Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

Færslur: 2020 Desember

31.12.2020 06:45

Merkir Íslendingar - Gils Guðmundsson

 

 

Gils Guðmundsson (1914 - 2005).

 

 

Merkir Íslendingar - Gils Guðmundsson

 

 

Gils Guðmundsson fæddist í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914, sonur Guðmundar Gilssonar, útvegsb. í Hjarðardal, og k.h., Sigríðar Hagalínsdóttur.

 

Foreldrar Guðmundar: Gils Bjarnason á Mosvöllum og Guðmundína Jónsdóttir, systir Guðnýjar, ömmu Jónu, ömmu Ólafs Þ. Þórðarsonar og Kjartans Ólafssonar alþm. Foreldrar Sigríðar: Hagalín Þorkelsson og Sólveig Pálsdóttir.

Kona Gils var Guðný Jóhannesdóttir en dóttir þeirra er Erna Sigríður Gilsdóttir, kennari í Danmörku. Stjúpsonur Gils er Úlfur Árnason, doktor í Lundi.
 

Gils lauk kennaraprófi frá KÍ 1938, var sjómaður 1934-40, kennari við Íþróttaskólann í Haukadal og við unglingaskóla í Garði og Sandgerði, rithöfundur frá 1942, blaðamaður og ritstjóri 1943-56 og framkvæmdastjóri Menntamálaráðs og Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1956-75.
 

Gils var alþingismaður Reykjavíkur fyrir Þjóðvarnarflokk Íslands 1953-56 og þingmaður Reykjaneskjördæmis fyrir Alþýðubandalagið 1963-79. Hann var formaður Þjóðvarnarfélags Reykjavíkur 1953-54 og varaformaður Þjóðvarnarflokksins 1960-62, formaður Rithöfundasambands Íslands 1957-58 og formaður félagsins Ísland – Færeyjar.
 

Gils sat í Rannsóknaráði ríkisins, var skipaður í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og náttúruvernd, var formaður fiskveiðilaganefndar frá 1971, sat í Norðurlandaráði 1971-74, í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar og í Þingvallanefnd. Hann sat á Allsherjarþingi SÞ 1970 og á hafréttarráðstefnu SÞ 1974-75.
 

Gils samdi fjölda sagnfræðilegra rita og skrifaði sögu ýmissa stéttarfélaga. Má þar helst nefna Skútuöldina, Togaraöldina og Vestfirska sagnaþætti. Þá ritstýrði hann tímaritum og bókum, s.s. bókunum Öldin sem leið 1800-1900 og Öldin okkar, frá 1900-1980.
 

 

Gils lést 29. apríl 2005.

 

 

Séð yfir Vöðin í Önundarfirði; að Holtsodda og Hjarðardal. Ljósm.: BIBSkráð af Menningar-Bakki.

27.12.2020 09:52

30 ár frá hópheiðrun Önfirðinga

 

 

Efri röð frá vinstri: Sara Vilbergsdóttir (látin), Ólafur Ragnarsson,

Björn E. Hafberg (látinn), Guðbjarni Jóhannsson (látinn) og Ólafur R. Jónsson. 

Neðri röð frá vinstri: Guðbergur Guðnason, Magnús Th. Benediktsson,

Gunnar Ásg. Benediktsson, Guðbjartur Jónsson

og Guðmundur Björn Haraldsson (látinn).

 

 

30 ár frá hópheiðrun Önfirðinga

 

 

Fjölmenn Bítlavaka var haldin þann 6. október 1990 að Efstalandi í Ölfusi. Þá var fyrsta samkoman í seinna tímaskeiði á glæsilegum ferli Hljómsveitarinnar ÆFINGAR frá Flateyri sem stendur enn... Hljómsveitin er 52 ára í dag sunnudaginn 27. desember 2020. ÆFING kom fram fyrsta sinni í Samkomuhúsinu á Flateyri á fundi í Verkalýðsfélaginu Skildi þann 27. desember 1968.

 

Á mynd eru Önfirðingarnir tíu sem voru heiðraðir að Efstalandi í Ölfusi fyrir framlög sín til mannlífs og menningar á Bítlatímanum í Önundarfirði og víðar vestra.

Efri röð frá vinstri: Sara Vilbergsdóttir (látin), Ólafur Ragnarsson, Björn E. Hafberg (látinn), Guðbjarni Jóhannsson (látinn) og Ólafur R. Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Guðbergur Guðnason, Magnús Th. Benediktsson, Gunnar Ásg. Benediktsson, Guðbjartur Jónsson og Guðmundur Björn Haraldsson (látinn).

 

Ljósm.: Spessi.

 

 

.


Hljómsveitin ÆFING að Efstalandi í Ölfusi þann 6. október 1990.

 


Skráð af Menningar-Bakki.
 

26.12.2020 09:07

Merkir Íslendingar - Einar Oddur Kristjánsson

 


Einar Oddur Kristjánsson (1942 - 2007).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Einar Oddur Kristjánsson

 

 

 

Ein­ar Odd­ur Kristjáns­son fædd­ist á Flat­eyri 26. des­em­ber 1942. For­eldr­ar hans voru hjón­in Kristján Ebenezers­son skip­stjóri, f. 1897, d. 1947, og María Jó­hanns­dótt­ir, stöðvar­stjóri Pósts og síma á Flat­eyri, f. 1907, d. 2003.


 

Ein­ar Odd­ur stundaði nám í Héraðsskól­an­um á Núpi í Dýraf­irði og í Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri. Frá ár­inu 1968 starfaði Ein­ar Odd­ur við sjáv­ar­út­veg, fyrst sem einn af stofn­end­um og fram­kvæmda­stjóri hluta­fé­lags­ins Fiskiðjunn­ar Hjálms. Hann var síðar stjórn­ar­formaður hluta­fé­lag­anna Hjálms, Vest­firsks skel­fisks og Kambs.


 

Ein­ar Odd­ur sat í hrepps­nefnd Flat­eyr­ar­hrepps 1970-1982, var formaður Sjálf­stæðis­fé­lags Önund­ar­fjarðar 1968-1979, formaður full­trúaráðs Sjálf­stæðis­flokks­ins í Vest­ur-Ísa­fjarðar­sýslu 1979-1990 og formaður kjör­dæm­is­ráðs Sjálf­stæðis­flokks­ins á Vest­fjörðum 1990-1992.


 

Ein­ar Odd­ur sat í stjórn Vinnu­veit­enda­fé­lags Vest­fjarða frá ár­inu 1974. Hann var í aðal­stjórn Sölu­miðstöðvar hraðfrysti­hús­anna 1989-1994, stjórn­ar­formaður Vél­báta­út­gerðarfé­lags Ísfirðinga frá ár­inu 1984 og sat í stjórn Sam­taka fisk­vinnslu­stöðva 1981-1996. Hann var formaður efna­hags­nefnd­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar 1988. Formaður Vinnu­veit­enda­sam­bands Íslands var hann 1989-1992 og sat í stjórn at­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóðs 1995.


 

Ein­ar Odd­ur var alþing­ismaður fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn frá 1995 til dán­ar­dags. Á Alþingi átti hann sæti í mörg­um nefnd­um en lengst og mest starfaði hann í fjár­laga­nefnd, var vara­formaður henn­ar 1999-2007 og jafn­framt aðaltalsmaður síns flokks í rík­is­fjár­mál­um.


 

Þann 7. október 1971 kvænt­ist Ein­ar Odd­ur Sigrúnu Gerðu Gísla­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræðingi, f. 20. nóvember 1943 - d. 22. maí 2018.

 

Börn Ein­ars Odds og Sigrún­ar Gerðu eru:

Bryn­hild­ur, Kristján Torfi og Teit­ur Björn.


 


Einar Oddur Kristjánsson lést þann 14. júlí 2007.
 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

24.12.2020 07:18

Gleðileg jól

  

 

 

          Gleðileg jól

 

 
Skráð af Menningar-Bakki

21.12.2020 17:32

21. desember 1933 - Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri stofnað

 

 

     - 21. desember 1933 –

 

Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri stofnað

 

.

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Bakki.

21.12.2020 06:57

Vetrarsólstöður (sólhvörf) eru í dag 21. desember 2020

 

 

Bryggju-Svið Hrútavinafélagsins Örvars á Stokkseyrarbryggju við vetrarsólstöður.

 

 

Vetrarsólstöður (sólhvörf)

 

eru í dag 21. desember 2020

 

 

Vetrarsólstöður  (sólhvörf) eru í dag 21. desember. Þá er skemmstur sólargangur og sól fer að hækka á himninum.

 

Vetrarskammdegið er nú í hámarki en stysti dagur ársins er á tímabilinu 20.-23. desember.

 

Á þessari öld ber vetrarsólhvörf oftast upp á þann 21. 

 

Í dag er sólargangur stystur; sólris seint og sólarlag snemma. Um leið verður áberandi hve seint náttúrulegt hádegi er á ferðinni á Íslandi.


  Síðan fer sólin að hækka á lofti á ný. Það gerist afar hægt í byrjun. Á morgun nýtur sólar tveimur sekúndum lengur en í dag en sólarstundum fjölgar hraðar þegar á líður. 

Ljóð Einars Benediktssonar, Vetrarsólhvörf:

Stynur jörð við stormsins óð

og stráin kveða dauð,

hlíðin er hljóð,

heiðin er auð.

- Blómgröf, blundandi kraftur,

við bíðum, það vorar þó aftur.

Kemur skær í skýjunum sólin,

skín í draumum um jólin.

Leiðir fuglinn í för

og fleyið úr vör. 

 

Arni sofa hugir hjá, -

þeir hvíldu dag og ár.

Stofan er lág,

ljórinn er smár.

- Fortíð, fram líða stundir,

senn fríkkar, því þróttur býr undir.

Hækka ris og birtir í búðum,

brosir dagur í rúðum.

Lítur dafnandi dug

og djarfari hug.

 

Vakna lindir, viknar ís

og verður meira ljós.

Einhuga rís

rekkur og drós.

- Æska, ellinnar samtíð,

við eigum öll samleið - og framtíð.

Aftni svipur sólar er yfir,

sumrið í hjörtunum lifir.

Blikar blóms yfir gröf,

slær brú yfir höf.Skráð af Menningar-Bakki.

19.12.2020 09:17

Maður sem mótaði Ísland

 

 

 

 

Maður sem mótaði Ísland

 

  Guðjón Samúelsson húsameistari *****

 

 

Eft­ir Pét­ur H. Ármanns­son. Hið ís­lenska bók­mennta­fé­lag, 2020.

 

Inn­bund­in í stóru broti, 446 bls. með mikl­um fjölda teikn­inga og ljós­mynda,

 

skrám og út­drætti á ensku.

 

 

Eng­inn einn ein­stak­ling­ur hef­ur haft jafn mik­il og af­ger­andi áhrif á ásýnd Íslands og Guðjón Samú­els­son húsa­meist­ari (1887-1950). Um það þarf ekki að deila. Hann teiknaði hundruð bygg­inga sem risu út um landið og þar á meðal eru flest­ar þekkt­ustu op­in­beru bygg­ing­arn­ar: Hall­gríms­kirkja, aðal­bygg­ing Há­skóla Íslands, Þjóðleik­húsið, Ak­ur­eyr­ar­kirkja, Krists­kirkja í Landa­koti, Sund­höll Reykja­vík­ur, Arn­ar­hvoll, Hót­el Borg... svo er það fjöldi annarra kirkna, skóla­bygg­inga, sjúkra­hús, dóms­hús, sund­hall­ir. Það er stórfurðulegt að einn maður hafi getað, og fengið, að hanna þetta allt. En Guðjón gerði það, auk jafn­vel bæj­ar­skipu­lags­ins á stund­um, og mótaði því það um­hverfi sem við búum í í dag, með áhrifa­meiri hætti en nokk­ur ann­ar.

 

Og því er í raun furðulegt að ekki sé fyr­ir löngu kom­in út ævi­saga þessa merka manns, og saga verka hans í aðengi­legu formi – 70 ár eru liðin síðan hann lést. En loks­ins, bók­in er kom­in, og þar með er kom­in áhrifa­mik­il yf­ir­sýn yfir ævi­verk Guðjóns. Er þetta mikla og glæsi­lega verk eft­ir Pét­ur H. Ármanns­son, sem hef­ur verið óþreyt­andi við að fræða fólk um sögu arki­tekt­úrs hér á landi. Fyr­ir þrem­ur ára­tug­um byrjaði hann að viða að sér efn­inu og sá tími skil­ar sér í því inn­sæi í heim verka Guðjóns sem birt­ist í þess­ari góðu bók. En eins og kem­ur fram í inn­gangi Pét­urs hóf hann þó form­lega vinn­una við verkið fyr­ir fimm árum, er stjórn­end­ur Hins ís­lenska bók­mennta­fé­lags báðu hann að skrifa yf­ir­lits­rit um ævi og verk Guðjóns í mik­il­væga ritröð þess um ís­lenska arki­tekta og hönnuði.

 

Eins og Pét­ur rit­ar í for­mála á Guðjón „sér sér­stak­an sess í ís­lenskri þjóðar­sögu. Hann er sá arki­tekt sem flest­ir kann­ast við og nafn hans kem­ur sjálf­krafa í hug þegar minnst er á ís­lenska bygg­ing­ar­list“. Í sögu alþjóðlegr­ar bygg­ing­ar­list­ar er ein­stakt að ung­ur arki­tekt leggi á fyrstu starfs­ár­um sín­um „grunn að skipu­lags- og húsa­gerðarlist heill­ar þjóðar“, en Eyrbekkingurinn Guðjón var fyrst­ur Íslend­inga til að ljúka há­skóla­prófi í húsa­gerðarlist árið 1919. Strax árið eft­ir var hann skipaður í embætti húsa­meist­ara rík­is­ins og gegndi því í 30 ár, til dauðadags. Og var nán­ast ein­ráður hvað varðar mót­un op­in­berra bygg­inga.

 

Merki­lega lítið hef­ur verið vitað um ævi Guðjóns sjálfs og eft­ir lest­ur­inn er maður­inn sjálf­ur enn heill­andi ráðgáta. Það eru furðulega litl­ar per­sónu­leg­ar upp­lýs­ing­ar til, eng­in sendi­bréf, eng­ar dag­bæk­ur eða önn­ur per­sónu­leg skrif. Hann var aug­ljós­lega kvænt­ur list­sköp­un sinni – var reynd­ar í skamm­vinnu hjóna­bandi 1931-33 – en fyr­ir utan tím­ann er­lend­is við nám bjó hann alla tíð á æsku­heim­il­inu við Skóla­vörðustíg. Sem húsa­meist­ari ferðaðist hann oft til annarra landa en hér heima virðist hann hafa setið stíft við og teiknað; til 1930 var skrif­stof­an á heim­il­inu, eft­ir það í Arn­ar­hvoli. Sagt er að hann hafi teiknað fram á næt­ur og sótt sér hvíld í að setj­ast við org­elið og leika um stund.

 

Í bók­inni rek­ur Pét­ur afar vel með stuðningi fjöl­margra teikn­inga og ljós­mynda hvernig fer­ill Guðjóns þróaðist og set­ur í sam­hengi við hrær­ing­ar í þjóðlíf­inu. Set­ur hann verk­in líka með at­hygl­is­verðum hætti í sam­hengi við alþjóðlega strauma og ekki síður út­skýr­ir hann vel sér­stöðu verka og hug­mynda.

 

Sorg­leg er lýs­ing­in á því hvernig Guðjón berst hel­sjúk­ur af krabba­meini við að stýra lokafram­kvæmd­um við nýtt Þjóðleik­hús en náði ekki að vera við vígslu þess – hann lést fimm dög­um síðar. Á sjúkra­hús­inu „heyrði hann í út­varp­inu óm af söng og ræðuhöld­um úr leik­hús­inu. Hon­um var ljóst, að hann hafði unnið sig­ur“, skrifaði Jón­as frá Hriflu. Og bisk­up­inn seg­ir Guðjón hafa sagt, þegar leik­hús­bygg­ing­unni var hrósað: „Það er ekki hægt að ala upp góða menn nema í fal­legu um­hverfi.“ (362)

 

Ein­ar Falur Ing­ólfs­son


Morgunblaðið 19. desember 2020

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

18.12.2020 06:49

Merkir Íslendingar - Sigurður Bjarnason frá Vigur

 


Sigurður Bjarnason (1915 - 2012).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Bjarnason frá Vigur

 

 

Sigurður fæddist í Vigur í Ísafjarðardjúpi 18. desember 1915 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Bjarni Sigurðsson, hreppstjóri í Vigur, og k.h., Björg Björnsdóttir húsfreyja.
 

Bjarni var sonur Sigurðar, pr. og alþm. í Vigur, bróður Stefáns skólameistara og alþm., föður Valtýs, ritstjóra Morgunblaðsins. Móðir Bjarna var Þórunn, systir Brynjólfs, langafi Þorsteins Gunnarssonar, leikara og arkitekts.

 

Meðal systkina Bjargar voru Haraldur leikari; Sigurður, faðir Björns, læknis og forstöðumanns á Keldum; Björgvin, hrl. og framkvæmdastjóri VSÍ, og Jón, skólastjóri og heiðursborgari Sauðárkróks, afi Óskars Magnússonar, fyrrv. útgefanda Morgunblaðsins. Björg var dóttir Björns, dbrm. og ættföður Veðramótaættar Jónssonar, b. í Háagerði Jónssonar, á Finnastöðum Jónssonar, bróður Jónasar á Gili, föður Meingrundar Eyjólfs, langafa Jóns, föður Eyjólfs Konráðs, alþm. og ritstjóra Morgunblaðsins.
 

Sigurður kvæntist Ólöfu Pálsdóttur myndhöggvara, fædd 14. apríl 1920,  dáin 21. febrúar 2018. Þau eignuðust þau tvö börn, Hildi Helgu, sagnfræðing og blaðamann, og Ólaf Pál bókmenntafræðing.
 

Sigurður lauk stúdentsprófi frá MA 1936, lögfræðiprófi frá HÍ 1941 og framhaldsnámi í lögfræði í Cambridge á Englandi. Hann var stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins frá 1947 og ritstjóri blaðsins 1956-69, var alþm. Norður-Ísafjarðarsýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1942-59 og alþm. Vestfjarðakjördæmis 1963-70.
 

Sigurður var sendiherra Íslands í Danmörku, fyrsti sendiherra Íslands í Kína, sendiherra í Bretlandi og víðar. Hann vann ötullega að heimkomu handritanna til Íslands, var forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar, formaður Blaðamannafélags Íslands og Norræna blaðamannasambandsins, var formaður Útvarpsráðs, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og einn af forsetum ráðsins, sat í Þingvallanefnd og var formaður Norræna félagsins.

 


Sigurður lést 5. janúar 2012.

 Skráð af Menningar-Bakki

16.12.2020 07:01

Merkir Íslendingar - Ingibjörg Einarsdóttir

 


Ingibjörg Einarsdóttir (1804 - 1879)

 

 

Merkir Íslendingar – Ingibjörg Einarsdóttir

 

 

Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára gömul þann 16. desember 1879.

 

Ingibjörg Einarsdóttir var fædd 9. október 1804 og var frumburður foreldra sinna og átti eftir að eignast þrjá bræður. Foreldrar Ingibjargar voru Einar Jónsson, föðurbróðir Jóns Sigurðssonar, og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir.Þegar Ingibjörg var um ársgömul fluttist fjölskylda hennar að Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi og síðar keypti faðir hennar Þerney þar sem þau bjuggu uns þau fluttu alfarið til Reykjavíkur en þar var faðir hennar verslunarstjóri og síðar kaupmaður. Eftir að móðir hennar lést árið 1837 sá Ingibjörg um heimilið fyrir föður sinn allt þar til hann dó 1839.

 


Haustið 1845 voru  Ingibjörg  Einarsdóttir og Jón Sigurðsson gefin saman í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík og höfðu þau setið í festum í 12 ár; hún í Reykjavík og Jón í Kaupammahöfn. Á brúðkaupsárinu var hann 34 ára en hún 41 árs. Sama ár stofnuðu þau heimili í Kaupmannahöfn þar sem Jón hafði búið frá 1833. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn áður en þau fluttu í íbúðina við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852, en þar bjuggu þau til æviloka.

 

Íslendingar búsettir í Kaupmannahöfn söfnuðust reglulega saman á heimili Ingibjargar og Jóns til að ræða málin og njóta gestrisni þeirra.

 

Foreldrar Jóns voru Sigurður Jónsson fæddur 2. janúar 1777, látinn 31. október 1855, sóknarprestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð og kona hans Þórdís Jónsdóttir prestdóttir frá Holti í Önundarfirði fædd 1772, látin 28. ágúst 1862, húsmóðir.

 

Ingibjörg Einarsdóttir var jarðsett í Reykjavík þann 4. maí 1880 ásamt Jóni Sigurðssyni forseta, manni sinum, sem lést 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn.Jón og Ingibjörg voru hin lukkulegustu hjón og jafnræði með þeim í flestu eða þau bættu hvort annað upp. Ingibjörg hefur verið ákveðin og skapheit kona, bóngóð og gestrisin, með  hlýtt hjarta sem sló fyrir Jón og föðurlandið alla tíð. Eftir að Jón dó þann 7. desember 1879 reis Ingibjörg ekki úr rekkju og lést 9 dögum síðar. Hennar síðasta verk var að gera erfðaskrá þar sem hún gaf íslensku þjóðinni muni og eignir þeirra hjóna og óskaði jafnframt eftir því að hvíla við hlið Jóns í íslenskri mold, dygg og trú allt til dauðans.

 

Í bók Vestfirska forlagsins Frá Bjargtöngum að Djúpi 5. hefti, sem kom út árið 2012, er ítarleg frásögn eftir Einar Sigurbjörnsson af útför Jóns Sigurðsson og Ingibjargar Einarsdóttir frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 4. maí 1890.


 


Hjónin Jón Sigurðsson (1811 - 1879)

og Ingibjörg Einarsdóttir (1804 - 1879).


 


Skráð af Menningar-Bakki.
 

 

14.12.2020 06:45

Merkir Íslendingar - Ingibjörg H. Bjarnason

 


Ingibjörg H. Bjarnason (1867 - 1941).
 

 

Merkir Íslendingar – Ingibjörg H. Bjarnason

 

 

Ingibjörg H. Bjarnason, alþingiskona og forstöðumaður Kvennaskólans í Reykjavík, fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867. Hún var dóttir Hákonar Bjarnasonar, útgerðarmanns og kaupmanns á Bíldudal og Þingeyri, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur húsmóður. Hákon var sonur Bjarna Gíslasonar, pr. á Söndum í Dýrafirði, og k.h., Helgu Árnadóttur húsfreyju. Jóhanna Kristín var dóttir Þorleifs Jónssonar, prófasts í Hvammi í Hvammssveit, og k.h., Þorbjargar Hálfdánardóttur húsfreyju.

 

Foreldrar Ingibjargar eignuðust 12 börn en einungis fimm þeirra komust upp. Meðal bræðra Ingibjargar voru Lárus H. Bjarnason, sýslumaður, bæjarfógeti og hæstaréttardómari, og Ágúst H. Bjarnason, doktor í heimspeki, rektor Háskóla Íslands og fyrsti forseti Vísindafélags Íslendinga, faðir Jóns Ólafs Ágústssonar Bjarnasonar verkfræðings, föður Halldórs Jónssonar, verkfræðings og fyrrv. forstjóra Steypustöðvarinnar. Annar sonur Ágústs var Hákon Bjarnason skógræktarstjóri.

 

Ingibjörg þótti vel menntuð á þeirra tíma mælikvarða. Hún var í námi hjá Þóru, konu dr. Þorvaldar Thoroddsens náttúrufræðings og dóttur Péturs Péturssonar biskups.

 

Ingibjörg stundaði hún nám í Kaupmannahöfn 1884-1885 og aftur 1886-1893 auk þess sem hún dvaldi erlendis 1901-1903 og kynnti sér þá m.a. skólahald í Þýskalandi og Sviss.

 

Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi. Hún sat á þingi 1922-1930, fyrst fyrir Kvennalistann eldri, þá fyrir Íhaldsflokkinn og loks Sjálfstæðisflokkinn frá stofnun hans 1929.


Ingibjörg lagði mikla áherslu á byggingu Landspítalans og hennar fyrsta verk þegar hún settist á Alþingi var að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að bygging spítalans yrði sett í algjöran forgang. Á næsta þingi flutti hún aðra tillögu til þingsályktunar með nánari tillögum um tilhögun byggingar Landspítala. Árið 1925 var gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn þá fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Hún var formaður Landspítalasjóðsins frá upphafi til dauðadags. Þetta var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930.

 

Ingibjörg kenndi við Kvennaskólann i Reykjavík frá 1903 en þá var hann enn til húsa hjá Þóru Melsted í Thorvaldssenstræti, í húsi sem síðar var nefnt Sjálfstæðishús eða Sigtún og loks Nasa. Er skólinn flutti í nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og stýrði honum til æviloka. Ingibjörg lést þann 30. október 1941.
 


Hátíðleg athöfn þann 19. júní 2015 fyrir framan Alþingi Íslands,

þar sem afhjúpuð var stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason.
 Skráð af Menningar-Bakki.