuð sem ég vil kalla að setja þurfi sálina í skipið, sem er alveg bráðnauðsynlegt,“ segir Gísli og heldur áfram:
24 eru í hópnum
„Aðbúnaður í bátnum er allur eins og best verður á kosið, svo sem á dekki, vinnslurými, í vél, vistarverum skipverja og borðsal. Allt íburðarlaust en flott. Svo erum við líka með allan nýjasta og besta skipstjórnarbúnaðinn sem býðst, en hvernig honum var komið fyrir í brúnni var nokkuð sem ég fékk að vera með í ráðum um við og hönnun smíði bátsins. Annað sáu sérfræðingarnir um. “
Alls eru fjórtán í áhöfn á Páli Jónssyni GK, en menn róa til skiptis svo í hópnum öllum eru alls 24 karlar. Allt dugnaðarforkar, rétt eins og þarf til sjós og á línunni – en sú sem skipverjarnir á Páli settu í sjó og drógu á Dritvíkurgrunni í vikunni var 54 kílómetrar og krókarnir um 40.000 talsins.
Gísli segir góða og skemmtilega tilfinningu fylgja því að vera skipstjóri á nýjum bát. Einn af hápunktum á ferlinum sem spannar 54 ár, þar af skipstjóri síðan 1973. Fyrst var Gísli á bátum frá Stokkseyri og byrjaði fimmtán ára. Var seinna austur á landi. Bjó þrjátíu ár í Þorlákshöfn og var á bátum sem gerðir voru þaðan út. Árið 1996 réði hann sig síðan til Vísis hf. í Grindavík og munstraðist svo þegar fram liðu stundir á bátinn Pál Jónsson GK – hinn fyrri.
Dagur sem markaði skil í söguni
„Við héldum út í fínu veðri og settum út fyrstu lögnina og þetta var 11. september 2001, dagur sem átti eftir að marka skil í sögunni,“ segir Gísli, en á sínum 19 árum á Páli Jónssyni fyrri fiskuðust alls 60 þúsund tonn, sem hlýtur að teljast ansi gott þegar allt er saman lagt eftir tvo áratugi. „Ég var og er vissulega ekki einn í þessu harki og alltaf með góðan mannskap með mér. Við Ingibergur Magnússon, jafnaldri minn og æskufélagi frá Stokkseyri, erum búnir að vera saman til sjós nánast alla tíð og þá hefur Valgeir Sveinsson frá Eyrarbakka verið með mér síðan 1996. Á nýjum Páli Jónssyni og fimm síðustu ár á þeim fyrri hefur Benedikt Páll Jónsson verið stýrimaður og skipstjóri á móti mér. Á þessum bát ætlum við að hafa fyrirkomulagið þannig að ég tek tvo túra og hann aðra tvo. Það kemur ágætlega út. Orðinn sjötugur finnst mér allt í lagi að slá aðeins af og taka mér lengri frí. Yngri menn sem leggja sjómennskuna fyrir sig gera slíkt raunar líka og kjósa að eiga líf utan vinnunnar, sem ég skil vel,“ segir Gísli að síðustu.
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Leikskólinn Brimver á Eyrarbakka. |
Leikskólinn Brimver 45 ára
LIÐIN eru 45 ár síðan efnt var til leikskólastarfs á Eyrarbakka. Um nokkurt skeið hafði verið rætt um mögulega stofnun leikskóla í sveitarstjórn, hjá Verkalýðsfélaginu Bárunni, Kvenfélagi Eyrarbakka og ekki síst í stjórn Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka, sem þurfti mjög á vinnuafli húsmæðranna að halda.
Í upphafi árs 1975 var síðan ákveðið að gera tilraun til að reka leikskóla um vertíðina og fram yfir humarvertíð. Haustið var jafnan daprasti tíminn í atvinnulífinu á Bakkanum og því óttuðust menn að engin börn fengjust þann tíma í leikskólann.
Það varð svo úr að tilraun þessi varð til þess að frá 17. mars 1975 hefur leikskólinn starfað með miklum sóma. Aðstaða fékkst í húsi sem Ungmennafélag Eyrarbakka og Verkalýðs- og sjómannafélagið Báran áttu saman, gegn vægri leigu.
Ráðnar voru tvær konur til skólans, Gyðríður Sigurðardóttir og Auður Hjálmarsdóttir, og síðan var leitað eftir aðstoð Heiðdísar Gunnarsdóttur, leikskólastjóra á Selfossi, til að þjálfa þær til starfans, svona tvo til þrjá daga í upphafi. Nafnið fékk leikskólinn af fyrsta húsnæðinu, sem hafði verið nefnt Brimver.
Húsnæðið reyndist fljótlega ófullnægjandi, en fyrst var byggt hús yfir starfið 1982 og það síðan stækkað og endurbætt 1995 og er nú 281 fermetri að grunnfleti, allvel búið tækjum.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
|
BIBarinn grúskar í myndasafnini
Hvað sem telur í tugþúsundum
17. maí 2006 í Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn.
![]() |
||
. .
|
![]() |
|
Umsóknarfrestur um starf prests í Selfossprestakalli, Suðurprófastsdæmi rann út á miðnætti þann 6. febrúar.
Alls sóttu sex um starfið.
Þau sóttu um starfið:
Sr. Anna Eiríksdóttir
Sr. Bára Friðriksdóttir
Erna Kristín Stefánsdóttir mag. theol.
Sr. Gunnar Jóhannesson
Guðrún Eggertsdóttir mag. theol.
Sr. Sveinn Alfreðsson
Kjörnefnd kaus sr. Gunnar Jóhannesson til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hans.
Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Gunnar ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, eða í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.
Hver er presturinn?
Sr. Gunnar er fæddur á Akranesi árið 1977. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1997 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Hann lauk framhaldsnámi í guðfræði frá sama skóla árið 2012.
Sr. Gunnar tók við embætti sóknarprests í Hofsóss – og Hólaprestakalli árið 2004 og gegndi því til ársins 2013. Þá þjónaði hann sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi frá september 2013 fram í maí 2014.
Árið 2014 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Noregs og þjónaði þar sem sóknarprestur í Ringebu í Hamarbiskupsdæmi fram til loka ágúst 2018.
Frá september 2018 til 31. nóvember 2019 þjónaði hann sem settur prestur í Hveragerðisprestakalli og frá 1. desember 2019 hefur hann þjónað sem settur prestur í Selfossprestakalli. Sr. Gunnar er kvæntur Védísi Árnadóttur, kennara, og eiga þau fjögur börn.
Í Selfossprestakalli, eru fjórar sóknir, hver með sína sóknarkirkju, þ.e. Selfosssókn, Laugardælasókn, Hraungerðissókn og Villingaholtssókn. Selfossprestakall tilheyrir tveimur sveitafélögum, Árborg og Flóahreppi, með tæplega 10.800 íbúa, þar af 9.246 sóknarbörn. Í prestakallinu starfa sóknarprestur og prestur, auk þess sem héraðsprestur hefur starfað við prestakallið. Sóknarprestur og prestur skulu, undir forystu prófasts, skipta formlega með sér verkum.
![]() |
Selfosskirkja. Skráð af Menningar-Bakki. |
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is