![]() |
Einar Benediktsson (1865 - 1940). |
Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson
Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, fæddist að Elliðavatni 31. október 1865.
Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður, og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir og var húsmóðir. Einar gekk í Lærða skólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist árið 1884. Því næst nam hann lögfræði og útskrifaðist úr Hafnarháskóla 1892.
Einar var athafnasamur maður alla tíð. Stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn. Hann átti þátt í að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906 og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð.
Á árunum 1907-21 ferðaðist Einar mikið erlendis, meðal annars til Noregs, Skotlands og Danmerkur auk þess að eyða sjö árum í London. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands árið 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík í Selvogi í Árnessýslu.
Um Einar varð snemma til fjöldi sagna, um stórlyndi hans, höfðingsskap og tröllaukna drauma um stóriðju og verksmiðjuframkvæmdir. Ljóð hans eru þess eðlis að aðdáendur hans nánast dýrkuðu hann og töluðu þá gjarnan um Skáldið með stóru essi. Þórbergur Þórðarson var á tímabili ritari hans og undir miklum áhrifum frá honum og til eru sagnir af fundum hans með ungum skáldum, s.s. Tómasi Guðmundssyni, Halldóri Laxness og Steini Steinarr. Ýmsir hafa skrifað um Einar en ítarleg og stórskemmtileg ævisaga hans, eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing, kom út í þremur bindum á árunum 1997-2000.
Einar lést 21. janúar 1940 í Herdísarvík og var jarðsettur, fyrstur Íslendinga, í heiðursgrafreit á Þingvöllum.
![]() |
||||
Opna úr bók Önfirðingsins / Súgfirðingsins Gunnars M. Magúss um
|
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Þann 25. október árið 1852 var Barnaskólinn á Eyrarbakka var settur í fyrsta sinn.
Hann er elsti barnaskólinn á Íslandi sem enn er starfræktur.
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Flateyri og séð inn Önundarfjörð. Ljósm.: Mats Wibe Lund |
Í dag, 26. október 2020, eru rétt 25 ár síðan mikið snjóflóð féll á byggðina á Flateyri úr Skollahvilft og og gjöreyðilagði sautján hús en einungis þrjú þeirra voru innan hættusvæðis þess tíma. Flóðið féll að nóttu til þegar klukkan var sjö mínútur yfir fjögur.
Fjörtíu og fimm manns lentu í flóðinu, tuttugu og einn komust úr flóðinu af eigin rammleik, fjórum var bjargað og tuttugu létu lífið. Margir misstu ástvini sína og heimili.
Flateyringar sinnu björgunarstörfum einir fyrstu klukkustundirnar en eftir sex klukkustundir komu björgunarsveitarmenn og hjúkrunarfólk frá Ísafirði. Skömmu síðar voru um 110 leitarmenn komnir til Flateyrar. Þeim fjölgaði svo þegar leið á daginn og síðdegis voru um 220 manns með sex leitarhunda við leit af fólkinu.
Miklir varnargarðar voru reistir í kjölfarið til varnar byggðinni fyrir frekari flóðum. Nýlega hefur verið ákveðið að gera breytingar á leiðigörðum til þess að koma í veg fyrir að flóð fari í höfnina eins og gerðist í janúar síðarliðinn. Þá eyðilögðust sex bátar sem í höfninni voru.
![]() |
||
. .
|
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng Arnarfjarðarmegin. Mynd/Haukur Sigurðsson |
Dýrafjarðargöng opnuð 25. okt. 2020
Í dag, sunnudaginn 25. október 2020 kl. 14:00 verða Dýrafjarðargöng opnuð með óhefðbundnum hætti sökum kórónuveirufaraldursins.
Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannson og forstjóri Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir verða stödd í húsakynnum Vegagerðarinnar í Reykjavík. Að loknum stuttum ávörpum mun ráðherra biðja vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði að lyfta slánum við gangamunnana og þannig opna göngin fyrir umferð.
Ávörpunum verður útvarpað við báða munna ganganna á FM-tíðninni 106,1. Viðburðinum verður streymt á Facebook síðu Vegagerðarinnar: www.facebook.com/Vegagerdin, streymt verður á slóðinni https://livestream.com/accounts/5108236/events/9367337
Vestfirðingum er boðið að safnast saman í bílum sínum við báða munna ganganna og fá þannig tækifæri til að aka í gegnum göngin um leið og þau hafa verið opnuð. Nemendur Grunnskólans á Þingeyri munu fyrstir aka í gegn Dýrafjarðarmegin ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974. Skólabörnin hafa þrýst á um samgöngubætur og óskuðu strax eftir því við samgönguráðherra í janúar að fá að aka fyrst í gegnum göngin. Ljúft var að verða við þeirri ósk. Fólk er hvatt til að halda sig í bílunum og tryggja þannig að öllum reglum um sóttvarnir sé fylgt til hins ítrasta.
Dynjandisheiðin verður mokuð á sunnudag ef reynist þörf fyrir það. Þeir sem bíða eftir því að aka í gegn eru beðnir um að safnast í einfalda bílaröð á hægri kanti vegarins og að aka viðstöðulaust í gegn eftir að opnað hefur verið. Fyrir þá sem koma að norðan þá eru góðar tengingar til að snúa við eftir ferð í gegnum göngin vestan við brú á Mjólká. Þeir sem koma að vestan og hafa ekið í gegn geta snúið við nærri Kjaransstöðum þar sem eru góðar tengingar.
Aðalverktaki við gerð Dýrafjarðarganga var Metrostav a.s. og Suðurverk hf. en umsjón og eftirlit var í höndum GeoTek ehf. og Eflu hf. Vestfirskir verktakar ehf. byggðu brýrnar. Rafskaut ehf. sá um raflagnir, Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. sá um malbikun og Rafeyri sá um stjórnkerfi ganganna. Framkvæmdir hófust í júlí 2017.
Með tilkomu Dýrafjarðarganga styttist Vestfjarðarvegur um 27,4 km þar sem leiðin yfir Hrafnseyrarheiði sem lengi hefur verið helsti farartálminn leggst af yfir vetrarmánuðina en þar eru mikil snjóþyngsli og mikil snjóflóðahætta efst á heiðinni. Með þessu er hægt að tryggja góðar samgöngur á Vestfjarðavegi (60) milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem er stór þáttur í að ná aðalmarkmiðinu um heilsárs vegasamband milli vestfirskra byggða.
Nú þegar hefur Vegagerðin hafist handa við næsta áfanga sem er nýr og endurbættur vegur yfir Dynjandisheiði og má ætla að þessu meginmarkmiði um heilsárs vegasamgöngur á Vestfjörðum verði náð innan fárra ára.
Með fylgir ítarlegri lýsing á verkinu.
![]() |
||
.
|
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng Dýrafjarðarmegin.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Sigurjón Ólafsson (1908 - 1982). |
Merkir Íslendingar - Sigurjón Ólafsson
Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fæddist á Eyrarbakka 21. október 1908,
sonur Ólafs J. Árnasonar, verkamanns í Einarshöfn á Eyrarbakka, og Guðrúnar Gísladóttur. Hann var bróðir Guðna apótekara í Reykjavík og Gísla bakarameistara, föður Erlings leikara, föður Benedikts, leikara, leikstjóra og leikritahöfundar.
Fyrri kona Sigurjóns var Tove Ólafsson myndhöggvari en seinni og eftirlifandi kona hans er Inga Birgitta Spur sem hafði veg og vanda af listasafni hans í Laugarnesinu.
Sigurjón lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1927, stundaði nám hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara, nám í höggmyndalist hjá prófessor E. Utzon-Frank við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1928-35 og dvaldi við nám í Róm. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn 1928-46 en síðan á Laugarnestanga við Reykjavík.
Sigurjón var í hópi brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi og er meðal virtustu myndhöggvara þjóðarinnar. Standmyndir og veggskreytingar eftir hann má víða sjá í Reykjavík, s.s. líkön af Friðriki Friðrikssyni, Héðni Valdimarssyni og Ólafi Thors. Þá gerði hann brjóstmyndir af séra Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Af öðrum verkum hans sem prýða höfuðborgina má nefna Klyfjahest sem fyrst var fyrir ofan Hlemm og síðar milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar; Öndvegissúlurnar sem settar voru upp við Höfða, og minnismerki um stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 sem sett var upp við Hagatorg, að ógleymdri veggmynd á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar. Hann gerði auk þess um tvö hundruð mannamyndir af ýmsum þekktum Íslendingum.
Sigurjón var sæmdur heiðurspeningi úr gulli af Listaháskólanum í Kaupmannahöfn og sæmdur hinum virta heiðurspeningi Eckersbergs. Verk hans er að finna á virtum listasöfnum víða um heim.
Sigurjón lést 20. desember 1982 og hvílir í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.
Er 100 ár voru frá fæðingu Sigurjón Ólafssonar þann 21. október 2008 stóð Hrútavinafélagið Örvar, Litla-Hraun og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir blysför að listaverkinu Kríjunni austan við Eyrarbakka.
Myndaalbúm frá blysförinnu: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/245975/
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Kórónuveirusmit kom upp á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í gærkvöldi. Tveir heimilismenn greindust með jákvætt smit, en annar þeirra var nýkominn af Landakoti.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Allir heimilismenn á Sólvöllum fara nú í einangrun og starfsfólk heimilisins fer í skimun. Á Sólvöllum eru 17 heimilismenn og 24 starfsmenn. Aðstandendur voru einnig látnir vita.
Jóhanna Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur á heimilinu, segir í samtali við mbl.is að enginn grunur hafi verið á smiti þegar viðkomandi kom inn á heimilið, og hafi hann því ekki verið í sóttkví.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Kristinn Snæland (1935 - 2017). |
Merkir Íslendingar – Kristinn Snæland
Kristinn Snæland fæddist í Reykjavík 24. október 1935.
Foreldrar hans voru Þórhildur Hafliðadóttir, f. 20.9. 1912, d. 1.11. 1993, og Baldur Snæland, f. 25.2. 1910, d. 11.1. 1996.
Systkini Kristins eru:
Hafsteinn, f. 1934, Njörður, f. 1944, Jón Andrés, f. 1946, og Pétur, f. 1950.
Þann 3. febrúar 1956 kvæntist hann Jónu A.G. Jónsdóttur Snæland, f. 3.2. 1936.
Börn þeirra eru:
1) Jón Garðar, 2) Soffía, f. 3.8. 1963 3) Sólveig, f. 24.7. 1970.
Kristinn ólst upp í Vesturbænum til 12 ára aldurs en síðan í Blesugróf. Hann lauk barna- og fullnaðarprófi frá Laugarnesskóla. Hann var víða í sveit fram til 15 ára aldurs.
Kristinn stundaði nám í rafvirkjun í Iðnskóla Reykjavíkur, lauk sveinsprófi 1957 og öðlaðist síðan meistararéttindi 1961. Hann vann við rafvirkjun meðal annars á Selfossi, Borgarnesi og Reykjavík til 1969. Þá flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Malmö í Svíþjóð þar sem hann starfaði hjá skipasmíðastöðinni Kockums sem rafvirki, ásamt því að túlka og aðstoða íslenska starfsmenn, hann varð síðar verkstjóri og umsjónamaður allra vinnurafmagnslagna.
Fjölskyldan flutti heim 1971 og starfaði Kristinn sem erindreki Framsóknarflokksins til 1974.
Kristinn var síðan sveitarstjóri á Flateyri 1974-77 og verslunarstjóri Kaupfélags Önfirðinga 1977-78 og hann var fréttaritari Tímanns á Flateyri og í Önundarfirði.
Hann starfaði um skeið hjá Tímanum, stundaði akstur, ritstörf og sjómennsku.
Kristinn ók áætlunarbíl fyrir Ólaf Ketilsson og sinnti síðar vörubílaakstri fyrir Ístak. Hann var mikill bílaáhugamaður og skrifaði bókina Bílar á Íslandi í máli og myndum 1904-1922 en hún kom út 1983. Hann ók síðan leigubíl þar til hann lét af störfum árið 2011. Hann vann síðustu ár við að sendast fyrir vini sína hjá Prentlausnum.
Kristinn sat m.a. í stjórn Rafnemafélags Reykjavíkur, var stofnandi ÍMON, Íslendingafélags í Malmö, sat í stjórn Framsóknarfélags Önfirðinga og var formaður Fornbílaklúbbs Íslands 1990-1993.
Kristinn skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit, sat í ritnefnd Sjómannsins, sá um útgáfu á blöðunum Taxa, Fellsmúlapóstinum og Landanum, blaði Íslendinga í Malmö.
Kristinn lést á Landakoti í Reykjavík 21. janúar 2017.
Skráð af Meningar-Bakki.
![]() |
Merkir Íslendingar - Árni Böðvarsson
Árni Böðvarsson fæddist á Görðum í Önundarfirði 24. október 1818.
Foreldrar hans voru Böðvar Þorvaldsson, f. 16.6. 1787, d. 12.12. 1862, prófastur á Mel í Miðfirði og fyrri kona hans, Þóra Björnsdóttir, f. 2.10. 1787, d. 2.8. 1839, húsfreyja. Bróðir Árna var Þórarinn Böðvarsson alþingismaður.
Afi séra Árna Böðvarssonar var séra Þorvaldur Böðvarsson (1758 - 1836) prestur í Holti í Önundarfirði og Holti undir Eyjafjöllum; gáfumaður, kennimaður góður og sálmaskáld.
Árni kvæntist Helgu Arnórsdóttur, f. 11.9. 1834, d. 22.9. 1915, og áttu þau átta börn:
Helga, f. 1857, Böðvar Þórarin, f. 1858, Ólaf, f. 1860, Elísabetu Sigríði, f. 1861, Kristínu, f. 1858, Árna H., f. 1865, Árna Ólaf, f. 1866, og Arnór, f. 1868.
Árni lauk stúdentsprófi frá Bessastöðum 1843 og var síðar biskupsritari 1845-1849 þar til hann var vígður til Nesþinga 1849 og var prestur á Sveinsstöðum.
Síðar fékk hann Setberg 1861 og Eyri í Skutulsfirði 1866.
Árni var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi 1856-1866 og í Norður-Ísafjarðarsýslu 1868-1881.
Árni sat Þjóðfundinn 1851 fyrir Snæfellinga ásamt Páli Melsteð sýslumanni. Einróma mótmæli þjóðkjörinna fulltrúa Þjóðfundarins „Vér mótmælum allir“ eru oft kennd við Jón Sigurðsson. Tilefnið var þegar Trampe greifi sleit fundi þegar hann sá fram á að frumvarp um innlimun Íslands í Danaveldi yrði fellt á fundinum.
Árni lést 25. apríl 1889 á Ísafirði.
Morgunblaðið laugardagurinn 24. október 2020
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Séð út Önundarfjörð yfir Holtsodda og út til Flateyrar. |
Verkefnastjórn á Flateyri hefur úthlutað styrkjum til 15 verkefna sem sótt var um í Þróunarverkefnasjóð til nýsköpunar- og þróunarverkefna á Flateyri.
Til úthlutunar voru 9 milljónir. Alls barst 21 umsókn. Heildarumfang verkefna er umsóknir lúta að er um 41,4 milljónir en sótt var um styrki að upphæð um rúmlega 19,4 milljónir. Úthlutað var styrkjum til 15 verkefna tengdum atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og samfélagsþróun að því er segir í fréttatilkynningu.
Í rökstuðningi verkefnastjórnar kemur fram að flestar umsóknir hafi fallið vel að markmiðum verkefnisins en eins og gefur að skilja hafi ekki verið til fjármagn til að úthluta til allra verkefnanna í þessari umferð. Reynt var að velja sem fjölbreyttust verkefni og m.a. var stuðst við stigagjöf eftir mat á tilteknum þáttum í takt við markmið og áherslur verkefnisins.
Allt eru þetta verkefni sem verkefnastjórn telur líkleg til árangurs og að þau muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélagið á Flateyri.
Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri á Flateyri, segir í fréttatilkynningu:
„Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgja þessu verkefni úr hlaði og finna þann kraft og þá einingu sem hér á Flateyri hefur ríkt. Áræðni og þor munu skila styrkhöfum langt og Flateyri ennþá lengra.“
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir í tilkynningu:
"Það kom skemmtilega á óvart hversu margar umsóknir bárust og verkefnin fjölbreytt og hvert öðru áhugaverðara. Það verður spennandi að fylgjast með þróun þeirra og mín trú er að þetta verði mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Flateyri".
Hrefna Valdemarsdóttir, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Hrefnu, segir í tilkynningu:
„Ég er afar ánægð og þakklát fyrir að fá þennan styrk. Hann kemur sér vel í þeirri vinnu sem framundan er í erfiðu árferði í mínu litla fyrirtæki. Ég er mjög spennt að halda áfram og þessi styrkur gerir mér kleift að vinna faglega viðskiptaáætlun sem er lykilþáttur í árangri fyrirtækisins til næstu ára.“
![]() |
||
. |
24. október 2020 – Fyrsti vetrardagur
Fyrsti vetrardagur er laugardagurinn að lokinni 26. viku sumars (eða 27. viku sumars sé um sumarauka að ræða).
Hann er fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins Gormánaðar, í gamla norræna tímatalinu.
Fyrsta vetrardag ber upp á 21.-27. október, nema í rímspillisárum, þá 28. október.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is